Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

Synd og skömm

4. mars 2013

Prestur nokkur predikaði mikið um nauðsyn þess að játa syndir sínar og fá fyrirgefningu með því að ganga til altaris. Hann endaði hverja einustu predikun á því að bjóða fólki að fá tíma hjá sér til að játa syndir sínar. Kona nokkur ákvað að panta nú tíma hjá prestinum og játaði þar synd sem hún hafði drýgt og hafði ásótt hana lengi og fann um leið fyrir létti, fyrir frelsun frá íþyngjandi tilfinningu. En það liðu ekki margir dagar þegar hún fór að finna fyrir þeirri hræðilegu tilfinningu að vera mesti og stærsti syndari sem til væri í heiminum. Það væri örugglega enginn verri og ómerkilegri en hún. Það versta var að nú vissi presturinn það líka. Hún fann fyrir þessari óþægilegu tilfinningu og hún vissi ekki hvort hún þorði að líta aftur í augu prestsins. Hann sem hafði predikað að það að játa syndir sínar væri frelsandi. Fyrirgefning Jesú virkaði, sagði hann. Þýddi þetta að hún trúði ekki nóg eða kannski trúði hún bara ekki rétt á Jesú Krist?
—————————————–
Maður nokkur hafði upplifað breytingu í lífi sínu í kjölfar fyrirbænar bænahópsins. Allt varð betra eftir bænina. Hann fann fyrir friði Guðs. Eftir nokkurn tíma fannst honum allt vera komið í gamla farið, ekkert gekk upp. Nú fannst honum að Guð myndi verða vonsvikinn yfir honum því hann náði ekki að lifa í breytingunni..Friðurinn var úti, órói gerði vart um sig hið innra og það var bara honum að kenna. Nú líkaði Guði örugglega ekki við hann lengur. Guð hefur gefist upp á mér og nú þýðir ekki fyrir mig að leita til hans meir.

Hvað er það sem ekki stemmir í þessum frásögum?
Af hverju fara bæði konan og karlinn í frásögunum bogin frá þjónustu kirkjunnar?
Jú, bæði mæta til kirkju með sína trú og reynslu af lífinu, buguð af vanlíðan, þeim er mætt en boðskapur kirkjunnar rúmar ekki raunveruleikann sem bíður. Það er nefnilega skömmin sem býr innra og grefur um sig í dæmunum að ofan, en ekki syndin og ófriðurinn.

Það er mjög auðvelt að rugla saman sektartilfinningu og skömmustu tilfinningu. Eins er það ekki óalgengt að sektartilfinning breytist í skömm ef ekki er rétt á haldið. Skömmustutilfinning sem yfirtekur og hylur sektartilfinningu er einnig þekkt ferli. Þessar tilfinningar færast líka á milli fólks og lenda þannig stundum á röngum manneskjum. Kallað yfirfærsla.

Þessar tvær tilfinningar finnast bæði sem góðar og nauðsynlegar og vondar og níðurrífandi. Báðar beinast þær inn á við og út á við og hafa áhrif á tengsl okkar við okkur sjálf og þau sem við mætum og móta þannig samfélagsmynstrið sem við lifum í.
Við getum ekki verið í samfélagi eða tengslum við aðra menn án þess að skömmin verji okkur og setji nauðsynleg mörk um hvað er privat og er ákveðinn leiðarvísir í siðferðislegum efnum.
Syndin sem einnig er stórt guðfræðilegt hugtak er líka alveg nauðsynleg í mannlegum samskiptum. Að finna til sektar þegar rangt er gert getur verið víti til varnaðar, getur varið okkur frekar frá því að gera aftur sömu mistök eða frá því að gera það sem samfélagið telur vera rangt. Sektartilfinningin ýtir á okkur til að bæta fyrir, gera upp og koma á jafnvægi og sátt.

Hinn grundvallandi munur á sekt og skömm er sá að sektin fjallar um eitthvað sem er gert en skömmin beinist að verunni /sjálfri tilverunni eða sjálfsupplifun mannsins og hefur áhrif sjálfsmyndina. Skömminn er aðallega um skömmustutilfinningu yfir sjálfum sér gagnvart öðrum og Guði.

Skammarmenning nútímans.
Guðfræðigleraugu mín greina samtíma okkar þannig að sektin og skömmin eru samofin og mjög hulin í einstaklings- og árangursmiðuðu vestrænu samfélagi. Skömmin er orðin ósýnilegri og ógreinilegri en hún var. Muniði eftir skammarkróknum – hann var nánast sýnilegur. Barnið fór í skammarkrókinn, átti að skammast sín og svo þegar þeirri vist var lokið markaði það skil. Nú þurfti barnið ekki lengur að skammast sín.
Í dag greinum við varla mörkin milli sektar og skammar.

Þetta sjáum við greinilega ef skoðað er uppgjörið eftir hrun. Það að játa ekki mistök og sekt, heldur alltaf beina ábyrgðinni annað getur verið merki um að skömmin er svo yfirgnæfandi í veru mannsins að hún gleipir sektartilfinninguna og þ.a.l þá ábyrgð sem fylgir því að gangast við mistökum sínum og kemur út sem hroki og yfirgangur og oft sem skammleysi þar sem engin auðmýkt kemst að.

Samfélagsmiðlarnir eru duglegir við að yfirfæra skömm og styrkja vonda skammar tilfinningu; Við drekkum ekki nógu gott kaffi eða rétta kaffið, því þá værum við hamingjusamari, við erum ekki í nógu góðu formi, við erum ekki nógu mjó, erum ekki nógu félagsleg, erum ekki nógu aktív, keyrum ekki á rétta bílnum, og erum einfaldlega ekki nógu Góð, nema að tilteknum uppfylltum skilyrðum sem næra markaðinn.

Þessi skilaboð nútímans um að það vanti alltaf eitthvað grefur um sig í veru nútíma mannsins og dýpkar hina vondu skömmustutilfinningu, skömm sem er yfirfærð án þess að eiga sér stoð í raunveruleikanum eða nokkurn uppbyggilegan tilgang.

Skilaboð í þá átt að við eigum að vera eitthvað annað en við erum sköpuð til elur á óánægju (undirliggjandi ófriður, jafnvel draugagangur), einangrun, (mæta ekki í messu, eða annað félagsstarf sem boðið er upp á) depurð, (almennur leiði og athafnaleysi – aldrei fleiri á þunglyndislyfjum!) yfirgangi, (frekja, hroki, traðka og særa aðra), afskiptaleysi,(ekkert skiptir máli, ekkert er heilagt) og guðleysi, (Guði er hafnað á forsendum þess að manneskjan sé mælikvarði alls – oft kallað dýrkun sjálfsins).
Allt eru þetta sjúkdómseinkenni skammarinnar. Alvarlegustu sjúkdómseinkenni skammar eru svo vímuefnaneysla, fíkn ýmiskonar, átröskun og ekki má gleyma þeirri yfirfærðu skömm sem einkennir tilveru fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis.

Blessunin.
Heyrist boðskapur kirkjunnar inn í þennan heim sem ég lýsi? Boðskapur sem boðar líf í Jesú Kristi sem réttir við manneskjur, boðskapur um eilíft líf, fyrirgefningu, blessun, sátt, kærleika og samfélag.

Í pistil dagsins lásum við þessi dásamlegu orð:
“Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.” ….”Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.”

Kirkjan hefur svo sannarlega boðskap inn í “skammkúltúr nútímans.”
Hér eigum við að taka vel á móti fólki, með gleði og gestrisni og það gerum við svo sannarlega.
Við sem kirkjunnar fólk, bæði prestar og öll þau sem starfa að einhverju marki sem boðberar fagnaðarerindisins verðum að læra og muna að við þurfum að boða fögnuðinn með mörgum og mismunandi hætti. Við þurfum á öllu rituali guðsþjónustunnar halda, öllu fagnaðarerindinu, sem þarf að boðast með mörgum og mismunandi hætti svo fleiri megi skilja og sem rúmar alla mannlega tilveru, alla sköpunina, ekki bara ef þú bara gerir svona eða hinsegin eða ert aðeins öðruvísi.

Ef við hlustum eftir þeirri predikun sem ritual kirkjunnar gefur okkur í lok messunnar þá heyrum við það besta og magnaðasta meðal sem mætir og læknar vonda skömmustutilfinningu sem nútíminn nærir svo ríkulega.

Það er blessunin sem ég er að tala um.
Drottinn blessar og varðveitir þig. Sér þig eins og þú ert og tekur við þér nákvæmlega svona eins og þú ert, þar sem þú ert stödd/staddur,. Ekkert öðruvísi en þetta.
Drottinn upplyftir auglíti sínu yfir þig. Skömmin fær ekkert rými í blessuninni þar sem þú mætir lýsandi, kærleiksríku augnaráði Drottins.
Líka í kærleiksríku, velviljuðu og umburðarlyndu augnaráði þínu. Ekki gleyma því! Já, þér getur bæði fylgt blessun og bölvun!

“Ég er brauð lífsins”. Segir Jesús í guðspjallinu. Jesús Kristur mætir okkur sérstaklega í brauði og víni sem borið verður fram í altarigöngunni á eftir. Höfum í huga að Jesús frelsar og reisir okkur upp bæði frá syndum okkar og vondri skömm. Öll okkar tilvera er blessuð, allt sem brotið er sett saman aftur þó sprungurnar hverfi ekki og Drottinn leiðir í lífinu öllu sem er litað af sorgum og sigrum. Þeim veruleika tekur Drotinn við með opinn faðminn.

Jesús Kristur dó á krossi, tók á sig okkar syndir, tók líka á sig okkar vondu skömm svo við mættum lifa uppreistar og stoltar manneskjur.

Í 34. Davíðsálmi segir svo fallega:
“Lítið upp til hans og ljómið af gleði,
þá munuð þér aldrei roðna af skömm”.
(Sl.34.6)

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2183.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar