Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.



Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Barnaníð og barnavernd

15. ágúst 2010

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lúk 18.9-14

Ást þín er eins og skordýr
sem sýgur sig fast á húð mína
og verpir í hold mitt

ég er öll í kýlum
ógeðslegum kýlum

nótt eina rifnar ofan af kýlunum
í tunglskinsbirtunni
glittir á hvítar perlur í rifunum

Þannig yrkir Björg G. Gísladóttir í bókinni “Sigurvegarinn sárfætti” árið 1995. Í ljóðunum lýsir skáldkonan meðal annars erfiðri reynslu vegna kynferðislegs ofbeldis. Þar kallast á sársauki og reiði, en líka von og kjarkur þess sem hefur horfst í augu við hryllilega atburði, feluleik, lygar og skömm. Skáldið hefur nefnt kýlin réttum nöfnum og þann sem kýlunum veldur. Sárin blæða og nísta, en í uppgjörinu felst líka von, kraftur og framtíð—í tunglskinsbirtunni.

Það er ekki mjög langt síðan að fórnarlömb kynferðisofbeldis öðluðust rödd og mál í samfélaginu. Fram að þeim tíma var kynferðisofbeldi bölið sem aldrei mátti nefna og fáir trúðu. Og þótt margt hafi breyst til batnaðar búum við enn í samfélagi sem þaggar niður þjáningu fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis. Barnavernd og eftirliti hefur fleytt fram, en ennþá eru skiptar skoðanir um það hvernig taka á á sögum og reynslu þeirra sem koma fram með ásakanir um misnotkun og nauðung. Of oft hefur þessum óþægilegu sögum verið svarað með aðferð strútsins. Við búum enn í samfélagi mergsýrðu af víkingasögum og hefðum, þar sem æran skiptir öllu máli, “orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur,” tóna Hávamálin og margir eru tilbúnir að ganga langt í þeim efnum. “Um hin dauðu segir maður ekkert illt,” segir einn. “Oft má satt kyrrt liggja,” segir annar, “Dæmið ekki!” segir sá þriðji að biblíulegum sið. Þau sem gengið hafa fram og sagt sannleikann um líf sitt hafa gjarnan úthrópuð fyrir vesen, lygar, hroka, geðbilun og hefndarfýsn, sögum þeirra ekki trúað, eða þær þaggaðar niður. Og þannig eru nístandi kvölin af kynferðisglæpnum oft metin léttvægari heldur en æra mektarmannanna.

Hroki og reiði eru velþekktir lestir innan kristinnar dygðasiðfræði sem reist á grunni grískar heimspeki. Slík siðfræði hefur í sjóðum sínum ýmsar lofsverðar dygðir, svo sem hreinlífi, hófsemd, iðni, kærleika, þolinmæði, góðvild og auðmýkt. Andstæður dygðanna eru einnig vel þekktar í siðfræðinni og nefnir hún losta, ágirnd, leti, græðgi, reiði, öfund og hroka sem andstæður dygðanna. Dygðasiðfræðin er mikilvæg leiðbeining um hið góða og hófstillta líf og ef til vill hafa efnahagsleg áföll undanfarinna ára leitt til þess að auðmýkt nýtur nú vaxandi virðingar sem samfélagsleg dygð. Af öllum þessum langa lista hefur auðmýktin gjarnan þótt mikilvægust dygða í kristnum sið og hrokinn verstur allra synda.

Auðmýkt er góð en það er líka hægt að misnota hugmyndir um gildi auðmýktarinnar. Þegar auðmýktinni er smurt of hraustlega á brauð þeirra sem lítil hafa völdin, þá leiðir mjúklyndistalið til þess að fólk verður ófært til að takast á við siðferðileg álitamál. Þegar auðmýktin er prédikuð um of fyrir hinum magnlitla og valdalausa getur mýktin snúist upp í undirlægjuhátt , aðgerðaleysi, deyfð og biturð. Reiðin sem dygðasiðfræðin telur eina af dauðasyndunum sjö getur aftur stundum verið heilbrigð og nauðsynleg leið til uppgjörs. Það er hreint ekki það sama að vera hrokafullur og að berjast fyrir reisn sinni.Við ættum engri manneskju að gera það að láta hana velja á milli auðmýktar og réttlætis.

• • •

Þessi tvíbentu sverð auðmýktar og hroka skulum við hafa í huga þegar við íhugum guðspjall dagsins. Í guðspjalli Lúkasar er dregin upp fyrir okkur mynd af tveimur mönnum, faríseanum og tollheimtumanninum sem báðir komu í musterið til bæna. Mennirnir tveir eru fullkomnar andstæður. Annar er frómur maður og virtur og með allt sitt á hreinu, hinn er úrhrak samfélagsins, einn þeirra sem nýtir sér skattheimtu Rómverja til að hagnast á náunganum. Þessir tveir biðjast líka fyrir á ólíkan hátt, annar stendur keikur og flytur þakkarbæn til Guðs síns. Hann biður Guð ekki um neitt, enda telur hann sér einskis áfátt. Hinn biðjandinn í musterinu þennan daginn er álútur, stendur álengdar og ber sér á brjóst. Hann þakkar Guði ekki fyrir það sem hann er, vegna þess að hann hefur af fáu að monta sig. Hann hins vegar biður um náð, hjálp og miskunn vegna þess að hann er syndugur maður.

Sagan um faríseann og tollheimtumanninn er ein frægasta dæmisagan sem höfð er eftir Jesú. Engum þarf heldur að dyljast hvor það er sem Jesús telur frekar vera í náðinni hjá Guði, faríseinn eða tollheimtumaðurinn. Sagan hefur á öllum öldum verið notuð til að tákna tvær gerðir kristins fólks, þeirra sem ástunda dygðugt líferni og ofmetnast á því og síðan hinna sem biðja Guð um hjálp til að bæta sitt synduga líf. Sagan var í sérstöku uppáhaldi hjá Lúther sem skrifaði að minnsta kost 13 prédikanir út frá textanum og notaði líkingarnar óspart til að berja á lagalyggju hinna rómversk kaþólsku andstæðinga sinna.

Sagan er í senn einföld og margbrotin og líklega er það þess vegna sem hún er mönnum svo hugleikin. Margir hafa velt því fyrir sér hver glæpur faríseans eiginlega var. Var honum virkilega refsað fyrir það að stunda gott og fagurt líferni, greiða samviskusamlega tíund og fasta tvisvar í viku? Mátti hann ekki vera glaður með sitt framlag til safnaðarins og samfélagsins? Faríseinn reyndar gerði gott betur en að þakka fyrir eigið ágæti. Hann benti almættinu líka á tollheimtumanninn og þakkaði fyrir að vera ekki sami auminginn og hann. Og það er einmitt hér sem hnífurinn stendur í kúnni og gerði það að verkum að góðu verkin faríseans voru siðferðilega lítils virði. Hann gleymdi meginreglu kærleiksborðorðsins um það að elskan til Guðs og elskan til náungans heyra saman. Hann taldi sig geta staðið í kærleikssambandi við Guð án þess að það breytti afstöðu hans til annara manneskja, þar með talinn hinn fyrirlitna tollheimtumann.

Sönn auðmýkt er ekki sett hinum smáa til höfuðs til að pakka honum saman í eitthvað ennþá minna en hann upplifir sig. Auðmýkt er humilitas á latínu og dregin af orðinu humus sem þýðir jörð eða grunnur. Orðið homo eða manneskja er dregið af sama stofni. Í auðmýktinni kemur þannig fram vitundin um mennsku og sammannleg tengsl, jarðartengsl en hrokinn undirstrikar öfga einstaklingshyggjunnar. Eflaust hefur höfundur Hómilíubókarinnar haft latneska orðið humilitas í huga þegar hún eða hann tengir auðmýktina við sköpunarguðfræði. Þar segir: “ Jörð skapaðist þá í brjóstum órum, er vér minnumst með lítillæti, að vér erum jörð og skulum enn í jörð fara.”

Mér finnst eitthvað óendanlega fallegt við það að hugsa um að með auðmýkt erum við að skapa jörð í brjóstum okkar. Þessi jörð er byggð upp af venslum við aðrar manneskjur, fjöll, dýr og grös. Og þegar við hugsum á þennan hátt, verður égið ekki lengur í fyrirrúmi, heldur eitt í tengslum við allt annað. Þá er ekki lengur þörf á að standa keik og mæna upp til himins, því að himininn vex í hjörtum okkar og allt í kringum okkur. Tollheimtumaðurinn verður ekki lengur grey til að bera sig saman við og hefja sig upp yfir, heldur sá eða sú sem Guð elskar.

Og þó—áður en ég hverf of djúpt yfir í að lofa auðmýktina í sögunni um tollheimtumanninn og faríseann þá spyrni ég fótum við. Vantar ekki eitthvað í þessa sögu? Ef tilbiðjendurnir tveir eru helstu formgerðir kristinna tilbiðjenda vantar þá ekki eitthvað mikið í myndina? Hvað finnst ykkur hlustendur góðir?

Tollheimtumaðurinn og faríseinn eru að sönnu ólíkir menn en þeir eru báðir karlmenn. Það er ekki aðeins kynferðið sem skapar þeim sess í musterinu, heldur þjóðerni þeirra líka. Þeir eru báðir Ísraelsmenn sem hafa gengið í gegnum hreinsunarathöfn og mega ganga upp í þriðja garð musterisins á hæðinni. Fyrir ofan gnæfir prestagarðurinn og enn ofar er hið allra heilagasta þar sem aðeins æðsti presturinn má koma. Fyrir neðan er kvennagarðurinn þar sem allir gyðinglegir karlmenn mega koma og konur sem eru hreinar af blóðlátum og enn neðar ytri garðurinn þar sem allir nema blæðandi konur máttu ganga. Svoleiðis fólk mátti hvergi koma nálægt hinu heilaga. Vegna allra þessara flokkana er rýmið sem slegið er um faríseann og tollheimtumanninn líka saga takmörkuð við reynslu karlmannsins af auðmýkt og hroka. Þar er ekki rúm fyrir konur á sama hátt og sérstaklega ekki fyrir þeirra blæðandi kynferðissögur. Samkvæmt guðspjalli Mattheusar rifnaði musteristjaldið þegar Jesús dó og undirstrikaði þannig á táknrænan hátt að kynferðislegar, félagslegar og kynþáttalegar aðgreiningar ættu ekki heima í hinum kristna sið. Við erum öll eitt í Kristi Jesú, segir Páll postuli og þessi eining undirstrikar vitundina um sanna mennsku, sanna auðmýkt. Okkur hefur hins vegar ekki alltaf gengið vel að lifa í slíkum einingaranda. Og því eru tjöldin saumuð saman aftur, veggirnir eru reistir og múrarnir hlaðnir á ný. Og sumar sögur eru heyrðar og aðrar þaggaðar niður.

• • •

nótt eina rifnar ofan af kýlunum

í tunglskinsbirtunni

glittir á hvítar perlur í rifunum

Undanfarna viku hefur mikið borið á fréttum af kynferðisbrotum og þá sérstaklega á vettvangi kirkjunnar. Fólk er slegið óhug í hvert skipti sem gamlar sögur eru rifjaðar upp og það veltir því fyrir sér hvort hvergi séu heilög vé þar sem börnum og viðkvæmum skjólstæðingum sé óhætt. Þó ætti engan að undra að kynferðisbrot verði líka í kirkjunni. Í líkingu sinni um góða hirðinn talar Jesús líka um úlfinn sem hremmir lömbin og tvístrar þeim. Og hvergi hefur úlfurinn frjálsari hendur en þar sem hann nýtur trausts, virðingar og öruggrar þjóðfélagsstöðu. En það er ekki þar með sagt að bölið og grimmdin eigi að þrífast óáreitt. Það er enginn svo heilagur að hann ætti sjálfkrafa að vera hafinn yfir vernd barna, presturinn, kennarinn, hjúkrunarfræðingurinn, læknirinn, æskulýðsfulltrúinn, foreldrið, frændfólkið og vinirnir. Barnaníð á aldrei að hafa forgang yfir barnavernd hver sem í hlut á og því er hvert og eitt okkar undir tilkynningaskyldu til barnaverndar ef okkur grunar að líf og heilsa barns sé í veði. Við þurfum sem þjóðfélag að horfast í augu við það sértæka ofbeldi sem konur og börn búa við vegna misréttis kvenna og karla í samfélaginu í stað þess að tala það niður. Við eigum ekki að kveinka okkur við því að heyra sögur þeirra sem þjáðst hafa vegna kynferðisofbeldis og annars ranglætis. Við eigum heldur ekki að smjatta á þeim af pornógrafískri hræsni púrítanans. Við eigum að leyfa strútnu að búa í dýragarðinum og taka upp aðra kærleiksríkari hætti. Við þurfum að takast á við bölið og óréttlætið sem viðgengst í okkar eigin röðum og sýna því hugrakka fólki virðingu okkar og stuðning sem stígur fram þegar rifnar ofan af kýlunum. Í því liggur auðmýkt, auðmýkt þeirra sem horfast af djörfung í augu við það að samfélagið okkar er ekki eins öruggt og gott og við vildum hafa það. Og það glittir á hvítar perlur í rifunum.

• • •

Faríseinn stendur í bæn sinni með bros á vör og heyrir tollheimtumanninn berja sér á brjóst, þegar allt í einu heyrist þrusk fyrir aftan þá báða. Þar stendur kona á barneignaraldri og örugglega á blæðingum líka. Þeir hrökkva báðir í kút og ætla að kalla til verðina yfir þessari manneskju sem er að fremja helgispjöll í musterinu. Þá ræskir konan sig og segir við þá: “Fyrirgefið þið strákar, meðan þið báðuð í musterinu hefur tíminn liðið og þið hafið verið túlkaðir og endurtúlkaðir í þúsundir ára. Það er komið 2010 og ég má vera í þessu herbergi líka. Ég má þakka Guði eins og þú farísei og ég má biðja Guð um miskunn eins og þú tollheimtumaður. Ég er bæði hrokafull og auðmjúk, reiði mín er máttug en í dag ætla ég að þakka.” Og hún segir:

Ég þakka þér Guð að ég er þitt elskaða barn og að jörðin fæðist í brjósti mér þegar ég tengist öðrum ástarböndum.
Ég þakka þér Guð fyrir það að ég bý í landi og á tíma þar sem barnaverndarreglur eru í gildi.
þar sem fólk vinnur óeigingjarnt og vanþakklátt starf við að sinna hag barna
þar sem eru til góðir uppalendur
þar sem rekið er kvennaathvarf og stígamót
þar sem fólk kemur saman og styður hvert annað
þar sem baráttuandinn og sjálfsvirðingin verður til aftur eftir niðurbrot.
Ég þakka þér fyrir það að ég hef kjark til að stíga inn í forboðin herbergi
Að segja sögu mína
Að hopa ekki og lýsa kynferðisbrot sem þá synd sem hún er,
Að takast á við reiði mína
Að horfast í augu við blæðandi undir og nístandi sár
Að takast á við fordóma, þöggun og gagnrýni
Ég þakka þér Guð fyrir það sem vel er gert í kirkjunni í þessum málum,
Fyrir fagráð, sálgæslu, reglur, stuðning og umræðu
Og hjálpaðu okkur að standa okkur betur í auðmýkt, stuðningi, heiðarleika, kjarki, réttlæti og reisn
–í tunglskinsbirtunni.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5136.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar