Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Fjallkonan

25. október 2010

Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum safnaðist að honum mikill kvenfjöldi þar sem hann gekk um götur Reykjavíkurborgar.
Það var komið fram í október, kalt í veðri, en mikill kvenfjöldi fylgdi honum og var þröng um hann.

Í kvenþrönginni var kona sem kölluð er íslenska fjallkonan.
Hún hafði haft blóðlát í fjölda ára.
Henni hafði blætt frá barnæsku, frá þeim tíma sem hún uppgötvaði að hún sat ekki við sama borð í samfélaginu og margir aðrir.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að henni var nauðgað þegar hún var barn að aldri og sá verknaður hefur legið í þagnargildi æ síðan.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún er klipin og þukluð og kölluð ýmsum ljótum nöfnum.
Fjallkonunni blæðir og kynfæri hennar sem blóðið og lífið rennur frá eru kölluð ljótum nöfnum sem oft eru notuð um hana sjálfa, meðan kynfæri karlmanna eru nefnd þeim til upplyftingar. Það er ekki sama að vera köllum tussa og kóngur.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún fær lítið kaup og hún á tæpast fyrir mat.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún er hrædd í íbúðinni sinni.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún sækir um vinnu og ungir strákar með minni menntun en hún eru teknir fram fyrir hana.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún var rekin og sæt og sexí stelpa ráðin í staðin.
Fjallkonunni blæðir vegna þess að hún hefur verið heima hjá börnum sínum og unnið láglaunavinnu og á lítinn lífeyrissjóð.
Henni blæðir vegna þess að lífeyrissjóðnum hennar hefur verið varið í vitleysu af misvitrum spákaupmönnum.
Henni blæðir vegna þess að íbúðin hennar er á uppboði og bíllinn á myntkörfu.
Henni blæðir vegna þess að börn hennar hafa kynnst einelti, kynferðisofbeldi og heimi fíkniefnanna.

Fjallkonan hefur orðið orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni en engan bata fengið, öllu heldur versnað.
Hún hefur heimsótt doktor Kvíðastillandi og fengið hjá honum fjórar sortir.
Hún er búin að fara til doktors Vöðvaslakandi og er syfjuð og sljó af öllu íbúfeninu.
Hún hefur farið í gegnum alls konar meðferðir og þær kosta mikið.
Hún er búin að heimsækja doktor Happadrætti og varið til þess miklum fjármunum.
Hún hefur lesið bækur um það að lausnin á vanda heimsins felist í því að hún einbeiti sér að fallegum hugsunum og bæti sjálfa sig.
Hún hefur líka heimsótt doktor Kaupæði og doktor Smáskammtalækningar.

Fjallkonan hefur heyrt að það sé kominn 25 október og að mikil kvenþröng sé í bænum.
Hún sér Jesú í kvenþrönginni og pírir augun vegna þess að þessi fræga persóna tekur sífelldum breytingum fyrir augum hennar.
Stundum sér hún skeggjaðan mann á sandölum, stundum sér hún margar sterkar og yndislegar konur sem styðja hver aðra, stundum sér hún andlit móður sinnar og ömmu og þau sem hafa reynst henni vel í gegnum tíðina í þessari dularfullu persónu í kvenþrönginni.

Fjallkonan er búin að henda frá sér engiferdrykknum, detoxteinu og töflunum,
hún léttir á vösunum sem eru full af gluggaumslögum
og leggur frá sér sjálfshjálparbækurnar um fallegu hugsanirnar.
Hún berst gegnum þungar og erfiðar minningar
og framhjá fólki sem er henni þröskuldar á vegi frelsisins.

Hún ryðst fram í kvenþrönginn og finnur fyrir hlýjum líkömum margra kvenna.
Hún lætur berast með straumnum.
Hún er sterk.
Hún hugsar: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.“

Bara, já bara að fjallkonan fái snert klæðfald frelsisins og ástarinnar! Amen.

Í för með Markúsarguðspjalli 5. Kafla 21.-28 versi, flutt í Kvennamessu í Hallgrímskirkju 25. október 2010.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2250.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar