Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Arfurinn og draumalandið

16. júní 2013

Lítill barnskollur og augu sem geyma dýpt heimsins. Vonir og væntingar sem felast í nýju lífi, upphafi. Svo tekur við barátta veraldarinnar og daglegt líf. Ekki fer ævinlega allt eins og við kusum í upphafi og það er sárt.
Vonir sem velkjast og væntingar sem svo kannski bregðast. Svo eru það stundirnar þegar ekkert verður eins og áður var, því á einhvern hátt hefur barnið, unglingurinn týnst, týnst sjálfum sér. Drengurinn sem svo snemma vildi bragða lífsins gæði var einn í þessum hópi barna veraldar, líf hans hófst sem annarra og hann týndist. Týndi sonurinn.

Kæri söfnuður ! Á þessum slóðum erum við stödd í guðspjalli dagsins í dag þegar sagan um unga manninn, innan við tvítugt, sem kýs að týnast fjölskyldu sinni og öllum þeim sem honum unnu og bundu væntingar við líf hans og þegar við mætum honum í frásögunni er hann týndur sjálfum sér. Honum sem fannst hann svo tilbúinn til að taka lífið í sínar hendur

Þetta er eins og kunnugleg atriði úr fortíð, kannski eilíf endurtekning um eftirsókn eftir draumum – um eilífa hamingju og stanslaust stuð engum háður og ekki spurt að leikslokum né hverju er sóað.
En kannski er þessi saga lúin, velkt og klisjukennd ? Orðin meðferðarúrræði en ekki lifandi boðskapur í mínu lífi og þínu.

Hugsum okkur um á nýjum degi öldum síðar með opnum huga verða orð guðspjallsins í dag eins og að opna kassa sem pakkað var niður í fortíðinni. Upp er dregið eitthvað sem löngu var gleymt mynd eða hlutur, gulnað og þung geymslulyktin en lifandi minningar og hugsanir. Geymir myndir horfinna daga merktar hlýju eða angist, gulnuðum veruleika sem er marglesinn. Haldreipi eða eitthvað sem vekur spurn. Sagan kunnuga en ekki endurtekna heldur margræð snilld eins og listaverk sem skoðað þarf af opnum huga.

Sagan um týnda soninn, arfinn, eldri soninn, föðurinn, veisluna, vonbrigðin, fyrirgefninguna, græðgi, fyrirhyggjuleysi, kærleika, umhyggju og tryggð og ást, drauma og heimili. Bráðlæti ævintýragjarns unglings sem þarf að reka sig á til að skynja hvar elskan og umhyggjan býr, hvers virði hinn opni faðmur kærleikans er sem stendur opinn.
Orð frásögunnar færa okkur kunnugleg andlit, kunnuglega sýn úr bágum aðstæðum og svo veislu þar sem kræsingar eru bornar á borð. Gæti gerst í næsta húsi eða götu, kannski bara undir þínu þaki. Gæti verið þín fjölskylda eða mín. Minn arfur eða þinn. Barnið mitt eða þitt. Týnt en aftur snúið og við höldum veislu því við elskum og fyrirgefum.

Þetta er lifandi orð sem við leitum í og miðlar lífssýn sem skapar virðingu fyrir arfinum sem svo margt snýst um í þessari sögu, til eða sóaður. Þeginn úr hendi föðurins sem réttir okkur arfinn í hendur þrátt fyrir allt. Faðirinn, sem er í okkar huga Guð ohefur trú á mannkyni sem oft er ekki traustsins vert. Því við horfum í heim óréttlætis og misskiptingar, stríðs og átaka. En Hann hefur fært okkur arfinn, fjöreggið, landið okkar lífið sem bærist í hjarta okkar og lífið sem við fáum til að fóstra, börnin. Samofið og samtvinnað í hugum okkar, líf og skapari.

Dægurflugur og stundaránægja verða merkingarlausar þegar alsleysið tekur við en verst er alsleysi hugans og trénaðar bragðalausar tilfinningar veraldarinnar. Bragðast eins og hratið sem maðurinn ungi þurfti að leggja sér til munns. Svo rennur upp þessi stund hins raunverulega alsleysis. Þegar pilturinn gengur í sig. Kemur til sjálfs sín og snýr til baka. Þá er tómið eitt í huga hans en skíman sem vísar á allt það sem skiptir máli, þá mestu virðingu sem hann naut í lífinu. Ekki virðing vina og samferðafólks sem fengu að taka þátt í gleðskap og sóa með honum arfinum heldur þess sem rétti honum arfinn þegar hann heimti hann og átti bænirnar sem fylgdu honum út í veröldina. Augnblikið þegar við vitum hvað það er sem skiptir mestu máli, það eru ekki heimsins auðævi heldur friður í sál og sátt. Traustið og tryggðin

Um leið og þessi frásaga er sigurganga þess sem þarf á því að halda að koma til sjálfs sín þá er svo mikil tregi undirliggjandi. Við göngum ekki á rétt einhvers eða gerum á hluta, nema finna til eftirsjár. Gerum okkur grein fyrir að minningin er sársaukafull, ekki gleymd. Arfurinn var góður en sá sem sóaði honum, kom eignum föður síns í verð til að eiga ljúfa daga sem tóku enda.
En það sem eyðist verður ekki aftur samt gefið, þannig er það í okkar hversdegi en minni skaparans er von en ekki tuð um heim á heljarþröm. Við stöldrum við orðin úr guðspjalli dagsins um unga manninn: “Nú kom hann til sjálfs síns “(v.17). Þar verða skilin í hans lífi að horfast í augu við misheppnað frumkvæði að eigin lífi og það varð hann að játa og viðurkenna.
________________________________
Við nefnum söguna af týnda syninum eins og hlut til að alhæfa um. Erum við þá að segja að sagan sé endurtekning, hin óumflýjanlegu örlög. Nei þannig er ekki orð Guðs, það endurnýjast í nýjum aðstæðum, ekkert þeirra barna sem við nefndum í upphafi er borið til sama lífs, engin manneskja eins, engar aðstæður eins, því Guð gengur inn í veröld sína sem er lifandi. Endurtekningin bindur ekki klafa á fagnaðarerindið – né það að draumar mínir og þínir, sorg mín eða þín hafi orðið áður. Mistök eru stundarinnar en gæska Guðs eilíf.

Í sögu Milan Kundera, „Óbærilegur léttleiki tilverunnar“ rifjar sögumaður upp síðari heimsstyrjöldina á fyrstu síðum sögunnar en hann ólst upp á þeim tíma. Mynd af Hitler rifjar upp þennnan tíma og hann segir:

“Sættirnar við Hitler kom upp um djúpstæða siðferðilega úrkynjun sem einkennir þann heim sem byggir tilveru sína á því að ekkert komi aftur, vegna þess að í þeim heimi er allt fyrirfram afsakað og þar með óhugnanlega leyfilegt !“ (bls. 8)

Það er engin bindandi endurtekning í heimi Guðs heldur fyrirgefning, endurnýjun og frelsi til að láta gott af okkur leiða. Ekki ónýt sýn þegar við horfum til arfsins okkar sem þjóðar í nálægð þjóðhátíðardags. Arfurinn, landið sem er okkar draumaland, sem við eigum að vaka yfir og vernda. Það er í okkar fóstri eins og börnin okkar. Til láns og ábyrgðar um stund. Arfurinn er líka fólginn í elsku Guðs sem leiðir okkur upp úr hjólförum endurtekningar og úrtölu inn í Draumaland eins Jón Trausti eða Guðmundur Magnússon orti um. Draumalandið sem birtir fegurð og við bindum tryggð okkar við,

En við eigum ekki bara að hirða um það sem okkur telst til að við eigum. Arfurinn er líka okkar að skilja eftir og hvað leggjum við til, Draumalandið, tryggðina og virðinguna. Tryggðin sem er þeim svo mikils virði sem njóta hennar. Tryggð frelsarans, skaparans við okkur, tryggð okkar við arf sköpunarinnar, tryggð við landið okkar og löngun til að vernda og virða það sem okkur er fengið í hendur. Hina staðföstu náttúrusýn fegurðar, angan af blómabreiðum, Við viljum ekki sleppa þessari fegurð arfsins sem birtist í náttúru landsins okkar. Arfur er ekki eyðslufé heldur það sem streðað hefur verið fyrir af öðrum en okkur sjálfum og er skilið eftir fyrir okkur. Ekki okkar eign heldur arfleið borin áfram í þínar og mínar hendur.
__________________________

Við stöldrum við að lokum í fögnuði, við hljóðfæraslátt og dans, í veislu til heiðurs þeim sem átti hana ekki í raun skilið. Piltinum var fagnað, okkur er fagnað hvern dag þegar við snúum okkur að frelsara okkar en það býr í kærleika Guðs tregi þess sem býr við afskiptaleysi en líka botnalaus von um framtíð sem er ekki sjálfsögð heldur auðæfi sem urðu auðæfi af því elska Guðs skóp heim er var góður. Og við viljum góðan og réttlátan heim og við þann heim bindum við okkar tryggðarband. Hlaupum ekki á vit frelsistilfinningar sem byggir á lögmáli endurtekningar þar sem allt fyrirfram afsakað og leyfilegt. Allt falt eða metið til fjár.
Fegurðin býr í virðingunni, kærleikanum til náungans og allra gjafa Guðs Kærleikurinn birtist í opnum faðmi skaparans, Guðs sem elskar, er okkur faðir og móðir,

“ kemur til móts við þá sem ástunda réttlæti, minnast vega hans”

- eins og Jesaja spámaður orðaði það
__________________________________

Vörpum spurningum okkar á vit vonarinnar. Um heiminn okkar, arfinn , jörðina okkar, draumalandið sem við erum leidd á móts til. Þar sem við bindum okkar tryggðarbönd við skapara himins og jarða. Þann sem kemur til móts við okkur löngur áður en við náum að snúa okkur til hans. Gefur gæði jarðar, grósku lífsins. Kallar á ábyrgð okkar á lífinu, landinu okkar, gefur frelsi til góðra verka í veröld sem er stöðugt ný og kallar á nýja hugsun og ást Guðs og okkar.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Stólvers: Draumalandið e. Guðmund Magnússon (Jón Trausta)

Draumalandið
Ó leyf mér þig að leiða,
til landsins fjalla heiða,
með sælu sumrin löng.
Þar angar blómabreiða
Við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég,
þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mitt tryggðarband.
Því þar er allt sem ann ég,
þar er mitt draumaland.

Lexía: Jes 64.3-8
Enginn hefur hlýtt á, ekki lagt við hlustir,
ekkert auga hefur séð neinn Guð nema þig
er kemur þeim til hjálpar sem á hann vona.
Þú kemur til móts við þá sem ástunda réttlæti,
minnast vega þinna.
En þú reiddist því að vér syndguðum,
risum gegn þér frá fyrstu tíð
og urðum allir eins og óhreinn maður,
allar dygðir vorar eins og saurgað klæði,
vér visnuðum allir sem laufblað
og sekt vor feykti oss burt eins og vindur.
Enginn ákallar nafn þitt,
hreyfir sig eða reynir að halda sér fast við þig
því að þú huldir auglit þitt fyrir oss
og ofurseldir oss vegna synda vorra.
En þú, Drottinn, ert faðir vor,
vér erum leir, þú hefur mótað oss
og allir erum vér handaverk þín.
Drottinn, reiðstu ekki um of
og minnstu ekki sektar vorrar um aldur.
Lít til vor, vér erum allir þjóð þín.

Pistill: 1Tím 1.12-17
Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú. Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.
Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum.
En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.
Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag.
En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim.
Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Kollekta:
Drottinn Guð, trúfasti vörður og verndari þeirra, sem á þig treysta, án þín er ekkert máttugt, ekkert heilagt: Auðga oss miskunn þinni, að vér megum undir þinni stjórn og leiðsögn þannig fara með tímanlegt gæði, að vér missum ekki hinna eilífu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1798.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar