Prestur fatlaðra

Þjónusta prests fatlaðra nær yfir alla þá staði þar sem fatlað fólk lifir og starfar s.s. heimili, sambýli, vinnustaði, stofnanir og skóla.

Guðný Hallgrímsdóttir prestur fatlaðara

Þjónusta fyrir fatlaða

Hin síðari ár hefur verið lögð meiri áhersla á að þjóna fólki með þroskahömlun, þar sem þau hafa í sama mæli og aðrir ekki tök á að tileinka sér almenna þjónustu kirkjunnar. Starfið einkennist af samskiptum við fólk með þroskahömlun, aðstandendur og fagfólk. Staðsetning skrifstofunnar er í Grensáskirkju.

Helstu starfsþættir eru: sálgæsla, sorgarvinna, fermingarfræðsla, heimsóknir, embættisverk og helgistundir. Stór hluti starfsins er að kynna málefni fatlaðra sem víðast innan kirkjunnar og vera í góðum tengslum við hin ýmsu félagasamtök, stofnanir og fólk sem á einhvern hátt tengist málefnum fatlaðra.

Prestur fatlaðra er í flestum tilvikum kallaður til þjónustu þegar dauðsföll verða meðal fólks með þroskahömlun og/eða vandamanna þeirra og þegar starfsfólk sem þeim sinnir fellur frá. Fastir viðtalstímar eru á skrifstofu prestsins en einnig eru fastir viðtalsímar í hverri viku á ýmsum vinnustöðum þar sem fólk með þroskahömlun starfar. Prestur fatlaðra er með reglulegar heimsóknir á sambýli og sinnir útköllum eftir þörfum. Heimsóknir og viðtöl eru venjulega nokkur hundruð á ári. Boðið er upp á sérhæfða fermingarfræðslu í sérskólum borgarinnar sem og við ákveðnar sérdeildir um allt land. Oftast sinnir prestur þessari þjónustu og fermir börn með þroskahömlun.

Annan hvern fimmtudag yfir vetrartímann er boðið upp á samverur í Grensáskirkju fyrir fólk með þroskahömlun. Tilgangurinn er að opna betur kirkjuna fólki með þroskahömlun og koma til móts við trúarþörf þeirra.

Við mætumst á jafningjagrundvelli

Til þess að fatlað fólk finni sig velkomið í kirkjunni þarf að huga vel að góðu aðgengi. Ferlimálin þurfa að vera í lagi en ekki síður þarf að huga að félagslegu og andlegu aðgengi. Að við mætum fötluðu fólki með virðingu og kærleika að leiðarljósi, á jafnréttisgrundvelli. Að við bjóðum þau velkomin t.d. í messuhópinn, kvenfélagið eða kirkjukórinn. Innan kirkjunnar okkar eru mikil tækifæri til þess að skapa fötluðu fólki velmetin hlutverk

Með því að gefa fötluðu fólki aukin tækifæri innan kirkjunnar, auðgum við þar með kirkjustarfið fleiri litum og meiri vídd.