Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Þjóð og kirkja í álögum

5. september 2010

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“ Lúk 17.11-19

Hægt er að hlusta á prédikunina á annál Arnar Bárðar.

Hann flatmagaði makindalega á klöppunum við ströndina hér í Vesturbænum í morgun, selurinn, kominn til baka úr látri sínu og búinn að ljúka sumarstörfum. Selurinn hefur mannsaugu, segir í sagnaarfinum. Mér varð hugsað til þjóðtrúar Íslendinga og nágrannaþjóða okkar, Grænlendinga og Færeyinga, um seli. Er selurinn maður í álögum?

Eru álagasögur einungis forn dægradvöl, sögur til að segja á kvöldvökum, eða býr eitthvað meira og dýpra að baki þeim?

Segja má að íslenska þjóðin hafi lent í álögum og svo má líka halda því fram að henni sé nú áskapað að taka á sig sífellt fleiri álögur vegna hrunsins. Við erum þjóð í álögum, aðstæðum sem við höfum komið okkur sjálf í.

Fyrir rúmri viku naut ég þess með frábærum listamönnum að rifja upp ögn nýrri álagasögu. Ég fór í Þjóðleikhúsið og sá Hamskiptin eftir Kafka í rómaðri uppsetningu Vesturports. Hamskiptin er mögnuð saga sem kom fyrst út 1915. Ég las hana þegar ég var 16 ára. Nú var komið að upprifjun 45 árum síðar.

„Einn morgun þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar draumfarir, hafði hann breytzt í risavaxna bjöllu.“ (Þýðing Hannesar Péturssonar).

Þannig hefst hin magnaða saga um Gregor Samsa sem hafði reyndar ekki komið sér sjálfur í þessi álög en hann varð samt að lúta þeim.

Gregor upplifir það hvernig nánasta fjölskylda hans snýr við honum baki og fyrirlítur hann, missir tengsl við öll grunngildi og góðan sið og formyrkvast í afneitun sinni á syni og bróður, sem aftur á móti missir aldrei sjónar á kærleikanum. Sagan er átakanleg og margræð.

Nú er barið á Þjóðkirkjunni sem aldrei fyrr. Hún er talin til óþurftar af sumu fólki og yfirstjórn hennar er af mörgum talin hafa brugðist trausti og tiltrú.

Þjóðkirkjan er í álögum eins og þjóðin öll.

Hinir kirkjulegu textar þessa dags fjalla með einum eða öðrum hætti um álög, um synd og breyskleika okkar manna, fjötra og helsi og svo hvernig hið góða og sanna kemur oftast úr óvæntri átt.
Í lexíunni er að finna mikilvæg orð sem ég leyfi mér að kalla: Vantrauststillögu.

Treystið eigi tignarmönnum,

mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Þegar öndin skilur við þá

verða þeir aftur að moldu

og áform þeirra verða að engu.

Hér er beinlínis varað við valdinu í hvaða mynd sem er:

„Treystið eigi tignarmönnum.“

Þessi tónn úr fornum textum er reyndar ekki bara bundinn við „tignarmenn“ heldur alla menn, bæði karla og konur. Rétt er að halda því til haga. Við, mennirnir, erum beggjahandajárn, viðsjálar verur, menn í álögum.

Við erum vöruð við að leggja allt okkar traust á dauðlega menn. Menn munu ávallt bregðast okkur. En Guð bregst okkur aldrei. Við eigum að treysta Guði einum.

Á fyrstu síðum Biblíunnar er það staðhæft að maðurinn sé undursamlega gerður, skapaður í mynd Guðs, en um leið er því vandlega haldið til haga að maðurinn er fallinn. Hann hefur brugðist skapara sínum, gengisfellt gildin, brotið lögmál tilverunnar, orðið eðli sínu og uppruna til skammar. Hann er í álögum.

Sagan af Adam og Evu færir okkur þessi tíðindi og sama gerir sagan um Kain og Abel. Þessar sögur eru sögur sem aldrei gerðust sem slíkar en eru alltaf að gerast. Saga þessara nafngreindu persóna sem aldrei voru til er saga mín og þín. Þessi mikilvægasta bók vestrænnar menningar – og reyndar alls heimsins – er um mig og þig. Þess vegna lifir hún og verður aldrei útrunnin eins og gamalt áleggsbréf í kæliborði kjörbúðar – en dagstimpill hennar er hins vegar eilífur á kjarapalli Guðs í kristinni kirkju.

Og þessi bók flytur ekki bara vantrauststillögu á „tignarmenn“ forðum daga, hún talar inn í samtíðina. Segja má að hún lýsi vantrausti á valdið á hverri tíð, á ríkisstjórn, Alþingi og stjórnmálaflokka, biskup, presta og kirkju – og jafnframt á þig sem þetta heyrir og mig sem þessi orð flytur.

Nú ætla ég ekki að verja vondar gjörðir syndugra og spilltra manna hvort sem þeir klæðast pilsi eða gallabuxum, hempu eða biskupskápu og ekki drepa málinu á dreif með því að benda á sök allra manna. Sök fjöldans er minnst í málinu sem skekið hefur kirkjuna síðustu vikurnar. En margir eru í sárum vegna vitnisburðar um alvarleg brot sem áttu sér stað og það er köllun okkar allra, hvar sem við stöndum í trúfélagi, stétt eða stöðu, að taka utan um þau sem finna til og hafa orðið fyrir áföllum og órétti. Konurnar sem ásakað hafa fyrrverandi „tignarmann“ þarfnast umhyggju okkar allra. Og þar eins og í öðru hefur kirkjan brugðist á einn eða annan hátt, einkum vegna seinagangs og hiks. Kirkjan þarf að ganga í sjálfa sig og gera hreint í sínum ranni.

Kirkjan er skekin – eins og Kristskirkja, Christchurch í Nýja-Sjálandi – enda þótt ólíku sé saman að jafna. Og Guð blessi fólkið þar á jarðskjálftasvæðinu.

Óþol fólks í garð kirkjunnar er að mínu viti einkum í garð stofnunarinnar, Þjóðkirkjunnar sem regnhlífarsamtaka safnaðanna með biskup, kirkjuráð og kirkjuþing í miðju en síður í garð safnaðarstarfs sem unnið er af einlægni og krafti víða um land. Kirkjusókn og eftirspurn eftir þjónustu presta segir mér þetta – kirkjusókn hér í dag og alla daga – og eitthundrað prósent heimtur fermingarbarna hér í Neskirkju nú í haust staðfesta það. En kirkjan þarf samt að gang í sjálfa sig.

Þjóðkirkjan sem stofnun er ekki gömul í landinu en kristnin er það aftur á móti, siðurinn sem hefur viðhaldist í þúsund ár. Stofnanir koma og fara en kristin kirkja mun aldrei undir lok líða vegna þess að Guð hefur heitið því að vernda hana og varðveita.

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið“, sagði Jesús (Lk 12.32).

Ríki og kirkja.

Ríkið sem um ræðir í orðum Jesú er ekki ríki þessa heims heldur ríki Guðs.

Samband hins jarðneska ríkis og kirkjunnar er umdeilanlegt. Samband ríkis og kirkju hér á landi er sem stendur mjög áþekkt því sem upp var tekið í Svíþjóð árið 2000 og kallast þar „aðskilnaður ríkis og kirkju.“ En í ljósi þess óþols sem gætir meðal margra þá er ég á þeirri skoðun að Þjóðkirkjan eigi að segja upp samningi sínum við ríkið, að kirkjan eigi að losa sig við ríkið en ekki öfugt, að kirkjan skeri sjálf á þann naflastreng sem enn er tengdur enda þótt hann sé aðeins nokkrir trosnaðir þræðir miðað við það sem áður var. Þetta hef ég áður sagt og skoðun mín er því óháð atburðum liðinna daga en hins vegar kallar ástandið nú á skýra afstöðu. Og svo vil ég ekki una því að pólitíkusar berji sér á brjóst þegar kirkjan á í vök að verjast og hóti henni aðskilnaði því aðskilnaðurinn ætti að vera ríkinu miklu kvíðvænlegri en kirkjunni. Ráðherrar og þingmenn, margir hverjir sóknarbörn hér í Vesturbænum, sem reyna að veiða vinsældir út á hnjóð um kirkjuna athugi það vel og lesi söguna og samninginn sem í gildi er á milli ríkis og kirkju. Og þeir mega líka mun það að þeim ber að vernda hana og styðja samkvæmt stjórnarskránni sem enn er í fullu gildi.

Svo eru það fjölmiðlarnir sem þurfa að ganga í sjálfa sig og kasta af sér yfirlæti og sjálfsöryggi í skjóli þess að þeir hafa vald sem erfitt er að gagnrýna vegna þess að þeir ráða sjálfir yfir rásum þeim og farvegum sem gagnrýnin þarf að fá að renna um. Ömurlegt er upp á það að horfa hvernig fréttir eru oft hroðvirknislega unnar. Fjölmiðlar kalla svo gjarnan til álitsgjafa sem þeir virðast oft velja af hreinu handahófi og jafnvel persónulegum smekk einstakra fréttamanna. Fjölmiðlar hafa sumir farið mikinn þessa dagana gegn kirkjunni og lagt hana í einelti á óvægin hátt. Það hefur verið ljótur leikur og ójafn. Auðvitað eiga fjölmiðlar að stinga á kýlum og afhjúpa órétt. Sú er skylda okkar allra. En það er mikið vandaverk og þar sem valdið er mikið er vandinn stærri. Og nú spyr ég í ljósi þess að fjölmiðlar hafa kynt undir úrsögnum úr Þjóðkirkjunni: Hvernig get ég sagt mig úr þessu samhengi óvandaðrar fjölmiðlunar? Eru til eyðublöð til að skrá sig úr fjölmiðlunum? Og hvar er hægt að taka fyrir og fjalla um óvönduð vinnubrögð fjölmiðla án þess að það fari í gegnum síu fjölmiðlamanna sjálfra sem eru ekki óháðir fremur en aðrir því óháður fréttaflutningur er ekki til og hefur aldrei verið. Fjölmiðlamenn verða hins vegar að leitast við að láta stjórnast af góðum hug, heiðarleika og réttsýni. Vald þeirra er mikið og „tignarmönnum“ þar er ekkert fremur treystandi en öðrum. Hold er mold sama hverju það klæðist, sagði séra Hallgrímur.

Ég óttast ekki um kirkju Krists. Hún hefur lifað erfiðari tíma en þessa. Hún var ekki nema lítill hópur í byrjun en henni tókst að mola Rómaveldi mélinu smærra á þrjúhundruð árum. Hún átti einnig ríkan þátt í því að leggja að velli vonda hugmyndafræði A-Evrópu og Sovétríkjanna sem fjötraði milljónir manna í áratugi. Hún hefur þolað ofsóknir og mótlæti í aldanna rás. Hún stenst það sem nú gengur yfir hana og mun hrista af sér álagahaminn.

Kirkjunni hefur auðvitað orðið á í rás tímans, enda er kirkjan og verður samfélag syndugra og breyskra manna. Kirkjan þarf að ganga í sig og gera hreint í sínum ranni.

Maður nokkur sagði við prest:

Ég vil ekki sjá að vera í kirkjunni því þar eru eintómir hræsnarar.

Prestur svaraði að bragði:

En vertu samt ávallt velkominn því þar má alltaf finna pláss fyrir einn í viðbót.

Jesús var raunsær á mannlífið og vissi hvað með hverjum manni bjó. Hann sagði til að mynda þetta:

„Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Lúk 2.17b)

Páll postuli sem forðum var ofbeldismaður, snerist til trúar á hinn upprisna og umbreyttist. Hann tók einskonar hamskiptum enda þótt hann hafi ekki breyst í pöddu eins og Gregor Samsa. Hann gerði sér glögga grein fyrir glímu mannsins eins og kemur fram í pistli dagsins þar sem hann setur fram mergjaðan lastalista og ræðir um holdsins verk eins og til að mynda

fjandskap, deilur, meting, reiði, eigingirni, flokkadrátt og öfund.

Í beinu framhaldi af löstunum skilgreinir hann inntakið í ávexti andans sem er:

„kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi.“

Berum okkur sjálf saman við lestina sem nefndir voru annars vegar og hið góða hins vegar – og tökum okkur á, hristum af okkur álagaham syndar og spillingar, frænd- og flokkshygli, bæði innan kirkju og þjóðfélags. Kirkjan þarf að taka til í sinum ranni. Þjóðin þarf að gera hreint.

Postulinn talar um baráttu holds og anda, um baráttu góðs og ills, sem á sér stað innra með öllum mönnum. Við getum aldrei sagt með sjálfbirgingshætti um aðra: Þarna eru „þau“ – en hér erum „við“. Við getum ekki skipt heiminum í „okkur“ og „þessi hin“ því við erum eitt mannkyn.

Líkþráu mennirnir tíu sem greint er frá í guðspjalli dagsins voru settir utangarðs. Þeir voru þessir „hinir“, aðgreindir frá „okkur“. Líkþráir menn máttu ekki vera innan borgarmúra en ef þeir töldu sig lausa við sjúkdóminn áttu þeir að fara til prestanna í musterinu í Jerúsalem og fá úrskurð þar um. Þeir voru í álögum sjúkdómsins og útskúfaðir vegna óttans við smit.

En Jesús fór til þeirra, út fyrir múrana, til hinna útskúfuðu, brúaði bil á milli þeirra og hinna sem töldu sig hreina, snart þá og gerði heila.

Hann mætir hinum kúguðu enn í dag og þeim sem hafa orðið fyrir misrétti og ofbeldi. Hann mætir þeim í viðmóti okkar, umhyggju og ábyrgð á náunganum. Þar starfar Guð. Í þeirri þjónustu má ekki vera neitt hik, ekkert fum eða fát. Kirkjan þarf að reka af sér slyðruorðið og taka til hjá sér.

Hinir tíu líkþráu fóru til prestanna og fengu langþráðan úrskurð en aðeins einn þeirra sneri til baka til að þakka Jesú, útlendingur, Samverji, sem enginn bjóst við neinu af. Og þannig er það oft með hið rétt og góða að það kemur úr óvæntri átt. Og nú hefur kirkjan fengið ráðningu úr óvæntri átt. Og kirkjan þarfa að ganga í sig.

Kirkjan okkar þarfnast hreinsunar. Þjóðfélagið þarfnast hreinsunar. Þjóðin öll er í álögum. Vantrausti er lýst á margt í okkar samfélagi nú um þessar mundir og vantrausti er lýsti í orði Guðs. En gleymum því samt ekki að Guð trúir á manninn þrátt fyrir allt. Guðs orð lýsir yfir miklu trausti á manninn.

Guðs orð er raunsætt og horfir á manninn í jafnvægi. Hann er og verðu það sem Lúther kallaði:

Simul justus et peccator – réttlættur og syndugur í senn, dýrlingur og drísill í sömu andrá.

Jesús trúir á okkur þrátt fyrir allt og kallar okkur til fylgdar við sig.

Hugmyndafræði Krists um manninn og heiminn er sú skynsamlegasta sem til er að mínum dómi. Hann var aldrei blindaður og blekktur andspænis mönnum. Hann var ekki eins og íslenska þjóðin í skurðgoðadýrkun sinni fyrir Hrunið, þjóð með glýju í augum yfir dýrð dauðlegra manna, spilltra stjórnmálamanna og hinna sem að megin stofni voru ungir og fávísir fjármálamenn, með þröngt sjónarhorn á lífið og tilveruna, blautir bak við eyrun af reynsluleysi og ofurtrú á sjálfa sig og markaðinn. Hrunkvöðlar Íslands. Hrunkvöðlar, eins og einhver orðaði það.

Við segjum okkur varla úr þjóðfélaginu en við höfum val um að segja okkur úr Þjóðkirkjunni, hætta þátttöku í starfi safnaðanna. Í landinu ríkir trúfrelsi og hver og einn verður að ákveða fyrir sig hvar hann eða hún vill standa. Og auðvitað geri ég mér glögga grein fyrir því að eitt er að skrá sig úr Þjóðkirkjunni og annað að kasta kristinni trú. En ég bið fólk um að hugsa sinn gang. Oft þjóna ég fólki við erfiðar athafnir sem var fyrir löngu búið að segja sig úr Þjóðkirkjunni en á erfitt með að hafna tengslum við hana alfarið vegna þess að þrátt fyrir allt hefur hún verið þessari þjóð salt og ljós í þúsund ár. Og hún hefur lifað allan þennan tíma þrátt fyrir prestana og biskupana! Hvers vegna? Vegna þess að hún er ekki mannanna verk. Hún á sér uppruna utan hins mannlega sviðs.

Hugsjónir Krists settar fram í orðum hans og verkum eru þær fegurstu sem menn hafa heyrt. Þær eru himneskar í eðli sínu. Ekkert stenst samjöfnuð við boðskap hans. Við getum auðvitað lækkað standardinn, stillt slána í hástökki lífsins á skalann eitt fet yfir jörðu og jafnvel lagt hana á jörðina sjálfa svo að allir komist yfir. En hugmyndafræði hins lága mun ekki hífa þennan heim upp í æðra veldi.

Við eigum vissulega val um að lækka viðmiðin, kasta því sem er gott og hollt, verða eins og fjölskylda Gregors Samsa sem dansaði eftir tíðarandanum og skreið fyrir því sem var lágkúrulegt og lélegt.

En kirkjan má ekki gera það. Hún má ekki verða eins og firrt fjölskylda. Hann sem bjó við þau örlög í sögu Kafka að verða að skriðdýri, að pöddu á vegg, var sá eini í sögunni, sem hélt reisn sinni. Hann sem var lítillækkaður varð hæstur þegar öllu var á botninn hvolft. Þannig var það líka með Krist forðum daga.

Og nú þarf kirkjan að ganga í sig og lægja sig og það sama þurfum við öll að gera andspænis hinni algjöru kröfu Krists um skilyrðislausa eftirfylgd við hann. Kirkjan þarf að iðrast og að því loknu getur hún risið upp og sótt í sig veðrið. Hið sama á við um þjóðina. Álagahami kirkju og þjóðar verður aðeins kastað með því að við könnumst öll við ábyrgð okkar og gerum upp við Guð og við hvert annað.

Kirkja Krists þarfnast krafta okkar. Viltu draga úr áhrifum af boðun kærleikans? Hvað fáum við í staðinn? Leiðin til að efla hana og hreinsa er ekki að fara út úr henni. Þú sem átt samleið með hugsjónum Krists um betri og fegurri heim, láttu um þig muna í kirkju hans.

Þú heyrðir væntanlega að ég talaði um kirkju Krists.

Kirkjan er hans. Hann er höfðu kirkjunnar en ekki biskup eða prestur, forseti kirkjuþings eða formaður sóknarnefndar. Höfuð kirkjunnar er Kristur sjálfur, sá sem leið á krossi og reis upp frá dauðum.
Viltu fylgja honum?

Hann stofnsetti kirkju sína á jörðu til þess að hún væri salt og ljós í skemmdum heimi. Sú er enn köllun hennar en það hefur hins vegar alltaf legið fyrir að fylgjendur Krists eru breyskt fólk og ófullkomið í eftirfylgd sinni og framkvæmd hugsjóna hans. Þess vegna er sagt eða sungið í hverri klassískri messu um allan heim, hvern helgan dag:

„Drottinn miskunna þú oss.
Kristur miskunna þú oss.
Drottinn miskunna þú oss.“

Þau orð eru endurómur orða hinna tíu líkþráu sem hrópuð forðum:

„Jesús, meistari, miskunna þú oss!“

Og nú bið ég og segi:

Jesús, miskunna þú kirkju þinni og þjónum hennar og öllum þeim sem vilja vera um borð í því mikla skipi þínu sem eitt bjargar okkur „þegar brotnar bylgjan þunga, brimið heyrist yfir fjöll“. En gerðu okkur hverju og einu ljósa ábyrgð okkar og hvað við getum gert til að ryðja sannleikanum og réttlætinu braut í íslensku samfélagi. Amen.

Jesús var sannleikurinn holdi klæddur. Hann talaði gjarnan tæpitungulaust. Í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls er sagt frá því að sumum fylgjendum Jesú blöskraði málflutningur hans og yfirgáfu hann. Kurr varð meðal lærisveina hans og Jesús spurði þá hvort þeir ætluðu einnig að yfirgefa hann. Símon Pétur hafði orð fyrir þeim þá sem oftar og sagði:

„Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs og við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi Guðs.“

Hvert ættum við að fara?

Hvert ætlar þú að fara?

Ég veit ekki hvert þú ætlar að fara eða hvað þú vilt gera en ég veit hvað ég vil. Ég ætla að fylgja Kristi og þjóna í kirkju hans, ekki vegna þess að ég sé heilagri og betri en aðrir menn, heldur vegna þess að ég þarfnast Krists, hreinsunar hans, uppbyggingar og handleiðslu.

Dagskipunin er að standa með hinum útskúfuðu, með hinum líkþráu þessa heims, hver sem lemstrunin er, með þeim sem orðið hafa fyrir hamskiptum og breyst í bjöllu sem veldur eintómum misskilningi og ráðaleysi heimilismanna.

Kirkjan hefur á margan hátt verið ráðalaus eins og Samsa-fjölskyldan í verki Kafka. Hún þarf nú, ásamt stjórnmála- og valdstéttinni, að horfast í augu við þau hamskipti, sem orðið hafa á hugum fólks í landinu hvað varðar afstöðuna til „tignarmanna“ bæði kirkju og þjóðfélags. Nú er runninn upp tími uppgjörs og hreinsunar.

Köllum kirkjuna og valdsstéttina til ábyrgðar, „tignarmennina“, hvar sem þeir eru og biðjum þess að þeir, nú og á hverri tíð, þekki sinn vitjunartíma.

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið“, sagði Jesús.

Í fyllingu tímans falla allir hamir af okkur breyskum mönnum því ríki Guðs kemur, ríki án harma og hungurs, ríki miskunnar í stað misbeitingar, visku í stað valdabaráttu, kærleika í stað krepptar hnefa – ríki sannleika og réttlætis. Þangað stefnum við vonandi öll en það ríki kemur ekki nema fyrir hann sem einn getur leyst okkur úr álögum.

Og þú sem hefur mannsaugu, sjáðu, að nú er tími hamskipta.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2419.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar