Bókasafn

Í Tónskólanum er hýst sérfræðibókasafn á sviði kirkjutónlistar  

Hlutverk safnsins er að styðja kennara og nemendur við nám og kennslu við skólann, auk þess að veita öðrum sem til skólans leita, s.s. organistum og kórstjórum um allt land upplýsingar um efni á sviði kirkjutónlistar.

Markmið safnsins er:

        - Að byggja upp og skipuleggja sérhæfðan safnkost fyrir starf skólans
        - Að starfrækja fjölbreytt sérfræðisafn á sviði kirkjutónlistar
        - Að veita notendum auðveldan aðgang að heimildum í hvaða formi sem er
        - Að veita sérhæfða upplýsingaþjónustu

Gegnum árin hefa hlaðist upp bunkar af nótnablöðum hjá Embætti söngmálastjóra og Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Um er að ræða handrit, útgefnar nótur, afritaðar nótur og svo mætti lengi telja. Mikið af þessu hefur verið skráð á einfaldan hátt til að hægt sé að leita eftir höfundi lags eða texta eða titli tónverks. Þið getið nú nálgast þennan lista hér í pdf-formi. Þetta er endalaus listi, enda vel á fimmtaþúsund færslur, en hægt er að leita í skjalinu. Ýtið á control -F (eða slaufa-F) á lyklaborðinu og þá á að koma upp leitargluggi.

Nótnalisti

Meginuppistaða efnis bókasafns Tónskólans eru gjafir frá einstaklingum. Þessi einka- og sérsöfn móta því að mörgu leyti efnissvið safnsins. Nýjasta safnið sem Tónskólinn hefur fengið til vörslu er safn Páls Ísólfssonar, tónskálds og organista.

Leiðbeiningar í Gegni

Samantekt um safnkostinn: Stefanía Júlíusdóttir
Sigurður Birkis var fæddur árið 1893. Hann fór til Danmerkur til mennta og stundaði þar nám í verslunarfræðum og einnig í söng við Tónlistarskóla Kaupmannahafnar í þrjú ár, einnig stundaði hann söngnám í eitt ár á Ítalíu. Sigurður var fyrsti söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, hann hóf störf árið 1941 og starfaði til dauðadags árið 1960.

Sigurður mótaði starf söngmálastjóra í upphafi og stofnaði sem fyrr sagði Söngskóla Þjóðkirkjunnar. Í starfi sínu ferðaðist Sigurður um allt land, stofnaði kirkjukóra landsins og skipulagði starfsemi þeirra. Dvaldi hann þá nokkurn tíma á hverjum stað uns kórinn var orðinn fastur í sessi. Innan prófastsdæma gekkst Sigurður fyrir stofnun kirkjukórasambanda. Jafnframt gekkst hann fyrir stofnun Kirkjukórasambandi Íslands árið 1951 og var Sigurður fyrsti formaður þess. Auk þess skipulagði hann söngmót og hélt námskeið fyrir organista og kirkjukóra.

Eftir dauða Sigurðar arfleiddi ekkja hans Guðbjörg Jónasdóttir Birkis Embætti söngmálastjóra að nótum hans. Um er að ræða allskonar söngnótur svo og óperur enda var Sigurður Birkis söngvari að mennt.

Dr. Róbert A. Ottósson var annar söngmálastjóri 1961-1974, hann var af þýsku bergi brotinn, fæddur í Berlín árið 1912. Þar og í París stundaði hann nám í ýmsum tónlistargreinum. Róbert kom hingað til lands um Danmörku árið 1935 og starfaði fyrst á Akureyri um fimm ára skeið og síðar í Reykjavík. Hann hlaut doktorsnafnbót frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 1959 og fjallar doktorsritgerð hans um Þorlákstíðir. Á árunum 1961-1966 kenndi hann messusöng og litúrgísk fræði við guðfræðideild Háskóla Íslands og varð dósent þar árið 1966. Í hans tíð sóttu guðfræðinemar jafnframt kennslu í Tónskólanum og nemar Tónskólans jafnframt kennslu í Háskólanum.

Í starfi sínu hélt Dr. Róbert áfram starfi forvera síns og stóð að fræðslu, leiðbeiningum og menntun fyrir kirkjukóra og organista, jafnframt því sem hann heimsótti kirkjukóra, æfði þá og leiðbeindi söngfólki. Dr. Róbert hélt kóramót víða um land ásamt Kirkjukórasambandi Íslands. Hann var mjög fær hljómsveitarstjóri og mikill fræðimaður og var gott til hans að leita, að sögn eftirmanns hans í Embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar Hauks Guðlaugssonar. Í safni hans er mikið af bókum um litúrgíu og önnur þau efni er að kirkjutónlist lúta.

Einnig stuðlaði Dr. Róbert að því að Skálholt varð allt frá víglsu nýju kirkjunnar 1963 vettvangur kirkjutónlistar og kennslu á vegum söngmálastjóra. Þannig var fyrsta námskeiðið fyrir organista haldið í Skálholti haustið 1963. Síðan hafa námskeið fyrir kirkjutónlistarfólk verið haldin í Skálholti árlega og verið vel sótt.

Störf Dr. Róberts á sviði kirkjutónlistar hafa haft mikil áhrif á kirkju- og safnaðarsöng hér á landi, en Dr. Róbert endurvakti m.a. hinn forna Gregorsöng ásamt Sigurði Pálssyni vígslubiskup á Selfossi.

Í safni Dr. Róberts, sem ekkja hans Guðríður Magnúsdóttir gaf Embætti söngmálastjóra, er geysi mikið af fræðibókum sem Róbert safnaði bæði á meðan hann var söngmálastjóri og fyrir þann tíma hafði hann einnig safnað talsverðu. Þar á meðal er hið mikla leksikon Die Musik in Geschichte um Gegenwart í 15 bindum.

Þriðji söngmálastjórinn, Haukur Guðlaugsson 1974-2001, er fæddur árið 1931. Hann stundaði tónlistarnám í píanóleik hér á landi, en hélt síðan áfram tónlistarnámi erlendis aðallega í orgelleik, bæði í Þýskalandi þar sem kennari hans var þýski organistinn Förstemann og á Ítalíu þar sem kennari hans var Fernando Germani.

Í hans tíð voru sett lög um Tónskóla Þjóðkirkjunnar og festist starfsemi skólans við það í sessi. Einnig komst skólinn í stærra og betra húsnæði við Sölvhólsgötu, en fyrstu 15 árin var hann til húsa í 1-2 herbergjum.

Í Embætti söngmálatsjóra lagði Haukur mikla áherslu á að efla tengsl, bæði milli embættisins og þeirra sem það þjónaði og eins milli organistanna sjálfra. Strax í upphafi embættisferils síns setti hann sig í samband við organista og presta m.a. með dreifibréfum og einnig gaf Embættið út mikið af efni. Námskeiðahald víða um landi og föst námskeið í Skálholti urðu til þess að organistar kynntust og tengsl milli þeirra efldust. Fyrir hvert námskeið í Skálholti var gefin út sérstök mappa með kennsluefni.

Jafnframt lagði Haukur áherslu á að tónlistarfólk íslensku Þjóðkirkjunnar ætti kost á sem fjölbreyttastri framhaldsmenntun erlendis. Hann kom þeim sem áhuga höfðu á framhaldsmenntun í læri í Hamborg, Berlín og Róm. Einnig skipulagði hann tvisvar sinnum náms- og menningarferðir fyrir organista til Evrópu. Í fyrri ferðinni var farið til Þýskalands og Austurríkis og í þeirri seinni til Parísar og Rómar.

Í tíð Hauks jókst námskeiðahald víða um land svo og útgáfa Embættis söngmálastjóra á námsefni og tónlistarefni fyrir organista og kirkjukóra. Eru frá þeirri tíð um 100 bækur og hefti er Embættið gaf út þar af 25 möppur með nótum og skrifuðu efni eftir ýmsa höfunda frá jafnmörgum námskeiðum í Skálholti.

Haukur pantaði inn í safnið talsvert af nótum, einkum orgelverk í ýmsum útgáfum sem koma að gagni í kennslu við Tónskólann og ýmsar fræðibækur einkum um orgelspil og orgeltækni. Einnig keypti hann inn plötur, videóspólur og segulbönd sem afrituð hafa verið yfir á kasettur með leik Förstemanns fyrrverandi kennara síns í Þýskalandi.

Eftir að hafa stundað nám hjá ítalska organistanum Fernando Germani langaði Hauk til þess að kennsluaðferðir Germani’s varðveittust. Hann gekkst fyrir því að nótnabókasafn Fernando Germani var keypt hingað til lands. Til þess að fjármagna kaupin þurfti að standa fyrir viðamikilli fjársöfnun þar sem safn Germanis kostaði mikla peninga. Í tengslum við það var Germani félagið á Íslandi stofnað.

Skálholtsnámskeiðin í tíð Hauks voru föst námskeið með fyrirfram ákveðnu efni og dagskrá. Auk námsins stuðluðu þau að því að organistar kynntust sem er mikils virði.

Fernando Germani (1906-1998) var ítalskur organisti. Sérstök tækni hans við orgelleik og gífurlegt tónlistarminni ávann honum frægðar víða um lönd. Hann ferðaðist um og hélt tónleika, auk þess sem hann var prófessor við Accademia Musicale Chigiana 1932, við Rome Conservatory 1934 og var settur yfir orgeldeild Curtis Institute í Philadelpia í Bandaríkjunum í tvö ár frá 1936 að telja. Hann var fyrsti organisti í S Pietro í Róm í 11 ár frá 1948 (Heimild Felix Aprahamian og Paul Hale í rafrænni útgáfu Grove Music).

Safn Germanis er mjög yfirgripsmikið og hefur að geyma alls konar orgelverk. Höfuðverðmæti þess liggur í þeirri miklu vinnu er maestro Germani vann, en það voru nákvæmar fótsetningar við öll þau orgelverk er hann spilaði um dagana og einnig er þar talsvert af fingrasetningum. Germani var víðfrægur fyrir pedaltækni sína og er í safninu mikið af upplýsingum sem hægt er að byggja tæknina á. Í safninu eru meðal annars öll orgelverk Bachs og sömuleiðis öll orgelverk Max Reger ásamt aragrúa af öðrum verkum. Einnig er þar að finna fræðibækur og tímaritið The Organ : a quarterly review for its makers, its players and its lovers um orgel heimsins í 15 innbundnum árgöngum.

Skrá yfir orgelnótur - Germani-safnið_orgelleikur

Skrá yfir píanónótur - Germani-safnið píanóleikur

Orgelnótnasafn Páls Ísólfssonar barst til skólans frá Tónlistarskólanum í Reykjavík á haustdögum 2010. Safnið er mjög fjölbreytt og mikið af vöxtum.
Páll Ísólfsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar tónlistarsögu. Hann starfaði m.a. sem organisti við Dómkirkjuna í Reykjavík, var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík auk þess að vera afkastamikið tónskáld.
Kjartan Jóhannesson var fæddur 1885. Hann var organisti, til að byrja með í Fríkirkjunni í Reykjavík en vék þegar nýja orgelið kom í Fríkirkjuna og Páll Ísólfsson tók við. Hann ferðaðist vítt og breitt um landið og náði því að kenna harmoníumleik í hverjum einasta hreppi á Íslandi. Hans mikla áhugamál, sem byrjaði þannig að hann afritaði nótur, sem hann hafði ekki efni á að kaupa, var að afrita öll þau verk er hann komst yfir. Þessar nótnabækur sem eru til innbundnar hjá söngmálastjóra og voru gefnar til safnsins af Finnboga Jóhannssyni á Stóra Núpi eru alls um 15 og telur Haukur Guðlaugsson að með 8 tíma vinnu á dag hefði verið um 10 ára verk að skrifa þetta upp. Einnig er nokkuð af verkum á lausum blöðum. Víða eru til nótur skrifaðar af þessum ágæta manni og hæfileikaríka organista, því hann gaf vinum sínum og organistum mikið af fallega handskrifuðum nótum. Nokkuð var valið af þessum nótum og notað á námskeiðum sem söngmálastjóri hélt í Skálholti.
Börn Sigurðar Ísólfssonar og ekkja hans Rósa, gáfu Félagi íslenskra organleikara safn hans og fylgir gjöfinni sú kvöð að það verði varðveitt innan Tónskóla þjóðkirkjunnar. Um er að ræða mikið safn af völdum orgelverkum sem mikill fengur er að hafa í safninu. Sigurður Ísólfsson var einn af stofnfélögum Félags íslenskra organista og organisti í Fríkirkjunni. Hann tók við því starfi af Páli bróður sínun árið 1939 og spilaði síðan fram eftir ævinni. Hann hélt sig mikið að hinum rómantísku meisturum og ber safnið þess vott.

Safn Sigurðar Ísólfssonar hefur nú verið skráð og afhent tónlistarsafni Tónskólans í merktum öskjum. Skráningin var unnin sem lokaverkefni í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Verkefnið unnu þær Margrét R. Gísladóttir og Sara Halldórsdóttir. Leiðbeinandi var Jóhanna Gunnlaugsdóttir lektor. Safninu var skipt í innlendan hluta og erlendan hluta, allar bækur voru skráðar en einnig voru öll einstök lög og textar skráð í innlenda hluta safnsins.
Sigríður Ólafsdóttir Vík í Myrdal átti einnig nokkuð safn. Faðir hennar Ólafur sem lifði hana gaf safn hennar til skólans. Sigríður var organisti í Vík í Mýrdal og var einstaklega áhugasöm um tónlist og kirkjusöng, Í hennar tíð var frábær kirkjukór í Víkurkirkju.
Einnig er í tónlistarsafni Tónskólans nótnasafn Sigríðar Jónsdóttur. Sigríður lést um aldur fram en hafði verið organisti á Suðureyri við Súgandafjörgð og síðar í Grafarvogskirkju. Hún var menntuð sem píanóleikari og tók síðan upp nám í orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Eftirlifandi eiginmaður hennar, Pétur Siguðrsson, gaf nóturnar til Tónskólans.
Jón G. Þórarinsson gaf nótnasafn sitt til Tónskólans en hann var um árabil organisti við Bústaðakirkju í Reykjavík og síðar í Grensáskirkju. Í safni hans eru aðallega orgelnótur.
Á árinu 2003 afhenti Hörður Áskelsson Tónskóla Þjóðkirkjunnar nótnasafn Guðmundar G. Gilssonar en það hafði áður verið gefið til Hallgrímskirkju. Í safni Guðmundar eru bæði nótur og plötur. Guðmundur G. Gilsson var lengi organisti á Selfossi og skólastjóri Tónlistarskóla Árnessýslu en var síðar organisti við Kópavogskirkju og Garðakirkju hina eldri.
Sonur Elíasar Bjarnasonar, Gissur Elíasson gaf Tónskólanum safn föður síns. Í safninu eru orgelnótur hans, þær eru aðallega fyrir harmóníum. Einnig eru í safninu fræðibækur. Elías Bjarnason (1879-1970) var organisti við Prestsbakkakirkju á Síðu í hátt á annan áratug, einnig kenndi hann á orgel í frístundum til ársins 1939. Frá árinu 1933 flutti hann inn orgel fyrir kirkjur landsins, skóla og hæli fram til ársins 1964. Jafnframt gerði hann við kirkjuorgel fram til ársins 1965 (Heimildir Samtíningur og “Kompa” Elíasar Bjarnasonar).