Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Gamli rembingurinn

23. janúar 2011

Á föstudaginn var sat ég opinn fund á vegum Fræðaseturs þriðja geirans og samtakanna Almannaheilla þar sem rætt var um matarúthlutanir hjálparsamtaka sem nokkuð hafa verið til umræðu. Þar stýrði fundi ein af okkar góðu landsmæðrum Guðrún Agnarsdóttir og mikill fjöldi fólks var saman kominn frá hinum ýmsu hjálparsamtökum, margir félagsráðgjafar sveitarfélaga vor þarna líka, fulltrúar ríkis og borgar, prestar og allskyns fólk sem vildi taka þátt í samtalinu. Margt fróðlegt og gagnlegt var tjáð í máli fyrirlesara og góðar fyrirspurnir bornar fram og niðurstaðan af þessum stóra fundi var í aðal atriðum engin. Enginn vill hinar umdeildu pokaraðir og enginn kann ráð til að breyta stöðunni.
Sú spurning sem allir eru að spyrja að er í raun þessi: Hvernig er hægt að móta samfélag þar sem viðunandi velferð allra er tryggð? Samfélag þar sem fólk einangrast ekki og gleymist, - er það raunhæft markmið?

Stundum þegar verið er að ræða þessi mál er fullyrt að öllu hafi farið aftur, að áður hafi ríkt meira réttlæti og jöfnuður í samfélagi okkar. Ég held að við séum ekkert að sýna gengnum kynslóðum meiri virðingu með því að halda að þær hefðu ekki fallið í allar sömu gryfjur og við hefði þeim staðið það til boða. Ætli rembingurinn og mannamunurinn hafi nú ekki bara legið undir niðri og fundið sér ýmsar birtingarmyndir hjá þeim eins og okkur. Ég held það. Núna lifum við hins vegar þá tíma að efnisleg gæði, tæknileg þekking og upplýsingaflæði er með þeim hætti að hinn hversdagslegi mannlegi rembingur og sjálflægni verður meira áberandi og skemmir meira út frá sér. Við lifum á tímum alþjóðavæðingar þar sem landamæri og fjarlægðir skipta minna og minna máli og sá einfaldi sannleikur að við lifum á lítilli kúlu sem svífur í geimnum blasir við.  Náttúra jarðar virðist kveinkar sér og sýna ýmis streitueinkenni með hrapandi fuglum, flóðum og dutlungum í veðurfari og samfélag þjóðanna er orðið að meðvitaðri stærð. Já, mannkyn er meðvitaðra um sjálft sig nú en fyrr og almenningur í mörgum löndum er í virku samtali í gegnum fjölmiðla og alnet. Svo er viðkvæmum upplýsingum um atferli ráðamanna lekið  inn í almannavitundina svo að mörgum er brugðið. Þannig má fullyrða að þótt manneðlið sé ekki breytt þá séu aðstæður breyttar, tækin okkar eru orðin afkastameiri og almenningur er vaknaður til áður óþekktrar meðvitundar.

Niðurstaðan af þessum góða fundi sem haldinn var á Hóteli Sögu sem núna heitir alþjóðavæddu nafni sem ég kann ekki að stafa var s.s. í grófum dráttum engin, en þó mátti vel skilja af máli manna að allir vissu hvað veldur óviðunandi velferð margra í samfélagi okkar. Við vitum ósköp vel að það er gamli rembingurinn sem veldur og við finnum líka að það er eitthvað í samvitund okkar sem gerir það að verkum að við getum ekki lengur látið eins og ekkert sé.

Í guðspjalli dagsins er lausnin á rembingsvandanum til umræðu þegar vinir Jesú biðja hann og segja: „Auk okkur trú”, og hann svarar: „Ef þið hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þið sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða ykkur.”
(Lúk 17.5-10)

Ekki rembast er Jesús að segja. Missið ekki af gæðum lífsins með rembingi.

Mustarðskornið virðist hafa verið Jesú hugstætt og hann notaði það gjarnan sem tákn í ræðum sínu: „Smæst er það allra sáðkorna en nær það vex er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“ segir hann á einum stað. (Matt. 13.32)

Aðferð trúarinnar í glímunni við veruleikann er aðferð mustarðskornsins. Sáðkornið bara er. Það unir í sjálfu sér. Í því býr allt sem búa þarf. Í litlu mustarðskorni býr heill heimur. Í því er fólgið hið stærsta tré sem í fyllingu tímans lifir í samhengi við vatnasvið jarðvegsins, fulga himinsins, skordýr og sveppi, mosa og manneskjur sem leita skjóls í skugga þess. – „Ef þið hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þið sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða ykkur.”
Já, ef þú bara vissir hver þú ert. Ef þú vildir bara taka við því hvað í þér er fólgið þá væri allur ótti þinn á bak og braut og vandi þinn horfinn.

Við höldum og höfum lengi verið þess fullviss að við séum það sem við höfum og að enginn sé neitt í sjálfum sér. ‘Merkin sýna verkin’, segja menn, og trúa því að þeir séu í rauninni það sem þeir afreka eða eignast. Síðustu ár hefur menning okkar svo þróað aðferðir til þess að færa sýndarmennskuna í nýjar hæðir og rembingur okkar hefur í vaxandi mæli hætt að snúast um það eitt að hafa en fremur einbeitt sér að því verkefni að virðast hafa. Fésbókin er t.d. kjörinn vettvangur til slíkra samskipta.

Efnahagshrunið okkar margfræga var þannig ekki sýst á sviði sýndarveruleikans. Þar var hrunið tilfinnanlegast, - í lífi allra sem virtust hafa svo mikið í uppteiknuðum auði.

„Ef þið hefðuð trú eins og mustarðskorn” segir frelsarinn.
Ef þið bara sæuð hver þið eruð og leggðuð rembinginn á hilluna!

Textinn sem fluttur var hér áðan frá Hósea spámanni (Hós 2.20-25)
fjallar um atburðarásina sem  verður þegar menn opna augun í trú og það sem gerast mun í samfélaginu þegar þetta sem í Biblíunni er kallað guðsþekking verður að almenningseign. Og núna þegar ég les textann skulum við ekki láta það trufla okkur þótt hann miðist við hina fornu Ísraelsþjóð, hann er í sannleika hugsaður handa öllum þjóðum. Þar talar Guð og segir:
„Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar og eyði boga, sverði og stríði úr landinu og læt þá búa óhulta.”

Hér ræðir í rúmlega 2700 ára gömlum texta um þessa óþægilegu tilfinningu að vera kominn úr takti við lífríkið svo að náttúran sé farin að hafna okkur og svo um þann vanda sem var til umræðu á Hóteli Sögu á föstudaginn var; etta með ójöfnuðinn og tilfinningu almennings fyrir því að mæta stöðugt afgangi og óttann við að upp úr sjóði í samfélaginu. Og það er greint frá því hvernig vandinn leysist með því að menn hætti öllum rembingi en opni augun fyrir hinu stóra samhengi sínu, eignist guðsþekkingu:

„Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar og eyði boga, sverði og stríði úr landinu og læt þá búa óhulta.” -  Skyldi það vera satt að jafnvægi í náttúru og friður í samskiptum sé ávöxtur guðsþekkingar þegar menn leggja frá sér metinginn og taka við sannleikanum um sjálfan sig? Skyldi það vera satt?

Svo er Hósea spámaður svo frumlegur að hann notar þekkt orðalag úr brúðkaupssiðum samtíma síns og leggur Guði í munn ávarp brúðgumans til brúðarinnar er hann talar til þjóðarinnar: „Ég festi þig mér um alla framtíð, ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, ég festi þig mér í tryggð, og þú munt þekkja Drottin.”

Allir sem sátu fundinn á Hóteli Sögu vita hvað réttlæti er og gildi kærleikans í mannlegum samskiptum er fólki ekki hulið. Spurningin sem eftir stóð þegar fundi lauk var hins vegar sú hvernig það megi gerast að réttlætið verði að réttvísi og að kærleikurinn birtist í miskunnsemi svo að okkur takist að breyta bróðurlega hverju við annað.  Svar hinna fornu ritninga, svar trúarinnar er TRÚ. Þetta gerist í trú. Ekki í þeim skilningi að Guðinn vilji fá okkur til þess að halda eitthvað um sig og tileinka okkur einhverjar sagnir og hefðir sem tæknilegan sannleika. Slíkt er ekki trú. Guð vantar ekki að þú haldir eitthvað um hann. Trú er ekki aðferð til að nota hún er samfélag sem má þiggja rétt eins og hjónaband er ekki aðferð heldur samfélag sálufélaga og vina:
„Ég festi þig mér um alla framtíð” segir Guð við þjóðina, „ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, ég festi þig mér í tryggð, og þú munt þekkja Drottin.”

Þegar mustarðskornið nær vaxtartakmarki sínu verður það að stóru tré sem lifir og þróast í óendanlega flóknu og nærandi samhengi við umhverfi sitt. Fyrst allt þetta undur býr í örsmáu fræi hvað skyldi þá búa í þér? Hvert skyldi vera þitt stóra samhengi? Því hvíslar Jóhannes lærisveinn í bréfi sínu, eða mér finnst hann hvísla þegar hann skrifar: „Nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er.” (1. Jóh. 2.3)

Taktu við því hver þú ert. Trúðu eins og mustarðskornið. Vittu að þú ert nóg.  Þannig tekur þú þátt í verki Guðs sem vill að allir menn komist til þekkingar á sér, kveðji rembinginn og leyfi réttvísi og miskunnsemi vaxa í landinu.

Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1908.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar