Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Óskir eftir áramót

4. janúar 2015

Fyrsti janúar.
Klukkan er rétt að verða fjögur að morgni.
Á Landspítalanum við Hringbraut er fyrsta barn ársins að koma í heiminn.
Þetta er stúlka og hún er um það bil þrjú kíló á þyngd og tæpir 50 sentimetrar á lengd.
Móður og dóttur heilsast vel.
Fjölmiðlar greina frá og við gleðjumst með foreldrum af því að fæðing fyrsta barns ársins er gleðilefni. Hún er líka táknræn fyrir allar hinar fæðingarnar sem eiga eftir að verða. Gleðin yfir fæðingunni endurspeglar gleði okkar allra yfir fæðingu barnanna á Íslandi.
Svo er tekin mynd af barni og foreldrum og kannski fara þau líka í sjónvarpsviðtal.
Og því fylgja hamingjuóskir okkar allra og bæn um bjarta framtíð.
Við erum eiginlega öll þátttakendur í þessari fyrstu barnsfæðingu hvers árs.

• • •

Tuttugasti og fjórði desember.
Við vitum ekki klukkan hvað og vitum reyndar ekki hvort þetta gerðist nákvæmlega þennan dag. En það gerðist.
En frelsarinn er að koma í heiminn.
Ekki á spítala heldur í fjárhúsi.
Og þarna eru mamma og pabbi og einhver húsdýr.
Svo mæta fyrstu gestirnir. Það eru ekki afi eða amma eða fjölmiðlar sem fulltrúar þjóðarinnar.

Þótt þetta reynist verða frægasta barnsfæðing allra tíma!

Nei, þetta eru þreyttir hirðar sem hafa staðið vaktina úti í haga og svo þrír karlar frá útlöndum. Þeir eru nefndir á nafn, ólíkt hirðunum: Baltasar, Melkíor, Kaspar. Þeir komu líka með gjafir: Gull, reykelsi og myrru. Kannski vitum við nöfnin þeirra þess vegna.

• • •

Sjötti janúar er dagurinn þeirra. Hann er vitringadagur, og dagurinn í dag tengist honum. Nú lesum við eina vitringasöguna frá altarinu og heyrum af því þegar María og Jósef flýja ásamt Jesúbarninu til Egyptalands af því að ástandið í ríkinu er ekki nógu gott.

Nema hvað.

Áramótin eru Vitringatími því þá horfum við yfir farinn veg, leggjum mat á samfélagið og lífið okkar. Gerum jafnvel áramótaheiti. Þá þiggjum við hollráð vitringa og gerumst kannski vitringar sjálf. Og þar held ég að hollt geti verið að horfa til Vitringanna þriggja sem komu með gjafir. Þeir eru fyrirmyndir.

Hvað standa þeir annars fyrir, jólavitringarnir Kaspar, Melkíor og Baltasar?

Þrennt:

  • Virðingu fyrir hinu heilaga í veröldinni: Þeir komu um langan veg til að finna barnið.
  • Löngun til að segja frá því sem er gott: Þeir sögðu þeim frá sem þeir hittu: „Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
  • Samstöðu með manneskjunni: Þeir sáu í gegnum ofbeldismanninn Heródes og því sögðu þeir honum ekki frá barninu heldur afvegaleiddu hann.

• • •

Við lesum nýárskveðjur og áramótaheiti þegar nýja árið gengur í garð. Eins og fleiri Íslendingar greip ég niður í nokkur slík í vikunni. Eiginlega svolítið mörg því mig langaði að sjá hvað fólk er að hugsa. Og ég kom alltaf aftur og aftur að nokkrum þeirra. Höfundurinn – eða kannski sendandinn – heitir Neil Gaiman og hann er rithöfundur. Og áramótakveðjurnar hans miðla visku sem kallast á við vitringana þrjá. Í þeim felst bæn og uppbyggileg sýn á manneskjuna.

Mig langar að deila þeim með ykkur:

Megir þú upplifa ást á árinu og upplifa það að öðrum líki við þig – og upplifa það að elska aðra og líka við þá.

Megir þú vera vitur þegar þess gerist þörf og megir þú alltaf sýna öðrum umhyggju.

Megir þú kyssa einhvern sem finnst þú vera dásamleg/ur á árinu.

Ég vona að þú gerir mistök á árinu sem er framundan. Því ef þú gerir mistök ertu að gera eitthvað nýtt, prófa eitthvað nýtt, ganga í gegnum breytingar. Gera eitthvað. Ég vona að þú hafir ekki áhyggjur af því að það-sé-ekki-nógu-gott, hvað sem það er sem þú tekur þér fyrir hendur.

Ég óska þér þess að vera hugrakkur/hugrökk á árinu sem er nýhafið - að þú gangir óttalaust til móts við hið óþekkta.

Ég óska þér þess að þú upplifir gleði í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.

Ég óska þér þess að þú verðir hlýr og almennilegur gagnvart sjálfum þér á árinu sem er framundan.

Mundu eftir því að fyrirgefa þér sjálfum og fyrirgefa öðrum. Það er svo auðvelt að dæma en erfiðara að breyta, að tengjast öðrum, að skilja.

Megir þú kynnast nýju fólki og tala við þau á árinu sem er að hefjast.

Á þessu ári óska ég þér þess að þú knúsir alltof mikið, brosir alltof mikið og elskir þegar þú átt þess kost.

• • •

Kæri söfnuður.
Börn fæðast daglega.
Við minnumst þess sérstaklega við áramót og stöldrum við.
Við minnumst þess sérstaklega á jólum.

Við horfum fram á veginn og íhugum það sem framundan er.
Íhugum hvernig við viljum hafa lífinu okkar.

Og við erum kölluð til visku

Visku í anda Jesú og vitringanna sem heimsóttu hann.
Visku hins góða samfélags sem stendur vörð um litla barnið – og ekki bara sitt eigið litla barn heldur öll litlu börnin.
Allstaðar.

Þetta má líka orða út frá þeim Baltasar, Melkíor og Kaspari:

Við erum kölluð til að bera virðingu fyrir því heilaga – segja frá því sem er gott – stnanda vörð um manneskjuna.

Það er boðskapur vitringadaganna.

Guð gefi ykkur gleðilegt nýtt ár og Guð gefi ykkur visku vitringanna.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2037.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar