Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigrún Óskarsdóttir

Hver er kreppta konan II

19. júní 2011

Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.

En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“

Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. Lúk 13.10-17

Sigrún Óskarsdóttir, Kristín Þórunn Tómasdóttir og Guðrún KarlsdóttirHver er kreppta konan?

Er hún Manal Al-Sharif frá Saudi Arabíu?

Í fyrradag, á þjóðhátíðardaginn, vippaði ég mér umhugsunarlaust inn í bíl og ók sem leið lá í Árbæjarsafn þar sem brosandi brúðhjón biðu þess að innsigla ást sína með jásvari sínu hvert til annars. Seinna um daginn settist ég aftur undir stýri til þess að sækja norska vinkonu mína sem er stödd á landinu ásamt syni sínum og við höfðum boðið þeim í mat.

Í síðasta mánuði ákvað hin 32 ára gamla Manal Al-Sharif að setjast undir stýri. Dagin eftir að hún hafði birt myndskeið á You Tube þar sem hún sást aka var hún handtekin. Ákæra á hendur henni felst í því að: hún hvetji konur til að aka og með því ögri hún almennings álitinu. Í kjölfarið var sett af stað herferð á samskiptasíðunum þar sem konur eru hvattar til að keyra. Það þarf kjark, síðast þegar konur mótmæltu með þessum hætti var það árið 1990 þegar 47 konur tóku sig til og settust undir stýri og óku af stað. Þær voru handteknar í kjölfarið og þeim refsað. 17. júní, á því herrans ári 2011, já í fyrradag, óku 32 konur um götur Saudi Arabíu. Af viðtölum við nokkrar þeirra að dæma voru þær látnar óáreittar jafnvel þótt lögreglubílar hafi mætt þeim.

Hver réttir hana við?

Þarna er það samstaða kvennanna sem er lykilatriði. Þær gefast ekki upp. Þær vilja ekki vera krepptar heldur legga mikið á sig til þess að rétta sig sjálfar við og rétta um leið við systur sínar í landinu.

Saga kvenréttindabaráttu er saga samstöðu. Samstöðu kvenna og karla sem vilja jafnan rétt kynjanna. Manal Al-Sharif er kjörkuð.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var kjörkuð. Hún stofnaði Kvennablaðið árið 1895 og Kvenréttindafélagið 1907. Það hefur þurft hugrekki og samstöðu.

Íslenskt Kvennaframboð 1908 er framboð langt á undan sinni samtíð.
Úur og Rauðsokkur rugguðu bátnum hressilega.

Kvennafrídagurinn 24. okt. 1975 þegar 90% kvenna lagði niður störf sín vakti heimsathygli. Samstaða kvenna.
11. júlí n.k. eru 100 ár frá því íslenskar konur fengu rétt til embætta. Samsvarandi réttindi komust á mun síðar í nágrannalöndunum. Það liðu 63 ár frá því konur fengu þessi réttindi þar til fyrsta íslenska konan var prestvígð. Ég var níu ára og hlustaði á hávært samtal fullorðna fólksins. Þau voru ekki öll sammála, þetta var eitthvað um presta og kirkjuna og ég man að mér heyrðist þau segja Auður Eir, en ég taldi mig vita að mér hefði misheyrst þar sem konur voru ekki prestar. Hann hlýtur að heita Auðunn Eir man ég að ég hugsaði. Merkilegt hvering sumar hversdagslegar minningar sitja. Ég er þakklát sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur sem ruddi brautina fyrir okkur sem hér þjónum í dag og öðrum systrum okkar. Auður Eir og Manal Al-Sharif eru kjarkmiklar konur sem breyta sögunni.

• • •

Þessi prédikun var flutt í Grafarvogskirkju á kvennréttindegi, 19. júní. Hún var flutt af þremur prestsvígðum konum og er í þremur hlutum:

Guðrún Karlsdóttir: Hver er kreppta konan I
Sigrún Óskarsdóttir: Hver er kreppta konan II
Kristín Þórunn Tómasdóttir: Hver er kreppta konan III

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3304.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar