Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Skúli Sigurður Ólafsson

Glímutök

25. febrúar 2018

Því er stundum haldið fram að kristindómurinn dragi upp glansmynd af tilverunni. Þekkt er yfirlýsing Karls Marx um að trúin sé ópíum fólksins og þar sem þau orð voru flutt í kristnu samfélagi má ætla að merkingin sé sú að boðskapur Biblíunnar slævi fólk og letja það frá því að leita réttar síns.

Áróður eða raunsæi?

Ef við hugsum út í það, þá er enginn hörgull á efni sem vel gæti fallið undir þennan dóm. Miðlarnir birta okkur mynd af heimi og fólki sem á lítið sameiginlegt veruleikanum. Sjaldnast er þar rætt um þau mál þarfnast úrbótar í henni veröld. Kynslóðir vaxa úr grasi með stöðugan nið afþreyingar fyrir eyrum og augum og að sækir sá grunur að lýsing Marx á trúarbrögðunum megi heimfæra upp á fjölmörg svið tilverunnar á okkar dögum.

Að baki búi öfl sem vilja augljóslega allt annað en að fólk líti heiminn raunsæjum augum. Svissneski sálfræðingurinn Carl Jung, benti á, að þar sem litirnir ljóma skærast er hætt við því að skuggarnir séu þeim mun myrkari. Já sannleikurinn er best falinn á bak við bjarta og blikandi tóna.

Ef sú er raunin, ef sögur ritningarinnar eru skrifaðar með þennan tilgang í huga að draga upp fegraða mynd af tilverunni, þá held ég að höfundum þeirra hafi nú heldur betur verið mislagðar hendur. Þegar við lesum um persónur á borð við hann Jakob sem fjallað er um í lexíu dagsins, nú eða sjálfan Jesú í guðspjallinu þá finnst okkur einhvern veginn eins og myndin af þeim sé harla frábrugðin þeirri sem áróðursmenn eða málpípur draga upp.

Jú, við fáum þessar örsögur í textum helgihaldsins, vinjettur sem geyma sjaldnast nema lítið brot af heildar sögunni. Jakob þessi sem lenti í hremmingum um nóttina hefur til að mynda verið vel kynntur til leiks þegar þarna var komið sögu.

Bræður munu berjast

Jakob og Esaú voru tvíburabræður, synir Ísaks og Rebekku og þar með barnabörn Abrahams og Söru. Hér lásum við um glímu Jakobs við dularfulla veru sem mætti honum í nóttinni en því fer fjarri að hann hafi verið einhver nýgræðingur á þessu sviði. Á meðgöngunni hafði móðir þeirra, sem reyndar var háöldruð af vanfærri konu að vera, fundið fyrir miklum óþægindum. Hún leitaði til Guðs og fékk þá skýringu að þeir bræður stæðu í hörkuslagsmálum þarna inni í leginu! Það benti nú ekki til þess að friður ætti eftir að ríkja meðal þeirra í framtíðinni. Sá spádómur fylgdi með að sá kæmi í heiminn á eftir hinum, myndi um síðir undiroka frumburðinn - en slíkt var andstætt öllum reglum í hinu forna samfélagi.

Esaú birtist á undan Jakobi, með mikið rautt hár en Jakob fylgdi fast á hæla honum - í orðsins fyllstu merkingu því hann mun hafa haldið utan um hæl bróður síns. Nafnið „Jakob“ merkir einmitt, sá sem heldur um hælinn. Esaú var karlmennskan uppmáluð, kafloðinn á skrokknum, stundaði veiðar á meðan yngri bróðirinn allur fínlegri og sinnti garðyrkju.

Saga þeirra tveggja er klassískur bræðraharmleikur eins og við sjáum gjarnan í fornum sögnum og nýjum. Bræður munu berjast og þarf ekki að undra því hið forna tókust bræður á um föðurarfinn. Á tímum þar sem hagsveiflur voru með öðrum hætti en við þekkjum úr samtímanum, var jarðeignin höfuðstóll ættarinnar. Það var til lítils að skipta henni í tvo eða fleiri helminga þegar kom að því að úthluta henni til erfingja og svo enn frekar við hver kynslóðaskipti. Þá yrði lítið eftir af ættarveldinu. Þess vegna fékk frumburðurinn jafnan arfsréttinn og ef þeir yngri undu því illa, var viðbúið að átök yrðu.

Sú var og raunin með þessa tvö. Síðar meir átti Jakob eftir að véla frumburðarréttinn af bróður sínum er hann bauð honum sársoltnum linsubaunasúpu, í skiptum fyrir allan arfinn. Ísak, faðir þeirra var orðinn hrumur og blindur og til að fá staðfestingu á því að Jakob væri nú orðinn réttur erfingi setti hann geitarskinn á handlegg sinn og þegar Ísak strauk höndinni eftir skinninu talda hann að Esaú væri þar mættur. Hann veitti honum því blessun sína og Jakob hafði með prettum náð frumburðarréttinum.

Hold og blóð

Þetta er minnir á lýsingar á einhverju illmenni úr þessum þáttum sem við sjáum á skjánum. En mannsmynd Biblíunnar er fjarri því einhliða. Hún segir frá einstaklingum af holdi og blóði og sálarlífið er margslungið - já næstum eins og við værum að lýsa bræðrum sem búa yfir ólíkum eiginleikum eins og þeir sem hér eru til umfjöllunar. Hluti okkar leitast við að byggja upp og svo er það annað sem rífur niður. Þessi mannsmynd tengist syndafallinu og þeirri sjálfsvitund sem af því hlýst. Við vitum af takmörkum okkar og þjáningu og allt tengist það hugmyndum okkar um tilvistina, takmörk hennar og eðli.

Og það er einmitt efni dagsins. Glíma, átök og það sem við köllum á slæmri íslensku - ströggl. Hér er ekki gefið til kynna að lífið sé á einhvern hátt einfalt og leit okkar að æðri sannleika sé fyrirhafnarlaust. Þetta er vendipunkturinn í sögu Jakobs - sem átti svo eftir að verða einn af ættfeðrum Ísraelsþjóðar. Þessi breyski maður tekst á við dularfulla veru í nóttinni. Glíma hans minnir á frásagnir úr menningararfi okkar - söguna af Þór og elli kerlingu eða Gretti og Glámi. Gleymum því ekki að þær voru ýmist ritaðar í klaustrum eða á kirkjustöðum og höfundarnir þekktu vel til frásagna á borð við þessa. Var þetta einhvers konar yfirbót fyrir syndir hans? Glímdi hann við Guð og sigraði? Hann gekk laskaður frá leiknum og haltraði allar götur síðan en nafnið sem hann fékk Ísrael - merkir einmitt sá sem hefur glímt við Guð.

Tengist þetta átökum hvers manns við sjálfan sig, afturhvarfið þegar við gerum upp erfið mál í lífi okkar? Er það uppgjör ekki líkt glímu sem við þurfum öll að takast á við á einhverjum tímapunkti í lífi okkar. Þau átök geta verið erfið og tekið af okkur toll, rétt eins og sagan ber með sér, en eru að endingu nauðsynleg til þess að gera okkur kleift að lifa verðugu lífi.

Þannig verður ekki bara sú mynd sem Biblían dregur upp af okkur mönnunum, full átaka og kröfu um hreinskilið endurmat. Hún sýnir okkur líka hliðar á Guði sem eiga lítið skylt við hinn almáttuga anda sem lúrir í fjarska og stýrir öllu með einni bendingu. Tengsl mannsins við Guð eru þvert á móti full átaka og allt miðar þetta að því að maðurinn nái þeim þroska sem ákjósanlegur er.

Glímutök

Já, og myndin sem Guðspjall dagsins dregur upp af Jesú er ekki heldur glitrandi fögur og skær. Nei, samtal hans við þessa kanversku konu er líklegra til að hneyksla okkur. Eða eru þessi orð eins og prófsteinn á þessa manneskju, krafa um að hún sýni hvað í henni býr, gefist ekki upp gagnvart því mótlæti sem hún stendur frammi fyrir? Það var heldur ekki fyrir klókindi hennar sem hún sigraði í glímu sinni við Jesú. Það var einlægnin og kærleikurinn sem urðu til þess að hún hafði betur.

Trúin eins og hún er boðuð í Biblíunni er fjarri þeirri mynd sem gagnrýnendur kristindómsins hafa dregið upp. Hún kallar okkur til þess að horfa á lífið réttum augum - nokkuð sem verður æ erfiðara í heimi sem hellir yfir okkur flóði efnis sem svæfir okkur fremur en vekur, slævir okkur fremur en styrkir.

Hér eru engir blindandi litir og einfaldar lausnir. Þvert á móti lesum við um glímutök sem fara fram í dimmri nóttinni.

Glíman á milli Jakobs og hinnar dularfullu veru á sér hliðstæðu í lífi þess sem tekst við eigin veikleika og grimmd heimsins. Hún lýsir vel lífi hins trúaða sem reynir að hafa skynbragð á þá falsguði sem mæta okkur í heiminum og leitar sannleikans handan alls þess sem blekkir og glepur. Hér eru engin ódýr svör eða lausnir. Jakob taldi sig glataðan í fagbrögðum við hina dularfullu veru. Í lok sögunnar kemur svo fram að hann var allan tímann í fangi Guðs. Sú er og raunin í lífi hins trúaða, sem finnst eins og myrkrið heltaki sig og þjáningin sé allt um kring. Þá er Guð nær honum en hann kann að gruna.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 941.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar