Trúin og lífið
Postillan


Undirsíður

Skyldar prédikanir

Kirkjuárið

Prédikanir á trú.is eru birtar undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í prédikunum

Kári Auðar Svansson

Kross geðklofans og umbreyting sálarlífsins

Flutt 12. október 2014 í Laugarneskirkju

15514565622_48cd196cde_z.jpgKomið þið sæl.

Þið kannist eflaust flest við geðorðin tíu. Ég legg til að því ellefta verði bætt við: „Verðu tíma þínum í að gera skrýtna hluti og umgangast furðulegt fólk.“ Þessu viðbótargeðorði hef ég farið dyggilega eftir síðan ég veiktist af erfiðum og dularfullum sinnissjúkdómi, sem kallast ´skitsófrenía´ á útlensku, en hefur hlotið nafnið ´geðklofi´ á íslensku.

Í veikindasögu minni eru tveir meginpóstar sem ég kalla ´stóru köstin tvö´. Ég hef fengið ótalmörg smærri köst á mínum sjúkdómsferli, en tvö kastanna standa uppúr sakir þess hve löng og alvarleg þau voru. Þetta er svona eins og með heimsstyrjaldirnar tvær.

Fyrra ´stóra kastið´ brast á fyrir rúmlega tólf árum síðan, á vormánuðum árið 2002, þegar ég var 22ja ára gamall. Það var satt að segja ekki mikill aðdragandi að því kasti. Mér hafði vegnað sæmilega í lífinu fram að því. Ég hafði átt eðlilega æsku og unglingsár. Ég var alinn upp af góðum og kærleiksríkum foreldrum. Mér gekk alltaf vel í skóla og var aldrei í neinni óreglu. En svo gerðist það í aprílmánuði árið 2002 að á mig tóku að sækja mjög undarlegar hugsanir. Ég fylltist þeirri óbifanlegu sannfæringu að ég væri einhvers konar Messías og mannkynsfrelsari: að fyrirheit Krists um að koma aftur til jarðar hefði ræst í mér. Þetta olli mér skiljanlega geig allmiklum, því við vitum jú hvernig farið var með Krist þegar hann kom í fyrra skiptið. Og ofan á alltsaman herjuðu á mig hroðalegar vænisýkishugmyndir um að sjálfur Kölski væri að reyna að klófesta mig, og nota mig sem verkfæri til að tortíma öllu mannkyninu.

Það kom að vísu aldrei fram nákvæmlega með hvaða móti ég ætti að leysa af hendi það fremur viðamikla verkefni að útrýma mannkyninu, en þegar menn hyggja á stórræði þá gleymast oft hin praktísku smáatriði.

En semsagt: Á þessari delllu gekk í nokkra daga, en sem betur fer tóku foreldrar mínir snemma eftir því að eitthvað mikið væri að, og létu þau leggja mig inná bráðageðdeildina við Hringbraut. Var ég þar í nokkra mánuði, mestallan tímann stjörnugalinn.

Nú skauta ég yfir heil tíu ár, til haustmánaða árið 2012. Þá var mér farið að líða svo vel að ég taldi sjálfan mig vera læknaðan af geðklofanum, og þyrfti þar af leiðandi ekki lengur á lyfjunum að halda, enda helber fásinna að andlega heilbrigður maður væri að gleypa einhver fjárans geðlyf. Þannig að ég henti pillunum í ruslið, þvert ofan í ráðleggingar geðlæknisins míns. Það þarf engan kjarneðlisfræðing til að geta sér til um hverjar afleiðingarnar urðu: ég varð hreinlega snarsturlaður aftur og þurfti að leggjast inná Hringbrautina í annað sinn á ævinni. Þetta var semsagt ´stóra kast hið síðara´. Og hafi það fyrra verið skelfilegt þá var hið seinna ólýsanleg martröð. Gömlu ranghugmyndirnar um að djöfullinn væri búinn að hremma sálu mína, og að mannkynið væri þar með alltsaman dauðadæmt, skutu upp kollinum aftur, en í þetta sinn í margfalt sterkari og hræðilegri mynd en í fyrra ´stóra kastinu´. Auk þess fylltist ég botnlausri vænisýki í garð annars fólks og var sannfærður um að flest vildi það mig feigan hið bráðasta.

Þetta er semsagt mín veikindasaga í mjög stuttu og einfölduðu máli. Þá víkur sögunni að mínum búsetuferli. Fram að veikindunum bjó ég hjá foreldrum mínum, en eftir að krankleikinn bankaði uppá hef ég búið á nokkrum stöðum, fyrir utan vistir mínar tvær á bráðageðdeild. Ég hef legið fjórum eða fimm sinnum inná Kleppi á ýmsum deildum. Ég bjó í nokkur ár á Laugarásvegi 71, sem er endurhæfingarheimili fyrir ungt fólk með geðraskanir. Og svo gerðist það í aprílmánuði árið 2009, svo til nákvæmlega sjö árum eftir að ég tjúllaðist fyrst, að ég flutti á íbúðakjarnann á Bergþórugötu 41, þar sem ég bý nú.

Búsetan á slíkum íbúðakjarna er að langflestu leyti eins og að vera í alveg sjálfstæðri búsetu: við íbúarnir getum komið og farið eins og okkur hentar og ráðum okkur alfarið sjálfir, að gefinni sjálfsagðri nærgætni við hina íbúana. Auk þess líkar mér afskaplega vel hvað við höfum mikið einkarými, en það er mjög mikilvægt fyrir mig, þar sem ég hef býsna innhverfan persónuleika og hef mikla þörf fyrir einveru. Mér kemur mög vel saman við hina íbúana, enda eru þeir allir hlédrægir og rólegir og kurteisir eins og ég þannig að við eigum vel skap saman. Og svo er það þáttur starfsfólksins. Álíka samansafni af indælu og kærleiksríku og úrráðagóðu fólki hef ég sjaldan eða aldrei kynnst um ævina.

Og úr því ég er byrjaður að ausa hólinu í allar áttir þá vil ég þakka almætttinu fyrir það að eiga tvo frábæra réttindagæslumenn, þ.e.a.s. foreldra mína, Auði Styrkársdóttur og Svan Kristjánsson. Án þeirra fulltingis byggi ég ekki á Bergþórugötunni í dag – það er alveg á tæru!
´Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.´ Mitt klikkelsi hefur þann stóra kost í för með sér að þar sem ég er löggiltur aumingi þá er ég blessunarlega laus undan öllum þrýstingi og væntingum samfélagsins um að verða eitt eða neitt þegar ég er orðinn stór.
Mig langar að fjalla hér mjög stuttlega um fordóma. Ég hef alltaf tekið þann pól í hæðina að fordómar séu vandamál þess sem er með þá en ekki þess sem þeir beinast að. Mér dettur ekki í hug að fyrirverða mig fyrir mín veikindi á nokkurn hátt.

Einn algengasti fordómurinn gegn okkur geðsjúklingnuum er sá að við séum eitthvað ofbeldishneigðari og hættulegri en gengur og gerist. Þetta er eintóm firra. Svo ég taki sjálfan mig sem dæmi þá er versta ofbeldisverk sem ég hef framið á ævinni að skvetta vatni framan í einn starfsmanninn þegar ég var á bráðageildinni í hitteðfyrra.

Ég er semsagt alveg sauðmeinlaust grey – og svo er um langflest geðsjúkt fólk annað.

Í dag er það af mér að frétta að mér hefur aldrei liðið betur síðan ég veiktist fyrst. Ég hef verið svo til alveg laus við sjúkdómseinkennin í marga mánuði samfleytt, og kyngi nú mínum töflum með glöðu geði (enda búinn að fá ógleymanlega staðfestingu á því að pillurnar eru vinur en ekki óvinur). Ég reyni að passa upp á mataræðið og fer í sund þrisvar í viku og syndi dágóðan sprett í hvert skipti.

Margt fólk trúir því að himnaríki og helvíti séu staðir við förum á eftir að við geispum golunni. Ég vil hins vegar meina að himnaríki og helvíti séu hér og nú, í þessu jarðneska lífi voru: þetta eru ekki staðir heldur sálræn ástönd.

Ég hef sokkið ofan í svartasta helvíti, og það þýðir að héðanífrá getur leiðin í stórum dráttum aðeins legið í eina átt: uppávið, í átt til himnaríkis.

Og ég leyfi mér að segja að ég sé þegar kominn nokkuð áleiðis í þá átt. Eftir seinna ´stóra kastið´ hefur orðið einhver undursamleg umbreyting á sálarlífi mínu, á þá leið að ég er farinn að sjá hina mildu hönd Guðs í hérumbil öllu sem gerist í lífi mínu. Líf mitt er hárfínt úrverk þar sem hver einasti partur er ævinlega á sínum hárrétta stað á hárréttum tíma. Og fyrst það er þannig í mínu lífi hlýtur það líka að vera svo í lífi alls annars fólks, því varla er ég nokkuð sérstaklega útvalinn í þessu sambandi.

En þá vaknar hin eðlilega spurning: úr því Guð er með hönd sína í öllu sem hendir mig, hvers vegna lét hann mig þá bera hinn ógnarþunga kross geðklofans?

Og ég held að svarið sé einfalt: Vegna þess að hann vissi að ég væri nógu sterkur til að bera hann, og að ég yrði enn sterkari af því að bera hann.

Ég þakka áheyrnina. Guð blessi ykkur öll. ☺

Flutt í geðveikri messu í Laugarneskirkju, 12. október 2014.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og Þjóðkirkjan. Flettingar 2469.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar