Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Úr djúpinu

15. september 2013

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.

Það var einu sinni snillingur sem hét Oscar Wilde. Hann var írskur rithöfundur og skáld og sló í gegn í lok þar síðustu aldar í London, fyrir leikritin sín, sem þóttu bregða upp naskri og skarpri mynd af samtímafólki hans. Hann var líka frægur fyrir að skemmta sér grimmt og taka vel á því á djamminu. Svo vel að það stórhneykslaði fólk. Ekki bætti úr skák að hann elskaði karlmenn. Á það var ekki beinlýnis litið á með velþóknun.

Enda fór það svo að Oscar Wilde var dæmdur í fangelsi fyrir það sem var kallað ósæmileg hegðun. Hegningin gekk m.a. út á það að vinna erfiðisvinnu og lifa við skort á þægindum, aðgengi að bókum og góðri næringu. Oscar Wilde brotnaði hægt en örugglega niður. Líkamlega þjáðist hann vegna slæmrar aðstöðu en þó kvaldist hann enn meira í hjartanu, rændur ást, virðingu, nánd, og gleðinni af því að hafa bækur við höndina til að næra og örva hugann.

Hann var orðinn það langt leiddur að einhver sá aumur á honum og gaf honum aðgang að bókum og leyfði honum líka að skrifa. Það var rithöfundinum lífsnauðsynlegt. Hann valdi að skrifa bréf til unga mannsins sem hann hafði elskað, og úthella hjarta sínu frá þeim stað sem hann fann sig á - úr djúpinu, úr þjáningunni, úr svartnættinu.

Oscar Wilde lifði ekki lengi eftir að hann losnaði úr fangelsinu. Eftir dauða hans var bréfið sem hann skrifaði gefið út og hlaut heitið De profundis - eða Úr djúpinu - sem er tilvitnun í Davíðsálminn sem er lesinn í kirkjunni í dag. Það undirstrikar þá sammannlegu reynslu sem kemur fram í sálminum, að þekkja þjáninguna og sársaukann, upplifa einangrun, niðurlægingu og sorg.

Hvað gerist í djúpinu?

Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.

Í djúpinu verður til þráin eftir lífinu, sem er í sálminum er tjáð eins og þrá sálarinnar eftir Guði. Guði sem er líf í dauða, ljós í myrkri, vatn hinum þyrstu, matur hinum svöngu og klæði hinum köldu. Guð sem reisir við og færir sjálfsumhyggju þeim sem hefur misst alla sjálfsvirðingu.

Það er enginn endir á sorginni og þjáningunni í kringum okkur. Þegar við kveikjum á fréttum eða kíkjum á netið, fáum við reynslu fólks beint í fangið og það er eins og okkur sé boðið að horfa í stutta stund á lífið með augum þeirra sem þjást.

Gagnast það þeim sem finna til og upplifa djúpið að hafa svona marga áhorfendur að því sem þau ganga í gegnum? Það ætti að auka skilning og efla samúð að fá eins nákvæman fréttaflutning af hörmungum sem fólk gengur í gegnum og raun ber vitni. En hverju breytir það fyrir fólk sem missti börnin sín í efnavopnaárás í Sýrlandi að við á Íslandi getum fylgst með því sem gerðist, séð hræðilegar myndir - og svo kannski andvarpað léttar yfir því að við erum svona langt í burtu?

Flóttamenn og hælisleitendur

Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.

Nú er verið að sýna bíómynd sem heitir Elysium. Myndin er að vissu leyti framtíðarhrollvekja, því hún sýnir okkur jörðina sem hálf óbyggilega vegna offjölgunar, mengunar og fátæktar. Ríka fólkið hefur hins vegar komið sér þægilega fyrir úti í geimnum, í geimstöð þar sem lífið er látið líkjast sólríku og áhyggjulausu lífi í Beverly Hills eða svipuðum stöðum. Í þessari tilbúnu paradís hrjá engir sjúkdómar og fólk lifir fram í háa elli án þess að finna fyrir eðlilegum óþægindum öldrunarinnar.

Eins og gefur að skilja er mikil ásókn í að komast til þessarar paradísar og fólk á jörðu niðri leggur mikið á sig til að freista gæfunnar og næla sér í far. Fæstir komast á áfangastað, því öflugt eftirlits- og varnarkerfi þjónar sínum tilgangi. Leikkonan frábæra, Jodie Foster, leikur einmitt harðsnúinn yfirmann varnarmála og hikar ekki við að skjóta niður ókunn farartæki full af konum og börnum í leit að betra lífi. Í einni senu fá ráðamenn geimstöðvarinnar samviskubit yfir þessari harðlínunálgun en Foster ver gjörðir sínar með því að segja: það er bara með þessum hætti sem ég get tryggt ykkur sama lífstíl og viðhaldið lífsgæðunum Elysium.

Í raun eru svipaðir hlutir að gerast í dag því ójöfnuðurinn í heiminum er gríðarlegur. Fólk leitar betra lífs fyrir sig og fyrir börnin sín, með því að reyna að flytja til landa þar sem ekki ríkir hungur, börn fá menntun og læknishjálp, og fólk er frjálst. Þessum flutningum er mætt af mikilli hörku sem er einmitt réttlætt á sama hátt og í Elysium - til að standa vörð um lífsgæði okkar sem búum við þessi gæði.

Það er hægt að drepa fólk án þess að skjóta það niður - með því t.d. að hunsa mannréttindi og mannvirðingu þeirra sem hafa þurft að flýja heimaland sitt en komast ekki inn í kerfið og fara því á mis við eðlilegan stuðning og tækifæri til að leggja sitt af mörkum og blómstra.

Úr djúpinu ákalla flóttamenn og hælisleitendur, úr djúpinu ákalla börn og fullorðnir í stríðshrjáða Sýrlandi. Þau leita eftir lífi og öryggi, bíða þess að einhver heyri grátbeiðni þeirra, þrá miskunn, lausn og morgun.

Leið til lífs

Ég er upprisan og lífið.
Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.
Og hver sem lifir og trúir á mig
mun aldrei að eilífu deyja.

Boðskapurinn um líf þrátt fyrir dauða, og um trúna a Jesú sem lífsafl, talar sterkt inn í þessar aðstæður. Í guðspjallinu fylgjum við Jesú inn í sorgarhús, þar sem fjölskylda syrgir látinn ástvin. Margir eru komnir þangað til að sitja með þeim og til að hugga. Orð Jesú hitta hin syrgjandi fyrir og gefa von, von sem gefur styrk til að lifa áfram, fara á fætur næsta dag og halda áfram.

Hvað getum við gert til að færa von inn í vonlausar aðstæður? Hvernig getum við huggað þau sem eru í djúpinu? Gerum við það með því að benda á Jesú Krist sem gengur inn í aðstæður manneskjunnar, til að vera með henni, sama hvað hún gengur í gegnum? Gerum við það með því að benda á Jesú sem segir „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi“?

Eða gerum við það með því að beita þeim áhrifum sem við höfum til að jafna aðstæður og ryðja í burt hindrunum sem hefta fólk í að blómstra og vaxa? Gerum við það með því að hvetja þar til gerðar stofnanir til að einbeita sér að því að tryggja öryggi þeirra sem svipt hafa verið mannréttindum og bera byrðar átaka og ofbeldis, í stað þess að láta undan pólitískum þrýstingi og annars konar hagsmunum?

Ég er sannfærð um að það er hægt að gera hvoru tveggja. Það var ánægjuefni að heyra um áætlanir Íslendinga að taka á móti flóttafólki frá Íran og Afganistan næstu tvö árin. Og það vekur von að hernaðarveldi virðast ætla láta reyna á viðræður og samstarf um eyðingu efnavopna í Sýrlandi í stað vopnaðra árása.

Erfiðar aðstæður kalla á alvöru lausnir. Þess vegna dugar Jesús - vegna þess að hann er alvöru. Djúpið sem við finnum okkur í getur verið staður og tjáning óreiðu sem leiðir til sköpunar og nýs lífs. Þau sem eru í bata frá áfengis- og vímuefnaneyslu tala stundum um botninn og hvernig þau hafi fundið hann. Og frá botninum er bara ein leið - og það er upp. Þess vegna skiptir máli að trúa - trúa að það sé líf, þrátt fyrir dauða, að það sé ást, þrátt fyrir hjartasorg, trúa að þegar við köllum sé einhver sem heyrir.

Það er kraftur í djúpinu sem reisir okkur við og það er sá kraftur sem gefur líf í dauða og nýjan dag. Einn dag í einu, eða lítil hænuskref, með Jesú Kristi, sem er upprisan og lífið.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2207.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar