Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Ragnhildur Ásgeirsdóttir

Í lífsins ólgusjó

30. janúar 2011

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Litli báturinn hentist til og frá. Fram og aftur, til hliðar, upp og niður og högg mikil komu á hann. Þau sátu í lúkarnum – og heyrðu í óveðrinu sem geisaði. Þau voru á leið yfir Djúpið, 5 manna fjölskylda. Í upphafi ferðarinnar höfðu þau setið uppi á dekki en eftir skamma stund hafði skipstjóri bátsins sagt þeim að fara niður og koma sér þar fyrir eftir bestu getu. Þau sátu þröngt í myrkrinu, héldust í hendur og reyndu að styðja hvert við annað. Börnin urðu hrædd, móðirin fárveik af sjóveiki en faðirinn reyndi að bera sig vel og sagði þeim sögur til að hughreysta þau og telja í þau kjarkinn. Skipstjórinn var uppi í stýrishúsinu, tókst á við óveðrið og sigldi bátnum sem best hann gat af fagmennsku og öryggi. Faðirinn uppörvaði börnin, sagði þeim hversu góður og reyndur þessi skipstjóri væri, hann myndi koma þeim á áfangastað heilu og höldnu.

Þeim fannst þau hafa komist í hann krappann þegar báturinn nálgaðist land að nýju – þau litu út um lúkarinn og sáu ljósin í landi – ljósin í flæðarmálinu, luktirnar sem fólkið bar með sér sem átti von á þeim og var komið til að taka á móti þeim og bjóða þau velkomin. Bernskuminningin um ferðina yfir Ísafjarðardjúpið greyptist inn í huga þeirra og stendur þar enn ljóslifandi. Þau höfðu upplifað ógn, aðsteðjandi hættu og vá, fundið fyrir vanmætti og smæð og verið í þeirri aðstöðu að þurfa að treysta öðrum fyrir lífi sínu.

II.

Guðspjallstextinn sem við ætlum að íhuga saman fjallar einmitt um bátsferð og atburði sem gerast í þeirri ferð. Vinir Jesú voru á leið yfir Galileuvatn en Jesús var þeim ekki samferða. Hann hafði sent þá á undan sér en þeir höfðu ásamt honum verið að sinna miklum mannfjölda sem hafði leitað á náðir Jesú.

Í vinahópi Jesú voru sjóvanir menn, menn sem kunnu til verka og voru vanir veðrabrigðum. Þeim sóttist ferðin yfir vatnið seint þar sem mótvindur var mikill og báturinn lá undir áföllum. Þeir höfðu margoft lent í erfiðum aðstæðum á vatninu og eitt sinn þegar Jesús hafði verið með þeim í för í miklum stormi og óveðri var það hann sem hafði komið þeim til hjálpar. Nú voru þeir einir og söknuðu samfylgdar hans. Það var dimmt og veður var slæmt, ferðin var þeim erfið og þeir þurftu á Jesú að halda. Og Jesús kom….Hann vitjaði þeirra með einstökum hætti og sýndi þeim hver hann var og hvaðan hann hafði mátt sinn og mikilfengleik. Og þeir trúðu, vindinn lægði og þeir sögðu við Jesú: Sannarlega ert þú sonur Guðs.

III.

Guðspjallsfrásagan hefur sterka skírskotun og þær aðstæður sem hún lýsir af veðrabrigðum og ógn vegna náttúruafla er eitthvað sem við sem búum hér á Íslandi þekkjum af eigin raun. Hvernig veður geta breyst og hvernig skyndilega getur orðið brjálað veður þar sem hætta skapast.

Veðrabrigðin verða einnig í lífi okkar. Við reynum öll storma í ýmsum myndum sorgar og erfiðleika í lífinu og við þekkjum hræðsluna, kvíðann sem nístir merg og bein þegar stormurinn æðir stjórnlaust um og við fyllumst vanmætti og vonleysi. Við hrópum í angist okkar og magnleysi og biðjum um hjálp í erfiðum kringumstæðum. Reynsla okkar af erfiðleikum getur gert okkur að sterkari manneskjum, tré sem vaxa upp á vindasömu svæði mynda sterkasta viðinn. Á sama hátt geta áföll þroskað en þau geta einnig verið svo óvægin að þau buga og beygja manneskjur með alvarlegum afleiðingum.

IV.

Jesús birtist vinum sínum á vatninu. Þeir héldu fyrst að hann væri vofa og urðu mjög hræddir en um leið og þeir heyrðu og sáu að þetta var Jesús var það Pétur sem brást strax við. Pétur var um margt áhugaverður. Hann birtist í frásögnum guðspjallanna sem hvatvís, snöggur, duglegur og kraftmikill en líka einlægur maður og hjá honum greinum við glöggt þær mannlegu tilfinningar sem við þekkjum svo vel. Þess vegna kemur það ekki á óvart í frásögunni að það er einmitt Pétur sem í hvatvísi sinni bregst við. Pétur vildi fá að gera eins og Jesús. Hann vildi fá hlutdeild í kraftinum og fá að finna þennan kraft í lífi sínu á áþreifanlegan hátt.

Hann lagði af stað út í óvissuna, fullur hugrekkis og horfði til Jesú og þáði kraftinn af honum. Frábær tilfinning – Pétri fannst hann mikils megnugur og allir vegir færir. Óveðrið truflaði hann ekki lengur, öldurnar og ölduniðurinn hafði engin áhrif á hann. Hann gældi jafnvel við þá hugmynd að hann þyrfti kannski ekki á Jesú að halda. En um leið og hann gaf sig þeirri hugsun á vald og hætti að horfa til Jesú missti hann kraftinn, missti getuna og hræðslan og óttinn greip um sig í huga hans. Hann varð meðvitaður um óveðrið, hætti að treysta á Jesú og tók að sökkva.
Jesús er nálægur þegar við mætum stormi í lífi okkar. Þegar okkur finnst við óörugg og hrædd kemur hann með styrk sinn og kraft og gefur okkur af nálægð sinni. Biblían geymir marga vitnisburði og orð sem styrkja og gefa fullvissu um nálægð Guðs þrátt fyrir að við skynjum hana ekki.„ Gangir þú gegnum vötnin, er ég með þér, gegnum vatnsföllin þá flæða þau ekki yfir þig. Gangir þú gegnum eld skalt þú ekki brenna þig og loginn ekki granda þér…því að ég Drottinn er Guð þinn, ég hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn”.

V.

Reynsla vina Jesú sem fóru í bátsferðina varð til þess að trú þeirra efldist. Þeir fengu að finna enn á ný að í Jesú bjó kraftur og eitthvað sem var æðra og meira en þeir gátu skilið eða útskýrt. Þeir fengu að reyna að þeir gátu treyst á hann, að hann var einhver sem skildi þá ekki eftir í erfiðleikum þeirra eða vandræðum, að hann vitjaði þeirra þegar þeir þurftu á að halda og voru í neyð. Þeir áttuðu sig á að vinátta við hann var þeim lífsnauðsynleg og gaf lífi þeirra tilgang.

Þegar Pétur missti móðinn, tók að sökkva hrópaði hann til Jesú: Herra, bjarga þú mér.. og Jesús tók í hönd hans og reisti hann upp. Þannig getur Jesús reist okkur upp, gefið okkur styrk, gefið okkur kraft til að mæta lífinu eins og það kemur til okkar, eftir að við höfum örmagnast og eigum ekkert þrek, engan sálarstyrk. Jesús kemur og réttir okkur höndina sína sem er svo gefandi og sterk.

Á listasafni var fjöldi málverka eftir ýmsa listamenn og maður nokkur gekk um og naut sýningarinnar. Hann sá eina mynd sem vakti athygli hans og þegar hann hafði horft á hana stutta stund hélt hann í burtu en myndin kallaði svo á hann að hann fór að henni aftur. Hann stóð við myndina og ætlaði aldrei að geta slitið sig frá henni svo sterk áhrif hafði hún á hann. Myndin var mjög dökk, mynd af fábrotnu herbergi og í forgrunni var rúm. Í rúminu lá veik telpa. Læknirinn sat vonlaus við rúmstokkinn og foreldrar hennar stóðu við rúmið þrungin sorg. Myrkrið og sorgin grúfðu yfir og aðstæðurnar virtust vonlausar, Maðurinn fann hvernig myndin nísti hann í hjartað og hann spurði sjálfan sig: Hvar er Guð í þessum aðstæðum? Þá allt í einu tók hann eftir að í hægra horni myndarinnar var lítill gluggi og inn um þennan glugga kom veik birta. Birta inn í þetta myrkvaða herbergi.

Já, jafnvel á erfiðustu tímum lífsins þegar myrkrið virðist yfirþyrmandi og ljósið langt undan, þá er Jesús nálægur og gefur af ljósi sínu.  Málverkið á listasafninu er sterk tilvísun í það ljós og þá guðlegu birtu. Birtu sem Jesús gefur í líf manneskjunnar.  Að þiggja það ljós og þá birtu felur í sér vináttuna við Jesú, vináttu sem byggir á samfylgd við hann sem guðspjallsfrásagan vitnar um. Samfylgd við Jesú sem er ætíð nálægur og yfirgefur okkur aldrei.

VI.

Þegar sumardvölinni var lokið í hópi góðra vina þurfti fjölskyldan að fara yfir Djúpið á ný. Það var kvíði í fjölskyldumeðlimunum. Fyrri ferðin var þeim enn í fersku minni og þau höfðu ekki mikinn áhuga á að endurtaka hana. Að þessu sinni var hópurinn stærri sem fór í bátinn, þar sem vinafjölskylda þeirra var einnig með í för. Tvær fjölskyldur og stór barnahópur var farmurinn sem báturinn lagði af stað með yfir Djúpið. Á fallegum sumardegi, í sól og blíðu og veðri svo góðu að hópurinn sat uppi á dekki alla bátsferðina.

Skipstjórinn hafði á orði þegar hann var kominn með hópinn á leiðarenda, að þetta hefði verið einn dýrmætasti farmur sem hann hafði haft meðferðis á sinni skipstjórnartíð.

Í bernskuminningunni eru ferðirnar tvær yfir Djúpið jafn áhrifamiklar, ferðin í ólgusjónum mikla og ferðin í veðrinu góða. Ferðir sem eru táknrænar og hafa sterka tilvísun til þeirrar ferðar sem lífið er.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1745.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar