Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Sálin, kletturinn og kirkjan.

24. júlí 2011

Bæn.

Skapari himins og jarðar, öll verk þín lofa þig.  Kenndu okkur að standa ekki þögul hjá þegar öll sköpunin syngur þér lof, heldur gef af mildi þinni að líf okkar allt sé lofsöngur um miskunn þína og máttarverk þín.  Kenndu okkur með nýju sumri nýtt lag við ljóðið um vonina sem í okkur býr og lát fögnuð þinn fylla hug og sál.  Í Jesú nafni.  Amen 

 

Guðspjallið  Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur.
Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi.En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Hér á kirkjugrunninum á Þönglabakka geta vaknað stórar spurningar.  Í dag  nærast þær  af texta guðspjallsins sem okkur er falið að hugleiða og útleggja.,Þetta eru spurningar um líf og dauða, líf eða dauða og líf þrátt fyrir dauða. Þær geta gerst nokkuð háværar í annars lágværri hljómkviðu Þorgeirsfjarðar, af því að við stöndum, sitjum eða liggjum í kirkjugarðinum sem geymir ekki bara bein genginna kynslóða heldur þar með óhjákvæmilega líka sögu þeirra.

Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var en andinn til Guðs sem gaf hann. (Pred.12.7) Öndin skilst frá líkamanum sem lagður er í mold.
Hvert fer hún og hvað er eftir? Minningin ein, sagan ein ?  Sálin?

Þessar spurningar fengu alveg nýjan hljóm við hræðilegar fréttir frá frændsystkinum okkar í Noregi þar sem nær hundrað manns féll í fólskuverki eins manns.  Það minnti okkur ekki bara á það hversu ótrygg ævi manns er, heldur hversu stutt er milli lífs og dauða og hversu mikið illt er til meðal manna sem þjóna dauðanum en ekki lífinu.

Það er merkilegt að heyra Jesú tala um sálina með þessum hætti sem við heyrðum í guðspjallinu, eins og hún væri eign sem meta mætti til fjár.  Kannski væri betra að meta aldrei  neitt til fjár. Allavega ekki allan heiminn.
Hvaða eignir á maður?  Á maður eitthvað? Líf sitt kannski?
Dýrmætasta eign manns er hæfileikinn til að njóta fegurðarinnar, og næst henni hæfileikinn til að elska. Eða var það kannski öfugt? 

Á ég það sem ég sé?  Já, ég á það frekar en nokkuð annað. Og þó á ég það alls ekki. 

Er sál mín, ef hún er á annað borð til til, eign mín?Immanuel Kant sagði að það væri hægt að verðleggja allt í ríki tilgangsins. En maðurinn er tilgangur í sjálfum sér og hefur því engan verðmiða. Hann er ekki virði. Hann  hefur virðingu. Segir Kant. Of oft sýnist okkur að sú virðing vilji gleymast.

Hvað er þá maðurinn  þess að þú minnist hans ? segir í sálmunum. (Sálm.8.5) Er maðurinnn líkami, andi og sál?Andinn er kraftur sálarinnar sem hugsar og dregur upp myndir, sagði Aristóteles.Hér í óbyggðum manna  sem frelsarinn vitjar og gefur veðrið blítt, og Látra-Björg orti um, og  þar sem refar eiga greni, má líkast til vitna í þá góðu bók Litli prinsinn eftir Antoine De Saint-Exupéry. Þar er þessi dásamlega setning. Vertu sæll, sagði refurinn: Leyndarmál mitt er þetta. Það er mjög einfalt. Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það sem skiptir máli er ósýnilegt augunum.

Kæri Þönglabakkasöfnuður. Hér á kirkjugrunninum er margt að sjá með hjartanu. Líkast til er óvíða betra að tala um kirkjuna en þar sem kirkja fyrirfinnst engin. Ef til vill er hvergi sannari kirkja en einmitt þar sem hún sést best með hjartanu.
Einu sinni á ári komum við og byggjum kirkju hér á þessum fornu rústum. Kirkju úr einstaklingum sem sjálfir eru kirkja. Kirkju úr lifandi steinum.
Maður getur ekki byggt kirkju nema vera kirkja sjálfur.

Að skilningi trúarinnar er  heimkynni sálarinnar  guðsríkið í samfélagi Jesú Krists. Og þar með kirkjan. Heimkynni kirkjunnar er þá líka sálin.Og hvar er þá betra en hér, andspænis öllum heiminum sem líkt og vex hér upp úr kirkjugrunninum og kirkjugarðinum inn í óendanleikann sem við sjáum við hafsbrún, að hugleiða þessi orð Jesú:
Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?  Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?
Sálin er ekki neitt sem metið er til fjár. Sálin er í rauninni alls ekki metin nokkurs. Ég hef reyndar engar heyrt í seinni tíð velta fyrir sér spurningunni hvers virði er sálin sé.  En ég hef ekki heldur hitt nokkurn sem beinlínis dró í efa að hann hefði sál.

Er sálin verðmæti sem ég vil ekki glata?  Það virðist ekki vera spurning sem veldur óróa. Enda sjaldgæft að sálin sé nefnd í jákvæðu samhengi. Svo virðist að hún sé oftast nefnd vegna þess að einhver tegund af líðan mannanna sé þannig að hún verði bara skýrð með því að manni sé illt í  sálinni.  Þá er  sálin til. Annars væru jú ekki til sálfræðingar, nema þá atvinnulausir.
Góð líðan sálarinnar og framtíð hennar er nátengd hugmyndunumm um eilíft líf. Og í þeirri trú eru þau öll jörðuð sem hér liggja. Eins og Hallgrímur segir í Passíusálmunum (17.17)

Hér þegar verður hold
hulið í jarðarmold,
sálin hryggðarlaust hvílir.
Henni guðs miskunn skýlir.
Og það er alveg ljóst af reynslu kynslóðanna að sálarheill fæst ekki fyrir peninga, né er hún fólgin í eignum mannanna. Sálarheill er fólgin í því að þekkja Jesú Krist og játa nafn hans. Það gerist í samhengi kirkjunnar, jafnt hinnar sýnilegu og ósýnilegu. Hún játar með Pétri: : „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“Þess vegna er í dag athyglinni beint fyrst og fremst að spurningunni um grundvöll og starfsemi kirkjunnar á jörðu í mynd Péturs postula og spurningunni um lyklavaldið sem ekki verður skilið frá  spurningunni um  kærleiksþjónustu hirðisins: gæt þú lamba minna, vel að merkja bæði í vígri prestsþjónustu og hinni almennu þjónustu allra skírðra.

Jesús segir: Ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.Hvað merkja þessi orð Jesú við Pétur, klettinn sem hann byggir kirkju sína á,klettinn sem er þó alls enginn klettur þegar mest á reynir heldur kannast ekki við Herra sinn, svona rétt eins og margur sá sem lendir í þeim vanda að vera spurður um trú sína.

Kirkjan, söfnuðurinn, starfsfólk kirkjunnar og umfram annað prestarnir, standa nú  eins og svo oft áður, frammi fyrir stórum spurningum. Er kirkjan þjóðin, fyrst hún er þjóðkirkjan? Alls ekki. Kirkjan er ekki þjóðin og þjóðin er ekki kirkjan. Þjóðin er starfsvettvangur kirkjunnar.

Hvert er hlutverk kirkjunnar í nútíma samhengi?  Hvernig bregst hún við? Hvernig beitir hún kunnáttu sinni og umboði?
Hvaða vald hefur kirkjan, og hvaða vald hinir vígðu þjónar hennar? Getum við yfirleitt talað um vald? Er ekki vald algjörlega veraldlegt hugtak sem kirkjan, sem er andleg hreyfing trúarinnar á ekki að taka sér munn?
 

Að binda og leysa?  Að hafa áhrif á líf fólks bæði hér á jörðu og líka á himnum?Já, það vald hefur kirkjan öll. Ekki einstakir prestar, heldur kirkjan og í umboði hennar mæla prestarnir. Það er ótvírætt skilningur guðspjallsins. Og það er ekki svo að nein ein kirkja hafi þetta vald í ríkara mæli en aðrar, þó að það heyrist stundum. Og þaðan af síður einstaklingar.
Kristur hefur sjálfur falið kirkjunni þetta vald.  Það  vald og umboð hafa allir hennar vígðu þjónar, innan  þeirra marka sem kirkjan felur þeim. En það vald er ekki vald í venjulegum veraldlegum skilningi sem sendir fólk út og suður til misjafnra verkefna. Þetta vald snýst  fyrst og fremst um fyrirgefninguna og um kærleikann.
Það snýst um það að ná sáttum við Guð.  Aðeins þegar það er markmið mannsins skiptir sál hans máli. Annars ekki. 

Lyklavaldið snýst  alls ekki  um vald í veraldlegum skilningi. Lyklavaldið er veitt kirkjunni fyrst og fremst vegna þeirra sem sjá að sér, snúa yfir á betri braut í lífinu og iðrast þess sem þeir hafa gert og harma það, en það er líka veitt vegna  þeirra sem sjá ekki að sér í þeirri von að ógnin um lásinn sem enginn lýkur upp forði þeim frá villu síns vegar.
 
Kæri söfnuður. Stundum heyrir maður að lyklavaldið sé kaþólskt eins og líka  iðrunin, skriftirnar og aflausnin, og það er einskonar lenska að tala illa um það allt eða í það minnsta af tortryggni. 

Ef það var ekkert vit í því í kirkjunni að kalla sérhvern skírðan einstakling til ábyrgðar, þá þarf ég ekki heldur að horfast í augu við nokkra persónulega ábyrgð. Þá get ég líka bent á páfann í Róm sem orsök alls hins illa þar, og klagað biskupinn hér fyrir að hafa ekki nógu góða stjórn á kirkju sinni eða jafnvel sjálfum sér.Kæri söfnuður.Jesús guðspjallanna verður okkur oftar en ekki sýnilegur á göngu í guðsgrænni náttúrunni á starfstíma sínum, meðan hann umgekkst hér á jörð. Samtal hans og Péturs í guðspjallinu sem við heyrðum lesið, kallast á við orð hans við Pétur þegar hann fól honum hirðisþjónustuna  (Jóh. 21) og við orð hans til lærisveinanna um vínviðinn og greinarnar.(Jóh.15).
Þessi starfstími hefur einkenni sem Jesús kynnir með nýju boðorði: Að við sem erum  lærisveinar hans, elskum hvert annað. Ekki eins og þjónustufólk sem elskar húsbónda sinn, heldur eins og vinir. 
Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. (Jóh.15.15)
Hér er mikill munur á.  Þjónustufólk – húsbóndi. Þar  er bil á milli og aðgreining.
Vinir. Ekkert bil. Hver fyrir sig er einn af hópnum. Hann líka. Það er vegna þess að við deilum sömu þekkingu sem hann upplýsir okkur með.
Og samt  er hann leiðtoginn sem allt snýst um. Það skýrir hann enn þá betur með því að nota líkinguna um vínviðinn  og greinarnar.  Hann er stofninn, svo koma greinarnar og síðast þrúgurnar. Og þar erum við. Ávöxturinn sjálfur. Og ávöxturinn er vaxinn af því sem þangað berst frá stofninum.
Þið hafið ekki útvalið mig, segir Jesús. Ég hef valið ykkur!
Vínviðurinn, greinarnar og þrúgurnar. Þannig er kirkjan um allan heim.Hún safnast saman við borð Drottins hér á jörð og neytir máltíðar með honum. Jafnt í háreistum musterum sem litlum eða alveg engum, eða þeim sem gerast vart  fegurri en  Þönglabakkakirkja.

 

Vínviðargreinar
vér erum börn þín, Drottinn,
vaxin af sama stofni.
Í einum kaleik,
uppskeru þinna þrúgna
safnar þú, Kristur, saman,
því  þú ert stofninn
þar sem vér vöxum;
þiggjum líf þitt
í bikar og brauði
. Sálmur 713
Við erum tengd saman á einum stofni í einu systkynasamfélagi. Að elska er miklu meira en að bera heitar tilfinningar til einhvers,  hiti getur farið úr tilfinningum og komið kuldi og jafnvel frost í staðinn. Að elska er  þess vegna miklu meira en að vera ástfanginn, vegna þess að sú tilfinning beinist fyrst og fremst að einni manneskju umfram aðrar.
Að elska er miklu stærra, og víðtækara.  Það er hægt að elska aðra manneskju, fjölskylduna, vinahópinn, söfnuðinn, kirkjuna, allan heiminn, af því að elska  er að bera önn fyrir þeim sem maður elskar, að bera hag þeirra fyrir brjósti, styðja þau og styrkja  hvort sem vægi tilfinninganna gagnvart einstaklingum stendur lágt eða hátt á skalanum.  Ég get elskað manneskju sem ég er ekki ástfanginn af.  Og að elska er að axla ábyrgð á sjálfum sér og á öðrum. Til þess þarf mikinn kjark.
Versti óvinur kirkjunnar er hennar eigin ótti við að bregðast við þeirri ábyrgð sem henni er falin. Vegna þess að óttinn stendur í vegi fyrir því að vilji Guðs verði meðal barna hans.
Hirðishlutverk kirkju Jesú Krists eru mörg og misstór. Rétt eins og sumir eru smalar en aðrir sauðamenn. Öll erum við hluttakendur í þjónustu hins eina hirðis sem er Jesús sjálfur.
Hver sá sem tekur að sér hirðishlutverk í kirkjunni  stendur frammi fyrir spurningu Jesú Krists sem hann beindi til Péturs  um það að elska. Elskar þú mig?  Við þau sem geta svarað spurningunni játandi segir hann : Gæt þú!  Gæt þú lamba minna, hirðir. Eins og hann sagði við Pétur, leiðtoga kirkjunnar.  Að binda og leysa er hirðishlutverk, rétt eins og að hleypa kúnum út og setja þær aftur inn, þó að  það sé ekki öllum hirðum falið jafnt. Því að það er orð Guðs sjálft sem bindur og leysir, og þjónar orðsins sinna því.
Þetta er hlutverk kirkjunnar til að hafa reglu á hlutunum, regluna sem sprottin er af kærleika  Guðs. Og svo skulum við muna eftir fyrirheitinu sem líka felst í þessum orðum Jesú Krists, um kraftinn sem hann gefur okkur kirkju sinni . Á þessum kletti,segir hann, mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.Kirkjan er vettvangur lífsins, og dauðinn getur ekki sigrað hana. Sálin er staðfesting um sigur lífsins. Sálin er lífsandinn sjálfur, fæddur af anda Guðs sem vakir yfir Þönglabakka og okkur öllum og geymir þau sem hér hvíla.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen. 

 

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2349.