Saga Tónskóla Þjóðkirkjunnar

Söngskóli Þjóðkirkjunnar

Fyrsti söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Sigurður Birkis, sem starfaði frá 1941-1960, stofnaði til Söngskóla þjóðkirkjunnar.Árið 1960 hafði skólinn starfað í 19 ár. Þá höfðu samtals 223 nemendur fengið ókeypis námstíma allt frá hálfum mánuði upp í fjóra námsvetur. Tónskólinn starfaði þá frá 1. nóvember ár hvert til 1. maí. Kennarar þetta ár voru Sigurður Birkis söngmálastjóri, Jón Ísleifsson organleikari og Guðmundur Matthíasson tónlistarkennari (faðir Guðnýjar Guðmundsdóttur konsertmeistara) Námgreinar voru söngur (tónmyndun) orgelspil, kórstjórn, messusöngur (liturgik) Nemendur voru 12 talsins.

Auk þess stóð Kirkjukórasamband Íslands á þessum árum fyrir námskeiðum og kennslu. Eftirfarandi kemur fram í skýrslu söngmálastjóra 1961, en þá gegndi Jón Ísleifsson embættinu tímabundið eftir lát Sigurðar:

Kjartan Jóhannesson organleikari og kennari hjá Kirkjukórasambandi Íslands hélt organistanámskeið á Dalvík fyrir verðandi kirkjuorganista í Eyjafjarðarprófastdæmi. Námskeiðið stóð yfir í 5 vikur í október og nóvember s.l. Alls tóku þátt í námskeiði þessu 25 orgelnendur. Er þetta þriðja organistanámskeiðið sem haldið er á vegum Kirkjukórasmbands Íslands.

Auk Kjartans Jóhannessonar hafa þrír sendikennarar farið um landsbyggðina á vegum Kirkjukórasambandsins til þess að aðstoða organista og leiðbeina kirkjukórum við söngæfingar. Hafa 27 kirkjukórar notið þessarar aðstoðar í samfleytt 35 vikur.

Tónskóli Þjóðkirkjunnar

Róbert A. Ottósson tók við starfi söngmálastjóra 1961 og gegndi því þar til hann lést árið 1974. Hann breytti nafninu í Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Eftirfarandi má lesa í skýrslu söngmálastjóra frá 1964.

I Tónskóli Þjóðkirkjunnar veitir eins og áður hefur tíðkazt organistum og organistaefnum utan af landi, sem hafa meðmæli sóknarprests eða sóknarnefndar, ókeypis tónlistarkennslu, svo sem hverjum hentar, um lengri eða skemmri tíma, og býr þá undir að geta aðstoðað við helgiathafnir. Vottorð um tímasókn og hæfni lætur Tónskólinn nemendum þessum í té.

II Tónskóli Þjóðkirkjunnar útskrifar KANTORA, og er með því hafinn nýr þáttur í starfsemi hans.

Kantorar teljast nemendur, sem lokapróf hafa tekið frá Kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík eða lokið prófi í eftirtöldum greinum á vegum Tónskóla Þjóðkirkjunnar: Söngstjórn, tónfræði, tónlistarsögu, píanóleik, og þessum sérnámsgreinum:

a) organleik
b) leik á blásturs- eða strengjahljóðfæri
c) ltúrgískum söng
d) litúrgískum organleik
e) sálma- og messusöngfræðum

Próf þetta nefnist kantorapróf. Prófdómarar skulu vera: Skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík eða tónlistarmaður sem hann tilnefnir, organleikari , sem Organistafélag Íslands tilnefnir, og söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar.

Róbert A. Ottósson kenndi bæði við Tónlistarskólann í Reykjavík og við Guðfræðideildina, jafnframt því að vera söngmálastjóri og yfirmaður Tónskólans og tengdi þannig saman starf þessarra stofnana. Fyrstu kantorarnir sem útskrifuðust voru Jón Stefánsson og Njáll Sigurðsson.

Eftir lát Róberts tók Haukur Guðlaugsson við söngmálastjórn og gegndi því starfi þar til hann lét af störfum vegna aldurs sumarið 2001. Glúmur Gylfason gegndi einnig starfinu í eitt ár í afleysingum.

Haukur beitti sér fyrir að sett voru ný lög um söngmálastjóra og Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Þar voru sett skýrari ákvæði um verksvið söngmálastjóra og starfsemi Tónskólans lögfest. Þar segir meðal annars að hlutverk skólans sé að veita verðandi og starfandi kirkjuorganistum menntun í orgelleik, söngstjórn, raddþjálfun, litúrgíu tónfræði, hljómfræði tónheyrn og öðru er að kirkjutónlist lýtur.

Árið 1980-1981 stunduðu 45 nemendur nám við skólann. Kennarar voru: Antonio Corveiras, Fríða Lárusdóttir, Glúmur Gylfason, Guðný M. Magnúsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Gústaf Jóhannesson, Reynir Jónasson, Svala Einarsdóttir, Smári Ólason, Jón Stefánsson og Úlrik Ólason. Lögð höfðu verið drög að námskrá og ný lög höfðu verið samþykkt. Nýskipaða skólanefnd skipuðu: Árni Kristjánsson píanóleikari, Dr. Hallgrímur Helgason og Sr. Hjalti Guðmundsson. Árið eftir eru 36 nemendur við skólann og tveir nýjir kennarar bætast í hópinn, Pavel Smid og Hörður Áskelsson. Músíkfundir voru haldnir af og til og nemendatónleikar í Dómkirkjunni að vori til. Námsgreinum hafði fjölgað og voru nú: Orgel, píanó, söngur, kórstjórn, liturgia, hymnologia, tónfræði, hljómfræði, tónheryn, hljómborðsfræði, og orgelbyggingasaga.

Námskrá skólans var fastmótuð um 1990 og hafði Smári Ólason meðal annara unnið að því verki, og aðstoðað Hauk við skólahaldið að ýmsu leiti. Nokkur mótbyr var gagnvart skólanum frá aðilum innan kirkjunnar og heyrðist jafnvel þeim skoðunum fleygt að leggja mætti skólann niður, fela almennum tónlistarskólum starfsemina, eða taka upp námskeiðahald eins og tíðkaðist á dögum Sigurðar Birkis. Um þetta leiti beitti Haukur sér fyrir því að ráða mætti yfirkennara eða skólastjóra til að sjá um skólann, og hafði fengið jákvæð svör frá ráðherra en skömmu síðar, eða 1993 er lögum breytt og kirkjumálasjóður stofnaður, og heyrði þá embættið og skólinn undir þannn sjóð og kirkjuráð. Það var síðan ekki fyrr en við samþykkt nýrra starfsreglna um tónlist árið 2000 að skólinn var festur í sessi og ráðinn skólastjóri.