Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Þegar leikskólakennararnir neituðu sér um kaffið

3. apríl 2011

Kaffi

Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“

Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.2M 16.11-18

Íslenski dagurinn á Steinahlíð


Yngstu börnin okkar ganga í leikskóla þar sem umhverfið er í hávegum haft. Þau byrja daginn á því að draga Grænfánann að húni. Hann minnir þau á að ganga vel um og gera það sem í þeirra valdi stendur til að virða umhverfið. Fyrir fjölskyldur barnanna þýðir þetta sterka hvatningu til að taka upp umhverfisvænari lífstíl, svo sem að ganga í leikskólann, flokka sorp og spara orku. Leikskólinn er líka með sitt eigið umhverfisráð, þar sem foreldrar og starfsfólk vinna í sameiningu að því að finna leiðir til að vera vænni og grænni.

Um daginn héldu þau upp á „íslenska daginn“. Þann dag var ekkert á borðum sem ekki er ræktað eða verður til á Íslandi. Það var heilmikil vinna og undirbúningur lögð í íslenska daginn og matseðillinn vandlega samansettur. Dagurinn hófst á bygggraut úr íslensku byggi, og svo fylgdu íslenskur fiskur, kjöt, egg, grænmeti og mjólkurvörur sem blessuð börnin lögðu sér til munns þennan dag.

Þetta mæltist vel fyrir - utan eitt atriði sem lagðist þungt á starfsfólkið. Þennan dag var ekki hellt upp á könnuna, þar sem kaffi er ekki eitt af því sem fæst úr íslenskri náttúru. Leikskólakennararnir kvörtuðu sáran yfir kaffileysinu í eftirmiðdaginn, þegar vinnudegi lauk og börnin voru sótt.

Sjálfbært samfélag


Íslenski dagurinn á leikskólanum gekk ekki út á að innprenta börnunum að það sem er íslenskt sé best og merkilegast - heldur miklu fremur að kenna þeim og hinum fullorðnu um það sem er kallað sjálfbærni. Á íslenska deginum var það gert með því að horfa til þess sem við sækjum til annarra landa og þess sem landið okkar gefur af sér. Um leið spyrjum við að hvaða marki við erum háð utanaðkomandi vörum eða innspýtingu. Sjálfbærni höfðar til þess að við eyðum ekki um efni fram heldur látum auðlindirnar okkar nægja fyrir því sem við neytum.

Það segir sig svolítið sjálft að ef þú eyðir meira en þú aflar, klárast smám saman það sem þú átt. Icy tríóið orðaði þetta með ódauðlegum hætti í fyrsta Evróvisjón framlagi Íslands árið 1986, þegar varað var við því að leggja ekkert inn og taka bara út.

Heimurinn okkar hefur veitt sjálfbærnishugsuninni aukna athygli síðustu árin vegna kreppu í orkumálum og þess hve lífsstíll vesturlandabúa hefur tekið mikinn toll af sköpunarverkinu. Gróðurhúsaáhrifin eru ein af afleiðingum ósjálfbærs lífsháttar. Þá er hlýnun andrúmslofts rakin til stóraukins magns koltvísýrings sem verður meðal annars til þegar eldsneyti er brennt. Eldsneyti er m.a. brennt þegar flugvélar þeytast heimshorna á milli með vínber frá Namibíu, rósir frá Kenýju, leikföng frá Kína og föt frá Indlandi, til kaupenda sem þiggja ódýrar vörur með þökkum. Allur þessi flutningur skilur eftir sig koltvísýringsspor sem étur upp það magn sem við ættum að sleppa út í andrúmsloftið til að jafnvægi raskist ekki. Þetta er eitt dæmi um ósjálfbæran lífsstíl.

Hamingjuyfirlýsingin


Í bókinni Hamingjuyfirlýsingin - The Happiness Manifesto - sem kom út fyrr á árinu er fjallað um sjálfbærni. Höfundur bókarinnar gagnrýnir þá mælikvarða sem við hafa notað til að meta samfélög, þar sem einkum er einblínt á hagvöxt og þjóðarframleiðslu. Hann segir meðal annars:

„Þjóðarframleiðsla tekur ekki tillit til heilsu barnanna okkar, gæði menntunarinnar sem þau fá eða gleðinnar sem birtist í leik þeirra. Hún nær ekki yfir fegurðina í ljóðlistinni okkar, gæði hjónabandanna, virði hins samtalsins í samfélaginu eða heilindi opinberra starfsmanna. Hún mælir ekki hugvitssemi okkar eða hugrekki, ekki virku, ekki þekkingu, ekki samúð eða afstöðu okkar til landsins. Í stuttu máli sagt þá mælir hún allt nema það sem gerir lífið þess virði að lifa því.“

Við getum verið sammála eða ósammála því hvort það er einmitt þetta sem gerir lífið einhvers virði, en eftir stendur sú staðreynd að mælikvarðarnir sem við höfum byggt mikið eru kannski ekki nógu góðir.

Höfundur Hamingjuyfirlýsingarinnar leggur til nýjan mælikvarða: Mælistiku hinnar hamingjusömu plánetu. Hún byggir á tvennu: Velferð þjóða og sjálfbærni þeirra. Velferð merkir í þessu samhengi tvennt: hamingju og heilbrigði.

Sjálfbærni er mæld út frá áhrifum þjóða á plánetuna, með því að horfa til svonefnds vistfræðilegs fótspors. Það er að segja, hversu mikil land þurfum við til að viðhalda lífsstíl okkar (miðað við magn koltvísýrings út í andrúmsloftið). Sú tala er tjáð út frá því sem kallað eru Hnattrænir hektarar. Miðað við fólksfjölda á jörðinni og magn lands þá eru hverjum einstaklingi úthlutaðir 2.1 hnatt-hektarar. Í Bretlandi notar hver íbúi 5.3 hHa, í Bandaríkjunum 9.4. Við vitum ekki hver talan er fyrir Ísland.

Samkvæmt þessum mælikvarða kemur Costa Rica best út. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þar er gott velferðarkerfi, hreint vatn og almennt læsi. Þau hafa ekki sinn eigin her. Fjölskyldutengsl eru góð og vinatengsl líka, jafnvægi vinn og einkalífs er gott, jafnrétti er viðhaft. Orkan á Costa Rica er líka að mestu endurnýjanleg.

Það er mjög margt í þessari upptalningu sem minnir á Ísland og aðstæður okkar hér. Látum það vera hvatningu um að nýta gæðin okkar í félags- og mannauði sem og jarðargæðin til að byggja hamingjuríkt og gott samfélag þar sem allir fá nóg og jörðinni er gert rétt til.

Daglegt brauð


Sjálfbærni er þannig mælanleg og raunveruleg og á við um stærri og smærri samfélög. Stærri samfélög eins og jarðarbúa alla, þar sem við öll öndum að okkur sama andrúmsloftinu, og smærri, eins og íslenski dagurinn í Steinahlíð minnir okkur á. Staðan sem sjálfbærnishugsunin er sprottin upp úr er vitanlega sú að manneskjan þarf ákveðna hluti til að lifa, og hún sækist eftir gæðum og því að gera líf sitt þægilegra og öruggara.

Lífsnautnahyggja vesturlanda, sem má lýsa þannig að við ætlumst til þess að fá epli og appelsínur allan ársins hring, þurfa ekki að ganga neitt heldur vera ekið upp að dyrum hvert sem er, og búa í risastórum upphituðum hýbýlum, er afar fjarlæg þeim veruleika sem manneskjur víðast hvar í heiminum búa við - og þeim veruleika sem kynslóðir Íslendinga lengst af máttu þekkja.

Að afla sér daglegs brauðs er verkefni okkar allra, hvar sem við erum, og hvenær sem við lifum. Textar sunnudagsins sem við heyrðum frá altarinu minna okkur á að áhyggjur af afkomu er eitthvað sem vitjar fólks óháð tíma sem það er uppi á. Ísraelsþjóðin gekk í gegnum sínar þrengingar og þurfti að treysta á aðstoð Guðs.

Umhyggjan og forsjá Guðs, sem Ísraelsþjóðin upplifir í þrengingum sínum, kallast á við sjálfbærnishugsun dagsins í dag. Hver og einn fékk að safna sér því magni af mat sem hann þurfti. Brauðið sem Guð gefur til matar er í samræmi við þarfir hvers og eins og sérhver safnaði því sem hann þurfti til matar.

Marteinn Lúther skrifaði í Fræðunum meiri um bænina „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ að hún sé í raun bæn fyrir öllu sem manneskjan þarfnast til að lifa og njóta lífsins á hverjum degi og gegn hverju því sem stendur í vegi fyrir því. Þetta þýðir að til okkar eru gerðar miklar kröfur: það er ekki nóg að gefa með sér af brauðinu sínu ef því fylgir ekki krafa um réttlæti til handa þeim sem líða undan fátækt.

Það er til nóg til af brauði til að fæða allan heiminn. Því hlýtur hungrið í heiminum að stafa af misskiptingu gæða. Sum hafa meira en nóg, önnur hafa alltof lítið. Slíkt er óásættanlegt. Hvort sem misskipting á rætur að rekja til græðgi, sögulegra atburða, náttúruhamfara eða vanþekkingar, á hún ekki að líðast. Við erum kölluð til að vinna gegn misskiptingu. Við erum kölluð til að uppræta hungur.

Eitt skref í þá átt er kannski að skipta um mælikvarða þegar kemur að því að fjalla um samfélög. Beina kastljósinu að manneskjum, kjörum þeirra og viðhorfi til lífsins frekar en að framleiðslutölum. Spyrja hvort lífsstíllinn okkar – sem einstaklinga og sem samfélags – sé þess eðlis að við getum viðhaldið honum án þess að það komi niður á öðrum. Ef ekki þá þarf að breyta.

Og það er brýningin á þessum brauðdegi í kirkjunni.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2559.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar