Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Jón Ómar Gunnarsson

Kannt þú að búa við skort?

10. október 2010

Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.Ég gleðst mjög og þakka Drottni fyrir að hagur ykkar hefur loks batnað svo aftur að þið gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þið hugsað til mín en gátuð ekki sýnt það í verki. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Filippíbréfið 4.8-13

Það er ekki í tísku í dag að búa við skort og ég efast að vísu um að það hafi nokkurn tíman verið beinlínis í tísku eða eftirsótt að búa við slíkt. Fæst okkar leita eftir því að búa við skort þó svo að við kunnum að hafa búið við hann á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni. Okkur sem tilheyrum yngri kynslóðum þessa lands er oft legið á hálsi fyrir að hafa ekki sama vinnusiðferði og sama dugnað og hinar eldri kynslóðir ósjaldan er sagt „þetta unga fólk í dag…“ og síðan er andvarpað yfir dugleysi og andvaraleysi æskunnar, sem: „…nennir ekki að hafa fyrir neinu!“. Ég efast ekki um að það eigi oft á tímum fullkomlega rétt á sér, því það er alveg ljóst að lífsbaráttan er auðveldari í dag en hún var hér áður fyrr. Við höfum aldrei haft úr meiru að velja t.d. sýna nýlegar markaðsrannsóknir fram á að vöruúrvalið hafi meira en fjórfaldast í hefðbundnum matvöruverslunum frá því 1970. Möguleikar til náms hafa aldrei verið meiri og flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í okkar alþjóðlega samfélagi. En allt þetta „meira“ sem við höfum í dag hefur ekki endilega gert lífið auðveldara. Gildir það kannski hér að „sá á kvölina sem á völina?“ Því þrátt fyrir aukna velmegun og betri lífsgæði er einmitt fátt sem bendir til þess að Íslendingar á 21. öldinni búi við meiri hamingju almennt en áður fyrr. Við búum við fjölmörg félagsleg vandamál og hið ljúfa líf nútímans virkar ekki alltaf svo ljúft.

Okkur skortir í raun ekkert efnislega í hið minnsta. Lífið hér norður fyrir er algjört allsnægtar líf í samanburði við lífsbaráttu flestra annarra þjóða í heiminum. Við þurfum ekki að fletta lengi í dagblöðum eða vafra um internetið áður en við rekumst á enn eina harmfregnina utan úr heimi frá löndum þar sem fátækt og örbrigð eru ekki tímabundið vandamál heldur veruleiki sem kynslóð eftir kynslóð hefur mátt búa við. Þrátt fyrir efnahagslegu skakkaföllin hér heima fyrir, sem vissulega hafa haft neikvæð áhrif á líf fjölmargra, þá búum við sem þjóð vart við nokkurn skort. Hvað hið efnislega varðar alla vana.

Yfirskrift samkomunnar í kvöld er „Kannt þú að búa við skort?“ textinn sem er til umfjöllunar er úr Filippíbréfi Páls postula. Það er margt merkilegt við þetta bréf Páls, en bréfið skrifaði hann til safnaðarins í Filippí frá Róm þar sem hann sat í stofufangelsi og beið þess að réttað yrði yfir honum. Aðstæður manna í stofufangelsum voru ekki glæsilegar og ekki var um neina sparistofu að ræða. Í stofufangelsinu sat Páll hlekkjaður við rómverskan hermann. Þegar Páll skrifaði bréfið var hann tekinn að eldast, þreyttur og lúinn eftir langar og oft á tíðum erfiðar kristniboðsferðir. Hann hafði verið hafður að rangri sök og dauðinn var ekki langt undan. Þrátt fyrir að búa við erfiðar aðstæður var það gleðin sem stóð upp úr hjá Páli. Gleðin í Jesú Kristi. það bjó fyrst og fremst þakklæti og gleði í brjósti hans. Jesús sagði við lærisveina sína: „…hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.“ (Jóh 16.22) Ekkert fanglesi getur svipt kristnum manni því frelsi sem hann hefur öðlast í Jesú Kristi og þeirri gleði sem því fyglir!

Á margan hátt eru dýrin okkur mönnunum fremri. Ég hef séð kraftajötna lyfta þungum lóðum með miklum látum, en enginn þeirra hefur kraft á við fíl. Ég hef séð fræga hlaupara hlaupa 100 metrana undir 10 sekúndum en það er ekkert í samanburði við blettatígurinn sem hleypur 100 metrana vel undir 7 sekúndum. Til eru veláttaðir menn og konur, en ekkert þeirra ratar eins og krían sem flýgur alla leið til Suður Afríku og aftur hingað heim. Dýrin eru gáfuð og geta svo sannarlega meira en við gerum okkur grein fyrir, en ekkert þeirra getur hugsað eða íhugað á sama hátt og maðurinn. Ekkert annað dýr í dýraríkinu gæti skapað álíka þjóðfélag og við búum við í dag með endalausum tækninýjungum á öllum sviðum. Páll postuli hvetur okkur til þess að nýta þessa stórkostlegu gjöf sem við njótum til þess að huga að því sem er satt, göfugt, rétt, hreint, elskuvert, gott afspurnar, dyggðugt og lofsvert. Oft er sagt: „Þú ert það sem þú borðar.“ Við gætum líka sagt: „Þú ert það sem þú hugsar.“ Hugarfarið sem Páll hvetur til er ekki auðsótt sérstaklega í heimi þar sem að allt virðist keppa að því að spilla því sem er gott, rétt og satt. Það er eins og að sífellt sé hinu gagnstæða haldið að okkur og reynt að spilla hugum okkar allt frá barnæsku. Siðbótamaðurinn Marteinn Lúther var meðvitaður einmitt um það og sagði: „…þú getur ekki komið í veg fyrir það að fugl fljúgi yfir höfuðið á þér, en þú getur komið í veg fyrir að hann geri sér hreiður í hárinu þínu…“ Páll nefnir þessi átta atriði því þau skipta máli og eiga að vera grundvöllur lífs þess sem vill fylgja Jesú.

Ég kom inn á dýraríkið áðan, en nýlega var sýndur heimildaþáttur um apa í sjónvarpinu og í þættinum var sagt frá apanum Æ, sem er álitinn gáfaðasti api heims. Hann getur lært talnarunnur og ýmis konar mynstur utan að og síðan ruglað þeim og raðað aftur upp á augabragði. Hvað tölurnar og mynstrin merkja skilur Æ þó ekki. Við getum auðveldlega lært þessa runu „…satt, göfugt, rétt, hreint, elskuvert, dygð, gott afspurnar og lofsvert…“ utan að og þulið upp fyrir hverjum sem er. En við eigum að gera meira en það við eigum að tileinka okkur þetta með Guðs hjálp.

„…ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann einnig að hafa allsnægtir og líða skort. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. “

Nægjusemi er orð sem lýsir vel Páli postula. Hann hafði numið mikilvægan lærdóm á krefjandi starfsævi sinni. Áður en hann hafði mætt Jesú Kristi hafði hann verið gráðugur og öfundað aðra (Róm 7.8). En hann hafði lært nægjusemi á göngu sinni með Kristi og öðlast gleði sem byggði á sterkum grunni. Páll hafði lært leyndardóm ánægjunnar. Margir halda að leyndardómur ánægjunnar felist í eignum: Bara ef ég ætti stærra hús, betri bíl, meiri peninga…. Auðmaðurinn John D. Rockerfeller var eitt sinn spurður: „Hvað þarf maður mikinn pening til þess að verða ánægður?“ Rockerfeller svaraði: „Bara örlítið meira“ Alltaf meira og meira, en aldrei nóg!

Aðrir halda að hamingjuna sé að finna í mannlegum samskiptum eða því að líta vel út. Söngvarinn George Michael tókst þetta allt en fór samt sem áður á mis við hina einu sönnu gleði í laginu Frelsi eða Freedom syngur hann:

„Ég var stolt og gleði allra stúlkna […] átti splunkuný föt, stórt og mikið hús […] en stundum skapa fötin ekki manninn…“

Leyndardómur hamingju Páls var ekki efnislegur því oft leið hann efnislegan skort, en aldrei skorti hann andlega eftir að hann hafði gefið Jesú Kristi líf sitt. Hann hafði lært að vera ánægður í öllum aðstæðum óháð efnahagnum hverju sinni. Það er ekkert rangt við það að eiga peninga og eignir en slíkt getur aldrei verið uppspretta hamingju okkar. Leyndadómur hamingju Páls fólst í Jesú. Páll postuli hafði lært að treysta honum jafnt í gleði og sorg.

Sálmurinn Ó‘ þá náð að eiga Jesú lýsir vel hvað það er að eiga Jesú að vin. Höfundur sálmsins, Írinn Joseph Scriven, var ungur þegar hann horfði upp á tilvonandi brúður sína drukkna á brúðkaupsdaginn þeirra án þess að hann gæti nokkuð gert henni til hjálpar. Til þess að sefa sorgina og hefja nýtt líf á nýjum stað fluttist hann yfir atlantshafið til Kanada. Þar kynnist hann konu og trúlofuðust þau, en eftir stutt veikindi féll hún líka frá. Scriven var lamaður af sorg og í kjölfarið tók heilsu hans hraka og þunglyndi sótti að honum. Þrátt fyrir áföllin missti Scriven aldrei trúna á Jesú og þegar hann gerði upp ævi sína gerði hann það með sálminum: Ó‘ þá náð að eiga Jesú. Við skulum nú heyra sálminn í flutningi Rúnars Júlíussonar, heitins.

Ó, þá náð að eiga Jesú
einkavin í hverri þraut.
Ó, þá heill að halla mega
höfði sínu’ í Drottins skaut.
Ó, það slys því hnossi’ að hafna,
hvílíkt fár á þinni braut,
ef þú blindur vilt ei varpa
von og sorg í Drottins skaut.

Eigir þú við böl að búa,
bíðir freistni, sorg og þraut,
óttast ekki, bænin ber oss
beina leið í Drottins skaut.
Hver á betri hjálp í nauðum?
Hver á slíkan vin á braut,
hjartans vin, sem hjartað þekkir?
Höllum oss í Drottins skaut.

Ef vér berum harm í hjarta,
hryggilega dauðans þraut,
þá hvað helst er Herrann Jesús
hjartans fró og líknar skaut.
Vilji bregðast vinir þínir,
verðirðu’ einn á kaldri braut,
flýt þér þá að halla’ og hneigja
höfuð þreytt í Drottins skaut.
Scriven - Sb. 1886 - Matthías Jochumsson

Hver er leyndardómur ánægjunnar? Hvert sóttu Páll og Scriven gleði og styrk jafnt á hamingjustundum sem og sorgarstundum? Þeir áttu einkavin í hverri raun, Jesú. Hamingja þeirra fólst í því að þeir höfðu grundvallað líf sitt á Jesú Kristi, syni Guðs, frelsara mannanna. Frelsara þínum sem á páskunum sigraði syndina og dauðann svo þú mættir eiga líf í fyllstu gnægð. Hann býður þér til fylgdar við sig á hverjum degi og hann býður þér líf sem grundvallað er á öðru en því sem mölur og ryð geta eytt. Hann lofar að vera með þér jafnt á dögum gleði og sorgar, allsnægta og skorts. Hann er vinurinn sem aldrei bregst. Jesús er leyndardómur hamingjunnar!

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2782.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar