Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Stefán Már Gunnlaugsson

Af hverju kirkja?

3. september 2017

Náð sé með yður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Krist Amen.

Nú er sumarið er að renna sitt skeið. Þessi fallegi og bjarti tími vaxtar og lífs, en stutt íslenskt sumar gefur okkur svo mikið og skilur eftir svo margar góðar og hlýjar minningar um gleði og sumaryl. Það er gott veganesti þegar við tökumst á við áskoranir haustsins. Börnin byrja á ný í skólanum og vinnustaðir skila fullum afköstum. Framundan blasa við spennandi og ný verkefni.  Haustið er tími breytinga. Það finnum við svo vel í kirkjunni þegar starfið fer á fullt og kirkjuhúsin fyllast af lífi og gleði.

Fermingarbörnin hefja undirbúning sinn full eftirvæntingar, einlæg gleði barnananna í Sunnudagskólanum lætur engan ósnortinn og það gerir einnig unga fólkið í uppbyggjandi æskulýðsstarfinu. Hér í messunni í dag njótum við innilega fallegs söngs barna- og unglingakórsins og Barbörukórsins sem lyftir andanum svo sannarlega í hæðir. Allt þetta ber vitni um lifandi kirkjustarf sem ber góða ávexti. Það er menning sem auðgar fagurt mannlíf.

Kirkja sem kallar til samfélags

Hér í sunnudagsguðsþjónustunni komum við saman börn og unglingar, foreldrar, ungir sem aldnir og njótum samfélags með Guði og hvert með öðru. Allir velkomnir í kirkjuna þar sem Jesús Kristur kallar til samfélags, rífur niður múra einangrunar og mættir fólki í aðstæðum sínum. Allt starf kirkjunnar helgast af því.

Í guðsþjónustunni er næði til að staldra við og njóta þess sem við þráum svo heitt; frið í hjarta. Þar er kirkjan sannkallað griðarskjól, en um leið svo vekjandi og nærir með okkur með von og kjark. Skarkali dagsins er svo krefjandi, ekki síður áreiti tíðarandans sem heimtar að ráðskast með fólk, hvort sem litið er til tískunnar eða neyslunnar. Það er líkt og allir eigi alltaf að vera nákvæmlega eins og ekkert annað er viðurkennt. Kirkjan hefur fengið að kenna á því. Um hana er t.d. sjaldnast fjallað í fjölmiðlum, nema ef finna má eitthvað sem er ámælisvert. Lítið fer fyrir fréttum af því fallega starfi sem þar er.  Samt er kirkjan öflugasta menningarstofnun landsins. Það er líkt og kirkjan eigi ekki upp á pallborði vinsældanna, sé ekki “in” og úti á kantinum, ef tekið væri aðeins mið af umfjöllun fjölmiðla. En svo er alls ekki, þegar nær er skoðað, því kirkjan iðar einmitt af fjölbreyttu starfi þar sem margir taka þátt.

Að leita tilgangs og merkingar

Á haustin koma nýir hópar fólks inn í starfið og í barna- og unglingastarfinu er svo gefandi að rækta samfélag með börnum og unglingum. Þau eru svo hreinskiptin og þora að spyrja spurninganna sem brenna á og þrá að skilja. Þar trúin sannkallaður fjársjóður sem gefur mikið. Ég hef ávallt lagt mig fram um að leggja við hlustir þegar barn eða unglingur spyr með orðunum: Af hverju eða hvers vegna? Því sá sem spyr af hverju er ekki aðeins að leita þekkingar og staðreynda, heldur að tilgangi og merkingu.

Hver eru sönn gæði lífsins? Það þarf ekki að líta langt í lífsreynsluna til þess að sjá að það kaupir sér engin með fjármunum hamingju eða lífsfyllingu. Þess vegna getur uppvaxandi kynslóð virkað örvingluð í áreitinu og haldið að allt megi öðlast með pening eða frægð, vinsældum eða flottu dóti. Þá gefast ekki mörg tækifæri eða stundir frá dagsins önn að velta fyrir sér marbrotnum hliðum tilverunnar og finna að hamingjan geti blómgast í friði og innri gæðum. Eða að horfa til Jesú Krists sem vísar veginn og bendir á að dýrmætustu gæðin erum við sjálf og hvert með öðru í vináttu sem þorir að elska og treysta. Mikið þráir nútíminn þetta.

Á þessum grunni byggir fermingarfræðslan, sem fer fram á mikilvægum mótunarárum ungmennanna og þau velta fyrir sér stóru spurningunum og einföld svör duga ekki lengur. Þá er nauðsynlegt að eiga stað til að opna huga sinn og tjá sig, eiga samtal og geta spurt. Mörgum spurningum er erfitt að svara og sumar eru leyndardómur og einnig getur ný reynsla í gleði eða sorg krafist nýrrar leitar og svara. Í vegferðinni til fullorðinsáranna reynir á að þekkja gott frá illu, rétt frá röngu, sannleika frá rangindum og það er ekki alltaf auðvelt. Þá skiptir máli sú afstaða sem við höfum til lífsins, tilverunnar og samferðafólks, því hvort gefur betri mynd að sjá heiminn í ljósi trúar eða afneitunar? Það er lífinu dýrmætt að eiga rætur í mold sem gefur sannan vöxt og þroska.

Að hlusta og heyra

Í samtímanum reynir svo á að eiga samtal og skoðanaskipti, en ekki síst að hlusta og heyra hvað aðrir hafa að segja. Það sem hefur t.d. einna mest áhrif á hvernig fólk metur aðra í fyrstu kynnum er hve vel viðkomandi hlustar. Þegar við finnum að á okkur er hlustað, þá er sem rödd og skoðanir skipti máli og við erum metin að verðleikum. Það skynjar fólkið sem á undir högg að sækja eða tilheyrir minnihlutahópi. Þau þarfnast raddar og vettvangs til tjá  sig og segja frá reynslu sinni. Þegar við hlustum, þá sýnum við umhyggju í verki.

Í nútímanum verður æ erfiðara er að hlusta vegna hraðans, tímaleysis, yfirborðslegra örsamskipta á samfélagsmiðlum, áreitis og hávaða í umhverfinu. Því er bænin í starfi kirkjunnar svo dýrmæt. Þar hlustar Guð sem faðmar þig og hvað sem á dynur um dagana, þá er Guð hjá þér og þú í fangi hans.

Boðskapur sem umbreytir

Kirkjan er einmitt þessi farvegur vonar og trúar og kemur fram í starfi hennar fyrir alla aldurshópa og í þjónustu við einstaklinga á gleði og sorgarstundum. Einnig með því að láta sig varða brýn samfélagsleg mál, sbr. söfnunin sem Hjálparstarf kirkjunnar stendur nú fyrir til að styðja efnalitlar fjölskyldur í upphafi skólaárs og þjónustu við fatlaða, heyrnarlausa, flóttafólk og fólk af erlendum uppruna. Þetta er erindi kirkjunnar. Að elska Guð og náungann. Það er boðskapur sem umbreytir og umbyltir þar sem virðingin við mannlífið og jörðina er í fyrirrúmi.

Samt er er spurt: „Afhverju kirkja?” Þá er jafnan vísað til þess að kirkjan sé gamaldags og forn og eigi lítið sameiginlegt við þann tíðaranda sem nú ræður miklu. Markaðsstjóri í stóru fyrirtæki benti mér einu sinni á að kirkjan væri vissulega að gera eitthvað rétt. Engin samfélagshreyfing ætti lengri sögu og engin orðið fyrir meira mótlæti um aldirnar eða orðið á stærri og sárari mistök og kirkjan. Á sama tíma hafa risafyrirtækin komið og farið, heilu keisaraveldin, þjóðríkin og stórveldin liðið undir lok.

Enn er kirkjan þó á sínum stað. Það er ekki nema rúm hálf öld síðan að birtust fyrirsagnir í íslenskum fjölmiðlum þar sem stóð að kirkjan væri dauð. Það hefur sannarlega reynst ekki réttur spádómur. Er það mannanna verk eða skiptir Guð í því sambandi einhverju máli? Mönnum verður á í stjórnsýslu og ákvörðunum. Um það fjallar trúin, en ekki síður hvernig rísa má upp og vakna til vitundar um vonina sem elskar lífið. Þar er Jesús Kristur sá sami í dag og í gær, leiðarljósið, kjarninn í kirkjunni sem sameinar hana og endurnýjar aftur og aftur, alla daga.

Kirkja með opnar dyr

Þess vegna er það svo mikil áskorun fyrir kirkjuna að ná til fólksins í nútímasamfélagi. Það er gefandi verkefni því sú kynslóð sem nú vex úr grasi er óhrædd við að spyrja spurninganna af hverju eða hvers vegna? Hún leitar tilgangs og merkingar og ef svarið kemst ekki fyrir í Twitter skilaboðum, þá gæti þolinmæðin verið að þrotum komin til að spyrja aftur eða bíða betra svars. Samt hefur þessi kynslóð tileinkað sér og náð tökum á tækni sem getur leyst úr læðingi mikil breytingaröfl, sem jafnvel nú þegar hefur gerst.

Kirkjan er ekki sjálfrar sín vegna, heldur vegna þess að hún er fólkið með opnar dyr og býður alla velkomna til að starfa og njóta, spyrja og biðja. Hér reynir á að hlusta á unga fólkið og hvað það hefur að segja; börnin, unglingana og foreldrarnir, eldra fólkið, líka allt fólkið sem er að kyggna undan byrðum dagsins annar, að ná endum saman í heimilisbókhaldinu og fólkið sem veit ekki aura sinna tal, en vill samt njóta lífs í alvöru.  Að vera virk saman í lifandi kirkju sem gerir engan greinarmun útfrá aðstæðum auðs eða ytri gæða. Það gerir kirkjan með öflugu starfi sínu sem hefur að leiðarljósi að þekkja Jesú Krists og hafa að leiðtoga lífsins.

Að þekkja lífsins tré

Í gupspjalli dagsins spyr Jesús: „Hvernig getið þér þekkt gott tré frá vondu tréi?“ Og hann svarar: „Annað hvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávöxtunum þekkist tréð.“ Þetta er áskorun lífsins að greina það sem er satt, rétt og gott frá því sem er rangt eða vont. Þetta er eitt af spakmælum tungunnar sem við þekkjum öll eins og svo mörg önnur úr Biblíunni sem hafa verið grunurinn að íslensku gildismati um aldir. Þar hefur kristin trú verið kjölfestan hvað sem líður afneitun í trúleysi tískunnar. Það er einmitt svo dýrmætt hlutverk kirkjunnar að standa vörð um þann sið sem kann að þekkja þessi lífsins tré sem bera blómlega ávexti fyrir lífið. Þar er eitt tré sem gnæfir yfir öll önnur, Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn og kirkjan vitnar um í starfi sínum og verkum.

Í Jesú nafni amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1445.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar