Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hulda Guðmundsdóttir

Ár skóga - græn kirkja

27. nóvember 2011

Ágætu kirkjugestir. Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu og með þessum degi hefst nýtt kirkjuár kristinnar kirkju hvar sem hún starfar í heiminum. Nýtt upphaf sem boðar komu ljóssins . Boðar nýtt líf. Aðventan hetir því að myrkrið muni hverfa og birtan taka við með gróanda og gleði í hjörtum.

Tímamót og ný tækifæri. Ég óska söfnuði og prestum Seltjarnarneskirkju til hamingju með það að hefja sitt nýja kirkjuár með því tækifæri að gerast „græn kirkja“. Það er vissulega gleðiefni þegar kirkja stígur slíkt skref, því það er afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við öll, sem manneskjur og stofnanir samfélagsins, berum sameiginlega ábyrgð á því að ganga af virðingu, alúð og umhyggju um náttúru okkar og umhverfi.

Lifnaðarhættir okkar skipta máli. Við höfum heyrt að á þessari öld stafi vistkerfum jarðar ekki síst regnskógunum, mest ógn af afleiðingum ört vaxandi mannfjölda sem krefst sífellt meira jarðnæðis til ræktunar matvæla og framleiðslu iðnvarnings. Hvernig ætlum við að lifa við þessa staðreynd? Hvað ætlum við að gera?

Við þurfum að heyra og skilja að hagfræði síneyslu og sóunar hefur siglt í strand sem viðmið lífskjara og við þurfum að breyta, samkvæmt því. Þetta snýst um lífspólitík! Það er Menning okkar sem þarf að breytast. Hugsunarháttur okkar, hugsunin, ekki bara„hugmyndafræðin“ . Til þess að svo megi verða þurfum við uppeldi og ögun. Ekki flokkaþras um kerfisstefnur. Sem heild hefur Vestrænt samfélag farið offari fyrir stundarhagsmuni og sóað hömlulaust . Í guðfræðilegu samhengi getum við sagt að Mammon hafi náð völdum og vilji hreint ekki sleppa þeim. Gegn þeim kröftum virðist kristin kirkja afar máttfarin.

Fyrir rúmri öld sagði Þorvaldur Thoroddsen: „Við þurfum að láta af þeim gamla húsgagnshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórksaði öldum og óbornum.“ Hefur kannski ekkert breyst? Við orðum a.m.k. varla betur í nútíma, hugsun sjálfbærrar þróunar. En við virðumst hafa gleymt hvað það þýðir „að fara vel með“. Við þurfum uppeldi og ögun. Við þurfum að læra upp á nýtt hvað það þýðir „að fara vel með“ og þá í víðum skilningi.

Á vettvangi kristinnar kirkju varð viss vakning í umhverfismálum fyrir tæpum 30 árum (1983) þegar allsherjarþing Alkirkjuráðsins ályktaði um umherfismál og Lútherska heimssambandið gerði það nokkru síðar, eða 1990. Ef við lítum til nágrannakirkna okkar á Norðurlöndunum má nefna að norskir biskupar og kirkjuþing í Noregi hafa verið dugleg að starfa í þessum anda. Umhverfismál eru þar einn af fjórum hornsteinum kirkjustarfsins og þar er talað um umhverfisguðfræði, umhverfis-kærleiksþjónustu og umhverfiskirkjufræðslu.

Á vettvangi íslensku þjóðkirkjunnar var fyrst staðfest umhverfisstefna á kirkjuþingi 2009. Skömmu síðar afhenti biskup Íslands umhverfisráðherra eintak stefnunnar sem„nesti“ til sendinefndar Íslands á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Í umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar segir að hún vilji leggja sitt af mörkum með því að

a) boða hógværð og látleysi í lífsstíl og neyslu
b) uppörva einstaklinga og samfélag í því að auðsýna ábyrgð í umgengni sinni um jarðargæði
c) vinna gegn sóun og ofneyslu
d) leggja sig fram um að hlynna að lífi og náttúru og
e) stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðargæða, nýtni, orkusparnaði og endurvinnslu.

Til að framfylgja stefnunni eru söfnuðir hvattir til að vera með umhverfisfræðslu á sínum vegum og hvattir til að fylgja handbók umhverfisstarfs sem kallast Ljósakerfið. Þá er hvatt til þátttöku safnaða í almennu umhverfisstarfi í samfélaginu – og þannig kom það einmitt til að séra Bjarni Þór leitaði fregna af áherslum á yfirstandandi Alþjóðlegu ári skóga og bað mig um að taka þátt í messunni hér í dag.

Það var Allsherjarþing Sþ sem ákvað að árið 2011 skyldi helgað skógum heims. Meginmarkmiðið er að vekja athygli á fjölþættu gildi skóga:

■veita skjól og eru mikilvæg búsvæði fjölmargra lífvera og eru uppspretta matar og
nauðsynlegir fyrir lyfjagerð
■varðveita gæði ferskvatns
■mikilvægir fyrir jarðvegsvernd
■gegna stóru hlutverki í að viðhalda stöðugu loftslagi og hringrásum vatns og
næringarefna
■vistvænn efniviður, bæði endurvinnanlegur og til nýsköpunar

Útivist og heilsu-hreyfing í skógi er vaxandi áhersla meðal heilbrigðisstarfsfólks, sem vill hvetja til breyttra lífshátta. Og áhrif skóga á andlegt heilbrigði fólks hafa líka verið viðurkennd. Svo sannarlega. Margir tala um mannrækt og skógrækt sem nátengda þætti og sá sem stundað hefur hvorutveggja, veit að það hjálpar fólki sem stríðir við harm að ganga um skóg. Tré miðla friðsæld í hjartað og hjálpa þannig til við andlega uppbyggingu. Því eldri sem skógurinn er, þeim mun jákvæðari og djúpstæðari áhrif hefur hann á manninn. Með sínum djúpu rótum og viðamiklu krónum, miðla gömul tré á einhvern dulmagnaðan hátt tilfinningu fyrir tign, mikilleik, ást og visku þar sem háir stofnarnir tjá órjúfanlegt samband himins og jarðar. Skáldin okkar miðla þessu í ljóðum. Eins og Snorri Hjartarson til dæmis:

Ég vil hverfa langt
langt inn á græna skóga -inn í launhelgar trjánna

og gróa þar tré - gleymdur sjálfum mér,
finna ró í djúpum rótum og þrótt í ungu ljósþyrstu laufi

leita svo aftur með vizku trjánna - á vit - reikulla manna.

Við getum líka leitað að mikilvægi trjánna í Biblíunni. Allir skilja að Eden væri ekki Paradís – án trjáa. Þar vaxa jú bæði skilningstré góðs og ills – og sjálft lífsins tré – sem höfundur Orðskviðanna segir einmitt að sé„spekin“ - viskan sjálf. Kannski öll heimsins sanna viska búi einmitt í trjám – þá getum við séð hvílíkur háski steðjar að, ef skógar heimsins hverfa….

Hér á landi eru það Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda sem standa saman að Ári skóga og fengu til þess mikilvægan stuðning frá Pokasjóði, meðal annarra. Ég hef í starfi mínu fyrir samtök þessara aðila, lagt áhersu á kynningu og nýtingu okkar íslenska, vistvæna efniviðar sem til verður í skógunum. Þar hafa sjónarmið umhverfisstefnu þjóðkirjunnar verið höfð í hávegum, ekki síst hófsemi, nýtni og hvatning til góðra verka. Staðreyndin er sú að þótt við eigum litlar lendur skóga, þá getum við samt nýtt þær til að skapa verðmæti. Af þessum meiði spratt hugmyndin um að efna til samkeppni um duftker úr íslenskum viði og okkur til mikillar ánægju bárust 28 ker, sem var meiri þátttaka en hægt var að vonast eftir. Guð láti gott á vita. Megi úrvinnsla úr íslenskum skógum eflast og þróttmikill verða vöxtur hugmynda sem líta til mannræktar og skógræktar í senn, þar sem nýtni hófsemi og sjálfbær nýting náttúrugæða verð í fyrirrúmi - og virðing fyrir alvöru verðmætum.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1807.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar