Aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar

Starfsreglur um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.

Teymi þjóðkirkjunnar:

Kirkjuráð skipar teymi þjóðkirkjunnar til fjögurra ára í senn. Í teymi eru;

Bragi Björnsson, lögmaður, Lögvörn ehf. s. 512-1212 -   bragi@logvorn.is

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, forstöðumaður Bjarkahlíðar, s. 553-3000

Karl Reynir Einarsson, geðlæknir, gsm. 7860926

Öll eru þau sérfróð um þau mál sem falla undir teymið og starfsreglur.

Teymi þjóðkirkjunnar, starfsmönnum hennar, fagaðilum og talsmönnum, ef við á, er skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem til umfjöllunar eru hjá teyminu samkvæmt starfsreglum þessum.

Við störf sín skal teymið hafa til hliðsjónar stefnu þjóðkirkjunnar, þar sem tekin er skýr afstaða gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi, svo og um meðferð kynferðisbrota innan kirkjunnar,

Hverjum þeim er starfar innan þjóðkirkjunnar og býr yfir vitneskju um ætlað kynferðisbrot gegn barni, er skilyrðislaust skylt að tilkynna slíkt samkvæmt gildandi lögum.

Þeir málaflokkar sem falla undir teymið eru: einelti, kynferðisleg áreiti, kynbundið áreiti, kynferðisbrot og ofbeldi í allri sinni víðustu mynd.

Ávallt stendur til boða að hafa samband við, Ragnhildi Ásgeirsdóttur,framkvæmdastjóra Biskupsstofu s. 528-4000 og á netfangið ragnhilduras@kirkjan.is til frekari aðstoðar og samtals.

Skilgreiningar á einelti;
 
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. 
Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. 
 
Almennt gildir að til að hegðun teljist einelti þarf að vera til staðar mynstur endurtekinnar, lítillækkandi eða neikvæðrar hegðunar og þróunar samskipta sem veldur vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. 
Um einelti getur verið að ræða hvort sem það er ásetningur geranda eður ei. Einelti getur falið í sér misbeitingu valds, óformlegs eða formlegs sem einstaklingur á erfitt með að verjast. Fólk er misjafnt og þess vegna verður ekki hjá því komist að einn getur upplifað það sem móðgun eða ótilhlýðilega háttsemi sem annar tekur ekki nærri sér. Þetta verður að hafa í huga þegar einelti eða áreitni er til umfjöllunar.
 
Ótilhlýðileg háttsemi sem beinist gegn persónu starfsmanns, brýtur gegn almennri siðferðiskennd og viðmiðum um hvernig koma skuli fram við einstakling. Slík framkoma getur haft í för með sér neikvæð áhrif á einstaklinginn og jafnvel hóp starfsfólks. 
Þegar um er að ræða einelti, ofbeldi eða áreittni, þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig og gæta þess að aðstæður séu kannaðar á nákvæman og hlutlausan hátt.
 
Hafa ber í huga að einelti felur oft í sér marga samverkandi þætti sem geta m.a. verið: • Særandi eða móðgandi athugasemdir gagnvart einstaklingi, fjandskapur, baktal og rógur eða útilokun frá félagslegum og faglegum samskiptum. 
• Að niðurlægja einstakling eða gera hann að athlægi. 
• Óþægileg eða illkvittin stríðni gagnvart einstaklingi. 
• Að starf, hæfni og verk einstaklingsins eru lítilsvirt. 
• Að draga úr ábyrgð og verkefnum einstaklings án málefnalegra skýringa. 
• Ábyrgðarsvið eru illa skilgreind og notuð sem verkfæri til að gera lítið úr starfsmanni. 
• Misnotkun valds svo sem að gera ýmist of miklar eða litlar kröfur til einstaklings eða fela honum ítrekað verkefni sem falla ekki undir starfsviðs hans. 
• Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis, uppruna, kynhneigðar, litarháttar, kynvitundar eða líkamlegs atgervis. 
• Hunsun, útilokun vinnufélaga, t.d. með því að láta eins og einstaklingurinn sé ekki á staðnum. 
 
Skilgreining á áreitni;
 
Einstaklingi er sýnd óvelkomin athygli og óskað eftir samskiptum sem viðkomandi kærir sig ekki um. Einstaklingi sýndur yfirgangur í samskiptum, vegið að honum með skömmum, fyrirlitningu og niðurlægjandi ummælum. 
Eitt tilvik getur talist áreitni.

Skilgreiningar á ofbeldi;

Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis. 

Virða skal í hvívetna núgildandi barnaverndarlög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Skilgreiningar á kynbundnu áreiti og kynbundnu ofbeldi;

Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Kynbundið ofbeldi er hvers kyns hegðun á grundvelli kyns eða kyngervis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þeirra sem fyrir henni verða, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Skilgreining á kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi;
 
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. 
Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli í þessu sambandi. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni. 
 
Kynferðisleg áreitni getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg og birtist m.a. í eftirfarandi hegðun: 
• Grófur og/eða klámfengur talsmáti. 
• Klámefni sem er sýnilegt eða sýnt með öðrum hætti svo sem í tölvu. 
• Óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni. 
• Snertingu sem er óvelkomin. 
• Óviðeigandi athugasemdum settum fram í máli, á vefnum og/eða í gegnum snjalltæki. 
• Tvíræð og niðurlægjandi tilboð. 
• Klám og klámvæðing. 
• Umræða um klám sem beinist að uppruna eða litarhætti einstaklings. 
 
Með hugtakinu kynferðisbrot er átt við háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, og í barnaverndarlögum nr. 80/2002, með síðari breytingum. Hverjum þeim er starfar innan þjóðkirkjunnar og býr yfir vitneskju um ætlað kynferðisbrot gegn barni, er skilyrðislaust skylt að tilkynna slíkt samkvæmt gildandi lögum. Málum innan kirkjunnar, er varða ætluð kynferðisleg brot gegn börnum, skal ávallt vísað til lögreglu og barnaverndaryfirvalda og svo að jafnaði vísað til teymis þjóðkirkjunnar. Því er óheimilt að fjalla um mál, innan safnaða eða sóknarnefnda kirkjunnar, er varða ætluð kynferðisbrot gegn börnum.