Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórir Jökull Þorsteinsson

Vegur lífsins reyndur og sannreyndur

26. febrúar 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi.

Kæri söfnuður.
 Mér er það í senn tilefni þakklætis og gleði að mega vitja Neskirkju og fá að stíga hér í stólinn ykkar á meðal. Ég vona að ég megi tala hér í auðmýkt og kærleika og það sé öllum uppbyggilegt í bráð og lengd.
 
 Á þessum helgidegi, fyrsta sunnudegi í föstu, minnumst við þess er frelsarinn Jesús Kristur var af Guðs heilaga anda leiddur út í auðnina í þeim tilgangi að verða þar reyndur af freistaranum og við gleðjumst yfir sigri hans þar. Þessi minning kirkjunnar hefur í senn það markmið að fræða okkur um þessa þrekraun Guðs sonar og að upplýsa um tilgang þess að sú þunga þraut sem um ræðir var á hann lögð. Því er líka rifjuð upp frásagan af falli mannsins og sköpunarinnar sem svo er nefnt, hvernig þau Adam og Eva brugðust sjálfum sér og skapara sínum er þau létu tælast til þess ranglætis að snerta á og eta af ávexti skilningstrés góðs og ills. Sagan segir okkur að fyrir óhlýðnina hafi þau óumbeðið öðlast napra þekkingu á syndinni og beðið um leið tjón á lífi sínu með þeim hörmulegu afleiðingum að vera vísað út úr aldingarði lífsins og nægta þess.

Við vitum að sagan af falli þeirra er forn trúarlegur vitnisburður um mannkynið og heiminn sem við byggjum, vitnisburður um það að mennirnir verja tilveru sinni saknandi þeirrar lífsfyllingar sem þeir, skapaðir í Guðs mynd, ættu að njóta. Ósjaldan leitum við merkingar þessara frásagna í samhengi löngu liðinna tíma en verkefnið er þó að bera andlegan vitnisburð þeirra að okkur sjálfum í atvikum eigin daga og draga þar af lærdóma sem okkur mega að gagni koma. Við erum nefnilega líka þau Guðs börn sem þetta henti hvert og eitt, að bregðast í ranglæti - syndga andspænis boðorðinu sem Guð í kærleika sínum setti fram til þess að við mættum varðveita lífið óskert í nægtum þess og dýrð.

Misjafnt er hvort menn gera sér grein fyrir því að hugtakið synd vísar til veruleika sem trúin býr við og þekkir af illu einu. Undir formerkjum trúleysis missir orðið eiginlega merkingu sína, þó afleiðingar syndarinnar blasi við öllum í spilltum heimi. Samkvæmt orðfæri trúleysis verða mönnum bara á einhver mistök, þeir fremja glæpi, hafa takmarkaða sjálfsstjórn eða sýna af sér eitthvert siðleysi. Að skilningi okkar sem játum kristna trú er syndin alls ekki einskorðuð við einstök afglöp manna, heldur grípur hún með altækum hætti um það ástand þeirra að þeir reynast ófærir um að framganga í réttlæti Guðs, því réttlæti sem lífið getur alls ekki án þess verið eigi það að vera mönnum sú gjöf dýrðar og frelsis sem það, í upphafi var af Guðs hendi. Stundum líkti Jesús veruleika syndarinnar og afleiðingum hennar við miklar skuldir manna sem þó yrði að greiða eða fá gefnar eftir ættu þeir að geta losnað úr fjötrum þeirra og lifað eins og þeim sæmir. Boðun fagnaðarerindisins snýr þess vegna að því, að birta mönnum líf og réttlæti Guðs í Kristi Jesú, í þeim tilgangi að svipta þá andlegum lífsskuldum þeirra og hroka og gera þá að auðmjúkum eignamönnum lífs og frelsis.

Inntak þessa þekkjum við t.a.m. í efni bænarinnar Faðir vor sem Jesús kenndi, er við biðjum þess að Guð gefi okkur fyrir skuld okkar, striki hana út og að við sömuleiðis eigum náð til að fyrirgefa náunga okkar. Þar er einnig bænarefnið, Eigi leið þú oss í freistni, sem á vel við efni guðspjallsins, að við biðjum þess mega halda trú og hlýðni við góðan Guð og séum ekki leidd í slíkar aðstæður að við bregðumst góðum vilja hans.

Freistingafrásagan hefur það í forgrunni að Jesús Guðs sonur kemur inn í fallinn heim, lifir og starfar syndlaus innan um fallna menn sem verja tilveru sinni skuldugir í andlegu umkomuleysi eins og sauðir sem engan hirði hafa svo notuð séu orð Jesú sjálfs. Freisting hans í eyðimörkinni merkir að freistarinn fékk að reyna afl sitt við Guðs son sem kom til að gerast hirðir þeirra sem við honum myndu taka. Til þess að svo yrði varð hann að standast hinn vonda. Jesús hafði verið skírður af Jóhannesi skírara og var fylltur heilögum anda þegar að þessu kom. Það var andinn heilagi sem leiddi Guðs son til þrautarinnar og var án efa hans helsta vörn í einsemd föstunnar. Og Jesú var eins og okkar freistað á allan hátt, en þess utan var persóna hans sem Guðs sonar í efa dregin af freistaranum sem vel vissi fyrir hvern hann lagði snörur sínar. Fyrir honum vakti að gera Jesú að syndara eins og alla hina, búa í því samhengi til skuldara úr honum með því að leiða hann í freistni og fella hann, sem gert hefði komu hans í heiminn að erindisleysu og ekki því frelsandi verki Guðs sem við höfum tekið við í trúnni sem krossinn og upprisan benda okkur eindregið á. Atlögur freistarans voru Jesú harðar andlegar þrekraunir sálar og líkama sem spilla myndu öllu ef hann félli og styrkja ef hann stæðist. Er það ekki í sálarlífi okkar sem við heyjum glímuna við trúleysið og angistina sem einkennt getur það að vera maður? Þar mun sigur Krists vera sigur minn og þinn sem við og berum okkur eftir á vegi trúarinnar á hann. Frásagan ber vitni um hlýðni Jesú við Guð föður og réttlæti hans - og um það hvernig freistarinn, þess vegna varð frá að hverfa að sinni en englar komu og þjónuðu Jesú. Til þess var hann í heiminn kominn, að ganga um kenna, lækna og gera gott  og gefa loks líf sitt hreint og tært án nokkurra syndarinnar veðbanda á krossi sem lausnargjald til að leysa af mönnum skuldafjötur þeirra.

Kæru systkin.
Í árdaga kristinnar kirkju var hið andlega lífssamfélag hennar einfaldlega nefnt Vegurinn. Þetta heiti kirkjunnar vísaði í hjörtum hinna trúuðu til Krists Jesú sem sagt hafði við lærisveina sína: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Með því að nefna sjálfan sig Veginn skírskotaði Jesús til leiðarinnar að Lífsins tré í þeim aldingarði lífs og nægta sem mannkynið hafði orðið að yfirgefa, - leiðarinnar sem Guð hafði lokað og látið engil sinn gæta. Þetta myndmál er andlegur vísdómur sem við í trúnni fáum færi á að nálgast og skilja, því að með komu Jesú Krists í heiminn og fyrir óspillta sáttarfórn hans, líf hins syndlausa á Golgata var okkur greiddur vegurinn til lífsins á ný. Jesús Kristur er holdtekja persónu Guðs sonar sem birti lífið óskert sem maður. Dýrðleg opinberun lífsins í Kristi Jesú er því í senn birting réttlætis Guðs sem fagnaðarerindið hefur að geyma og staðfesting þess góða vilja hans að menn eignist það og arfsvon í ríki hans. Jesús Kristur er því í gær og í dag hinn sami og um aldir, öllum samtíða og samferða þeim sem við honum taka í trú. Hann er í trúnni það réttlæti sem líf okkar skorti og er í dag uppspretta þeirrar gleði sem í hefur tilefni sitt í lífinu sem hann gefur og nú er, lífinu sem horfir til hins komandi ríkis Guðs sem þegar er blessun okkar á meðal. Í þeim anda skulum við horfa fram til páska á föstunni, leidd í andanum til endurmats á tilveru okkar og lífi í Jesú blessaða nafni. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem í upphafi var er og verður um aldir alda. Amen.

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þið séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Amen.

 

 

 

 

 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2232.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar