Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Sigur, líf og von

19. september 2010

Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.

En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“

Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk 7.11-17

Ég þakka móttökurnar hér í Digraneskirkju, samskipti við presta kirkjunnar og að fá að eiga með ykkur þessa morgunstund og fund með sóknarnefnd hér á eftir. Ég þakka vandaðan undirbúning, fagra tónlist og alla þá góðu krafta sem hér hafa verið lagðir að mörkum til athafnarinnar. Ég þakka í nafni kirkjunnar það góða starf sem hér er unnið í sókn og samfélagi.

Guðspjall dagsins lýsir ótrúlegum atburði, sem óneitanlega er erfitt að samræma okkar lífsreynslu og heimsmynd. En þó kemur þessi saga okkur við. Við erum öll fólk á ferð, fararsnið og fararefni eru með margvíslegu móti vissulega, en eitt er víst og aðeins eitt um vegu manns. Eitt og sama takmark er öllum sett. Náttúran öll vitnar um það þessa dagana þegar haustar að og laufið visnar og blómin fölna. Enn og aftur verður líkfylgd á vegi okkar og þar kemur að við verðum sjálf borin út um borgarhliðin hinstu.

Nú segir guðspjall dagsins, og sá boðskapur ómar í öllu því sem hér er sagt og sungið, já og allri veru kristinnar kirkju: Til er orð, til er máttur sem er sterkari en dauðinn! Og lífsleið manns er lögð gegnum það borgarhlið þar sem hann stendur, frelsarinn krossfesti og upprisni, Kristur, með orð lífsins. Öll iðkun og atferli, athöfn og orð kristninnar er borið uppi af þeirri vissu. Samvera okkar hér er eiginlega framhald af þessum atburði sem guðspjallið lýsir, framhald þess fagnaðarsöngs sem ómaði við Nain: Guð hefur vitjað lýðs síns! Guð hefur vitjað okkar, hann er hér!

Saga er sögð af prófessor sem var að gera könnun á málfari landsmanna. Ein spurningin sem hann lagði fyrir bónda nokkurn var: „Hvort segið þið í þinni sveit: Ég er dáinn / - látinn / eða - dauður?“
Og ekki stóð á svarinu: „Ja, - ekkert. Í minni sveit þegja menn þegar þeir eru dauðir!“

Kirkja Krists er samfélag við lifandi Guð, lifandi frelsara, lifandi samfélag og getur því ekki orða bundist, getur ekki þagað yfir því sem það hefur reynt og séð. Orð og athöfn kirkjunnar er vitnisburður um LÍF, um sigur, líf og von, um Jesú Krist, sem er Orð lífsins, upprisan og lífið.
Af sögunni um Jesú og í birtu krossins og upprisunnar megum við sjá og vita að ástin er sterkari en hatrið, fyrirgefningin er máttugri en firringin, frelsið er öflugra en helsið, lífið sigrar dauðann. Týndi sonurinn sneri heim í trausti til kærleika og miskunnsemi föðurins og fann sig umvafinn hlýjum faðmi fyrirgefningar. Það merkir: Guð er guð fyrirgefningar. Sonur ekkjunnar frá Nain var kallaður aftur til lífsins með orði því sem er sterkari en dauðinn. Guð er guð lífsins. Söfnuður hans er fólk sem treystir, trúir og játar að frelsarinn upprisni er á meðal okkar með orð sem lífgar og leysir. Ungi maðurinn reis upp og tók að mæla, segir guðspjallið. Jesús gaf hann móður hans. Jesús er orð lífsins, sem reisir upp, gefur mál og róm, læknar samskipti og mannleg tengsl – allt það sem dauðinn þaggar, brýtur og eyðir.

Jesús gaf hann móður hans, segir guðspjallið. „Kirkjan er oss kristnum móðir,“ segir í góðum sálmi. Í þann móðurfaðm lagði frelsarinn okkur á ævimorgni. Máttarorð frelsarans hljómaði yfir þér í bænum móður þinnar þegar hún vissi fyrst af þér í lífi sínu. Máttarorð hans hljómaði yfir þér í skírninni: Ég segi þér, rís þú upp! Kirkjan er þar sem orð Jesú er boðað og vitnað er um þennan mátt, sögurnar af Jesú sagðar, þessi tengsl eru ræktuð, og iðkuð í athöfn við skírnarlaug og altari. Í þeirri iðkun og athöfn er kirkjan sýnileg og lifandi, mál og rödd og orð. En þegar allt kemur til alls þá þekkist kirkjan af því fólki sem hún samanstendur af, af heilindum þess í viðleitninni að lifa samkvæmt orði Guðs. Ef við berum þess ekki vott dregur heimurinn réttilega þá ályktun að okkar guð sé dauður, en ekki sannur og lifandi Guð.

Í sinni merku bók, Glíman við Guð, vitnar Árni Bergmann í frægan guðfræðing sem fjallar um guðleysi Vesturlanda síns tíma: það guðleysi, segir hann, sem er hinn raunverulegi óvinur er „kristni“ þeirra manna sem játa trú á Guð eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut en lifa í hugsun og athöfn eins og enginn Guð sé til. Þar með er Guð orðinn eins og gömul mubla sem eigandinn vill ekki losa sig við en hefur engin not fyrir, eða réttara sagt: gætir þess vel að nota ekki því það gæti verið óþægilegt, ef ekki hættulegt. Sömu hugsun setur Nóbelsskáldið þýska, Heinrich Böll fram í skáldsögu sem segir frá heimkomu landflótta manns til Þýskalands eftir stríð. En hann spyr:„Fyrst þið trúið á hann (þeas Krist) hvers vegna gjörið þið ekki sem hann bauð ykkur?“

Þetta er sú spurning sem varðar okkur kristna menn á Íslandi í dag, þegar dómar eru harðir, umburðarlyndi af skornum skammti, stöðugt berast fregnir af synd og óhæfu jafnvel í hinum helgustu véum. Við skulum ekki vera í vörn gagnvart gagnrýni, hún er ekki aðeins barsmíðar og árásir andstæðinga, heldur líka raddir sem vitna um hjörtu sem finna til og þrá að orð og athöfn haldist í hendur. En við sem unnum kirkjunni og virðum hana mættum vel vera duglegri að láta rödd okkar heyrast. Þögn hins „þögla meirihluta“ verður iðulega vopn í hendi ofbeldisins.

En er það annars furða að mann sundli við orðaflaumnum og orðfossunum….?

Mér er hugstætt ljóð Ísaks Harðarsonar, Við Orðfossa:

Alltaf magnast drunurnar í Orðfossum.
Við stöndum á brúninni, heilluð
af blaðrandi þvaðri,
innantómum upplýsingum:
upphrópunum beljandi zzzzz
kvaldursins.

Fjú, hér er kúl að vera!
Úðinn myndar hjúp um höfuð okkar eins og
visku: VIÐ
erum þau upplýstu,
þau sem vita best hvað er IN
vita allt um allt sem er að gerast
og hvar, maður, HVAR!

Mmm, Orðfossar, Orðfossar!
Bara að ég gæti orðið
einn af stjarnglitrandi dropum ykkar;
þáttarstjórnandi, ritstjóri, gáfumenni

-einn af skráþurrum og skrælnandi
dropum ykkar.

Við erum fólk á ferð. Í allri sögu mannkynsins hefur fólk flust milli landa, af frjálsum vilja eða nauðugt. Þjóðflutningar einkenna heiminn okkar og auðga menningu og samfélag, líka okkar eigið. Í dag eru þjóðflutningar alheimsfyrirbæri, í öllum álfum og löndum.

Biblían leggur áherslu á gestrisni í garð framandi fólks. Ísraelsþjóðin var hvött til að minnast eigin sögu sem flóttafólk í útlegð, og að koma fram við útlendinginn af virðingu og á jafnræðisgrunni.
Fréttin af aðförinni að Alberto Bogero og syni hans vekur óhug. Það að þeir, og að því er fullyrt er, fleiri innflytjendur, hafi neyðst til að flýja land vegna ofsókna og áreitis er skelfileg og óþolandi smán fyrir samfélag okkar. Gleðilegt að fólk skuli láta í sér heyra til að andmæla því. Það að ungt fólk á Íslandi skuli daðra við fordóma og kynþáttahatur, já og fordóma gegn trúarbrögðum, það er grafalvarlegt. Við sem fullorðin erum berum þar mikla ábyrgð. Svo margt í okkar menningu og samskiptum hefur borið vitni um agaleysi, ábyrgðarleysi og virðingarleysi í orðum og athöfn. Virðingarleysið getur af sér kaldhæðni og sýra kaldhæðninnar eitrar sjálfið, grefur undan sjálfsvirðingunni.

Við eigum að láta í okkur heyrast að fordómar og hatur gegn útlendingum sé ólíðandi. Við viljum rækta hið góða, opna, gestrisna samfélag í landinu okkar góða.

Við þurfum ekki að efast um hver rót hins góða lífs og samfélags er. Látum það heyrast og sjást! Það er trúin, vonin og kærleikurinn, sem eru móteitur gegn kaldhæðni og hjartakulda og synd, forvörn og leiðarljós á vegi hins góða. Kirkjan á að vera það samfélag þar sem allir rúmast inni og „sérhver kynslóð sést þar og sérthvert heyrist mál.“ eins og sungið var áðan, ekki í ógandi dyn orðfossanna, heldur í þeim rómi, rödd, því orði þar sem Guð er að vitja okkar með líkn sína og líf.

Danska skáldkonan Karen Blixen segir frá því er hún var í Afríku þá hafði hún vinnumann innfæddan, sem henni líkaði afar vel við. Hann var samviskusamur og áreiðanlegur, iðinn og elskulegur í alla staði, og því brá henni er hann kom til hennar og sagðist vera hættur. Hann hefði ráðið sig til starfa hjá múslima nokkrum í bænum. Hvers vegna? spurði hún, hef ég ekki reynst þér vel þessa þrjá mánuði sem þú hefur unnið hér? Jú, mér hefur liðið afar vel hérna. Hvers vegna viltu þá fara? Jú, vegna þess að ég er að leita að Guði. Þið kristnir menn trúið á Guð, múslimarnir trúa á Guð, hindúarnir trúa á Guð. Ég vildi vita hver væri hinn sanni Guð. Þess vegna ákvað ég að ráða mig í vinnu hjá kristnum manni, múslima og hindúa, þrjá mánuði í senn, og vita hvort ég gæti séð af breytni þeirra hver væri hinn sanni Guð.

Hún fékk sting í hjartað og hugsaði: Hefði ég bara vitað að í námunda við mig væri leitandi manneskja að fylgjast með mér til að fræðast af mér um Guð, hefði ég þá ekki breytt öðru vísi, hefði ég ekki verið tillitssamari, réttlátari, orðvarari, umhyggjusamari?

Einhvern tíma sagði meistari Kjarval að listamennirnir ættu „að gera það eitt að vera Guði til ánægju og reyna að sannfæra fólk um að það sé einhver tilgangur með þessu.“ Þetta var vel sagt, og þetta finnst mér líka vera hlutverk kirkjunnar og prestanna, að gleðja Guð og reyna að sannfæra fólk um að það sé tilgangur með þessu lífi, sá tilgangur sem krossinn og upprisan birta.

Guð er að vitja okkar! Til að lækna sárin og þerra tárin, og hlusta og hugga og reisa upp. Digraneskirkja og sérhver kristinn helgidómur og söfnuður ber vitni um þennan lífgandi mátt orðsins sem er að verki í lífinu og mætir þér á lífsveginum og við borgarhliðin hinstu. Við erum kölluð til að finna til eins og hann, vera á bandi lífsins eins og hann, lifa svo í heimi hér að Guð og allir góðir menn gleðjist yfir okkur. Að segja eins og hann við þau sem harma og syrgja: „Grát þú eigi“ og rétta út hlýja hönd og styrka til kraftaverka kærleikans, sem fyrirgefur, reisir upp, vekur von, tendrar trú í Jesú náðar nafni.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2752.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar