Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Stígur Reynisson

Til hamingju Sindramenn- og konur, og allir Íslendingar

1. desember 2013

Til hamingju með daginn! Já það má vel segja til hamingju því í dag er 1. desember, fullveldisdagurinn, en þennan dag árið 1918 tóku í gildi lög milli Íslands og Danmerkur, svokölluð Sambandslög. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Íslenski fáninn var dreginn að húni í fyrsta skiptið við stjórnarráðið sem fullgildur þjóðfáni þennan dag og dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra flutti ræðu af tröppum hússins við þetta tækifæri og sagði meðal annars:

Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar, hvert stórverk sem unnið er af oss eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar […] Vér biðjum alföður að styrkja oss til að lyfta fánanum til frægðar og frama …

Sambandslögin voru samþykkt eftir þrotlausa vinnu lýðveldissinna. Þetta voru framsýnir menn sem hugsuðu stórt og vissu að Ísland væri nógu stór þjóð til að geta komist af án hjálpar frá Danakonungi. Þó að þessi dagur sé ekki lengur haldinn hátíðlegur líkt og við þekkjum með 17. júní þá minnumst við hans enda voru Sambandslögin stór þáttur í sjálfstæði Íslands árið 1944.

Nú í dag er fólk eflaust með annað í huga en fullveldi landsins. Því í dag hefst önnur stærsta hátíð kristinna manna. Í dag er fyrsti í aðventu, en orðið aðventa er komið frá latnesku orðunum Adventus Domini, sem merkir „Koma Drottins“. Fyrsti í aðventu stýrist af upphafi nýs kirkjuárs en það hefst í kringum mánaðarmótin nóvember desember á ári hverju.

Á einu kirkjuári er farið í gegnum líf og starf Jesú Krists. Þetta lífshlaup sjáum við í þeim textum sem lesnir eru í messum kirkjunnar. Í vikunni ræddi ég einmitt um kirkjuárið við fermingarbörnin og sagði þeim meðal annars að það væri ekki ég sem ákveddi uppá mitt einsdæmi hvaða ritningastaðir væru lesnir í messunni. Ég loka ekki augunum og opna Biblíuna og bendi í bókina á stað sem ég ætla að lesa. Það sama má segja um litina sem við prestarnir notum í messum. Í gegnum kirkjuárið er notast alla jafna við fjóra liti í höklum og stólum en litirnir tala sínu máli og hafa táknræna merkingu. Fyrst þar er nú að líða að jólum spurði ég fermingarbörnin hver væri nú litur aðventunnar og strax var kallað: rauður! Börnin kváðu því þegar ég sagði þeim að hinn eiginlegi litur aðventunnar væri í raun fjólublár.

Aðventa er einnig þekkt undir nafninu jólafasta en það orð vísar í hefð fólks fyrr á öldum að fasta í þær fjórar vikur sem hún stendur yfir. í Grágás segir: „[Á] Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af“.

Í dag njótum við aðventunnar. Við kveikjum á kertum, kveikum á aðventukransinum. Við sungum lag um fyrsta kertið sem er kallað spádómskertið en það á að minna okkur á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans. Svona til upprifjunar þá heita hin kertin Betlehemskertið, hirðakertið og svo englakertið. Við njótum þess að vera í faðmi fjölskyldu og vina, setjum upp ljós í kringum okkur og bíðum með eftirvæntingu komu jólanna, bíðum eftir komu Krists.

Það er á þessum tíma sem við finnum að fjölskyldu og vinaböndin styrkjast. Öllum finnst gott að hafa gott fólk í kring um sig og tilheyra hópi og finna fyrir umhyggju, ást og styrk. En hvað er það sem sameinar hópa, hver er sú dýnamík sem verður til þess að það myndist hópur eða jafnvel heil þjóð. Og fyrst það fullveldisdagurinn þá má einmitt velta því fyrir sér hvað er það sem gerir þjóð að þjóð.
Það er nokkuð ljóst að hér á landi býr fólk með stóra drauma og ekki síst stórt hjarta. Við Íslendingar viljum sýna styrk okkar þrátt fyrir smæð landsins. Það sést vel þegar við stöndum á bakvið okkar fólk í því sem það tekur sér fyrir hendur. Þetta sjáum og sáum við þegar ljóst var að Íslendingar ættu góðan möguleika að komast á heimsmeistaramótið í knattspyrnu á næsta ári. Það má segja að samfélagið hafi nánast lagst á hliðina vegna leikjanna við Króatíu. Þegar kveikt var á útvarpinu dagana fyrir leik þá var lítt fjallað um annað en þessa leiki. Menn og konur úr öllum stigum samfélagsins voru fengin sem ráðgjafar og hver hafði sína skoðun. Eins vildu allir helstu knattspyrnuáhugamenn miða á leikinn hér heima og því varð allt brjálað þegar miðarnir kláruðust áður en flestir höfðu risið úr rekkju, svo mikill áhugi var á leiknum.

En fyrst ég er að minnast á knattspyrnu þá verð ég að skjóta því að og minnast á eitt afmælis „barn“ sem á 79 ára afmæli í dag. Ungmennafélagið Sindri var nefnilega stofnað þennan dag árið 1934 og er því 79 ára.

En er það knattspyrnan sem gerir okkur að þjóð? Er það hún sem sameinar alla á íslandi? Nei, það eru nefnilega sumir sem hafa engan áhuga á þessari íþrótt. Sem mér finnst reyndar alveg óskiljanlegt. En við höfum margar mismunandi skoðanir á hvað það sé sem gerir þjóð að þjóð. Því hefur meðal annars verið kastað fram að tungumálið myndi þjóð. Þú verður semsagt ekki Íslendingur fyrr en þú kannt íslensku, eða hvað? Er það ekki ósanngjarnt gagnvart þeim sem vilja vera og verða íslendingar en eiga í erfiðleikum með málið. Fólk sem elskar þetta land og þessa þjóð jafnmikið og hver annar íslendingur.

En er það ekki það sem Íslendingar eiga sameiginlegt, að elska land og þjóð. Að vilja aðstoða landa sína þegar eitthvað bjátar á. Við viljum vera góð við náunga okkar og sýna kæraleika. Ég held að við viljum vera eins og maðurinn sem var uppi fyrir rúmum 2000 árum. Jesús Kristur var kærleikurinn holdi klæddur. Það skipti hann engu máli hvort fylgjendur hans voru karlar eða konur, gyðingar eða grikkir. Það voru allir velkomnir að sama borði og Jesú og eru það enn.

Í guðspjalli dagsins kemur Jesús til Jerúsalem þar sem honum er tekið fagnandi af stórum múgi enda fólkið búið að bíða lengi eftir að hitta og sjá meistarann sjálfan, og með aðventunni hefst okkar bið eftir Jesú sem líkur með miklum fögnuði á aðfangadag. Þá fögnum við komu frelsarans í heiminn er hann fæddist í fjósi og var lagður reifaður í jötu. Það er vonandi að núna í desember getum við fundið fyrir sama spenningi og íbúar Jerúsalem fundu fyrir 2000 árum er þeir biðu freslarans og vonandi getum við sýnt af okkur sama kærleik og frelsarinn sýndi meðan hann gekk hér á jörðu. Megið þið njóta aðventunnar í faðmi fjölskyldna og vina, og hafið kærleikan ofarlega í huga á aðventunni. Og ég segi aftur til hamingju með daginn allir kristnir, allir Sindramenn- og konur, og allir íslendingar.

Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1463.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar