Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Veisla í farangrinum

27. maí 2012

Gleðilega hátíð.

Nú leiftrar ljós af himni háum. Sannarlega skiljum við það hér uppi á Íslandi, og ekki síst á þeim dögum ársins, þegar yndislegt, lofandi vor, breytist í bjart og gróskuríkt sumar. Manni finnst það einmitt gerast um hvítasunnuna. Umsnúningurinn er svona:  hér er vor, um vor, frá vori til sumars. Þeir spáðu góðu blessaðir veðurfræðingarnir okkar.  Þeir lesa á himintungl, vinda og veðrabrigði, hæðir og lægðir, strauma og stærðfræðiformúlur og lesa í reynsluna, söguna og bera skyn á þann andardrátt, sem bærist á himni og jörðu. Við þökkum þá visku og þau vísindi, því hversu mjög er það hjálplegt og eykur á vonina, - þegar lifað er í svo nánum samskiptum við náttúruna og raun ber vitni. Allir fagna góðri spá, sumir hendast út um landið þvert og endilangt í gleði sinni, og sumir komast hvergi að sinni, kannski vegna veikinda, kannski vegna annarra erfiðra aðstæðna. En við reynum öll að njóta þess að eiga langa helgi og góða daga. Auk þess er hátíð, hvítasunna.

Hátíðin hefur að vísu fengið á sig annan blæ, en upphaflega var. Það er svo sem allt í lagi, en verst er, ef við gleymum því að hátíð á sér innihald og hefur orðið til af sérstöku tilefni. Hvítasunnan varð til og verður til, af því að hún inniheldur eitthvað sem er mikilvæg og dýrmætt. Við höfum ýmis tækifæri til þess að fara í frí, og skipulagið er þannig að það á ekki alltaf við alla í einu. Vinnutími er misjafn, aðstæður eru misjafnar, og sumir eru fleygir og frjálsir þessa stundina, meðan aðrir eru bundnir eða heftir af einhverjum ástæðum. En allt er breytilegt og ekkert er öruggt og óhagganlegt í lífinu. Nema eitt. Skapari alls sem er. Drottinn allssherjar. Guð almáttugur. Sá sem setti sólina á himinninn, kveikti á henni, setti skil á milli veturs og sumars,  vors og hausts.  Sá sem gaf okkur lífið og gefur okkur líf  sérhvers barns og sérhvers blóms. Sá sem í nafni Jesú segir okkur út á hvað lífið gengur og hvert er markmið þess, sem er:  Að við elskum hvert annað og tökum hvert annað að okkur, því þannig skapast friður, hamingja og von.  Það er víst hvorki lítið mál, né auðvelt, þegar öllu er á botninn hvolft, heldur byggir það á andagift, krafti ofan að.

Hvítasunna. Skiptir hún máli?  Er það einhvers virði að athuga hvers vegna þessi hátíð varð til og hvers vegna hún er enn á almanakinu?  Þetta er t.a.m. spurning um það, hvort við séum læs á almanakið, dagatalið, rétt eins og talið er æskilegt að við séum læs á táknmál veðurfars, kvikmynda, hagtölur,-  eða tilfinningar þeirra sem við umgöngumst. Já, eða á söguna í hnotskurn, eins og hann Pétur Gunnarsson, rithöfundur, gerir af svo miklu innsæi, þegar hann les á þá örmu 18. öld íslandssögunnar í afbragðs sjónvarpsþáttum sínum. Allur slíkur lestur varðar kraft og vilja til þess að geta lesið á umhverfi sitt og lífshætti.

Þegar við lesum í nýja testamentinu um postulana, lærisveina Jesú, sjáum við að þeir voru nokkuð áttavilltir á þessum dögum, sem liðu frá páskum að  hvítasunnu. Þeir vissu ekki nákvæmlega hvort þeir mættu leyfa sér að treysta því að Jesús væri áreiðanlega upprisinn. Þeir höfðu hægt um sig, lærisveinarnir, og það voru karlar og konur þar saman komin. Þeir söfnuðust, lærisveinarnir,  í hópa, deildu með sér áhyggjum sínum, fóru með bænir og hughreystu hvert annað. Og þeir horfðu til þess sem Jesús hafði sagt, ‚ég fer burt og kem til yðar‘ (jóh. 14) ‚hjarta yðar skelfist  ekki né hræðist… frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður…‘ (Jóh. 14). Já, þetta höfðu þeir í huga og einnig þessi mikilvægu orð Jesú:

Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“ Lúk.  24:49.

Þeir, lærisveinarnir vissu náttúrlega alls ekki á hverju þeir áttu von. Hvers konar upplifun er það, að íklæðast krafti af hæðum? Og ef við viljum reyna að setja okkur í þeirra spor, Ja, þá verður hver og einn að leita í hjarta sér og hugarfylgsni, því hér ræðir um það sem varðar innstu tilfinningu, eftirminnilegustu lífsreynslu og það sem hefur snert okkur á einhvern óviðjafnanlegan hátt. Eitthvað einstakt. Andi Guðs er óviðjafnanlegur, hann er lífskraftur, uppljómun, opinberun, sannleikur, uppörvun, gleði. Það má nota ótal orð um anda Guðs. Mér finnst oft að mér henti best að nota orðið uppgötvun. Uppgötvun verður til, þegar eitthvað sérstakt opnast huga og sál, við atburð, sem nær að samhæfa allt athugunar- og tilfinningakerfið, sem í mér býr og ég sé eitthvað nýtt, sem er svo mikilvægt, að það breytir lífssýn og skilningi. Það má líkja því við stökkið á milli þess að kveða að og verða læs.

Hvað ætli sé nú einstakt í lífi mínu? Hvaða upplifun er sterkust, áhrifaríkust? Hvað hefur vakið mesta gleði í hjarta mér?  Svona spurningar eru hentugar til þess að leita svara við spurningunni um ‚kraft af hæðum‘. Anda Guðs. Gný af himni. Eldtungur, - og hvað það nú er, sem reynt er að nota til þess að lýsa þessum áhrifumí postulasögunni?  Eitt er alveg ljóst:  Líf þeirra breyttist. Afstaða þeirra til alls þess sem átti sér stað í samskiptum og samfylgd með Jesú, og svo aftur þeirra í millum fékk nýja sýn. Þeim varð ljóst að í nálægð við Jesú voru þeir í nálægð við Guð. Þeim varð ljóst að allt sem hann sagði var rétt og satt. Og þeim varð ljóst að kraftur af hæðum var kraftur trúarinnar, traustið og frelsið og vonin í lífinu sjálfu og samfélagi við aðra menn. Hér var enginnn undanskilinn, allir öðluðust nýja leshæfni á sjálfan sig og umhverfi. Þeir kunnu að lesa á táknmál trúarinnar og máttu eiga  fyrirheit. Rétt eins og himinn og jörð eru veröld mannlegra takmarkana, þá er andi Guðs hinn óendanlegi drifkraftur frjálsrar hugsunar og ótakmarkaðs útsýnis til sköpunarinnar, veðrabrigða mannlífsins, samfélags, ástúðar og kærleiksverka.

Jóel segir með sínum spádómsanda, og hann er að því leyti trúarlegur veðurfræðingur, og talar fyrir munn skaparans, eins og veðurfræðingurinn fyrir munn náttúrunnar: „Ég mun úthella anda mínum yfir alla menn“. (Jóel 3:1).  Alla menn. Allir eiga aðgang að orði Guðs og fyrirheiti hans. Hann boðar hverjum manni gjöf heilags anda, vegna þess að andi Guðs er andardráttur hans, lífsmagn tilverunnar, drifkraftur kærleikans.

Jesús gefur lærisveinum sínum eftirfarandi hvatningarorð: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“ (Jóh. 14).  Það er andi Guðs sem minnir okkur á hver Guð er og hvers vegna hátíðin er mikilvæg. Það er andi Guðs sem hjálpar okkur að skilja lífið og átta okkur á því hvað er mikilvægt, hvað reynist okkur vel og er okkur gott. Þegar við opnum faðm okkar fyrir hátíðinni, verður hún hluti af sjálfum okkur og fylgir okkur eftir. Áhrif hennar búa í okkur og  með okkur lengi, lengi. Þess vegna er hátíðin svo mikilvæg. Hún kemur okkur í snertingu við það sem Guð hefur gert og það erindi sem hann boðar okkur í orði sínu og anda.

Páskar og Hvítasunna er hreyfanlegar hátíðir. Þær eru reiknaðar út eftir gangi himintunglanna, það er gamall siður, enda er almanakið taktsproti daglegs lífs. Í bók Ernest Hemmingways, A moweable feast, sem Laxnes þýddi svo eftirminnilega ‚Veisla í farangrinum‘, minnist Hemmingway daga sinna í París. Nafn sögunnar er kannski til komið vegna þess að honum hefur fundist dvöl í París hafa verið veisla, sérstök upplifun, ný sýn, hátíð, enda er bókin þýdd á frönsku sem: Veisla í París. (sjá hugleiðingar Péturs Gunnarssonar í Morgunbl. 23. Febr. 2002). En dulúð titilsins tengist hinum hreyfanlegu hátíðum kristninnar. Þetta var erfiðasti tími skáldsins, en þó varð til bók, síðasta bókin. Laxness finnur þessa dulúð og undirtón og gefur henni nafnið veisla í farangrinum og það er eins og hátíðin fylgi með inn í framtíðina. Áhrif hennar, máttur, andi.

Hátíðir kristni og kirkju hafa fylgt okkur eftir í lífinu og eru samofnar sögu, landi og þjóð. Þær eru af ýmsum toga og varða samtíðina hverju sinni. Ef við köstum frá okkur innihaldi hátíða og trúargilda, er það samsvarandi því að láta frá sér landið, sem umlukið hefur þjóðina og fóðrað frá upphafi, eða leggja af íslensku, sem er tjáningarmáttur hugsunarinnar hjá fámennri þjóð, frelsistákn og drifkraftur sjáflstæðis, styrkur hennar og lífsvon, allt í senn.

Hinar hreyfanlegu hátíðir eru þær mikilvægustu, páskar og hvítasunna, upprisuhátíð Drottins á páskum, himneskur kraftur anda Guðs á hvítasunnu. Við skulum ekki gleyma hvers vegna þær urðu til. Við skulum ekki hlaupa frá innihaldinu og loka hjartanu fyrir mætti þeirra, innihaldi, tilgangi og vegarnesti. Boðskap íslenskra kirkjuhátíða blessa hug og sál, viðhorf og breytni, framtíð og vonir. Áhrif þeirra fylla okkur þrótti og gleðisýn, - fylgja okkur eins og veisla í farangri.
Lof sé þér Drottinn.

Dýrð sé Guði,  föður og syni og heilögum anda.  Amen.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2179.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar