Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Ólafur Jóhann Borgþórsson

Nóg pláss!

24. desember 2011

Klukkurnar hafa hringt inn helga hátíð. Kæri söfnuður, Gleðileg jól. Yður er í dag frelsari fæddur. Megi sá boðskapur færa birtu og gleði í hvert hús og hvert hjarta.  Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Við finnum það á stundu sem nú  að það er gott að eiga athvarf hér í heilögu húsi til að fagna þeirri hátíð sem hefur verið undirbúin á flestum heimilum um gjörvallan heim undanfarnar vikur. Við viljum að hjörtu okkar og híbýli séu tilbúin að taka við þeim fögnuði sem jólahátíðinni fylgir. Hátíðin sem  hefur áhrif á samfélagið allt, boðar blessun og frið og lætur sannarlega engan ósnortinn. 

Og um allt hljómar kveðjan um gleðileg jól. Við flytjum þá ósk með orðum, tónum, litum, ljósum, gjöfum, beitum öllum þeim ráðum sem við kunnum til þess að endurvarpa henni til sem flestra. Á götum, í tónlistarsölum, á öldum ljósvakans eru leikin lög sem tengjast þessari hátíð. 

Hins vegar er munur á innpökkuðum jólagjöfum, ljósaseríum og jólalögum og hinum eiginlega boðskap jólanna. Hinu fyrrnefnda er pakkað niður. Það er fært í geymslu. Sumt notað, öðru skipt, en fagnaðarerindið lifir og starfar allt í kringum okkur. Og gerir það blessunarlega alla daga ársins.

Í þetta hús kemur fólk í hundraða tali  í viku hverri allt árið um kring. Hér á fólk athvarf til að rækta trú sína, fær uppörvun á erfiðum tímum og nýtur þess að eiga hér samfélag við frelsara sinn Jesú Krist.

Og nú erum við hingað komin til þess að íhuga fæðingarfrásögn frelsarans. Frásögn sem við þekkjum öll svo mætavel en þreytumst aldrei á að hlýða. Hún hefst á ferðalagi ungs pars. Í það var farið til að framfylgja skipun keisarans svo hann gæti kortlagt skattgreiðendur í ríki sínu.  Um langan veg var að fara, og jafnvel á okkar tímum, með öll  nútímasamgöngutæki, þætti það talsvert ferðalag fyrir konu sem væri komin að því að fæða að fara þá 150 kílómetra sem þau María og Jósef þurftu að ferðast. Farkostur þeirra var ákaflega fábreyttur með tilheyrandi erfiðleikum. Og þegar komið var á áfangastað héldu vandræðin áfram.
Mikill mannfjöldi hafði komið til Betlehem í sömu erindagjörðum og því reyndist þrautinni þyngri að fá gistingu. Og síðustu skilaboðin sem Jesús fékk áður en hann var kominn að því að birtast heiminum var NEI! gistihúsaeigendurnir áttu ekki pláss fyrir Guðssoninn, nema sá eini sem bauð þeim gripahúsið til afnota. Aðrir komu með skilaboðin, Nei, því miður. Allt fullt, þið verðið að fara annað, enda höfðu þeir engra sérstakra hagsmuna að gæta. Foreldrarnir voru fátækir og hefðu tæpast efni á gistingunni.

Þrátt fyrir nöturlegar aðstæður, fátækt og mikla þreytu eftir langt ferðalag, þá var gleðin engu að síður hrein og sönn, þegar barnið birtist þessum heimi. Barnið sem síðar átti eftir að vinna kraftaverk, barnið sem átti eftir að sigra dauðann. Það barn sem átti eftir að hafa meiri áhrif en nokkur annar einstaklingur sem hefur fæðst í þessum heimi fyrr eða síðar.

Það er því engin tilviljun að þessi frásögn hefur verið sett oftar á svið í gegnum í tíðina, heldur en flest önnur leikverk og nú á aðventunni komu m.a. börn hér úr leik- og grunnskólum hverfisins og sett upp jólahelgileikinn. Mig langar að segja ykkur frá einni uppfærslu af jólahelgileiknum og gerðist í smábæ í Bretlandi. 

Þannig var að 7. bekkur þess skóla setti alltaf upp jólahelgileikinn á hverri aðventu. Raunar var þetta heilmikið mál og tilhlökkun fyrir þessu verkefni byrjaði strax á haustin, þegar krakkarnir komu í skólann, nú voru þau komin í 7. bekk og fengu að setja upp helgileikinn. Engu var til sparað til að gera sýninguna sem glæsilegasta, flottir búningar, glæsileg sviðsmynd og krakkarnir lögðu sig alla fram. Bæjarbúar fjölmenntu líka á sýninguna og var þetta ein aðal jólaskemmtunin í bænum fyrir hver jól.

Eitt var þó vandamálið. Í bekknum var einn drengur sem gat ekki fyrir nokkurn mun lært texta eða leikið. Krakkarnir og kennarinn vissu að það væri ekki í anda jóla eða boðskap Krists að skilja hann eftir útundan og fundu því þá lausn á máli að hann skyldi leika gistihúsaeiganda sem átti einungis að segja: Því miður allt fullt - farið annað!  Þetta gekk bærilega og eftir allnokkrar æfingar var drengurinn búinn að læra þessa setningu vel og vandlega. Allt gekk þetta vel upp á general-prufunni og var komið að stóru stundinni. Salurinn var þétt skipaður af fólki, allir foreldar og flestir aðrir íbúar bæjarfélagsins og var mikil spenna í loftinu. Síðan voru leiktjöldin dregin frá. Allt gekk vel, María og Jósef voru komin til Betlehem og Jósef, sem bar sig afar aumlega, bankaði á dyrnar hjá gistihúsaeigandanum og bar upp erindið. Þegar hann sá þennan dapra mann fyrir framan sig, og óléttu konuna, vorkenndi hann þeim svo mikið að án þess að hugsa hrópaði hann. Pláss? Nóg pláss, það eru jólin er það ekki?? Gjörið svo vel  og komið inn í hlýjuna til mín.

Það var dauðaþögn í salnum og aðrir leikendur á sviðinu vissu ekki hvort þeir áttu að hlæja eða gráta, allt var ónýtt! En fljótlega fór að heyrast hlátur frá bæjarstjóranum, þá frá skólastjóranum og kennurum og fyrr en varði voru allir farnir að skellihlæja.

Fólkinu fannst þetta frábært, því trúlega hefði boðskapur jólanna aldrei komist eins vel til skila. Að hleypa Jesúbarninu inn og um leið sýna umhyggju í garð náungans.

Og á helgum jólum er gott að staldra við þegar Jesús bankar á dyrnar hjá þér. Vilt þú hleypa honum inn? Er það í takt við þinn vilja og lífsfestu að leyfa honum að hafa afdrep í þínu hjarta og leiða þig áfram í lífinu.

Kæri kirkjugestur, fyrir hvern hefur þú pláss og fyrir hvað hefur þú pláss?

Kristur vill búa í þínu hjarta, og þá er það einlæg krafa hans að forgangsröðun og viðmið í lífi okkar verði í takti við hans vilja. Skyldurnar verða fleiri, og því fylgir sönn gleði, hamingja og innihaldsríkt líf. Hann vill að við leggjum lífinu lið og vinnum að framgangi hans.

Ef við skoðum vel frásögn jólaguðspjallsins, þá getur hún sannarlega kennt okkur eitt og annað um hvernig við skulum forgangsraða, kennt okkur að sýna umhyggju, kennt okkur sanngirni og hvernig við eigum að meta hin sönnu verðmæti lífsins.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er engin tilviljun að aðstæðurnar voru með þeim hætti sem lýst er í frásögninni. Hinar fátæklegu aðstæður fela í sér svo mikil skilaboð.

Hefði það ekki verið miklu betra ef Jesús hefði fæðist í höll, eins og hinir konungarnir - hefði því þá ekki frekar verið trúað þegar hann sagðist vera konungur er hann stóð frammi fyrir réttinum. Hefði það ekki verið betra hefði Kristur, fengið konunglegt uppeldi? Hefði það ekki aukið á trúverðugleika Krists og jafnvel lengt starfstíma hans?

Staðreyndin er nefnilega þessi, þó jólaguðspjallið sé afar falleg og einlæg saga, þá er dýpt þess svo mikil, að í hverri málsgrein og hverju orði er óendanlegur leyndardómur og þýðingarmikil skilaboð okkur til handa.

Í því samfélagi sem Jesús bjó í var stigskipting samfélagsins svo mikil að vart voru samskipti á milli ólíkra þjóðfélagshópa. Konungbornir og hástéttir, litu á hinar lægri stéttir með hornauga og forðuðust að eiga við þær samneyti. Hinir fátæku sem neðstir voru í þjóðfélagsstiganum bjuggu við afar takmörkuð réttindi og áttu sér vart viðreisnar von í samfélaginu. Þannig var það, og lítill áhugi hjá valdsmönnum þess tíma að breyta nokkru í því skipulagi.

Það var þess vegna, að þegar Jesús kom í þennan heim og kom hann einmitt inn í þessar erfiðu aðstæður. Hann kom til að færa heiminum þau skilaboð að hann væri frelsari allra manna, óháð þjóðfélagsstöðu eða efnahag. Og ekki aðeins það, með því færði hann okkur einnig þau skilaboð að við eigum að láta stöðu þeirra sem minna mega sín okkur varða. Skylda kristins manns er að styðja og hjálpa þeim sem minna mega sín, rétta þeim hjálparhönd sem hrasað hafa og leiða í gegnum hindranir lífsins.

Kæri kirkjugestur, hvaða boðskap vilt þú opna hjarta þitt fyrir á helgum jólum? Jesús sagði: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. 

Við skulum taka á móti Jesúbarninu, hleypa því inn, láta það leiða okkur  og hafa áhrif á þá forgangsröðun sem við setjum okkur í lífinu. Líf hans er okkur uppspretta í baráttunni fyrir friði, réttlæti og sannleika. Mannkynið á sér ekki aðra og betri fyrirmynd, sannari eða fegurri. Ekki aðeins á helgri jólatíð, heldur allt árið um kring. Leyfum barninu í jötunni hafa áhrif á okkur eins og hann hefur gert við milljarða manna síðastliðnar tuttugu aldir sem hafa fylgt því boði þar sem segir: Fel Drottni vegu þína, treyst honum og hann mun vel fyrir sjá. Við skulum nú spenna greipar og sameina hugi okkar í bæn til hans.

 

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1774.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar