Hið blíða varir lengi

Hið blíða varir lengi

,,Það bága varir oft stutta stund en hið blíða lengi."
Flokkar

Ég þreytist ekki á að vitna í þessi orð úr páskapredikun Antoniusar Corvinus sem endurspegla mátt upprisunnar og þeirra uppreisnar sem fylgir páskunum


Fyrstu kennimennirnir


Þau standa í postillu sem Oddur Gottskálksson þýddi og var gefin út á því herrans ári 1546:


 „Með þvílíkum hætti kennir engillinn þessum konum að predika og leggur þeim fyrir hvað þær skulu kunngjöra postulunum. En þú skalt og merkja, að konunum verður hér kennimannlegt embætti upp á lagt. En hver vígði þær til kennimanna? Guð sjálfur fyrir sinn son, vorn biskup Jesúm Christum.”


Hér er með öðrum orðum bent á að fyrstu kristnu kennimennirnir hafi verið konurnar sem gengu að gröfinni i páskaguðspjallinu. Hann veltir í framhaldinu upp þeim möguleika að konur geti orðið prestar og ræðir í því sambandi um orð Páls að konur eigi að þegja í samkundunum. Hann telur þau orð mega sín lítils andspænis páskaboðskapnum. 

Fer vel á því að leggja út af þessu á þeim tímamótum að 50 ár eru liðin frá vígslu sr. Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur.



Ljósaskipti


Páskafrásögnin rís upp úr tóminu. Aðdragandi hennar eru svik og ótti, réttarmorð, sársauki og niðurlægjandi dauði á krossinum.


Uggur og vonleysi heltók huga fólksins að morgni páskadags þegar konurnar gengu upp að gröfinni. Myndin í huga þeirra var ekki birta himnanna heldur grár steinninn sem lokaði grafarmunnanum. ,,Hver mun velta honum frá fyrir okkur?” spyrja þær í öðru guðspjalli - rétt eins og við gerum öll þegar við stöndum frammi fyrir mótlæti lífsins og mætum ofjörlum hvar sem þá er að finna. Hér erum við stödd í ljósaskiptunum, enn er myrkur þegar þær ganga þessa leið og þá hefur steininum verið velt frá, steininum sem á sinn hátt er ein þungamiðja frásagnarinnar.

 

Hann stendur jú fyrir það í lífi okkar sem er þungt og erfitt, óyfirstíganlegt. Já, ekki er allt gott í heiminum, því fer fjarri. Saga páskanna hefst í myrki og neyðarópin af krossinum óma enn í huga þeirra sem þarna ganga.

 

Nú er sannarlega ekki myrkur. Páskasólin skín inn um stóra Suðurgluggann og ég hugsa gjarnan til höfundar kirkjunnar og þeirra sem völdu þessa teikningu framar öðrum þegar birtan leikur hér um altarið. Ég les þau skilaboð út úr þessum geislum að nálægð Guðs fylgir okkur héðan úr helgidómnum. Kirkjur eru víða sniðnar að því að skapa sem sterkasta andstæðu milli hins innra og hins ytra. Þegar dyrum helgidómsins er lokað, er fólk komið inn í annan heim sem er rækilega afmarkaður frá umhverfi sínu. Skilaboðin sem mæta okkur hér í Neskirkju eru þveröfug og þau kallast á við boðskap páskanna um sigur lífsins. Þann sigur getum við skynjað hvar sem við erum stödd og kunnum að fanga fegurð heimsins, gleðina og allar þær gjafir sem okkur eru færðar.

 

Sigurhátíðin á í þeim skilningi ekki síður erindi við okkur þar sem við stöndum við hjalandi læk, göngum um úfið hraun eða horfum út um kýrauga flugvélar yfir skóglendi, fjöll og akra.


Hið blíða varir lengi

 

Hér frammi í safnaðarheimili stendur þessi áletrun á listaverki Jónu Hlífar Halldórsdóttur:

 

,,Það bága varir oft stutta stund

en hið blíða lengi."

 

Þau orð eru sótt í veðurfarslýsingar úr Brandstaðaannál en þau gætu staðið sem yfirlýsing páskanna. Þau draga fram inntak þessarar siguhátíðar, sem rís upp úr myrkrinu og sendir okkur ótvíræð skilaboð sem geta mótað reynslu okkar og upplifun að ýmsum viðburðum daglegs lífs.

 

Upprisa er fólki hugstæð hvar sem kristin trú er við lýði. Að baki henni býr sú vitund að heimurinn sé ekki allur þar sem hann er séður, að enn búi leyndardómar baki þess sem við þekkjum. Ekki aðeins huliðsheimar vídda og efnis og orku sem mannhugurinn hefur ekki enn kannað til fullnustu heldur líka sá kraftur sem tengir manninn við Guð. Upprisutrúin segir okkur að lífið hafi tilgang. Já, það er þessi trú sem flytur fjöll og um það á sagan mörg dæmi.

 

Hvað gerðist í gröfinni þar sem frelsarinn lá vitum við ekki. Við vitum á hinn bóginn að tíðindin um upprisu hans ollu byltingu. Fylginautar hans höfðu horft vonlaus framan í myrkrið. Allt sem þeir höfðu skynjað og upplifað á för sinni með Jesú hlyti að hafa verið til einskis.

 

Upprisan leiddi til sögulegrar uppreisnar þar sem mælikvörðum var kollvarpað. Nú er hagur hins sterka ekki lengur mælikvarðinn á gott líf og gagnlegt. Nei, skyldur okkar og um leið tilgangur felast í umhyggjunni gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Í Biblíunni er í því sambandi víða talað um ekkjur, munaðarleysingja og útlendinga. Og það á ekki síður við um skyldur okkar gagnvart ókomnum kynslóðum, sem birtist í umhyggju fyrir náttúru og lífríki.


Ætli þungi hefðarinnar hafi ekki kramið þessar róttæku hugmyndir sem hér voru ræddar í upphafi. Og gaman hefði verið að sjá svipinn á klerkum og messugestum þegar átti að lesa þennan texta - bókin var jú kirkjupostilla.


Sagan hefst í myrkri, hugur ferðalanga er ekki birta og von heldur grár og þungur steinninn sem getur hindrað för þeirra. Svo breytist allt, birtan og vonin yfirtaka stundina og upprisan mætir okkur í allri sinni dýrð. Þau eru ekki lengur fólk óttans heldur fólk upprisunnar.


Það getum við líka verið.

 

Þegar við gefum því gaum hvernig við getum lagt okkar minnstu systkinum lið þá erum við fólk upprisunnar. Og, já þegar við fyllumst lotningu þegar páskasólin skín við okkur þá erum við fólk upprisunnar. Það getur verið í skíðabrekkum, í fallegri íslenskri sveit þar sem náttúran vaknar af vetrarblundi, í hópi ástvina á hlýrri slóðum. Og vitanlega í helgidóminum þar sem við lesum og hugleiðum söguna sem öllu breytti.