Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Frelsari tímans

1. janúar 2013

Biðjum.

Þín miskunn Herra hár
oss hlífði liðið ár
með ástúð óþreytandi,
við allri neyð og grandi.

Þótt harma skelfdu ský
oss skein hvern morgun ný
með blessun lands og lýða
þín líknarsólin blíða.

Oss börn þín bænheyr þú
vér biðjum faðir nú,
Sem áður enn vor gættu
við allri neyð og hættu.

Veit kristnum lýð þitt lið
og landi voru frið
þeim hjálp er hér enn þreyja
þeim himinn þinn er deyja.
Sb. 100. Helgi Hálfdánarson


Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Gleðilegt nýtt ár, kæri Hallgrímssöfnuður. Gleðilegt nýtt ár, í Jesú nafni. Upp er runnið ár sannleikans og vonarinnar, ár fyrirheitanna og gleðinnar, ár Drottins. Ár kvíða og mótlætis, ár sorgar og andvarpana. Ár Drottins. Anno Domini. Í Þorlákstíðum segir í einu andstefinu: Benedictus - Salvator seculi. Það merkir: Blessaður sé frelsari allra tíma, allra alda.

Lofaður sé frelsari tímans
sem fól hinum ágæta Þorláki
umsjá sinnar þjóðar.

Kæri söfnuður. Frelsari allra tíma mætir okkur á fyrsta degi hins nýja árs. Og við mætum honum, er við göngum til kirkju á þessum nýja, ferska degi. Hann felur okkur ekki öllum umsjá sinnar þjóðar, sem betur fer, en umsjá engu að síður í smáu og í stóru.

Hallgrímskirkjutorg er hlaðið rusli. Skarkali næturinnar er hljóðnaður og loftmengunin sem í nótt fór tuttugu og fimmfalt yfir hættumörk er orðin hættulaus, en allir illu andarnir sem fæla átti burtu með eldgangi og hvellum þrumum eru komnir aftur, og þau sem í nótt sem leið slepptu fram af sér beislinu eru jafn týnd í fjöllunum og sum hrossin sem þangað flýðu í örvæntingu undan æðigangi mannanna.

Það eru undarleg öfugmæli fólgin í því að ekki sé hægt að styrkja hið undursamlega og fórnfúsa starf björgunarsveitanna nema með slíkum hamagangi sem raun ber vitni og ekkert lát er á, þvert á móti.

En þökk sé þeim öllum sem ár eftir ár láta ekkert aftra sér í leit og björgun mannslífa, oft við svo ótrúlegar aðstæður að maður skilur ekki hvernig þeir geta þetta. Jafnvel á hvolfi í jökulsprungu. Og ekki aðeins mannslífum bjarga þeir, heldur er skemmst að minnast allra þeirra sem lögðu sig fram um að bjarga fé úr fönn á liðnu hausti. Það voru sterkar myndir fyrir okkur sem erum kirkjufólk að sjá björgunarmennina með lömb á öxlunum. Það minnti okkur á elstu myndverk kristninnar, úr katakombunum í Róm, af góða hirðinum.

Björgunarþjónustan hlýtur alltaf að vera besta sýnishorn manngæskunnar, og það er hún sem á að vera okkur öllum leiðarsteinn þegar við byrjum nýtt ár í Jesú nafni.

Guðspjallið eftir fyrstu lestraröð sem við heyrðum lesið frá altarinu og er stysta guðspjall ársins segir:

Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi. (Lúk.2.21)

Þetta guðspjall kallar auk annars til sérstakrar umhugsunar um siðvenju umskurnarinnar. Standandi hér í þessum predikunarstól sem ber vitni um Passíusálma Hallgríms liggur næst að vitna í þá, í tengslum við þessa einu setningu sem myndar guðspjall dagsins. Hallgrímur segir:

Fullkomnað lögmál fyrir þig er,
fullkomnað gjald til lausnar þér,
fullkomnað allt hvað fyrir var spáð,
fullkomna skaltu eignast náð. (Ps. 43.15)

Jesús fékk nafn um leið og hann var umskorinn að hætti gyðinga. Samkvæmt marga alda gamalli hefð þeirra sem enn stendur óbreytt. Hann undirgekkst lögmálið fullkomlega. Umskurnin staðfesti inngöngu hans í gyðingdóm með sama hætti og skírnin staðfestir inngöngu okkar í kristindóm.
Í júlí í sumar úrskurðaði dómstóll í Köln í Þýskalandi að banna skyldi umskurn. Það bann snertir fyrst og fremst gyðinga og múslima. Hæstiréttur Þýskalands komst að því að það væri ekki hægt vegna þeirrar verndar sem þýska stjórnarskráin veitir trúfélögunum.

Rökin fyrir því að vilja banna umskurn drengja voru fyrst og fremst byggð á því svívirðilega athæfi sem felst í umskurn stúlkna sem hefur þó engin bein tengsl við þann átrúnað sem hér var nefndur eða fyrirmæli þeirra, þótt í þeim glæpaverkum sé oft vitnað í átrúnað sem ástæðu.

Í úrskurðinum segir: „Umskurn drengja er leyfð enda sé gætt fyllsta læknisfræðilega öryggis og forðast ónauðsynlegan sársauka.“

Þýska þingið samþykkti þann 12. desember sl. (12.12.2012) sérstök lög sem tryggja þessa heimild vegna þess að umskurn drengja verður ekki skilin frá trúariðkun og trúarskilningi þeirra sem hafa þann sið. Þetta vekur okkur til umhugsunar.

Álykta má að gildandi trúfrelsisákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Ísland tryggi þessum trúfélögum sama rétt. En það er ekki víst að það sé talið svo sjálfsagt að huga að sérstöðu trúarbragðanna og réttindi þeirra um leið og mannréttindaákvæði eru rædd. Að þessu þarf að gæta í endurskoðun stjórnarskrárinnar. En einmitt sú vinna gæti orðið til lykta leidd á þessu nýbyrjaða ári í Jesú nafni. Mikils er um vert að niðurstaða ákvæðisins um Þjóðkirkjuna tryggi frelsi hennar frá ríkinu en staðfesti um leið sáttmála milli ríkis og kirkju um gagnkvæmar skyldur og réttindi, þar sem til dæmis kirkjuheimsóknir barna sem eru í þjóðkirkjunni séu ekki hindraðar vegna þeirra sem eru það ekki.

Kæri söfnuður.
Það er mikil blessun að fá að vera í senn starfandi í Skálholti og prestur á Þingvöllum. Það vottar sá er hér stendur. Skálholtskirkja er fagur helgidómur sem horfir fram til fimmtíu ára vígsluafmælis á sumri komanda. Hún gegnir enn sama móðurhlutverki meðal kirkna landsins og þær kirkjur sem þar stóðu áður. Litla kirkjan á Þingvöllum minnir hinsvegar á vöggu. Það er ekki bara af því að hún er ekki stærri en hún er, heldur vegna þess að á Þingvöllum var kristnin lögð í vöggu landsins fyrir þúsund árum. Sannarlega eru Þingvellir annarskonar helgistaður og helgidómur en Skálholt vegna þess að Þingvellir eru helgistaður alls fólksins í landinu hverrar trúar sem það er. En framhjá því verður ekki horft í heiðarleika að Þingvellir eru helgur reitur allra kristinna manna, bæði þeirra sem þetta land byggja og alls hins kristna heims, vegna þess með hvaða hætti „við trúnni var tekið af lýði.“

Stærsta hlutverk okkar, hins kristna safnaðar, á hinu nýbyrjaða ári er að varðveita trúna, að játa nafn Jesú Krists með trúariðkuninni með reglulegri kirkjugöngu og föstu bænahaldi og vitnisburði, bæði með því og með trúaruppeldinu. Og trúaruppeldið, þó að mest sé um vert hinn fyrsta grundvöll þess í fyrstu bernsku, er þannig að því lýkur aldrei. Þegar maður situr hér í kórnum á miðvikudagsmorgnum kl 8 þar sem söfnuðurinn deilir með sér verkum þá er það gagnkvæmt trúaruppeldi sem í því felst. Iðkun trúar er uppbygging og þroski. Og það er dásamlegt að hugsa til þess að þessi trúfasti söfnuður miðvikudagsins mun halda upp á tíu ára afmæli sitt á öskudaginn næsta. Líkt má einnig segja um aðra hópa sem starfa hér innan þessara kirkjuveggja; bænahópa, þriðjudags-fyrirbænamessur, fimmtudagsandaktir, kórastarfið, barnastarfið, fermingarstörfin, og þau óteljandi litlu og stóru stefnumót trúarinnar sem hér eiga sér stað, hvort sem er í samtali kirkjuvarðar eða annars starfsmanns við spyrjandi gest, eða fjölmennustu útfarir. Og sunnudag eftir sunnudag kemur söfnuður saman er klukkur kalla. Í Jesú nafni.

Kæri söfnuður.
Ef til vill má segja að valið á guðspjall nýársdagsins eftir annarri textaröð, sem hefði átt að lesa hér í dag, hafi á vissan hátt misst marks með nýju Biblíuþýðingunni. Nefndin sem guðspjallslesturinn valdi og fylgdi þar tillögum annarra kirkna, las í gömlu þýðingunni: fóru margir að trúa á Jesú nafn. En nú er Jesú nafn ekki lengur nefnt á þeim stað í guðspjallinu. Nú segir þýðingin: fóru margir að trúa á hann. Um hinn stóra mismun þessa verður rætt í annan tíma, en ekki nú. Hitt stendur enn fyrir sínu að margir tóku trú á Jesú nafn þegar hann í sinni síðustu ferð til Jerúsalem velti um borðum víxlaranna með orðunum: Hús mitt skal vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningabæli. (Lúk.19.) Þau orð eiga mikið erindi til okkar á fyrsta degi ársins.
Við héldum reyndar lengi í þessu landi að Jesús væri að segja að það mætti ekki fara með peninga inn í kirkjur. Það mætti til dæmis ekki selja miða á tónleika í anddyrinu, því það væri kaupskapur. En það var auðvitað alls ekki. Það er allt annað sem Jesús á við. Á það skal minnt í miklu þakklæti að það er ekki lítil þjónusta við þurfandi orðin til bæði í þessu landi og í fjarlægum löndum vegna þess að söfnuðurinn hér hefur lagt fram sinn skerf í samskotum í messunni. Mættu aðrir söfnuðir fylgja því góða fordæmi.

Hreinsun musterisins í Jesú nafni hefur þann eina tilgang að draga skýrar upp myndina af húsi Guðs þar sem ekkert á heima nema tilbeiðsla hins eina sanna Guðs, tilbeiðsla Jesú nafns. Hið sama gildir um kirkjuhúsið, steypt, hlaðið eða úr timbri og kirkjuna sem stofnun og skipulagða þjónustu og sérhvern þann sem játar nafn Drottins og er musteri heilags anda í persónu sinni og allri tilveru.

Vitrir menn hafa löngum sagt: Þjóðir steypast í glötun ef þær glata helgidómum sínum.

Ef helgidómarnir eru vanvirtir af þeirra eigin þjónustufólki, eða verða verslunarstaður með vörur eða hugmyndir og aðkeypt þjónusta að vild greiðandans er látin ráða för umfram þá guðsþjónustu sem aldrei getur verið söluvara þá þarf að hreinsa helgidóminn.

Góð systkin.
Við horfum fram á veg hins nýja árs í glöðu trausti til frelsara tímans.
Það er ekki svo langt síðan að það virtist varla nokkrum manni detta í hug að kirkja og kristindómur ættu andstæðinga eða óvildarmenn í þessu landi. Það var frekar í útlöndum. Varla einu sinni þeir sem kusu aðra leið en samleið með kirkjunni og áttu til að hafa uppi stórar meiningar og neikvæðar um trú og kristni sérstaklega, - varla einu sinni þeir, lögðu sig fram um að leggja stein í götu hennar. Menn kusu að tilheyra henni ekki og bera ekki börn sín til skírnar, en gerðu ekki athugasemdir við að aðrir gerðu það.

Nú er öldin önnur. Við verðum sem kirkja að horfast í augu við það í fullri alvöru að Þjóðkirkjan og allar kristnar kirkjur og trúfélög mæta nokkuð stórum hópi fólks sem ekki aðeins sýnir andúð heldur lítur á það sem sitt sérstaka hlutverk að vinna gegn framgangi hennar með öllum ráðum. Barátta Þjóðkirkjunnar fyrir réttlátri þátttöku hennar í þeim fjárhagsáhyggjum sem þjóðin hefur haft að undanförnu, sýnir þetta best. Kirkjan hefur axlað ábyrgð, eins og aðrir, og ekki síður. Það er því stórmerkilegt að þó að það ráðuneyti sem fer með málefni trúfélaganna hafi sýnt fram á með óhrekjandi rökstuðningi að harðar hafi verið gengið að kirkjunni en nokkrum öðrum og að þar skorti verulega á að hún njóti sannmælis skuli ekki hafa getað gengið eftir að leiðrétta rangindin vegna fyrirstöðu einstaklinga í öðrum ráðuneytum, og vegna þess að meirihluti Alþingis gerir ekki athugasemd við þessa grundvallarafstöðu til Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, í samþykkt fjárlaga næsta árs, vel vitandi um það hvers eðlis sú starfsemi er sem fram fer á vegum þeirra. Þegar allt er talið er um það bil um 90% þjóðarinnar að ræða, og þar af 77% þjóðkirkjufólk. Vonarglæta er sannarlega í því að boðið hefur verið til samtals um framtíðarskipan þessara mála, þó að vandséð verði á kosningavetri að mikill tími vinnist til þess.

Sannarlega er það svo að stærsti hluti starfsemi þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga er unnin í sjálfboðavinnu og engar greiðslur til eða frá breyta því, en það er erfitt að þurfa að horfa upp á að vegna niðurskurðarins sem leiðir til fækkunar starfsfólks safnaða hefur dugnaðarfólk orðið að bæta á sig svo mikilli vinnu til að glata ekki því sem áunnist hefur að undanförnu og birtist í fjölbreyttri starfsemi að margir eru að niðurlotum komnir. Þannig viljum við ekki hafa það.

Góð systkin.
Kristin kirkja safnast saman á fyrsta degi hins nýja árs eins og guðspjallið boðar. Í Jesú nafni, rétt eins og hún gerir í sérhvert sinn og hún ber fram bænir sínar. Áramótin, þegar hið gamla kveðjur og hið nýja heilsar eru á þeim tíma í þessu landi þegar við höfum kvatt sívaxandi myrkur skammdegisins og heilsum nú vaxandi birtu. Við stígum út úr myrkrinu inn í ljósið. Við komum úr nóttinni inn í daginn. Heilög ritning orðar þetta svo að við séum börn ljóssins. Við erum börn ljóssins sem vinnum verk ljóssins en höfnum verkum myrkursins. Betur að það væri alltaf satt.

Jesús segir um sjálfan sig: Ég er ljós í heiminn komið. Með honum er hið sanna ljós komið í heiminn. Við höfum heyrt þetta stutta guðspjall um Jesú nafn og við þurfum að taka afstöðu til þess. Með því að taka afstöðu með honum eða móti, er að skilningi ritningarinnar skilið á milli ljóss og myrkurs.
Þó að þessi tími árs henti vel til að minna á þetta, þá er það myrkur sem hér er um rætt auðvitað ekki hið jarðneska og árstíðabundna myrkur sem við mættum þegar við vöknuðum í morgunn. Myrkrið er að skilningi ritningarinnar tilvera án Guðs. Á þessum dögum þegar tíðkast að snúa út úr þarf að taka sérstaklega fram að vissulega getur sá eða sú sem ekki trúir á Guð verið algjörlega baðaður í ljósi, meir en nokkur annar. Það getur verið allt það ljós sem heimurinn á völ á. Það er bara annað mál. Trúin sér þetta þannig að andstæða myrkursins í trúarlegu samhengi er og verður ljósið. Í ljósinu býr hjálpræðið, býr hreinsunin, vonin og gleðin. Þar býr líka krafturinn sem sem sigrar myrkrið. Hver sem mætir Kristi er líka annað hvort ljóssins megin eða myrkursins, með eða móti. Líka í dag. Sérstaklega í dag. Þegar frelsarinn fær nafn. Hann sem segir um okkur: Þér eruð ljós heimsins.
Um áramót tíðkast að bera fram spár um hið nýja ár. Við höfum ekki safnast saman hér í kirkjunni í dag til þess að heyra spádóma um nýja árið, heldur af því að Guð sem tímann gefur, og er frelsari allra tíma, gefur grundvöll að standa á, grundvöll sem heldur þótt misjafnt blási.

Vér höfum ekki nema einn Guð, föðurinn sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn drottin Jesú Krist sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann. 1.Kor.8.6

Í þeim anda heyrum við nú aríu úr kantötu Bachs fyrir áramót, nr. 143 þar sem segir:

Jesús, björgun barna þinna

bú þú okkur ætíð skjól

Að við megum farsæld finna,

Faðir vak við sérhvert ból.

Ljúfi Jesú lýðinn þinn
leið í nýja árið inn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2100.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar