Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Bergmann

Freistingin, valdið og valið

26. febrúar 2012

Texti dagsins er sagan um það þegar Satan freistar Jesú. Hann hefur fastað 40 daga í eyðimörkinni og óvinurinn spyr: hvers vegna breytir þú ekki steinum í brauð til að seðja hungur þitt? Hann lætur Jesú standa á þakbrún musterisins og spyr: þykist þú ekki vera sonur guðs: af hverju kastar þú þér ekki fram af og lætur engla Drottins  bera þig á vængjum sínum? Og af háu fjalli sýnir hann Jesú öll ríki veraldar: allt þetta gef ég þér ef þú fellur fram og tilbiður mig?

Undarleg saga og áleitin, sem hefur fyrir löngu sest til í vitund okkar og lætur þaðan til sín heyra þegar minnst varir. Ekki síst endurómar í huga okkar þriðja freistingin, freisting valdsins, hvort sem við finnum hana í þjóðsögum, merkilegum skáldskap eða daglegu lífi  einstaklinga sem vilja stytta sér leið til auðs og valda með hæpnum aðferðum. Bibliusagan tengir sig við okkar Galdra-Loft og við þýskar sagnir um doktor Faust sem mörg stórskáld gerðu að yrkisefni eða við fjármálavíkinga á okkar tíma sem hafa hvolft skipi sínu og annarra. Allt skal ég gefa þér, ef þú þjónar mér, segir freistarinn. Þetta eru nær alltaf daprar sögur: sá sem fellur fyrir freistingunni glatast. Sjálfan sig selur enginn nema með tapi, sagði Sigurbjörn biskup eitt sinn þegar tekist var með mikilli heift á um framtíð íslenskrar þjóðar. En Jesúsagan minnir líka á annan möguleika: að hafna freistingunni og vinna síðan sigur, jafnvel í niðurlægingu og dauða. Og sá þráður er einnig tekin upp í mörgum sögum sem sagðar eru og sýndar. Til dæmis í kvikmyndinni Jesús í Montreal, þar sem slunginn lögmaður fer með Jesús endurkominn upp á þak skýjakljúfs og býður honum glæsilegan samning ef hann vill vinna fyrir hann. Munum líka  Atómstöð Halldórs Laxness: þar fær fátæk sveitastúlka glæsilegt tilboð: allt sem þú biður um skaltu fá. En hún hafnar tilboðI freistarans sem er elskulegur valdamaður sem hún reyndar hrífst af - vegna þess að hún vill verða manneskja af eigin rammleik.

Það kann að virðast langt á milli margra þessara sagna og texta dagsins þar sem Jesús deilir við Satan sjálfan og vitna báðir í Gamla testamentið sér til fulltingis. Við hvern er Jesús að tala? Satan er vissulega ekki persóna sem gengur um á götum borga, en hann á sér fylgsni í sálarlífinu. Við höfum vanist því fyrir löngu að þessi gaur sé persónugerfingur hins illa. Í gyðingdómi var þó meir talað um ”jetser hara”, hvöt til að gjöra illt, og sú hvöt var ekki persóna heldur snar þáttur af lífi hvers einstaklings. Og Jesús er hér fyrst og fremst manneskja sem er að glíma við sína illu hvöt. Hann er einn, hann fastar, hann sér sýnir og heyrir raddir. Eins og þeir gerðu síðar meir einsetumennirnir sem héldu út í eyðimörkina í trausti á boðskap hans sjálfs, Jesú frá Nasaret. Og vitundin skerpist og spurningarnar stækka sem á hann sækja í líki freistinganna þriggja sem hann vísar frá sér í nafni æðri sannleika.

Gáum að því að það er alls ekki sjálfsagt að vísa tillögum Satans frá sér. Er það ekki heillandi möguleiki að breyta steinum í brauð ef kostur væri á slíku kraftaverki? Og seðja ekki aðeins eigið hungur heldur ráða jafnvel bót á hungri í heiminum um leið. Og hver hefur ekki leikið sér að þeirri hugsun að eitthvað undur færði honum mikil völd í hendur? Því þá ekki einnig sá Kristur sem er líka “sannur maður” eins og guðfræðin hefur lengst af haldið fram og er sem slíkur fátækur farandprédíkari í rómversku skattlandi. Ef þú mættir ráða, segir freistingin, mundir þú gera heiminn miklu betri en hann er. Ekki veitir af.

En Jesús frá Nasaret finnst að það sé hið illa sem hvíslar þessu að honum. Hvers vegna er það? Einn helsti vinur Krists meðal mikilla skálda, Rússinn Dostojevskij á sitt svar við þeirri spurningu. Í einni skáldsögu hans segir á þessa leið: Jesús hafnar lævíslegum freistingum hins illa - vegna þess að hann vill ekki svipta mennina frelsi til að velja og hafna. Ef mönnum er sýnt kraftaverk eins og að steinar verði að ilmandi brauði eða Jesús fljúgi með fulltingi engla, þá eiga þeir ekki lengur neitt val. Þeir eru neyddir til að trúa á og treysta Kristi. Því hafnar Jesús, segir Dostojevskij, hann vill ekki brjóta náttúrulögmálin til að fá okkur í lið með sér. Við verðum að velja hans leiðsögn af frjálsum vilja.

Þessi skýring stingur kannski í stúf við kraftaverkasögur af Jesú en er engu að síður áleitin og merkileg með sínum hætti. Og svo er þriðja freistingin: Jesús vill ekki þiggja vald yfir ríkjum heims. Jón okkar Vídalín segir um þetta á sinn skemmtilega jarðbundna hátt: margur hefur lotið andskotanum fyrir minna. Og eins og ég áður spurði: er nokkuð að því að ágætur maður taki við stjórn heimsins, mundi hann ekki hafa skárri áhrif en aðrir höfðingjar? Ef til vill. En Jesús neitar sér um að stytta sér þannig leið. Það er sem hann geri ráð fyrir því að sú leið verði ekki farin nema með fulltingi hins illa. Sem blæs upp sjálfshyggju valdhafans og freistar hans á öllum tímum til vafasamra aðferða. Jesús telur annað skipta meira máli. Hann kveðst vilja lúta guði einum og þjóna honum.

Trúaðir kristnir menn taka þeim lokaorðum vafalaust sem sjálfsögðum hlut. En einnig þeir efahyggjumenn  sem taka freistingasögunni með sínum fyrirvörum geta fundið samsvörun með þeim sem skilja hana sem guðdómleg sannindi. Samsvörun í því að vissulega sé það til sem er meira virði en að ráða yfir fólki. Og í því að sá sem með vald fer, einkum mikið vald, er í þeim háska að bregðast því sem best er í honum sjálfum.

Hér er þá komið enn eitt tilefnið til að víkja að trúuðum mönnum og efahyggjumönnum og trúleysingjum í okkar menningarheimi, sem á sér hefð og sögu í kristni og kristnum ritningum. Í hverju eiga þeir samleið og hverju ekki?

Velviljaðir húmanistar segja sem svo: Jesús frá Nasaret er hetja þeirra sem hafna valdi, ofbeldi og græðgi og vildu ekki eiga neitt. Kristni er í rót sinni trú hinna valdlausu, þeirra sem standa höllum fæti í heiminum. Fordæmi og orð Krists voru vonargjafi litilmögnum og sakleysingjum í grimmum heimi. Og svo getur verið enn í dag.

Það er rétt - en um leið má vafalast heyra mótbárur sem eru á þessa leið: Kristnin varð ríkistrú í Rómarveldi og kirkjur hafa verið í fylgd við grimmt og spillt vald allar götur síðan. Kristni hefur verið notuð til margra illra hluta, meðal annars til að réttlæta valdníðslu og kúgun. Og það er alveg rétt. En kristið trúarlíf og textar geyma afar margt sem gengur þvert gegn slíkri notkun - eins og freistingasaga dagsins minnir okkur á.

Það er mjög í tísku nú um stundir að segja trúarbrögð og þá kristindóm hér hjá okkur eiga sök á flestu illu. Það liggur við, að hjá harðsnúnum trúleysingjum sé kristnin orðin einskonar nýr Satan sem freistar manna til að svíkja vísindi og mannúð - og þeir líkjast að sínu leyti þeim kristnu bókstafstrúarmönnum sem sjá þann sama Satan í hverri skoðun á guði sem ekki samrýmist þeirra eigin.

Þessi ramma tvískipting er bæði skaðleg og óþörf.

Það er margt sem vefst fyrir okkur. Ekki veit ég til dæmis hvernig ber að skilja það að Jesús frá Nasaret sé sonur guðs. En ég þykist vita að í kjarna kristindóms sé merkileg þrá - sem einnig má finna í öðrum trúarhefðum. Ekki endilega von um að öðlast vissu um hinstu rök tilverunnar. Heldur þá viðleitni að lifa í ljósi mikils tilgangs. Ég á við það að trúaðir menn reyni að fella að daglegu lífi sínu þá hrifningu og innsýn sem við upplifum á okkar bestu stundum, hvort heldur ein eða í samskiptum við aðra menn. Og læri með því móti að lifa í örlæti og réttsýni, sýna sanna samúð “þeim fjarlægustu og minnst virtu” eins og ágætt skáld hefur kveðið. Þetta er vissulega ekki þroski allra, því fer fjarri, en þetta er það sem best er í trúarlífi þeirra sem af opinni einlægni rækta sína trúhneigð. Í framhaldi af þessu skal því haldið fram, að það sem skipti langsamlega mestu máli í öllum hugleiðingum og rökræðu um trú sé þessi einfalda spurning: Hverju breytir trú í lífi þeirra sem hana aðhyllast? Því er aldrei auðsvarað, allt er einstaklingum bundið, sumum gerir trú illt, þýðir ekki að neita því, En þegar á heildina er litið er trú okkar sú leið sem við kjósum til að fylgja eftir þeirri þrá sem ég áðan nefndi, þeirri stefnu sem sálin tekur á leið sinni út fyrir okkur sjálf og okkar sérhyggjustrit. 

Skyld þessu mætti vera afstaðan til ritninga kristinna manna. Það er ekki hægt að gera úr þeim safn svara við öllum spurningum. Það er heldur ekki hægt að vísa þeim frá sér sem úreltri forneskju sem gangi í berhögg við nútímavísindi. Þeir sem þetta reyna lenda fljótt í öngstræti. Ritningar geyma texta sem smjúga um okkar menningarheim og kalla á túlkun og afstöðu - því eins og áður sagði: þeir eru þegar til í vitund okkar og hugsanamynstri. Sagan af því þegar Jesú var freistað spyr þann sem á hlýðir að þvi, hvort hér sé eitthvað sem honum kemur við. Eitthvað sem til dæmis varðar nútímafreistingar skjótfengins hagnaðar eða þá eilífðarfreistingu að vlja upphefja sjálfan sig. Auðvitað eru ritningartexar ekki einir á ferð í huga okkar. Fyrir gamlan bókaorm eins og mig eru til skáldskaparverk sem hafa svipaða þýðingu og þeir. En sögur af Kristi búa yfir því sérstaka aðdráttarafli  sem fylgir þvi að hafa tekið við þeim barn að aldri og hafa síðan mætt þeim í mörgum myndum í list heimsins og skáldskap og í eigin viðbrögðum við breytni manna. Þær færa okkur nær þeim krafti sem brýnir manninn til ákvarðana þegar hann er spurður: hvað leggur þú gott til? Eða - svo vikið sé aftur að texta dagsins: hvernig svarar þú freistingahvísli hinnar illu hvatar, sem kemur bæði að innan og utan að? Og spyr meðal annars, hvort þú ekki viljir stytta þér leið með vafasömum ráðum, hvort þú viljir ekki ráðskast með aðra menn - í stað þess að gera tilveru þeirra ögn glaðlegri en annars væri. Ef til vill tekst einhverjum sem reynir að svara að nálgast það hugarfar sem Páll postuli lýsti í pistli dagsins og lýkur á þessum orðum: hryggir erum við en þó ávalt glaðir, öreigar en eigum þó allt…
 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2107.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar