Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Skúli Sigurður Ólafsson

Vegprestur predikar

2. september 2018

Skilti á Fimmvörðuhálsi

Fyrir hálfum öðrum áratug vorum við hjónin á ferð yfir Fimmvörðuháls. Svæðið er íðilfagurt og hrikalegt í senn og manneskjan verður harla smá í þeim samanburði. Vart var hægt að snúa sér við án þess að fyllast lotningu og myndavélin óspart notuð. Svo mörgum árum síðar var ég að fara í gegnum myndir sem teknar voru í ferðinni og sá að þar hafði, innan um öll náttúrufyrirbrigðin, vakið athygli mína skilti sem stendur uppi á hálsinum þar sem hann er hæstur.

Vegprestur predikar

Nú hefur skiltið reyndar orðið eldi og hrauni að bráð en þarna stóð það. Á því voru þrjár plötur, ein benti í suður mót Skógum, önnur til norðurs mót Básum og svo á milli þeirra var plata þar sem átti að standa:„Fimmvörðuháls“. Hún sneri hornrétt á hinar og ástæða þess að ég hafði tekið myndina var að það vakti athygli mína hversu illa farin þessi plata var ólíkt hinum. Greinilegt var að sunnanáttin á þessum slóðum var ríkjandi og jökulsandurinn hafði lamið svo á tréplötunni að stafirnir sáust varla. Hin skiltin sem vísuðu til annarra átta sneru á annan veg og veðrið hafði leikið þau miklu betur.

Já, þegar maður horfir stöðugt í kringum sig að einhverju til að predika um, þá fá svona fyrirbæri ekki að hverfa orðalaust inn í djúp gleymskunnar! Nei, hér þóttist ég greina boðskap sem ég deili með ykkur hér í dag. Eitt sinn kölluðu gárungarnir vegvísa eins og þennan, „vegpresta“ og með því var klerkum send sú sneið að þeir vísuðu á veginn án þess að fara hann sjálfir. Mér fannst þessi vegprestur miðla til mín heilli predikun þarna þar sem hann stóð úti í óbyggðum, og minnti svo rækilega á ákveðna þætti tilverunnar sem okkur kann að yfirsjást í erli daganna.

Hvernig sérðu?

Skilaboðin eru á þessa leið: Þú, kæri hlustandi, getur verið staddur eða stödd einhvers staðar á erfiðum stað í lífi þínu, þar sem vindurinn lemur á þér og sandfokið. Þetta eru tímar mótlætis og þrauta þar sem öll spjót virðast beinast að þér. Við þær aðstæður kunna velunnarar þínir og ráðgjafar að segja þér að skríða í skjól, hverfa af vettvangi, segja þér að hverfa inn í aðstæður sem eru auðveldari, viðráðanlegri.

Jú, vissulega getur sú verið raunin og hvíld getur verið kærkomin og nauðsynleg. En stundum þurfum við líka að huga að því hvernig við snúum. Hvernig horfirðu á samferðafólkið, hvað blasir við þér þegar þú lítur á spegilmynd þína? Snýrðu beint í öskrandi rokið þegar það mætir þér eða leita augu þín eitthvert annað? Og auðvitað hitt – hvernig sérðu? Hvað blasir við þér þegar þú horfir á heiminn og umhverfi þitt. Sherlock Holmes sagði eitt sinn:„Þú sérð en tekur ekki eftir.“ Það á ekki aðeins við um okkar eigin líf og gæði heldur ekki síður hitt hvernig við horfum á samferðafólk okkar og hvernig við tökum við þeim gæðum sem okkur eru færð.

Hann sá þá

Guðspjall dagsins fjallar á vissan hátt um það sama og skiltið á hálsinum. Þetta er ein af þessum örsögum, vinjettum, sem lýsa því hvernig Jesús horfði á það fólk sem á vegi hans varð. Já, hann sá og tók eftir. Fólk fylltist andstyggð þegar mætti hinum líkþráu, með afmyndaðan líkama og ásjónu. Það leit undan og vildi sem minnst af þeim vita. Og til að gera málin ögn flóknari þá bætast þar við samskipti þjóða og trúarhópa á þessu svæði. Þessi hópur samsettur af Gyðingum og Samverjum sem hefðu að öðrum kosti ekki verið í slagtogi hver með öðrum. Sjúkdómurinn hafði svipt þá öllu aðgengi að mannlegu samfélagi, það var hlutskipti þessara manna og það hefur vafalítið ráðið því að þeir hafa litlu skeytt um uppruna hvers annars og kynþátt. Þetta var ekki eingöngu grundvallað á fordómum og meðfæddum ótta fólks. Ákvæði í lögmáli Móse kváðu á um að líkþráir væru óhreinir og fólk mætti ekki umgangast þá.

Út á þetta gengur ákall þeirra. Þeir vilja að Jesús líti á þá: „Miskunna þú oss“ – hrópuðu þeir, og við endurómum það ákall í helgihaldi kirkjunnar. Já, hvernig horfirðu? Hvað sérðu þegar neyðin blasir við þér, þegar þú mætir fólki sem enginn vill kannast við. Jesús sýnir í þessari sögu hvernig Guð horfir á breyska menn. Þau augu ná í gegnum allt yfirborð og spyrja ekki að stétt né stöðu. Þar birtist okkur óbilandi trú, já þar sem Guð trúir á manninn og gefur honum færi á að hefja sig upp úr erfiðeikum og ná að endurheimta það sem var brotið og sundrað. Jesús „sá þá“ segir í textanu – það er upphafið að bata þeirra og blessun.

Og svo, til að færa ástand mannanna í stærra samhengi þá birtist okkur þessi sundrung á milli kynþáttanna: Í þessu tilviki Samverjar og Gyðingar en við þurfum ekki mikla innsýn í sögu mannsins og atburði líðandi stundar til að sjá hversu skaðlegir og tilgangslausir þeir flokkadrættir eru. Holdsveikin hafði máð út þessi skil sem annars ríktu á milli fólksins. Neyðin vék til hliðar þeim múrum sem hinir heilbrigðu höfðu reist sín á milli. Uns þeir höfðu fengið heilsuna að nýju.

Erindi við samtímann

Þessi saga á sannarlega erindi til samtíma okkar, sem einkennist æ meir af sundrungu og flokkadráttum. Sú misklíð þjóðflokka sem er í bakgrunni guðspjallsins er lýsandi fyrir þessa tíma sem við lifum. Við sjáum hvernig múrar rísa milli þjóða. Í austri og vestri, norðri og suðri virðist óttinn móta samskipti fólks sín á milli. Í Evrópu fá öfgasamtök æ meira fylgi og sú þróun birtist okkur um gjörvallan heiminn. Hvernig horfir fólk á lífið? Öðru megin sjáum við hvernig bókstafshyggju vex ásmegin. Fólk eignar almættinu alls kyns hugmyndir, fordóma gegn ákveðnum hópum. Hinum megin er það sú uppgjöf að allt sé rétt og satt. Gengdarlaus áróður dynur úr þeirri áttinni gegn okkar eigin rótum og sögu.

Já, hvernig horfirðu? Hér á Torginu ætlum við að ræða sýninguna Maps of Things þar sem ljósmyndarinn Daniel Reuter hefur fest á filmu mannvirki og náttúru með þeim hætti sem listamaðurinn túlkar það sem fyrir augun ber. Páll Líndal umhverfissálfræðingur leggur út af verkunum og skoðar vafalítið það sístæða viðfangsefni sem staða mannsins er í umhverfi sínu. Þar skiptir máli hvernig við snúum, hvað það er sem við brennum fyrir, hvort verk okkar eru unnin í þágu æðri verðmæta, tilgangs og merkingar.

Hvernig lítur þú á lífið, á allt það sem þú ert og stendur fyrir? Finnurðu stöðugan ágang þeirra afla sem þreyta þig og má í burtu mennsku þína og umhyggju? Stendurðu með andlitið óvarið í storminum? Er samferðafólkið keppinautar þínir? Fyllistu ótta gagnvart þeim sem hugsa á annan hátt, hafa annað útlit, eiga sér annað móðurmál? Eða nýturðu skjóls í krafti þeirrar sýnar á lífið að í náunga þínum býr æðri tilgangur þinn að miðla blessun og farsæld til þeirra sem standa höllum fæti? Tekurðu gjöfum lífsins með þakklæti og vilt miðla því áfram sem þér hefur verið gefið?

Hér birtist okkur svo önnur víddin í hjálpræðissögu kristninnar, þar sem við okkur skín birta náðarinnar og við, í öllum veikleika okkar og breyskleika erum metin gild frammi fyrir Guði. En hvað tekur þá við? Tökum við á móti gæðum lífs og heims af tómu skeytingarleysi, látum við eins og allt það sé sjálfgefið og okkur í hendur falið án fyrirhafnar? Um það fjallar niðurlag sögunnar þar sem hinn réttláti Samverji var sá eini sem sneri við og færði þakkir. Já, hann, þessi fulltrúi aðkomumanna, minnihluta, flóttafólks, horfði á þá björgun sem hann fékk notið réttum augum. Hann gerði það sem er svo mikilvægt fyrir alla farsæld fólks og velferð – jú, að kunna að þakka fyrir blessunina sem við njótum í lífinu.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 855.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar