Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Lyng undir fótum

31. október 2010

Siðbótardagurinn
21.10.2010 kl. 11:00

Nú er rjúpnaveiðitíminn hafinn. Tíminn þegar margur karlinn kveður byggð og ból til þess að glíma við heiðina og þokuna. Nú eru blessuð GPS tækin komin til sögunnar og enginn þarf lengur að villast í þoku. Það er mikilvægara að hafa með sér svoleiðis tæki heldur en byssu þegar farið er til rjúpna því íslensk heiðalönd eru viðsjárverð.  Einu sinni villtist ég í þoku uppi á Skarðsheiði. Það eru mörg á síðan. Ég var einn á ferð og hafði brugðið mér heldur lítið búinn í göngu úr Svínadalnum upp á Kambinn sem svo er nefndur og þaðan áfram upp í Skarðsheiðina. Ég þekki þetta fjall vel því ég fór þarna iðulega sem strákur því fólkið mitt á bústað í Svínadal. Þá kom slík svarta þoka svo að ég sá ekki milli augna mér, eins og góður austfirðingur tók eitt sinn til orða. En þar sem ég taldi mig kunnugan fjallinu þóttist ég geta fikrað mig til byggða og hélt áfram för. Ég gekk lengi í þessari grúfandi þögn sem umlykur mann sem er einn í þoku og klukkutímarnir urðu tveir og þrír uns ég var farinn að bölva sjálfum mér andvaraleysið að hafa hvorki tekið nesti né áttavita, bara vatn að drekka. Þá var tími staðsetningartækjanna ekki kominn.  Eftir því sem svengdin jókst tók óttinn að læðast úr þreyttum fótum upp í hryggsúluna og sögur af gangnamönnum sem týnst höfðu á fjöllum og ég hafði heyrt í sveitinni fyrir austan voru farnar að sveima um í höfðinu. Þá gerðist hið óvænta. Líkt og hendi væri veifað steig ég út í bjart sólskin og við mér blasti landslag í fjarska. Feginleiki minn var svo mikill að ég hljóp við fót niður lítinn slakka í átt að bjargbrún og hugsaði að nú skyldi ég drífa mig niður hið snarasta hvar svo sem ég væri staddur í fjallinu til þess að þokan næði mér ekki. Af brúninni sá ég niður í dal sem ég þekkti ekki og enda þótt það furðaði mig því ég þóttist þekkja allt umhverfi Skarðsheiðar var ég staðráðinn í því að leita niðurgöngu hið snarasta sem ég gerði. Mér hvarf allur ótti og þreyta og skokkaði niður hlíðna að næstu brún þar sem ókunnugi dalurinn blasti enn við sjónum mínum. Vatn speglaði bláan himinn, sumarbústaðir voru í þyrpingum, bóndabær nær en ýmis stærri hús handan vatnsins. Og þar sem ég var kominn úr allir hættu settist ég niður á stein til að kasta mæðinni, enn var ég hátt uppi í fjallinu og niður undan sá ég stóra kletta og keldur sem ég yrði að sneiða hjá áður en ég næði niður á jafnsléttu. Þá gerðist það þar sem ég sat og góndi á þetta landslag og ókunna dal að engu var líkara en hreistur félli af augum mínum og ég sá að vatnið sem ég horfði á var bara Eyrarvatn í Svínadal og handa vatnsins voru sumarbúðirnar í Vatnaskógi sem ég frá blautu barnsbeini hafði haft fyrir augum mínum og gjörþekkti úr öllum áttum. Og sem ég sat vankaður í undrun og feginleika áttaði ég mig á því að klettarnir og keldurnar sem blasað höfðu við mér úr mikilli hæð voru ofurvenjulegt stórgrýti sem lá í nokkurra metra fjarlægð og ég var kominn niður á jafnsléttu í landi Kambshóls þar sem ég hafði iðulega farið að kaupa mjólk í brúsa þegar ég var drengur í sumarbústaðnum með foreldrum mínum. Undir fótum mér var vinalegt krækilyng og berin orðin mjúk eftir fyrsta næturfrost að hausti. Síðan þá hef ég ekki borið brigður á frásagnir manna sem villst hafa í þoku hvernig hugurinn getur ruglast og misst tengsl við alla rökhugsun þannig að árnar virðast jafnvel renna upp í móti.

Ég rifja upp þessa persónulegu reynslu mína hér í dag ekki bara í forvarnarskyni fyrir rjúpnaskyttur haustsins heldur vegna þess að ég held að þjóðfélag okkar sitji einmitt á þessum steini þar sem ég sat með krækilyngið undir fótum í túnjaðri Kambshóls. Við erum komin út úr þokunni, sólin skín á byggðina og allt er á sínum stað en augu okkar þekkja ekki það sem þau sjá og hausinn á okkur er ekki byrjaður að draga ályktanir.

Við ætluðum bara að sigra fjall allsnægtanna. Ætluðum rétt að bregða okkur upp á hið ofurháa fjall til þess að horfa yfir öll ríki heims og auð þeirra eins og segir í ágætri sögu, en það kom þoka. Og þar sem við nú sitjum á steininum vitandi í hjarta okkar að það er ekki lengur nein hætta á ferðum, að við erum hér öll heil og megum prísa okkur sæl með það, þá bara könnumst við ekki við það sem fyrir augun ber. Og það sem verra er þegar við lítum í kring um okkur og horfum á samferðamenn okkar þá þekkjum við ekki þetta fólk. Þetta er ekki fólkið sem við lögðum upp með. Sólin skín en enginn þekkir það sem hann sér.

Lexía dagsins er frá Jerimía spámanni. Hlustum á hana með þetta í huga: „Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn.” (Jer 31.31-34)

Í þokunni sáum við klárlega að græði var góð. Um það var ekki að villast. Eins skynjuðum við alveg ljóslega að best væri að hver ætti með sjálfan sig að gera enda væru eðlileg samskipti manna í því fólgin að allir hefðu sinn málstað á hreinu og það væru aumingjar sem lúffuðu en almennilegt fólk gengi jafnan sigrandi af hólmi. Hraði var af hinu góða. Allt var betra sem gerðist hratt hvort sem það var matargerð, ferðalög, byggingaframkvæmdir eða símtöl. Peningar voru til þess að safna þeim, til þess að safna þeim, til þess að safna þeim, til þess að safna þeim. Gamalt fólk var fyrir. Líka börn. Þau eru svo lengi að öllu og alltaf með hugann við aukaatriði og virðist fyrirmunað að einbeita sér að markmiðum. Lífsskoðanir voru tortryggilegar. Fólki með mótaðar lífsskoðanir var ekki treystandi því að skoðanir tefja. Fólk með lífsskoðanir var líklegt til þess að breytast jafnvel í hryðjuverkamenn. Menntun var ekki menntun nema hún skapaði hagvöxt. Heimspeki, listir og þess háttar, að ekki væri nú talað um guðfræði, var óþarfi vegna þess að rökræður eru tímafrekar en tími var orðinn að peningum. Já, einmitt tíminn sem áður hafði alltaf verið atburðarás hafði bara verið það fyrir misskilning því í þokunni sáu allir að tími var peningar. Tíminn er peningar sagði einhver og allir kinkuðu kolli ábúðarfullir.
Svo sitjum við á steininum, ókunnug hvert öðru, ókunnug okkar eigin sveit og byggð. Þekkjum ekki staðinn þar sem við áður sóttum mjólk. Föttum ekki að landið er gjöfult undir fótum okkar.

„Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst” segir röddin. „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn.”

Svo gerist það. Bráðum gerist það vegna þess að Guð er góður og lífið er svo ríkt. Bráðum mun hreystrið falla af augum okkar og við munum kannast hvert við annað, að við erum eitt fólk. Þetta er að gerast. Lögmál lífsins mun vakna í brjósti okkar og við munum sjá að við vorum ekki ein í þokunni heldur vorum við þarna öll að þvælast saman. Græðgin var aldrei góð. Hún virtist bara vera það. Peningar eru til þess að dreifa þeim. Tíminn er til þess að fylla hann af umhyggju og fegurð. Flest sem er gott gerist rólega. Það er gott að lifa hægt, elda heima, eiga löng samtöl við alls konar fólk. Það er virðingarvert þegar manneskjur leggja á sig að móta og rökstyðja lífsskoðanir sínar. Menntun er til þess að auka hugmyndaflug, víðsýni og þekkingu á siðferðislegum gildum, síðan er kjörið tileinka sér sitthvað sem nota má í atvinnuskyni. Fólk sem nennir að hugsa og vanda sig er áhugavert. Gamalt fólk er spennandi því að elli er innri maður. Börn eru AÐAL. Þau eru það sem alvöru mannlíf snýst um. Það er bull að lifa svo hratt að börn geti ekki fylgt með. Bara bull. Við erum nefnilega öll hérna saman og þegar við rísum upp af steininum munum við sjá að þetta er dalurinn okkar, landið okkar og við erum hvert annars fólk.

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.”  segir Jesús í guðspjalli dagsins. (Jóh 8.31-36)  Í þokunni fannst öllum að það þyrfti að frelsa sannleikann, en rétt bráðum þegar hreystrið fellur af augum okkar og skilningurinn vaknar munum við finna að sannleikurinn er það sem frelsar okkur. Þá verður gaman að ganga til byggða og halda áfram að vera þjóð.

Amen.

 

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1921.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar