Trúin og lífið
Postillan


Undirsíður

Eftir sama prédikara

Skyldar prédikanir

Kirkjuárið

Prédikanir á trú.is eru birtar undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í prédikunum

Jón Ómar Gunnarsson

Sjá Guð yðar kemur

Flutt 12. desember 2010 í Fella - og Hólakirkju

Í dag er þriðji sunnudagur í aðventu, það er eitthvað svo stutt síðan að við tendruðum fyrsta ljósið á aðventukransinum. En svona líður tíminn hratt og senn koma jólin. Ég vona að þið hafið átt góða og innihaldsríka aðventu. Ég vona að samhliða öllum jólaundirbúningnum hafið þið getað ræktað trúna og íhugað boðskap jólanna. Það er nefnilega svo margt um að vera og að svo mörgu að hyggja þessa undirbúningsdaga fyrir jólahátíðina. Það þarf að huga að bakstrinum, jólahreingerningunni, jólakortunum, jólamatnum, skreytingunum og jólapökkunum. Allt er þetta gert til þess að skapa hina einu sönnu jólastemmningu. Það er vel, en við megum þó varast því að gleyma okkur í asa undirbúningins og verða svo upptekin af hinu smá að við sjáum ekki heildarmyndina.

Við erum að bíða, við erum að bíða eftir jólum og í biðinni ætti að vera fólgin eftirvænting og tilhlökkun yfir öllu því sem framundan er. Fyrir mörgum árum þegar ég var barn að aldri bjó fjölskyldan mín í Bandaríkjunum langt frá ættingjum og vinum á Íslandi. Það var því alltaf mikið tilhlökkunarefni þegar ættingjar og vinir að heiman boðuðu komu sína. Þá fór í hönd undirbúningurinn fyrir gestskomuna: gestaherbergið gert til og allt þrifið hátt og lágt. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar einn frændinn boðaði komu sína, því okkur systkininum þótti hann sérstaklega skemmtilegur. Eftirvæntingin var gífurleg við gerðum ekki annað en að tala um hve mikið við hlökkuðum til komu frændans. Hvað við myndum gera saman og hvaða gjafir myndi hann nú færa okkur. Svo mikið töluðum við um þennan frænda að hans var ekki einungis beðið með eftirvæntingu af okkur systkinunum heldur flestra barnanna sem bjuggu í götunni okkar, sem þó höfðu aldrei hitt þennan íslenska frænda. Þegar komudagurinn rann upp var spennan í hámarki og við systkinin mætt snemma morguns ásamt fleirum á götuhornið og biðum eftirvæntingarfull og við máttum svo sannarlega bíða, það var eins og tíminn stæði í stað og biðin virtist stundum óbærileg. Við létum það ekki á okkur fá og héldum kyrru fyrir og loks var biðin á enda og fögnuðurinn gífurlegur yfir komu þessa frænda.

Við þekkjum það öll við að hafa beðið í eftirvæntingu eftir einhverjum t.d. vini, forledri, barni og í sumum tilvikum barnabarni eða jafnvel barnabarnabarni. Við fyllumst tilhlökkun og eftirvæntingu eftir þeim sem við þekkjum og þykir vænt um og þannig tími er aðventan. Hún er tíminn sem við bíðum eftir jólahátíðinni, eftir Guði okkar. Það að bíða hefur ekki ýkja jákvæða merkingu í hugum okkar nútímamanna, sem oft reynist erfitt að bíða. En aðventan snýst um bið hún er sá tími kirkjuársins sem við minnumst tímans þegar fólkið beið. Við minnumst tímans fyrir fæðingu Jesú. Á aðventunni hverfur kristið fólk aftur til þessa tíma biðarinnar. Við hverfum aftur til tímans þegar hinir herleiddu Ísraelsmenn í Babýlon biðu eftir einhverju, þráðu eitthvað sem myndi breyta öllu. Við hverfum aftur til heims sem vænti frelsara. Við lesum spádóma Gamla testamentisins, lesum um þrá hinna herleiddu eftir frelsi frá þrældómi, löngun þeirra og von um að fá einn dag að snúa aftur heim og við lesum um von, von um endurnýjað samaband við Guð.

Ritningartextar aðventunnar eru textar tilhlökkunar og eftirvæntingar, textar sem snúst um loforð Guðs til mannanna um að hann myndi senda frelsara. Textinn sem við heyrðum lesin hér frá altarinu er dæmi um slíkan texta. Í Spádómsbók Jesaja lesum við vonarboðskap sem fluttur var Ísraelsmönnum forðum:

„Sjá, Guð yðar kemur í mætti og ríkir með máttugum armi. Sjá, sigurlaun hans eru með honum
og fengur hans fer fyrir honum. Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga,
taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu…‟

Ísraelsmenn voru í útlegð heil þjóð hafði verið hrakin frá heimalandi sínu og gert að búa í landi kúgara sinna, Babýlóníumanna.Trú þeirra og menning hafði verið lítilsvirt af herjum óvinnanna. Úrkúla vonar biðu synir og dætur Ísrales kynslóð eftir kynslóð eftir Guði sínum. Sumir misstu móðinn og létu undan háði og spotti Babýlóníumanna og aðrir biðu af gömlum vana. Mitt í þessum hörmulegu aðstæðum hljómaði fagnaðarboðið: „Sjá Guð yðar kemur í mætti‟ Hann kemur inn í heim sem virðist hafa hafnað honum. Kúgararnir höfðu lýst því yfir að Guð Ísraelsmanna væri dauður og til einskis nýtur. Fagnaðarboðið er að Guð hinna kúguðu var þrátt fyrir allt nálægur og sjá hann kemur ekki til þess að dæma eða refsa heldur til þess að frelsa og leiða eins og hirðir sem heldur hjörð sinni til haga. Koma hans átti eftir að breyta öllu. Ekkert yrði eins á ný.

Jóhannesi skírara var fengið það hlutverk að vera fagnaðarboði, honum var falið að „Greiða veg Drottins og gera beinar brautir hans…‟ Hann átti að undirbúa fólk fyrir komu Jesú inn í þennan heim. Hann boðaði að eitthvað stórkostlegt væri í þann veginn að verða að raunveruleika, eitthvað svo stórkostlegt að mannleg hugsun gæti vart skilið hve róttækar breytingar það fæli í sér. Hann benti fram á við og sagði: Allt sem þú þráir er að verða að raunveruleika: „Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans.“ Því „Sjá Guð yðar kemur…“ Undirbúðu þig, því þegar Jesús kom inn í þennan heim hina fyrstu jólanótt var sá viðburður þess eðlis að hann umbreytti öllu.

Og þegar Jesús kemur inn í þennan heim umbreytir hann öllu til hins betra. Á þessari aðventu væntum við þess og þráum að svo mætti verða, en við hvorki skiljum né vitum fyllilega hvað koma hans hefur í för með sér. Þú kannt að hugsa núna: „Jú við vitum það víst hann hefur þegar komið og við vitum hverju hann breytir!‟ En sannleikurinn er sá að við vitum það ekki. Við vitum um sumt sem hann hefur breytt í lífum okkar og annarra, í samfélaginu okkar, í kirkjunnar og í heiminum. En við vitum ekki allt og við vitum ekki enn hverju hann gæti breytt. Það er meira og við bíðum enn eftir því sem gæti orðið að veruleika ef Jesús myndi bara öðlast stærri sess í lífum okkar, ef hann mætti eiga hjarta okkar allt. Í skammdegi desmebermánuðar brýtur ljós aðventunnar sér leið í gegnum myrkrið. Við tendrum aðventukertin í þeirri von að á þessum jólum mætti sannleikurinn brjótast fram og fagnaðarboðið hljóma: „Sjá Guð yðar kemur…“ Hvert ljós sem er tendrað í trú á aðventunni er svar við þessu boði. Það er sem bæn: „Kom, þú drottinn Jesús“ Já kom þú, drottinn Jesús á þessum jólum og umbreyttu okkur, kirkjunni þinni og alla veröldina. „Kom þú, Drottinn Jesús“

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og Þjóðkirkjan. Flettingar 2027.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar