Fjölskyldan í húsinu

Það er auðvelt að búa til dúkkuhús úr morgunkornskassa

Gæðastundir

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólan með barnið. Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri símum, skjám og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Kisa, voffi og fjölskyldan í húsinu

Nú búum við til hús úr morgunkornsumbúðum.

Efni og áhöld:
Kassi utan af morgunkorni.
Skæri sem ráða við að klippa glugga og dyr.
Barnaskæri.
Litir eða ritföng fyrir barnið.
Límband ef barnið vill hengja myndir á veggi litla heimilisins.

Aðferð:
Klippið kassa utan af morgunkorni í sundur á einni hlið.
Klippið glugga á annan helminginn en dyr sem hægt er að opna og loka á hinn helminginn.
Meðan þú býrð til húsið, getur barnið teiknað litla kisu, hund og þau sem búa á heimilinu.

Sum börn vilja hafa svolítið fjör í þessu, þannig að fjölskyldan getur t.d. verið ofurhetjufjölskylda.
Ef barnið er ekki farið að klippa út, getur þú hjálpað því að klippa fígúrurnar út.

Ef það er prentari á heimilinu má finna alls konar fígúrur á netinu:

Googlið: Latibær litabók
Googlið: pony coloring page
Googlið: spiderman coloring pages 
o.s.frv.
Leyfið barninu að velja. Bjóðið því að lita fígúrurnar og aðstoðið það við að
klippa þær út ef þess þarf.

Húsgögnin geta verið einföld:
Rúmin eru bara blöð í þeirri stærð sem hentar. Sængur og koddar líka.
Hægt er að búa til diska og mat úr blöðum. Þetta þarf ekki að vera flott.
Markmiðið er að þetta þjóni hugmyndaflugi barnsins og að það geti leikið sér.
Vel má geyma húsið og fígúrurnar og leika aftur með það síðar.

Þroskaþættir:
Barnið tekur þátt í því að búa til leikföng sem það síðan getur notað í frjálsum leik.
Samveran getur verið fólgin í því að búa til dúkkuhúsið og allt sem barnið vill hafa í því.
Hér er tilvalið að æfa barnið í því að leika sér sjálft.
Það að teikna og klippa út þjálfar fínhreyfingar.

Málþroski:
Orðið það sem þið eruð að gera, þannig eflist orðaforðinn.
Dæmi:
Vinna má með orð á borð við undir, ofan á, við hliðina á og bakvið.
Nú setjum við Nenna níska undir sængina.
Nú setjum við diskinn ofan á borðið...

Til minnis:
Spörum skjátímann - aukum gæðastundir.
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4. bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.


https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/fjolskyldan-i-husinu/