Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Brautryðjandinn

17. júní 2011

Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“ Matt. 7.24-27

Lofið Drottinn, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, því að miskunn
hans er voldug yfir oss og trúfesti hans varir að eilífu. Amen.

Karl Sigurbjörnsson, biskup ÍslandsGleðilega þjóðhátíð. Guð vors lands blessi það allt sem þessi dagur stendur fyrir í minningu og lífi íslensku þjóðarinnar, fæðingardagur frelsishetjunnar, Jóns Sigurðssonar, þegar tvö hundruð ár liðin frá fæðingu hans, sem nefndur var sómi Íslands, sverð og skjöldur.

Hér á eftir mun forseti Íslands leggja blómsveig frá þjóðinni að fótstalli styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli í virðingar og þakkarskyni. Og sjónum okkar er beint vestur í Arnarfjörð, að Hrafnseyri, þar sem hann fæddist og ólst upp, þar sem rætur hans lágu í frjóum jarðvegi lands og þjóðmenningar.

Ég gleymi því aldrei er faðir minn vakti athygli mína á lágmyndinni sem prýðir fótstall styttunnar. „Brautryðjandinn“ kallast sú mynd. Mér varð starsýnt á hana. Ég sem var öllum strákum minni og væskilslegri horfði með aðdáun á hinn vöðvastælta risa sem stendur styrkum fótum í urðinni og ryður grjóti úr vegi svo fólkið, þjóðin sem stendur ráðþrota við ófæruna, komist leiðar sinnar. Svona vill listamaðurinn minna okkur á það hvernig Jón Sigurðsson ruddi þjóðinni sinni brautina úr ófærum ánauðar og helsis til frelsis. Þess vegna er hann þjóðhetja Íslendinga, sem ber höfuð og herðar yfir aðra.

Risinn, kraftajötuninn á lágmyndinni gnæfir yfir mannfjöldann sem að baki honum stendur, - ofurhetju, myndu leikskólabörnin okkar kalla hann sem vegur björg á arma sér og breytir ófærunni í beina braut.

Um hann segir Hannes Hafstein í minningarljóði sínu:

„…minning kappans mest sem vakti
manndáð lýðs og sundrung hrakti,
fornar slóðir frelsis rakti,
fann og ruddi brautir þjóð.“

Jón Sigurðsson stendur stilltur á stalli sínum hér á Austurvelli, eins og fjarlæg helgimynd. Í hugum fátækrar, smáþjóðar sem þráði leiðtoga og fyrirmynd í baráttu sinni fékk mynd hans svipmót og yfirbragð helgimyndar og þjóðardýrlings. Styrkur hans var sannarlega andans styrkur, yfirburðaþekking hans á þjóðarsögunni og fornum réttindum þjóðarinnar, - hinum fornu frelsisslóðum-, sem Hannes Hafstein nefndi svo. Svo kom til skaphöfn, og persónuleiki sem hreif aðra með sér til fylgdar. Við blessum minningu hans.

„Eigi víkja!“ Var kjörorð Jóns Sigurðssonar. Það er ekki heppilegt til leiðsagnar í umferðinni, og tæpast í pólitíkinni. En getur verið ómetanleg herhvöt í baráttu að marki þegar öll sund virðast lokuð. Eða þá tekist er á um það sem aldrei má af hendi láta. Eftir þjóðfundinn 1851 sagði Jón, vígmóður og vonsvikinn, um landa sína: „að þeir séu börn, bráðlátir, hræddir, lauslyndir, hvatráðir og þó lausráðir.“ Þrátt fyrir það eða þess vegna vill hann ekki sleppa hendi sinni af þeim, og lét ekki af að brýna þjóðina til dáða. (Lúðvík Kristj. Vestl II, 2, 206) Herhvöt hans, „Eigi víkja!“ blés uppgefnum mönnum kjarki í brjóst, og eins er hann hvatti landa sína: „Nú er lag, Íslendingar!“ Hann var sprottinn úr jarðvegi þessarar þjóðar, hún heyrði og tók til sín boðskap hans og sá í honum persónugerving sinna bestu mannkosta og hugsjóna.

Þegar við minnumst Jóns Sigurðssonar í dag og þökkum og blessum lífsverk hans þá finnst mörgum sem þjóðin sé ráðþrota í vegleysu. Þjóðhátíð á afmælisdegi hans er okkur öllum áminning um að frelsi okkar og sjálfstæði er ekki sjálfsagt. Það er í raun ótrúlegt og ævintýri líkast að við skulum vera frjáls þjóð í frjálsu þjóðríki. Það var ekki fyrirhafnarlaus innlausn réttinda. Flestar þjóðir hafa þurft og þurfa að berjast fyrir frelsi sínu, sækja og verja vopnum. Sú er hamingja okkar mest að við náðum settu marki með samræðu og samningum og samstöðu um meginatriði og grundvallargildi. Því megum við aldrei gleyma. Það ætti ætíð að vera aðalsmerki okkar sem þjóð, virðing fyrir hinni opnu samræðu og friðsamlegum lausnum ágreiningsmála með virðingu fyrir andstæðum viðhorfum.

Við megum ekki heldur gleyma þeirri ást og trú á landið, sem bar uppi frelsisbaráttu þjóðarinnar, né heldur virðingu hennar fyrir sögu sinni og tungu. Og síst megum við gleyma því að við náðum okkar marki vegna skilnings og vináttu systraþjóða og vina. Á öllu þessu þurfum við enn og ætíð að halda ef við ætlum okkur að vera frjáls þjóð í þessu fagra, góða, auðuga landi. Frá þeirri sýn megum við eigi víkja!

Og eigi heldur víkja af þeirri braut sem markaðist af markvissu uppeldi í trú og sið við þau hollu grunnstef trúar og samfélagssýnar sem er umhyggjan, kærleikurinn, elskan til Guðs og náungans. Það mun enn valda úrslitum um heill og menningu þjóðar. Eigi víkja af vegi metnaðar um trausta menntun og menningu á heilbrigðum grundvelli hinna gömlu, heilbrigðu trúar og siðferðisgilda!

Og þau gildi eiga líka við um samskipti þjóða og kynþátta, nú þegar æ fleiri búa hér á meðal okkar af framandi uppruna, trú og sið. Eigi víkja af vegi virðingarinnar fyrir þeim, við sem flest eigum ættingja og ástvini sem sest hafa að í öðrum löndum til að sjá sér og sínum farborða. Eigi víkja af þeim vegi að leitast við að vera og veita öðrum það sem við vildum sjálf mæta af annarra hálfu.

Eigi víkja frá vitundinni um þá siðferðislegu skuldbindingu og sameiginlegu ábyrgð sem við berum á framtíðinni. Eigi víkja frá markmiði velferðar fyrir alla í samfélagi sem gefur öllum tækifæri, þar sem sérhver verkafús hönd fær atvinnu, þar sem enginn þarf að líða fátækt og skort. Eigi víkja frá þeim skuldbindingum sem við berum gagnvart börnunum og unga fólkinu í okkar landi, að við stöndum vörð um heill þess og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að verja það og beina því á veg hins góða. Á tímum þegar margur horfir reiður um öxl og starir inn í skugga fortíðar skulum við leitast við að horfa fram, fram til birtunnar í von. Eigi víkja frá hugsjón til æðri markmiða svo við séum þjóð, einstaklingar, sem bera virðingu fyrir sjálfum sér og hver öðrum, og lotningu fyrir lífinu, þessu undursamlega, brothætta, dýrmæta lífi sem okkur er léð.
Við stöndum nú í urðinni eins og mannfjöldinni á lágmyndinni þarna úti. En það er enginn kraftajötunn sem ryður okkur braut, og við skulum ekki leita hans.

Jón Sigurðsson var enginn kraftajötunn eða ofurmenni, hvað þá dýrlingur. Hann var maður, með sína bresti og takmarkanir. Hvorki hann, né nokkur annar maður, karl eða kona, á kröfu til ginnhelgi og dýrkunar. Oft hefur krafan um ofurmennið, goðumlíka leiðtogann sem öll ráð og lausnir hefur í hendi sér, leitt þjóðir undir ný ánauðarok og helsi. Það eru ófærur. Ofurmenni eru af skornum skammti, og helgir menn eru reyndar fáir og jafnan öðrum fremur meðvitaðir um smæð sína, synd og takmarkanir mannsins og þörf fyrir fyrirgefningu og frelsara, fyrir Guð.

Þegar Jesús kallar fólk til fylgdar við sig og sendir út til að greiða götu hins góða og sanna, þá kallar hann ekki á hetjur, engla eða dýrlinga, hann kallar á venjulegar manneskjur, manneskjur með hjartað á réttum stað og fæturna á jörðinni. Á slíku fólki þarf heimurinn að halda. Þannig fólk skulum við vera.

Guðspjallið, orð Jesú í fjallræðunni um grundvöllinn, minna okkur á það hve nauðsynlegt það er að standa með fæturna á jörðinni, á traustum grunni. Af því að við erum ekki ofurmenni, mannanna stoð og styrkur bregst, kerfi okkar og stoðir eru brotakenndar, og við erum einatt hikandi og efagjörn á grýttum og torfærum slóðum. En það er betra að standa veikur á traustum grunni en keikur á veikum grunni. Eigi víkja af bjarginu trausta sem aldrei brestur!

Guð signi frelsisdag og lýðveldishátíð og framtíð allra landsins barna.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3259.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar