Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Í ræningjahöndum

29. ágúst 2010

Kona nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningja. Hann fletti hana klæðum og barði hana, hvarf síðan á brott og lét hana eftir örvona og niðurlægða.

Konan komst við illan leik heim til sín. Nokkur tími leið og konunni fannst hún óhrein og lítils virði. Hún var hrædd við að vera ein á ferð og tvílæsti alltaf á eftir sér þegar hún kom heim. Hún hafði borið kennsl á ræningjann. Hann var prestur í musterinu í Jerúsalem, stundaði rányrkju samhliða störfum sínum í musterinu og lagðist einkum á konur á fáförnum stað. Konan varð hrædd við að fara upp til Jerúsalem í musterið og gat ekki hugsað sér að heimsækja samkunduhúsin heldur. Hún reyndi að segja sögu sína en fáir trúðu henni enda var ránsmaður hennar vinsæll og virtur maður í samfélaginu.

Þegar fram liðu stundir stóð bar svo við að velja skyldi nýjan æðsta prest í musterið og þótti prestur sá sem rænt hafði konuna best til þess fallinn að gegna hinu heilaga embætti. Konunni þóttu tíðindin ekki góð og afréð því að segja sögu sína gömlum æðstapresti. Sá sendi hana aftur á veginn ofan til Jeríkó til að athuga hvort ránsmaðurinn sem stöðugt herjaði þar á hefði breyst í afstöðu sinni til farandkvenna. Ekki taldi konan svo vera eftir að hafa fylgst með aðförum prestsins á veginum en lét kyrrt liggja í bili.

Áfram líður tíminn og konan kynnist mörgum konum, sem eins og hún höfðu lagt leið sína eftir veginum til Jeríkó og lent í höndum ræningjans. Konan afræður að segja sögu sína á markaðstorginu fyrir utan musterið í Jerúsalem og hinar konurnar sem lent höfðu í ræningjahöndum standa þar með henni. Þær hrópa hátt og sagan berst um stræti og torg. Sumar konurnar segja á sér deili en aðrar bera andlitsslæður.

Fyrstur kemur æðsti presturinn út út musterinu. Hann er ævareiður, ber af sér allar sakir og kærir konurnar fyrir rómverska landstjóranum. Síðan streyma prestarnir og levítarnir út ú rmusterinu. Konurnar halda áfram að tala um Jeríkóveginn og taka eftir því að flestir prestarnir sveigja framhjá þeim og levítarnir líka. Landstjórinn telur að ekki sé ástæða til að aðhafast í málinu og fólkið á markaðstorginu snýr margt hvert við þeim baki. Fólkið fer að hvíslast á um það að konurnar séu athyglissjúkar og jafnvel geðveikar. Sumir telja að konunum hafi verið nær að flækjast einar eftir þessum vegi með góss sitt.

Konan sem áður gekk til Jeríkó fer heim til sín þetta kvöld döpur í bragði af markaðstorginu. Hún tekur eftir tíðum mannaferðum fyrir utan hjá sér og næst þegar hún kemur á markaðstorgið er glápt á hana og hvískrað í kringum hana. Konan heyrir lítið frá prestunum eða levítunum, en mörg úr hópi þeirra sem hún hitti á markaðstorginu eru prestunum ævareiðir. Þau steinhætta að fara í musterið og borga ekki lengur þangað toll. Eftir mikinn þrýsting hættir æðstipresturinn að þjóna í musterinu, en ásakanir kvennanna eru aldrei útkljáðar. Konan sem fyrst var greint frá fær engan frið. Hún verður þekkt sem konan sem bar æðsta prestinn sökum. Þegar hún hefur þolað augnagotur, pískur og illt umtal um hríð afræður hún að flytjast til Samaríu þar sem enginn þekkti hana. Í musterinu reyna menn að læra af því sem gerðist á markaðstorginu, beita sér fyrir umræðum um hættur á vegum úti, stuðla að vernd fyrir vegfarendur, og reyna að laða fólk að musterinu aftur.

Enn líður og bíður og æðsti presturinn deyr. Þá stígur fram dóttir æðsta prestsins og segir frá því að faðir hennar hafi einnig beitt hana sjálfa ofbeldi og rænt hana eigum hennar. Konurnar koma aftur á markaðstorgið og segja sögu sína og fella blæjurnar. Nú trúa þeim flestir. Mikil reiði brýst út gagnvart prestunum og levítunum og fólk vill ekki lengur greiða fyrir starf musterisins eða stuðla að endurbótum á hinu forna mannvirki. Það kallar á æðsta prestinn í musterinu og spyr hann hvers vegna hann hafi ekki komið konunum til hjálpar. Það telur að prestar séu upp til hópa ræningjar og hylmi hver yfir með öðrum, en sveigi yfirleitt framhjá þeim sem verða fyrir ofbeldi og ofsóknum á veginum ofan til Jeríkó. Það segir að æðsti presturinn gamli hafi unnið spellvirki á musterinu rétt eins og hann rændi og ruplaði á vegunum. Prestarnir hrökkva í vörn, hlaupa inn í musterið af veginum og setja helgimyndir fyrir skemmdirnar í veggjunum. Fólkið bendir á það sem er ljótt og skemmt í musterinu, tekur niður súlur og hirðir múrsteinana svo að eftir stendur hrúgan ein af ónýtum grjóthnullungum.

Einn góðan veðurdag kemur konan á asna sínum frá Samaríu og sér nokkra presta sitja dapra og örvona á leiðinni ofan til Jeríkó. Hún sest við hlið þeirra og talar við þá. Hún setur smyrsl á sár þeirra, sýnir þeim ör sín og segir þeim frá því þegar hún fór um veginn forðum. Hún segir þeim að það sé ekki nóg að búa til reglur og girðingar. Musterið er ekki aðeins byggt af steinum, segir konan, heldur lifandi fólki. Vegurinn verður aldrei öruggur fyrr en ránsmennirnir eru hraktir á flótta og fólkinu sinnt sem orðið hefur fyrir ofbeldi. Musterið verður ekki skjól fyrir vatni og vindum nema fólkið sem vinnur þar og biður þar, sé kjarkað og horfist í augu við götin og skemmdirnar.

Þegar prestarnir sáu að konan ætlaði ekki að berja þá, eða ræna lögðu þeir við hlustir. Þeir ákveða að sækja fleiri presta og levíta og konan fór og sótti hinar konurnar. Síðan dreif að fleira fólk og þau ræddu saman um það hvað ætti við musterið. Sumir töldu að musterið væri orðið svo laskað og prestarnir svo spilltir að best væri að lofa hrúgunni að vera. Aðrir töldu að musterið ætti sér von og í þeirri trú lögðu konurnar, prestarnir, levítarnir og fólkið á markaðstorginu fram ást, vinnu, traust og nýja steina.

Þannig varð vegurinn ofan til Jeríkó öruggur staður fyrir konur að ganga á. Þannig sýndu þau, sem musterið braut á, musterinu miskunn og byggðu það upp að nýju.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3445.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar