Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Mamma, pabbi og Eurovision

15. maí 2017

Ég geri ráð fyrir að flest okkar hérna inni elskum mæður okkar. Það er einhvern veginn það sem flestar manneskjur eiga sameiginlegt, enda er mamma sú manneskja sem er mikilvægust í lífi okkar allra framan af. Í rauninni er hún til að byrja með sjálft lífið, þegar við erum lítil, getum við ekki einu sinni aðgreint okkur frá henni, og þó að við gerum það með tímanum og öðlumst okkar eigið sjálfstæði, þá er hún samt mikilvægasta manneskjan í lífinu lengi vel, ásamt pabba, og sú sem við eigum ótrúlega sterkt samband við. Og þau ykkar sem hafið kannski ekki þekkt það að elska móður, kannski vegna þess að hún var ekki til staðar, dó snemma, var veik, eða á einhvern hátt ekki fær um að gegna hlutverki sínu, þið þekkið sennilega sorgina og tómleikann sem fylgir því, eða hafið verið svo lánsöm að eignast aðra manneskju sem gekk ykkur í móður stað.
Mæður eru mikilvægar manneskjur. Og það höldum við upp á í dag á mæðradaginn og vonandi leyfið þið öll mömmu ykkar að finna að þið metið hana mikils.

En það er alveg sama hversu mikið þið elskið mömmu ykkar, það jafnast ekkert á við það hversu mikið hún elskar ykkur. Það skynjið þið væntanlega sem eruð foreldrar, mæður og feður, að engin ást er eins ótrúlega sterk og djúp, eins og ástin til barnanna okkar. Hún á eiginlega enga hliðstæðu, og það er eiginlega ekki hægt að skilgreina hana eða útskýra svo vel sé. Það er kannski helst að skáld og tónlistarfólk nái að fanga leyndardóminn í ástinni.

Þegar við reynum að skilja og útskýra Guð, þá notum við líkingar, því öðruvísi getum við ekki náð utan um þann raunveruleika sem Guð er. Og í gegnum tíðina hafa manneskjur notað ótal líkingar um Guð. Í Biblíunni er að finna margar ólíkar líkingar, bara í textanum sem við heyrðum áðan eru þrjár notaðar, Guð er eins og maður sem ber son sinn, Guð er eldstólpi og ský, og það eru fleiri líkingar, Guð er eins og ljón, Guð er eins og klettur, Guð er hæna sem safnar ungum sínum undir vængi sína, Og svo er það Guð sem móðir.

Jesús kenndi lærisveinum sínum að kalla Guð föður. Og ekki bara föður, heldur eiginlega pabba. Abba, orðið sem Jesús notar til að ávarpa Guð þegar hann biður til Guðs, þýðir nefnilega einmitt pabbi. En Jesús talaði sjaldan um Guð sem móður. Það er svolítið merkilegt, því að í Biblíunni er Guði líka líkt við móður. Einn fallegasti texti Biblíunnar er úr Jesaja, en þar segir: Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig á lófa mér. Ég held að þó að Jesús hafi sjálfur oftar notað líkinguna um föðurinn, og sú líking hafi orðið ofan á í allri hefð, þá ættum við að lyfta meðvitað upp líkingunni af Guði sem móður. Ég held að þar sé að finna leið fyrir margar manneskjur að tengjast Guði, manneskjur sem eiga kannski erfitt með föðurhugtakið, eiga kannski erfitt samband við sinn eigin föður og skynja það sem ákveðið valdahugtak.

Þema dagsins í ritningarlestrunum er kærleikurinn. Jesús segir okkur að elska hvert annað, því að Guð elskar okkur. Og Jóhannes minnir okkur á að enginn hafi í raun séð Guð, en að við höfum anda Guðs.

Ég held að best sé að lýsa Guði sem kærleik. Kærleik sem er skapandi afl, og birtist í rauninni alls staðar í kringum okkur og í okkur. Hann birtist í náttúrunni, í öllu sem vex og sprettur, öllu sem lifir og hrærist og er fagurt og gott. Hann birtist, hvar sem móðir eða faðir elskar barnið sitt eða börnin sín, hvar sem einhver fórnar sér fyrir vini sína, hvort sem þeir eru honum kunnugir eða ekki, hann birtist í augnaráði elskenda, og í samveru fjölskyldna, hann birtist við dánarbeð þegar ástvinur er kvaddur og hann birtist kannski ekki síst í sorginni, því að þar söknum við þess sem við elskuðum og er ekki lengur. Og ég held meira að segja, og það virðast margir vera sammála mér, að kærleikurinn hafi birst í laginu sem vann Eurovision í gærkvöldi. Alla vega var eitthvað í því lagi sem snerti við hjörtum flestra.

Guð er kærleikur. Guð er faðir og Guð er móðir. Guð verður í raun alltaf sá sem við viljum að Guð sé, og þurfum á að halda að Guð sé. Þess vegna eru hugmyndir okkar um Guð svo ólíkar, og munu alltaf vera það. En að baki öllum hugmyndum okkar um Guð, býr einhver raunveruleiki sem er svo mikilfenglegur og stórkostlegur að ekkert mannlegt hjarta fær skynjað nema brot af honum.

Og þó… Við höfum anda Guðs. Við erum sköpuð í mynd Guðs og endurspeglum á einhvern hátt Guð í tilveru okkar. Og grunnskylda okkar er að elska. Að elska allt líf eins og faðir eða móðir. Og að elska náungann eins og okkur sjálf. Vera tilbúin að fórna okkur fyrir aðra. Tilbúin að sjá Guð í öðrum manneskjum, horfa á þær með kærleika, jafnvel þótt þær séu alls ekki elskuverðar. Og þessi skylda er svo afdráttarlaus, svo skýr, að Jesús segir hreinlega: Þetta er mitt boðorð! Og:„Þetta býð ég ykkur”. Hann biður okkur ekki að gera þetta, hann skipar okkur það. Þetta er hið nýja lögmál, lögmál kærleikans.

Hvar finnur þú kærleik í þínu lífi? Hvað elskar þú, og hverja elskar þú? Og hver elskar þig? Það er gott að íhuga það á hverjum degi, og við skulum leggja okkur fram við að finna leiðir til að sýna þennan kærleika og taka við þeim kærleika sem okkur er sýndur. Þannig mun líf okkar bera ávöxt og kærleikurinn vaxa í heiminum.

Dýrð sé Guði, sem er kærleikur.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1972.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar