Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Litlabarn heimsins

26. desember 2014

Frummyndin er lítið eitt stærri en póstkort, pennateikning með brúnu bleki, barnið horfir fram þar sem það situr á hnjám móður sinnar, hún styður létt við bak þess og hægri handlegg. Þessi teikning, sem var gerð fyrir fimm öldum, sýnir ungan svein kyrrðinni umvafinn í faðmi móður sinnar. Hér er ekkert að óttast, öllu er óhætt, allt er í jafnvægi. Fyrr en varir er áhorfandinn sjálfur horfinn á vit kyrrðarinnar sem opnast honum í augum barnsins, hér á hann heima. Listamaðurinn var ungur málari frá ítalska bænum Urbino, Rafael að nafni, rétt innan við tvítugt. Frá myndinni liggur leiðin út á götuna inn í ys og þys borgarinnar, yfir fljótið vatnsmikla sem líður fram öld eftir öld, straumurinn djúpur og þögull. Myndin hverfur ekki úr huganum. Hvað sem á dynur er barninu borgið í faðmi móðurinnar, því liggur ekkert á, aldirnar líða og allt breytist – en samt er allt óbreytt, hér er eilíft tákn sem dregur til sín með ótrúlegu seiðmagni. Skyldi meistarinn ungi, sem missti móður sína átta ára, hafa haft sjálfan sig í huga, er hann þetta litla barn heimsins í öruggum faðmi?

Við erum áhorfendur, horfum með augum fjárhirðanna, sem duttu inn í atburðarásina þar sem þeir „vöktu yfir hjörð sinni“ eins og Oddur Gottskálksson þýðir. Nýja testamentið er ekki sagnfræðirit, þar er haldið til haga sögu sem er hvort tveggja í senn: frásögn og túlkun, hér er einföld helgisögn sem varðveitir atburð sem gerðist löngu fyrir daga Lúkasar, hann bjó henni búning sem býr yfir seiðmagni tímalausrar návistar. Þannig berast þær til okkar, hinar fornu sögur, sem helgisögur í hátíðarbúningi síns tíma. Söguformið þurfti Lúkas ekki að sækja langt, helgisögur af svipuðum toga þekktu nágrannaþjóðirnar Egyptar og Grikkir vel. Lúkas setur ekki fram neinar kenningar um fæðingu Jesú, hér segir stutt saga allt sem segja þarf. Trúverðugleikinn er samofinn sögunni. Sá sannleikur einn skipir máli, sem finnur hljómgrunn djúpt í sál fólks á öllum öldum.

Leyndardómur sögunnar um fæðingu jesúbarnsins er sannleikurinn um manninn sem hún varðveitir. Sagnameistarinn Lúkas fléttar þræðina af snilld. Þessi verndardýrlingur myndlistarinnar í rómversk-kaþólskri hefð miðlar trúarreynslunni í myndrænni frásögn, í helgisögu sem þolir mikinn sveigjanleika í túlkun. Þar hafa ár og aldir engu haggað. Miklu síðar komu kenningarnar, tilraunir til að búa trúnni búning úr heimspeki-legum hugtökum. Kenningar og kenningakerfi byggjast á hugtökum sem þarf að skilgreina fyrir hverri kynslóð. En helgisagan ein varðveitir hina upprunalegu reynslu því að kenningarnar hlutu að taka breytingum frá einum tíma til annars. Samt voru þær allar eins að því leyti að þær settu trúnni eins konar lögmál. Í reynd voru þær ekki aðferð til að varðveita hina trúarlegu reynslu, heldur freisting valdastofnunar til þess að beygja menn undir ok sitt og stimpla sem villutrúarmenn þá sem viku frá kenningunni sem réð ríkjum hverju sinni.

Gömul saga og ný, ekki hvað síst í trú og stjórnmálum, einnig á okkar tímum. Stjórnmálahreyfingar tuttugustu aldar, í austri og vestri, hin viðamiklu hugmyndakerfi, höfðu þannig hlutverki að gegna. Með kenningunum var unnt að greina milli þeirra sem rétt hugsuðu og hinna sem hugsuðu rangt, hinna síðarnefndu biðu oftar en ekki lítt eftirsóknarverð örlög. Þeir tímar virðast liðnir um sinn. Uppgjör við hin stóru pólitísku hugmyndakerfi tuttugustu aldar hefur verið í gangi fram á þennan dag. Við þekkjum umbrotahreyfingarnar á síðari hluta tuttugustu aldar þar sem gengið var á hólm við ráðandi stjórnmálahugsjónir aldarinnar. Þekkjum við ekki blómabörnin, hippana, 68-kynslóðina og síðan hverja tilraunina á fætur annarri til að komast nær manneskjunni og mannlegri reynslu, mannlegri tilfinningu og finna paradís framtíðarinnar hið innra – en einnig sú leit virtist sjaldnar en ella skila árangri. Hverju er þá treystandi þegar spurt er um trúverðugar hugsjónir, eða um fólk sem er treystandi til að gera þennan heim betri? Þegar spurt er alvöruspurninga, sem snerta manninn, þegar tilvistarspurningarnar liggja í loftinu eins og einmitt núna?

Við finnum þetta þegar við lesum dagblöðin. Í fréttunum lesum við tíðindi líðandi stundar, þar er fjallað um heimsmálin og hryðjuverk, um hungur og hörmungar, um atvinnumál og alþingi, eitt tekur við af öðru. Allt skiptir það miklu máli en andlegt og trúarlegt gildi er lítið, hér er hinn tímanlegi veruleiki. Hér er ekki það sem við leitum innst inni, hér eru hin varanlegu lífsgildi víðsfjarri og dýptin sem við leitum í lífi okkar, í mannlegum samskiptum, í ástinni, í endurminningunni, er hér hvergi nærri. En svo lítum við á aðra hluta blaðsins, þar kann að vera smásaga eða ljóð, jafnvel framhaldssaga, og við hverfum inn í annan heim þar sem hin hraða atburðarás líðandi stundar er ekki í gildi lengur, heldur taka við dýpri og varanlegri spurningar, þær eru okkar mál. Þannig verka sögurnar sem eiga sér ekki rætur í sviptingum dagsins. Við mætum hinum trúarlega veruleika á bylgjulengd tilvistarspurninganna, í reynslu okkar.

Þar koma sögur trúarmenningarinnar inn í myndina, sögur eins og jólaguðspjallið, þær eiga annað erindi við okkur en fréttir líðandi stundar, erindi þeirra líður ekki hjá og gleymist, það er varanlegt og gildi þeirra dvínar ekki. Þeirra hlutverk snýr að tilvistarspurningum mannsins sem eru aldrei langt undan: markmiði þeirra mætti líkja við að búa til glugga á vistarveru fangans svo að birtan nái inn i dimma dýflissuna svo að hann fer að trúa því að fyrir utan sé fegurðin sem hann finnur að hann þráir, þar vaxi blómin og fuglarnir syngi, skýin líði um himininn og þar sé víðáttan og frelsið eigi þar heima líkt og í heiðarbýlinu Sumarhúsum. Og sú vitund breytir öllu. Þannig var Rósu í Sumarhúsum farið: hún leitaði þess sem öllu skiptir hið innra, einnig kotbóndinn Bjartur.

Á morgun verður Sjálfstætt fólk frumsýnt sem jólaleikrit Þjóðleikhússins, sú sýning þykir ávallt tíðindum sæta. Á heimasíðu Þjóðleikhússins lesum við að þar segi „frá einyrkjanum Bjarti í Sumarhúsum og fólkinu í kringum hann, baráttu hans fyrir því að halda sjálfstæði sínu, hvað sem það kostar“. En er inntak sögunnar ekki dýpra, snýst það aðeins um brauðstrit mannsins? Snýst það ekki öðru fremur um tilvist hans, um mennsku og mannúð, um það sem gefur striti hans og baráttu, já lífi hans öllu, merkingu, um dýptina í lífi hans? Og svo er bóndinn ekki eina persóna sögunnar.

Djúpt í sál annars heimilisfólks býr spurning um mannvirðingu, um birtu í dimmum og hörðum heimi eða eins og segir í hinum ódauðlega kafla Sumarnótt: „… því maðurinn leitar alltaf að einhverju sér til huggunar og þessi huggunarvon, jafnvel eftir að öll sund eru lokuð, hún er merki þess að hann lifir.“ Um þetta efni fjalla allar stórar skáldsögur sem eiga erindi til lesandans, hlutverki þeirra er aldrei lokið. Þess vegna rofar öðru hvoru til innra með persónum sögunnar. Ekki vegna inngrips yfirnáttúrlegra krafta heldur vegna hins gagnstæða, vegna þess sem bjó í hinu hversdagslega, í dýpt líðandi stundar: vegna þess að nýútsprunginn fífill varð kraftaverk í vitund fjölskyldunnar, vegna þess að hún uppgötvar að samlíðunin er upphaf hins æðsta söngs, eða vegna þess að þá fyrst þegar gamla konana á bænum dró fram eyrnaskefilinn – eins og alltaf á jólum – varð alheilagt: hin heilaga návist guðdómsins kvaddi sér hljóðs í daglegu amstri, í áhyggjum, ótta og myrkri. Vitundin um návist hins heilaga í lífi mannsins var vöknuð. Hann var mættur til sögunnar, þetta litlabarn heimsins, sem breytti öllu. Það var kominn gluggi á dýflissuna.

Jólaguðspjallið er helgisagan um þennan heim þegar hann varð eins góður og hann getur orðið, þegar glugginn opnaðist. Eitt andartak eigum við sjálf heima í þessari sögu þar sem vonin, undirstraumur hennar, verður einnig okkar von og okkur finnst að heimurinn gæti aftur orðið eins góður og hann varð þessa einu nótt þegar jesúbarnið fæddist. En – jólaguðspjallið er einnig saga um pólitískan veruleika allra tíma. Hér er ekki aðeins helgisaga sem segir frá löngu liðnum atburðum. Hún flytur einnig beinskeyttan pólitískan boðskap sem virðist vera sífellt í gildi. Þannig birtist jólaguðspjallið Marteini Lúther fyrir fimm öldum, sem pólitísk saga. Sjálfur þekkti hann vald keisara og páfa, undir það vald beygði siðbótarmaðurinn sig ekki þegar það þjónaði ekki réttlætinu.

Og þótt keisarinn dæmdi hann útlægan úr ríkinu og réttdræpan hvar sem til hans næðist og þótt páfinn fordæmdi hann í ystu myrkur um alla eilífð, daufheyrðist hann ekki við rödd samviskunnar og því missti hann ekki kjarkinn. Hann skynjaði sína eigin sögu, og jafnframt sögur allra sem börðust fyrir hinum góða málstað, sem tilbrigði sögunnar um harðstjór-ana Kýreníus landstjóra, Heródes konung og Ágústus keisara, sem allir voru harðsvíraðir fulltrúar stórveldisins mikla sem kennt er við Róm. Nafnið Kýreníus dregur fram hina pólítísku vídd jólaguðspjallsins. 2Þetta var fyrsta skrásetningin, og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. (Lk. 2.2). Með þeim orðum leiðir Lúkas okkur inn í helgisögnina um fæðingu Jesú og gerir staðarákvörðun sem vekur hugrenningatengsl við pólitíska atburði líðandi stundar. Sýrland er ekki land þjáninganna í fyrsta sinn í sögunni. Í hug okkar koma myndir ungra sem aldinna í flóttamannbúðum eða í sjúkraskýlum, flóttamenn skipta nú þegar milljónum. Myndir af börnum og konum, öldruðum, fötluðum, af sjúku fólki, særðu og niðurbrotnu eftir langt stríð og grimmt, myndir sem eru ákall til heimsins um mannúð og miskunn.

Spurning jólaguðspjallsins um gistihúsið liggur í loftinu. – En myndin sem dregin er upp í jólafrásögn Mattheusar kemur einnig í hugann, þar sem segir: Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.” Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. (Mt. 2.13-14.) Konan, sem er á flótta undan sprengjuregninu, reynir að koma barni sínu í öruggt skjól, hvort sem er með löglegum eða ólöglegum hætti. Hin forna saga fjallar einnig um þann Guð sem varð maður, eða með öðrum orðum: hvernig Guð kallar til mannúðar, þann Guð sem skilur þennan heim ekki eftir ofurseldan mannvonsku og grimmd. Hirðarnir gerðu sitt: fjárhúsið varð öruggt skjól þegar allt annað brást.

Hvað um gistihúsið Ísland? Hvernig lítur framtíðin út á tímum nýrra þjóðflutninga, á tímum aukins návígis ólíkra þjóða og ólíkra trúarbragða, á viðsjárverðum tímum þegar alþjóðlegar stofnanir sem stuðla að friði og mannúð eiga oftar en ekki við ofurefli að etja? Þannig spurningar vakna og eru þegar vaknaðar. Jólin eru ekki aðeins hátíðin þegar við þiggjum eitthvað úr hendi annarra heldur hátíðin þegar við gefum af okkur sjálfum. Því að jólin snúast um málstað Jesú. Hann er kjarni málsins. Mannúðin, sem berst okkur frá jólaguðspjallinu, er ekki sjálfhverf trúariðkun, og ekki siðfræði hagkvæmrar breytni heldur snýst hún um lífsgildi og lífsstíl sem mótast af djúpum rótum trúarinnar og birtast í mannlegum samskiptum.

Hugurinn hvarflar til áhafnarinnar á varðskipinu Tý sem bjargaði 408 flóttamönnum af flutningaskipi austur af Möltu skömmu fyrir jól. Það var rúm í gistihúsinu. Skipreika flóttafólk, konur og börn á flótta undan sprengjuregninu heima fyrir. Hvaða framtíð bíður þeirra? Við erum að tala um málstað Jesú. Trúin er ekki „já og amen“ við ákveðnum kenningum, hún er ekki heilaþvottur eða yfirborðskennd afgreiðsla á stóru spurningunum sem bærast innra með okkur. Hún á sér djúpar rætur í mannsins tilvist, í sögu hans og samtíð. Hún er þrá sem býr í vitund og vilja mannsins, þar sem þekking hans verður stundum ofursmá en þrá hans til huggunar og vonar ofurstór. Hún er þrá mannsins til þess sem er gott, fagurt og satt. En í spor hennar læðist efinn við hvert fótmál líkt og hann fylgir einnig þeim sem afneitar trúnni. Þannig er maðurinn ofurseldur óvissu lífsins við hvert fótmál en lífskraftur hans býr í þránni sem ber hann áfram lífið á enda. Þrá mannsins sem birtist í trúnni er vakin af vitund hans um eigin smæð og umkomuleysi í framandi heimi þar sem líf hans og saga er tvíræðni og óvissu ofurseld. En einmitt þar á hann athvarf í sögunni um fæðingu jólabarnsins og mynd þess í öruggum faðmi móður sinnar. Þessi mynd nær til okkar allra.

Trú er ekki spurning um magn heldur inntak eða með orðum meistara Vídalíns: „Ein veik trú, hún er þó trú“. Trúin kemur ekki með háreysti, ber sér ekki á brjóst og segir „hér er ég“, heldur minnir hún einmitt á póstkort unga meistarans Rafaels þar sem veruleiki trúarinnar snýst um hið einfalda, um lítið barn sem hvílir í faðmi móður sinnar, þiggjandi skjól í hlýum faðmi. Mildin og eftirvæntingin skína úr augum þess, ofurgrannar, brúnar línur, augun örsmáir punktar. En samt býr í þeim von aldanna, huggun kynslóðanna. Hér er myndefni allra tíma, þar sitja þau lífsgildi í hásæti sem varða veg mannsins til mannúðar, málstaður Jesú samofinn honum sjálfum. Í samfélögum brotinna hugmyndakerfa og brostinna vona horfir maðurinn inná við. Hann leitar þess, sem ekki er söluvara, og ekki yfirborðið eitt, heldur þess sem snertir dýpstu strengi í vitund hans, strengi mannúðar og mannvirðingar, strengi vonarinnar, strengi tilgangs og lífsfyllingar.

Þannig stöndum við frammi fyrir jólabarninu í faðmi móðurinnar. Þar er allt óbreytt eins og fljótið djúpa sem rennur gegnum iðandi stórborgina enn sem fyrr og um aldir. Við stöndum í sporum hirðanna nafnlausu. Þar hefur ekkert misst gildi sitt. Þeirra hlutverk í sögunni er aðeins eitt: að sýna hinum nýfædda konungi lotningu í orði og verki. Helgisagan er opin og rúmgóð, þar megum við gleðjast og fagna með þeim stóra skara allra alda sem safnast í spor hirðanna. Þetta er saga um mannúð, þar sem við fáum öll að vera á myndinni, í það minnsta í huganum, í trúnni sem ber upp von mannsins og löngun hans til að horfa í augu jesúbarnsins.

Lítið barn í jötu varðveitir vonina í hjarta mannsins, lítið jólabarn í faðmi móður sinnar, þangað sækjum við sannfæringuna sem nærir þrá okkar til þess sem gott er, fagurt og satt, þangað beinist þrá meistarans sem teiknaði jesúbarnið með brúnu bleki. Um hana snýst trúin, um þá þrá snúast jólin sem koma til okkar frá veikum loga. Megi sú birta vekja og varðveita gleðina í hjarta okkar.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1824.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar