Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Ómar Gunnarsson

Grundvöllurinn skiptir máli

26. júlí 2015

Predikunartextar:
Jesaja 26.1-7 og Matteusarguðspjall 7. 24-29.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

Í innbæ Akureyrar eru mörg falleg hús, nokkur þeirra eru á meðal elstu bygginga landsins. Þessi gömlu hús eru reisuleg og prýða bæinn okkar, þau bera vott um liðin tíma, byggingarlist og hönnun úr fortíðinni. Gömlu húsin bera einnig vott um þá sem þau reistu, þá verkamenn og iðnaðarmenn sem vönduðu til verka og lögðu húsunum góðan grunn íbúum þess til heilla.

Allir góðir og vandvirkir iðnarmenn gera sér grein fyrir því að þegar reisa á mannvirki verður að vanda til verka þegar grunnurinn er lagður. Þegar hús eru reist verður að steypa grunninn við góðar aðstæður til þess að tryggja að hann verði sterkur og standist hin mörgu áhlaup veðurs og náttúruaflanna. Þegar ekki er vandað til verka getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa húsanna, fjárhag þeirra og heilsu. Vel þarf að vanda það sem lengi á að standa. Eigi mannvirki að standast tímans tönn þarf grundvöllurinn að vera sterkur og vandaður.

Í Guðspjalli dagsins erum við vöruð við því að reisa hús okkar á sandi, það er heimska segir Jesús því hús reist á sandi stendur ekki lengi – það mun falla! Jesús hvetur okkur til þess að vanda okkur og grundvalla líf okkar á því sem mölur og ryð geta ekki eytt. Jesús hvetur okkur til þess að grundvalla líf okkar á orði sínu, það kallar okkur til þess að elska, Guð og náungann. Hús grundvallað á bjargi stendur af sér storma, það riðar seint til falls. Grundvöllur skiptir máli, hús reist á lélegum grunni verður að öllum líkindum lélegt hús. Jesús hvetur okkur til þess að grundvalla líf okkar á bjarginu eina, sem er orð hans og líf.

Samfélög okkar mannanna þarfnast líka trausts grundvallar eigi þau að þrífast. Grundvöllur hvers samfélags felst í mannauði, lögum og reglum, öflugum innviðum á sviði samgangna, menntunar og velferðar. Þau samfélög sem best dafna á okkar dögum eru lýðræðissamfélög þar sem mannréttindi eru tryggð, þar sem fólk er frjálst, nýtur virðingar og verndar laganna. Grundvöllur samfélagsins, líkt og grunnur mannvirkjanna, skiptir öllu máli. Eigi þau að lifa lengi verður að vanda grundvöllinn. Samfélög sem eru grundvölluð á óréttlæti og kúgun geta ekki staðist, þau munu ávallt riða til falls, því af spilltri rót vex spilltur ávöxtur.

Gamla testamentið geymir hina stórkostlegu sögu um samfylgd Guðs og þjóðar sinnar, Ísrael. Ísraelsmenn voru teknir frá af Guði til þess að vera ljós í heiminum, þeir voru útvaldir. Útvalningu þeirra fylgdi blessun Guðs, en jafnframt sú kvöð að vera öðrum þjóðum fyrirmynd. Þeir skyldu hafa „gætur að vegi Guðs og iðka rétt og réttlæti.“ (1Mós 18:19).

Ísrael var útvalin þjóð Guðs og átti í sérstöku sambandi við hann. Ísraelsmenn þekktu Guð ekki aðeins af afspurn, heldur höfðu áþreifanlega reynslu af varðveislu Guðs og blessun. Ást Guðs á Ísrael átti að vera grundvöllur þess samfélags sem Ísraelsþjóðinni hinni fornu var ætlað að mynda. Meðal Ísraelsmanna skyldi réttlæti, miskunnsemi og trúfesti ríkja og þaðan átti „réttvísi að streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur“ (Amos 5.24). En það var eitthvað brotið í Ísrael, grundvöllurinn varð annar, grundvöllurinn var spilltur og afleiðingar voru óréttlátt og miskunnarlaust samfélag.

Guð Ísraels, Guð Biblíunnar þráir réttlæti og miskunn til handa allri sköpun sinni, spámenn Gamla testamentisins höfðu það hlutverk að mæla fyrir munn Guðs. Þeir fluttu þjóð Guðs dómsorð vegna þess að þjóðin hafði ekki iðkað réttlæti, þjóðin hafði brotið gegn sínum minnstu bræðrum og systrum. Þjóðin hafði brotið gegni Guði lífsins. Líf þjóðarinnar einkenndist ekki af miskunnsemi, elsku, réttvísi og trúfesti við hinn eina Guð. Grundvöllur samfélagsins var veikur, byggður á sandi, rótin var spillt.

Grundvöllurinn átti að vera Orð Guðs, sem kallar sérhverja manneskju til þess að elska Guð, til þess að elska náunga sinn og efla lífið í sérhverri mynd (3 Mós 19:18; 5 Mós 6:5). Ísrael hafði valið sér annan grundvöll, en þann sem lagður er í orði Guðs og hið forna ríki Ísraelsmanna riðaði til falls eins og segir í spádómsbók Jesaja þá var það „…troðið fótum fátækra, traðkað iljum umkomulausra“ (Jes. 26.6). Fátækir, umkomulausir og þau sem þjást og líða eru og hafa alltaf verið Guði hjartfólgin, Ísrael lokaði hjarta sínu fyrir þeim og þess vegna fór sem fór. Grundvöllurinn var ekki réttlátur, réttvís og miskunnsamur. Fólkið sem hafði talið sig útvalið af Guði var gjörsigrað af erlendum stórveldum, þjóðin var brotin og kúguð, rekin burt úr landinu sem Guð hafði gefið því til þess að eyða dögum sínum í útlegð. Það skiptir máli að hafa styrkan grundvöll til að þrífast og dafna.

Grundvöllurinn skiptir máli, á hvaða grunni höfum við byggt okkar samfélag, á hvað grunni er Ísland reist, á hvaða grunni er hinn ríki vestræni heimur reistur? Munu okkar vestrænu samfélög riða til falls, hafa þau ef til vill þegar gert það? Hefur þeim verið steypt til jarðar, hafa þau verið troðin fótum fátækra, iljum umkomulausra, þeirra sem við höfum hunsað og lokað hjörtum okkar fyrir?

Við lifum í frjálsum lýðræðissamfélögum, njótum verndar, laga og mannréttinda og búum við velsæld sem þekkist vart annars staðar. Ein greingardeildin hélt því fram vorið 2008 að „langatímahorfur væru öfundsverðar“ á Íslandi við vitum að vísu hvernig fór nokkrum mánuðum síðar, en engu að síður höfum við enn allt sem þarf til þess að leitast við að byggja upp réttlátt og lífvænlegt samfélag ekki bara hér á þessari eyju okkar heldur miklu víðar.

Jesaja spámaður Guðs í Ísrael fordæmdi það samfélag sem lokaði hjarta sínu fyrir öðrum, en hann sá lengra og vissi að Guð er alltaf að verki, alltaf að bæta í brestina, alltaf að endurreisa og endurnýja. Hann vissi að Guð myndi endurnýja fólkið sitt: „Á þeim degi verður sungið: Vér eigum rammgera borg […] ljúkið upp hliðum hennar svo réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað megi inn ganga“ (Jes 26.1-2). Jesaja boðaði að Guð myndi endurreisa fólkið sitt, endurreisa þjóð sina á styrkum grunni sem byggði á Orði Guðs. Þjóð Guðs skyldi verða réttlát þjóð, sem legði traust sitt á Guð, lærði að þekkja hann og tileinka sér hjartalag hans. Vonin felst í því að öðlast styrkan grundvöll undir líf sitt, grundvöll sem laðar fram elskuna til Guðs, náungann og lífsins og hrindir burt hatrinu, óttanum og óréttlætinu. Voning felst í Jesú Kristi frelsaranum, sem gefur styrkan grundvöll undir lífið.

Grundvöllurinn skiptir máli og langtímahorfur eru öfundsverðar. Guð hefur skapað okkur hvert og eitt eftir sinni mynd, við hvert og eitt berum mynd Guðs. Þú berð í þér mynd Guðs. Allir eiginleikar Guðs, allt það sem Guð þráir býr í brjósti þér. Grundvöllurinn er sterkur, hann er mynd Guðs í þér, en hefur þú byggt á þeim grunni?

Hefur þú grundvallað heill þína og hamingju á því sem verður möli og ryð að bráð? Er hús þitt reist á sandi eða er það grundvallað á bjarginu, á orði Guðs, sem er Jesús Kristur? Mynd Guðs í þér. Jesús Kristur er Orð Guðs, í Jóhannesarguðspjalli segir: „í upphafi var orðið og Orðið var Guð […] Og orðið varð hold , hann bjó með oss…“ (Jóh 1.1, 14). Orð Guðs gerðist maður í Jesú Kristi, hann kemur til okkar, til þín og til mín, hann kemur til þess að laða fram allt það besta sem Guð hefur fólgið í hjörtum okkar. Andspænis óréttlæti og miskunnarleysi eigum við, kristið fólk, aðeins eitt svar og það er að halda fast við Orð Guðs, frelsarann Jesú Krist, sem kennir okkur að elska og kallar okkur til þessa að efla lífið í sérhverri mynd.

Vissulega eru hindranirnar til staðar í heimi okkar og ekki síst í okkur sjálfum, við lifum í föllnum heimi, en Guð er að verki í heiminum, Guð er alltaf að bæta og laga, Guð skilur okkur ekki eftir ein og afskipt. Guð elskar og þú getur líka elskað, í því felst vonin. Manneskja sem hefur verið snert af anda Guðs og Orði hans, Jesú Kristi, elskar án takmarkana, hjarta hennar er opið fyrir náunganum. Hún stendur af sér sérhvern storm, þó skelli á steypiregn, vatnið flæði, stormar blási og bylji, því hún er grundvölluð á bjarginu eina, Jesú Kristi. „Langtímahorfurnar er öfundsverðar“ því Guð í Jesú Kristi er að verki í heimi okkar, á honum megum við byggja nútíð okkar og framtíð.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2129.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar