Svanga kassadýrið þarf mat!

Svanga kassadýrið getur litið svona út.
Hvernig lítur ykkar kassadýr út?

Gæðastundir

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólan með barnið. Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri símum, skjám og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Svanga kassadýrið þarf mat!

Nú hjálpumst við að við að búa til kassadýr úr pappakassa
(sem oftast er auðvelt að nálgast úti í búð).

Efni og áhöld:
Pappakassi, hnífur (bara fyrir fullorðna).
Tvær klósettrúllur (sem augu),
Þekjulitir, pensill.
Vatn í glas til að skola.
Eldhúspappír til að þerra.
Blöð, litir og skæri.
(Ef það eru ekki til þekjulitir, getur barnið skreytt kassadýrið með þeim litum sem til eru á heimilinu).

Svona búið þið til kassadýrið:
Snúið kassanum á hvolf.
Skerið út op fyrir munn.
Festið tómar klósettrúllur undir samskeytin á kassanum þar sem pappafliparnir mætast þegar honum er lokað (sjá mynd).
Síðan málar barnið kassadýrið.

Svona búið þið til matinn sem kassadýrið á að borða:
Meðan kassadýrið þornar teiknar barnið matinn sem það á að borða.

Gefið barninu fyrirmæli:
Teiknaðu orm.
Teiknaðu brauð...kónguló...fugl...
Þegar barnið hefur teiknað nógu margar myndir eru þær klipptar út.
Hjálpið barninu  að klippa matinn/dýrin út ef það er of lítið til að klippa sjálft.
Hrósaðu barninu fyrir teikningarnar.

Leikurinn:
Kassadýrið er svo svangt! Það vill borða dýr – eða kökur, brauð, snúða. Nammi namm!
Barnið matar svanga kassadýrið með útklipptu dýrunum eða matnum sem það teiknaði.
Að lokum vill kassadýrið líka borða allan pappírinn sem verður afgangs þegar búið er að klippa allan matinn út.
Kassadýrið geymist vel og það er hægt að leika sér með það aftur og aftur.

Þroskaþættir:
Hér er tækifæri til að leiðbeina barninu á meðan það teiknar.
Er fuglinn með gogg?
Hvað er kóngulóin með marga fætur (8).
Er dýrið með augu?
Hægt er að tala um skott, tagl, stél eða hvað sem á við.
Hægt er að bæta við þekkingu: Hvað gerir fuglinn (flýgur) hvað gerir ormurinn (skríður)...

Svolítið um hrós:
Það skiptir máli hvernig hrósað er.
Betra er að hrósa fyrir það hvað barnið vandar sig eða hvað það er duglegt að teikna
heldur en segja: Mikið ertu flink/ur. Það er alltaf best að hrósa fyrir vinnuframlag, þrautseigju, þolinmæði
eða aðra þætti sem styrkja skapgerð barnsins. Hrós sem snýr beint að hæfileikum getur síðar ýtt undir
frammistöðukvíða.

Til minnis:

Spörum skjátímann og eflum gæðastundir.
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4.bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/svanga-kassadyrid-tharf-mat/