Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Krosseignatengsl

21. nóvember 2010

Á miðvikudaginn var, átti Akureyrarkirkja 70 ára vígsluafmæli. Sjötíu ár eru í sjálfu sér ekki langur lífaldur en þó hefur þessi tími sem liðinn er frá vígsludegi kirkjunnar verið afar viðburðaríkur og margbreytilegur. Hér hafa margar sögur gerst, persónulegar sögur, lífsreynslusögur, innan þessara veggja hafa hjörtu slegið í takt við hvert annað, í ást og þakklæti, í sorg og samhyggð. Hún er dálítíð annarleg tilfinningin sem grípur mann þegar maður hugsar til þess að dag einn, muni þessir veggir standa áfram, að Coventry rúðan verði á sínum stað, skírnarfonturinn, prédikunarstóllinn og bekkirnir en sjálfur verði maður genginn inn í eilífðina. Á vígsludegi kirkjunnar þann 17.nóvember árið 1940 stóð faðir minn fimm ára gamall í kirkjutröppunum og horfði hátíðlegur á þennan nýja helgidóm sem honum fannst allt eins geta sómt sér í sjálfu himnaríki, hann átti líka afmæli þennan dag, stærðarhlutföllin milli drengsins og kirkjunnar hafa verið býsna yfirgnæfandi en fegurðin og virðuleikinn voru þó hálfu meiri. Ég hugsa að stærri afmælisgjöf hafi verið vandfundin handa fimm ára snáða sem komin var af alþýðufólki á Oddeyrinni. Hér þáði hann líka andlega næringu og trúarlegt uppeldi af hendi séra Péturs heitins Sigurgeirssonar sem varð til þess að leiðin lá beint inn í þjónustu kirkjunnar, þjónustu sem tók yfir 40 ár.

Já þær eru margar og ólíkar sögurnar sem veggirnir hér geyma, en þó eiga þær eitt sameiginlegt, þær fjalla um tengsl. Tengsl við Guð og tengsl við menn, tengsl við sögu en síðast en ekki síst, tengsl við tilfinningar.

Hugtakið tengsl hefur öðlast neikvæða merkingu á umliðnum árum. Það er slæmt. Í dag er gjarnan talað um tengsl í sömu svipan og samráð og spillingu, hugtakið krosseignatengsl fær hárin til að rísa því það eru einmitt þau „tengsl“ sem talin eru eiga talsverða sök á bankahruningu og þar af leiðandi efnahagskreppunni. Með krosseignatengslum eru menn gjarnan báðu megin borðsins og geta þess vegna verið í þeirri stöðu að semja við sjálfa sig um kaup og kjör, sem eru náttúrulega í fyllsta máta óeðlilegir viðskiptahættir. Og nú hækkar í umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju eins og þar sé um að ræða óeðlilegt samráð eða jafnvel spillingu, þó er nú harla erfitt að heimfæra krosseignatengsl upp á þau samskipti, því í tilviki ríkis og kirkju er um að ræða einn veruleika sem situr gegnt algóðum Guði. Það þýðir m.ö.o að kirkjan situr ekki gegnt ríkinu heldur við hlið þess í því markmiði að þjóna börnum þessa lands, stórum sem smáum, þannig styður ríkið við kirkjuna og kirkjan við ríkið. Þess vegna er afar nauðsynlegt að samskipti ríkis og kirkju séu hreinskiptin, heiðarleg og heilbrigð eins og í farsælu hjónabandi, að þar séu allir hagsmunir upp á borðum og markmið samfylgdarinnar sé ætíð að auka lífsgæði landsmanna og skapa öryggi. Í farsælu hjónabandi má ekki hvíla fjárhagsleynd, þar þarf að ríkja traust sem grundvöllur þess frelsis sem hvor einstaklingur þarf að hafa til þess að þroska hæfileika sína og sérkenni. Í farsælu hjónabandi ríkir ekki tortryggni né samkeppni, þar er það samstaðan og stuðningurinn sem skipta höfuðmáli.

Lítum aðeins um öxl og skoðum þau viðmið og gildi sem leiddu okkur í efnahagslegar ógöngur, þá skulum við ekki rýna í einstaklinga eða fyrirtæki heldur hugmyndafræðina sem sem skóp jarðveginn fyrir krosseignatengslum og kennitölurússi. Það var hugmyndin um að hver væri sjálfum sér næstur og að hinum frjálsa einstaklingi væru allir vegir færir, þ.e.a.s ef hann hafði fulla heilsu, aðgang að fjármunum og þekkti rétta fólkið. Það sem skóp þennan jarðveg var s.s. ákveðið tengslaleysi við náungann, veruleikann og náttúruna.

Sá sem sem hættir að rækta tengsl sem byggja á því að gefa og þiggja en ekki bara þiggja hættir að þekkja sjálfan sig og það er vont.

Það sem einkennir sögu þessarar kirkju líkt og fjölda annarra kirkna er að hún byggir á tengslum sem hafa ekki orðið af tilviljun einni heldur vegna fórnar og þakklætis í jöfnum hlutföllum. Hér hafa mæður og feður borið börn sín til skírnar af einskærri ást og þakklæti fyrir þennan nýja einstakling, það er hvatinn sem knýr hvert foreldri áfram, þar eru engin krosseignatengsl, þar sitja foreldrarnir sömu megin borðsins. Hér hafa ættingjar og vinir fylgt ástvini til grafar af kærleika og þakklæti, erindi þeirra er ekki annað. Og hér hafa brúðhjón unnið sín heit og þegið blessun Guðs yfir tilfinningum sínum og samfylgd, þeim hefur bara gengið gott eitt til. Hér hafa fermingarbörn játað Jesú Krist sem fyrirmynd sína, af því að þau hafa skilið að það eina sem skiptir í raun máli er að vera góð manneskja og allt annað er aukaatriði, það er nú bara erindi þeirra og enginn skal halda því fram að græðgin knýji þau áfram, því það er ekki svo. Kirkjan er ekki leyniregla heldur opinn vettvangur skoðanaskipta, tengsla og tilbeiðslu. Hún hefur af svo miklu að miðla, boðskap sem ræktar líf og gleði og réttlæti þessa þrenningu sem við þurfum öll á að halda.

Guðspjall dagsins er krefjandi, það er engin „hunangskaka“ eins og Kaj Munk myndi orða það, nei það er meira svona íslenskur þorramatur:

Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Sýnist þér sem þessi orð eigi erindi inn í okkar samfélag? Veistu að bilið milli ríkra og fátækra stækkar og stækkar í okkar litla samfélagi sem heitir Ísland, hér hefur myndast helvítisgjá eins og í ævintýrinu eftir Astrid Lindgren um hana Ronju ræningjadóttur. Veistu líka að það er uppselt á alla tónleika Frostrósa núna á aðventunni og miðinn kostar rúmar 7000 þúsund krónur á meðan manneskjur standa í biðröðum fyrir framan mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands í von um matargjafir. Ég er ekki að segja að þú eigir að fá samviskubit af því að hlusta á Frostrósir, ég var meira að segja sjálf að hugsa um að fara en þá var bara uppselt, nei ástæðan fyrir því að ég bendi á þetta er að þessar staðreyndir varpa ljósi á samtíma okkar. Það eru margir rændir gleðinni og réttlætinu í þessu samfélagi og af hverju stafar það? Í grunninn stafar það af tengslaleysi og mannlegri fjarlægð og þar hefur kirkjan tækin til að laga.

Kirkjan býr yfir þekkingu og reynslu og grundvelli til að leiða saman þjóðfélagshópa og rækta tengsl sem grundvallast ekki á aumingjagæsku heldur jafnræðistengslum, þar sem valdi er dreift og einstaklingurinn er ekki bara óvirkur þiggjandi heldur fær tækifæri til að miðla af náðargáfum sínum og styrkleikum. Ég er að segja þér að svona er kirkjan að starfa út um allt land, hvort sem er í æskulýðsstarfi, 12 sporastarfi, sálgæslu, kvenfélögum, kórastarfi osfrv. Af hverju ætti okkur að vera í mun að hafna þessari þekkingu og reynslu þegar við horfum fram á meiri félagslega einangrun og afskiptaleysi í samfélaginu, af hverju má kirkjan ekki vera samferða þjóðinni í gagnrýnum vinnubrögðum og með nýja kynslóð þjóna á þilfari sem eru börn síns tíma og kynslóðar? Kirkjan er ekki óskeikul líkt og sagan sannar enda ætlaði Kristur henni það aldrei, hann ætlaði henni að vera mitt á meðal manna, skip í ólgusjó tíðarandans, þar sem engum er kastað frá borði en allir dregnir til ábyrgðar og þjónustu við Guð og menn.

Kannski getum við fundið krosseignatengslunum nýja merkingu, með krossdauða sínum gaf Kristur okkur nefnilega öllum hlutdeild í nýju lífi þar sem við eigum að fá að lifa án ótta við að vera ein og yfirgefin og til þess að svo mætti verða stofnaði hann kirkjuna og fékk henni það hlutverk að vera móðir barna sinna sem horfir á þau af umhyggju og fölskvalausri ást hún er ekki hafin yfir gagnrýni frekar en aðrir foreldrar en henni gengur aðeins gott eitt til og meira en það hún er mörgum lífgjafi og hið eina skjól. Elskum þessa móður okkar og leyfum henni að umvefja okkur í kærleika og sátt.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1701.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar