Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Eins og stelpa

13. júlí 2014

„Þú kastar eins og stelpa,
grípur eins og stelpa,
en mér finnst það bara vera hrós.“

Þetta sungu rokkstelpurnar fimm í hljómsveitinni Hneta mínus einn á lokahátíð Stelpur rokka fyrr í sumar. Lagið þeirra heitir Við erum við og það er fullt af því sem hefur verið kallað „girl power“ á ensku. Þetta kemur kannski skýrast fram í viðlaginu:

„Við erum stelpur og við getum allt sem við viljum gera,
enginn getur sagt okkur hvernig við eigum að vera.“

Þess má reyndar geta að trommari hljómsveitarinnar er með okkur í dag. Í dag leikur hún að vísu á þverflautu.

Annars hefur þetta verið frekar strákamiðlægt sumar. Fótboltinn hefur verið í öndvegi og það sem strákasport. HM í Brasilíu lýkur í dag og hefur nú staðið yfir í tæpan mánuð sem hefur verið fullur af hetjum og skúrkum, flottu spili og leiðinlegu, vonum og væntingum - jafnvel hroka og hleypidómum. Úrslit hafa bæði verið fyrirsjáanleg og óvænt. Við erum spennt að sjá liðin leika til úrslita á eftir og vonumst til þess að fá að sjá góðan og skemmtilegan bolta. Og vonin er auðvitað sú að betra liðið vinni, en það spillir ekkert fyrir ef það er mitt lið.

Allir sem þola ekki HM anda svo léttar því nú er lokið því sem sumir kalla „Babýlonarherleiðingu“ sjónvarps og samfélags.

• • •

Kæru hlustendur.
Ég ætla að ræða svolítið um HM í þessari útvarpsprédikun. En ég bið þá sem hafa fengið nóg af boltanum að stilla nú samt ekki á aðra stöð því boltinn verður tengdur við samfélagið okkar og stóru spurningarnar sem við erum alltaf að glíma við í kirkjunni - um það hvernig við getum verið góðar manneskjur sem búa til gott samfélag. Það ættu því allir að fá eitthvað við sitt hæfi, bæði þau sem elska HM og þau sem gæti ekki verið meira sama.

Knattspyrnusambandið FIFA leggur ríka áherslu á sanngjarnan bolta og réttlátan - Fair play. Í lestrum þessa dags sem við lásum frá altarinu hér áðan mátti heyra stef sem kallast á við boltann:

Í lexíunni heyrðum við:

„Ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, “ (Jer 7.1-7)

Og í pistlinum er talað um ásteytingu og fall, semsagt um tæklingar:

„Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.“ (Róm 14.7-13)

Og í guðspjallinu er rætt um dóma og fyrirgefningu - um sanngjarna spilamennsku:

„Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða.“ (Lúk 6.36-42)

Auðvitað fjalla þessir lestrar ekki um fótboltann sem slíkan, þeir fjalla um gott samfélag. En gott samfélag og góður fótbolti geta kallast á. Þannig er það bara.

• • •

HM í knattspyrnu er reyndar ekki eina heimsmeistaramótið sem er í gangi í Brasilíu þessa dagana. Þar fer líka fram „heimsmeistaramót“ barna í götubolta. Um þá keppni mátti lesa á bloggi Unicef - barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna um daginn. Mótið er verkefni á vefnum Unicef og samstarfsaðila þeirra í Brasilíu.

Keppnin fór fram í smábænum Vila Cabral Miranda og þarna kepptu lið Paragvæ, Kenýa, Síle og Brasilíu og fleiri þjóða. Vila Cabral Miranda er ekki ríkur bær og kannski helst þekktur fyrir að í bænum eru tvö öryggisfangelsi og þar gerðu fangarnir uppreisn í fyrra og það var mikið ofbeldi og töluvert blóð. Mörg börnin sem búa í þorpinu eiga reyndar föður, móður, bróður eða systur í öðru hvoru fangelsinu. Þetta eru semsagt ekki forréttindakrakkar.

Á undan keppninni voru búnir til - föndraðir - pappírsfánar fyrir hverja þjóð og svo stilltu liðin sér upp með sína fána og það var tekin mynd. Hver leikur fór svo fram í þremur hlutum:

Fyrst komu liðin sér saman um reglurnar sem skyldu gilda.
Svo spiluðu þau fótboltaleikinn.
Síðan lögðu þau mat á leikinn og komust að niðurstöðu um úrslitin.

Og hvers konar reglur skyldu svo gilda? Til dæmis: Allir eiga að fá að vera með boltann. Ekki blóta. Ekki hrinda neinum eða meiða hann. Allir eiga óska til hamingju þegar einhver skorar mark - líka þeir sem eru í hinu liðinu. Allir spila fallega og vera sanngjarnir. Í liðunum eru líka litlir og stórir krakkar, strákar og stelpur, ungir og eldri. Þess vegna gildir sú regla stundum að ef ungur og lítill leikmaður skorar þá fást tvö mörk fyrir.

Hvert er svo markmiðið með þessu heimsmeistaramóti? Að krakkarnir læri að bera virðingu fyrir hvert öðru, læri að spila á sanngjarnan hátt, læri að leika saman sem lið.

Virðing.
Sanngirni.
Samfélag.

Þetta er flott verkefni og það er til fyrirmyndar og við getum lært af því. Ekki bara fyrir fótboltann heldur lífið allt. Ég held reyndar að þetta sé svona náungakærleikaverkefni - eins og við segjum stundum á kirkjumáli. Þetta er dæmi um hvernig náungakærleikur virkar í daglega lífinu.

Náungakærleikurinn sem lífsviðhorf er alla jafna kenndur við Jesús. Við erum vön að horfa til hans sem fyrirmyndar og sjáum hann jafnvel sem sterkan leiðtoga. Á sínum tíma var það samt þannig að Jesús gekk gegn ríkjandi viðhorfum. Þegar menn væntu sterks leiðtoga sem sameinaði þjóðina og höfðu væntingar um að hann viðhéldi gildum eins og auga fyrir auga og tönn fyrir tönn bauð Jesús hina kinnina. Fyrir vikið virkaði hann á suma sem veikur leiðtogi.

Kannski hefðu sumir gefið honum einkunnina þú stjórnar „eins og stelpa“.
En hjá honum – eins og hjá rokkstelpunum – verður það að hrósi og ágætiseinkunn.

• • •

„Við erum stelpur og við getum allt sem við viljum gera,“ sungu stelpurnar í Hneta mínus einn. Þær hafa rétt fyrir sér. Textann þeirra má reyndar yfirfæra á stráka líka því þeir eiga ekki frekar en stelpurnar að þurfa að beygja sig undir staðalmyndir. Það á að vera hrós að segja við einhvern:

„Þú kastar eins og stelpa.“

Og það á líka að vera hrós að segja:

„Þú kastar eins og strákur.“

Sem samfélag eigum við að gera það að markmiði okkar að „eins og stelpa“ og „eins og strákur“ sé hróseinkunn en ekki skammaryrði. Þannig að við getum öll verið stolt af því hvernig við erum.

Þess vegna held ég að við eigum að við taka til okkar og gera að okkar síðari línuna í viðlagi rokkstelpnanna:

„Enginn getur sagt okkur hvernig við eigum að vera,“

Hvers vegna?
Af því að við eigum ekki að vera steypt í sama mót.

Samfélag er nefnilega samkomulag. Það er samkomuleg þeirra sem eru ólíkir. Og gott samfélag er samkomulag um að lifa góðu og fallegu lífi saman, lífi sem einkennist af sanngirni, fordómaleysi og gjafmildi eins og ritningarlestrar þessa dags minna okkur á.

Ef það væri til HM í því að vera góð þjóð þá held ég að landsliðsþjálfarar gerðu vel í því að leggja áherslu á þetta þrennt.

Og þótt ekkert sé heimsmeistaramótið í þessu þá getum við nú samt byrjað, hvert og eitt, þar sem við erum: í bílnum, á hjólinu eða á göngu. Í bústaðnum, tjaldinu eða á farfuglaheiminu. Heima og að heiman getum við verið
sanngjörn,
fordómalaus
og gjafmild.

Og við skulum bara vera það.
Saman.

Góða skemmtun í kvöld.
Eigið dásamlegt sumar og verið Guði falin í leik og starfi, heima og að heiman.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3181.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar