Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Ástarstjarna yfir Litla-Hrauni

4. apríl 2010

Rétt í þessu var gerð leit í klefanum.
Fangaverðirnir voru að leita að bruggi.
Þeir vita vel að ég er ekki að brugga.
en sögðu að þetta væri alltaf gert fyrir páska.

En ástin mín………
Það er nýr dagur!
Nýtt ljós!
Sólin fyllir klefann birtu
og ást þín streymir til mín

Því brýt ég hlekki hugans
Og fleygi mér í faðm þinn,
Hoppa yfir hliðið,
Þýt um þröngan farveg,
Skarð á milli fjalla,
Hitti þig við læk einn
Eða litla kaffistofu.

Þú brosir eins og engill.
Ég greiði lokka þína.
Við hlæjum uppi á heiði,
En þá fer ský um himin
Og varpar skugga á veggi.

Ég stend í klefa mínum
Og stari út í tómið,
en ást mín streymir til þín
sem lækur út í lífið

Himininn svo glaður,
falleg fjöll í fjarska.
Guð þú varpar ljósi
á veröld mína og von,
heimur minn og hugur
æðrulaus
án ótta…..

Stjörnur hlæja á himni,
horfin næturský.
Góða nótt þú kemur
í vökunni til mín.

Eirðarleysi………
Ekkert um að vera.

Enginn ágreiningur um það:
Föstudagurinn langi er langur.

Talar einhver um það?
Nei, sumt þarf ekki að ræða.

Fíladelfía færði okkur páskaegg númer fjögur,
fallega gert af þeim.
Ég borða mitt á morgun.

Gott að þessi dagur er á enda.

Miðvikudag fyrir páska
hvarf rakhnífur rakarans.
Hann kom hingað til að klippa okkur,
raka af okkur peninga,
eins og einn orðaði það.

Nú er rakarinn sannfærður um
Að einhver okkar hafi stolið frá sér hnífnum.
Það er búið að leita hjá öllum,
mörgum sinnum hjá sumum.
Hér snýst allt um rakarann,
eins og það hafi ekki verið frelsarinn
sem reis upp á þriðja degi
heldur rakarinn.
Ég sagði varðstjóranum
að þetta væri virkilega vanhugsað atriði.
Ég held að hann hafi verið sammála.

Ég set Palla Rós á fóninn
og talandi um rós
þá er engin rós án þyrna.

Góður málsháttur,
finnst mér

Þegar við erum orðin þroskuð
Og klár í lífinu
Þurfum við ekki að stinga okkur meira.

Nú fæ ég mér smók,
slaka á
og horfi á páskaliljuna
sem jesúkonan með gítarinn
færði mér í gær…………..

Hún er falleg
og minnir á þig.
Sígarettan er búin.
Ég hlusta á Palla,
horfi á páskaliljuna
Og hugsa til þín.

Takk fyrir daginn.
Góða nótt páskaliljan mín.
Ég brosi út að eyrum
og blikka þig svo blítt.

Þú ert mér svo mikils virði.
Við erum sammála um það.
Ég og páskaliljan. Einar Már Guðmundsson

Undir yfirborði glettninnar býr svo áþreifanlegur veruleiki í þessu ljóði eftir Einar Má Guðmundsson, en er það ekki líka gagnvirkt að undir yfirborði veruleikans leynist oft alveg sprúðlandi fínn húmor.

Hvernig leið þér þegar þú vaknaðir við sólarupprás á þessum morgni? Um hvað varstu að hugsa þegar þú burstaðir tennurnar og þvoðir burt stýrurnar, valdir betri fötin úr skápnum og beygðir svefnstirðan skrokkinn til að reima skóna þína? Ef til vill gafst þér ekki tími til að drekka mikilvægasta kaffibollann, tók því ekki að hella upp á, tíminn naumur, kirkjuklukkurnar farnar að hringja, og þú sem getur varla sagt til nafns áður en þú hefur rennt niður einum sjóðheitum bolla af bleksvörtu kaffi, ert ekki einu sinni að vakna upp á launum. Þú ert á leið til kirkju. Og hingað ertu kominn, sestur á kirkjubekkinn með sálmabók í hönd, kórinn syngur inn hátíðina, presturinn þjónar. Allir að leggja sig hundrað prósent fram. Sannleikurinn er samt sá að þú ert ekki hingað kominn til að hlusta mig eða kórinn eða organistann, þótt við séum örugglega að standa okkur ágætlega, nei það sem knýr þig af stað svo árla morguns á lögbundnum frídegi er svo miklu dýpri og magnaðari veruleiki en við mennirnir getum skapað, í raun og sanni er það hið sama sem knýr þig af stað á þessum morgni og knúði konurnar sem vitnuðu um upprisuna fyrstar manna, já það sem dregur þig að kirkjunni eru tengslin við Guð. Þú átt tengsl við Guð og þótt að hvert og eitt okkar hér inni myndi lýsa þeim tengslum með eigin hætti, þá er inntakið það sama. Þær áttu heldur ekki allar sömu tengslin við Jesú konurna þrjár sem héldu af stað að gröfinni við sólarupprás, ein þeirra var einfaldlega syrgjandi móðir sem elskaði son sinn skilyrðislaust eins og hvert annað foreldri gerir, hinar tvær höfðu fylgt honum frá Galíleu til Jerúsalem og lært að elska hann í samfylgdinni, María hafði elskað hann frá fyrsta degi, hinar tvær skemur, en allar áttu þær þó jafna hlutdeild í lífi hans. Eins er með okkur sem hér erum á þessum morgni, sum okkar hafa þekkt Jesú Krist frá frumbernsku og aldrei numið veröldina án hans, önnur hafa mætt honum fyrst á ögurstundu í lífinu og fundið tilganginn vaxa jafnt og þétt með staðfastri návist hans. En samt eigum við öll jafna hlutdeild í lífi hans, alveg sama hvenær við höfum hafið þessi tengsl og það er stóra fréttin á þessum morgni að upprisan er sameiginlegur sigur okkar allra, upprisan er veruleikinn sem býr undir öllu grátbroslega yfirborðinu sem blasir við þér og mér hvern einasta dag, t.d. í umræðum um ofmetin lífsgildi, upprisa Krists er sameign okkar allra, kannski það eina sem aldrei mun verða falt í þessu lífi, aldrei verður forgangsraðað af gráðugum höndum. Þess vegna ertu kominn hingað í dag, af því að þú veist í hjarta þínu að hér ertu frjáls undan stöðuveitingum tíðarandans.

Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta ljóð Ástarstjarna yfir Litla- Hrauni eftir hann Einar Má, er sú að það nær að túlka upprisuna með svo lágstemmdum og manneskjulegum hætti, atburðurinn er settur inn í afhjúpaðan veruleika sem er einmitt í anda Jesú frá Nasaret. Ljóðið fléttast saman við þjóðargersemi Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok, kannski til að undirstrika að ekkert er of heilagt til að tala um það og jafnvel líka til þess að sýna að ástin er jafn merkileg á Litla-Hrauni og Hrauni í Öxnadal, ástin er einn veruleiki. Og svo má nú kannski segja að Litla- Hraun sé víða, ekki hvað síst í sálarlífi manna, um það vitna atburðir föstudagsins langa.

Upprisan er stærsta og merkilegasta fréttin sem sögð hefur verið frá morgni tímans, og það er ábyrgðarhluti hverrar kynslóðar að koma henni áfram þannig að allar manneskjur skilji og meðtaki að hlutdeildin er jöfn, öllum mönnum gefin. Ljóðið hans Einars undirstrikar t.d. þá staðreynd að páskarnir koma líka á Litla- Hrauni, upprisusólin verður víst aldrei hneppt í gæsluvarðhald heldur fær að skína á þá sem hafa bæði smygglað bruggi eða stolið hnífum, þar eiga menn líka von í hjarta sínu um líf fyllt af ást og alvöru tengslum, já merkilegt að bæði upprisan og ástin skuli hvarvetna finna sér farveg, meira að segja inn á Litla – Hrauni. Kannski styður þetta óþægilegar grunsemdir okkar um að þrátt fyrir allt, já þrátt fyrir alla fyrirhöfnina við að vera tekinn alvarlega í Matadori lífsins þá býr þessi líka ótrúlega staðreynd að baki hinum stóra veruleika, staðreyndin um að við þráum öll það sama, að vera elskuð og meðtekin.

Já undir yfirborði veruleikans leynist alveg sprúðlandi húmor, svo mikið er víst. Það að við skulum ná að sannfæra okkur um það hvern einasta dag að við séum eitthvað meira en venjulegar manneskjur er út af fyrir sig alveg drepfyndið, hvað eru grínistarnir þrír í vaktaseríunum, Nætur, Dag og Fangavaktinni að sýna annað en það? Þrír einstaklingar í aðalhlutverkum, gríðarlega ólíkir á yfirborðinu en hylma yfir sama sannleikann, að þeir þrá og vona það sama. Og það að við skulum í alvörunni halda að það sé eðlilegt að sumir eigi vegna hæfileika sinna eða metnaðar meira tilkall til góðrar heilsu, fjármagns og virðingar er líka alveg ótrúlega, sjúkur húmor, svo halda menn að upprisa Jesú Krists sé einhver fimmaurabrandari sem kirkjan hefur misskilið á meðan hinn hreinræktaði fáránleiki blasir við í bláköldum raunveruleikanum.

Upprisan er staðfesting á því að allt sem Jesús Kristur sagði og gerði er óvéfengjanlegt og satt, hann átti innistæðu fyrir öllu því sem hann sagði og gerði. Þess vegna er hver einasti páskadagur áskorun um nýtt upphaf þar sem við erum hvött til að gera hið algilda réttlæti upprisunnar að alvöru í okkar lífi, Páll postuli brýnir okkur til dáða í pistli dagsins þar sem hann segir: “Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.”

Hugsaðu þér að við skulum eiga þessa undursamlegu von sem enginn getur rænt frá okkur eða gjaldfellt, nýtt upphaf, frelsi undan sakfellingu fortíðarinnar, nei það var sko ekki til einskis sem þú slepptir kaffibollanum í morgun, hnýttir á þig skóna og hlýddir kalli klukknanna, þú komst hingað til að þiggja fyrirgefningu hins upprisna Drottins, hvorki meira né minna, þú komst til að taka formlega við stærstu gjöf sem nokkur hefur gefið þér, það þýðir að þú færð tækifæri frá og með þessari stundu til að endurmeta líf þitt frá grunni, tækifæri til að byggja upp brotin samskipti, hnýta aftur slitin tengsl við ástvin, gera fyrirgefningu Drottins að veruleika í þínu eigin persónulega lífi þar sem þú þiggur og veitir áfram þar sem er þörf. Er ekki einhver í þínu lífi sem þarf á fyrirgefningu að halda? Þarft þú ekki líka á fyrirgefningu að halda? Upprisan er hvati nýrra ákvarðanna, sjálfsskoðunar, endurmats lífsgilda, hún er líka prófraun á trú þína. Íslenska þjóðin á hlutdeild í upprisunni, sem kristin þjóð býðst henni frá og með þessari stundu að prófa trú sína, kasta reiðinni og sjálfsvorkuninni frá sér og lifa á borði sem kristin þjóð, í því felst sú áskorun að vera þakklát þjóð, þakklát fyrir þau forréttindi sem felast í því að búa á þessu landi. Þakklát fyrir að búa við frið og frelsi, því okkar frelsi er ekki afstætt vegna einhverra velmeguna skulda, við skulum aldrei láta slíka afstöðu um okkur spyrjast, okkar frelsi er algjört í samanburði við þær þjóðir sem hafa lifað við styrjaldir og kúgun áratugum saman. Við erum forréttindaþjóð, Guð veit það og við vitum það, það eina sem okkur skortir er viljinn til að viðurkenna það og vera gefandi, hugsa sér að þegar við höfum spilað frá okkur alla peningana sem frúin í Hamborg gaf, þá býður náttúran okkur upp á stórbrotið eldgos í öruggri fjarlægð til þess að sýna okkur að allt það merkilegasta er gefið, já náttúran okkar sem við erum raunar búin að hæða og hýða undanfarin ár, heldur áfram að gera líf okkar innihaldsríkara, náttúran hættir aldrei að næra okkur eða vera gefandi, það er vissulega umhugsunarvert.

Fyrsta skrefið í þá átt að vera gefandi þjóð væri t.d. að deila kjörum með innflytjendum eins og um bræður og systur væri að ræða en ekki bara ódýrt vinnuafl, markmið en ekki tæki, ekki viljum við sjálf vera færð aftar í röðina þegar kemur að lánveitingum nágrannaþjóðanna, eða hvað?

Nei! við skulum taka þessari hátíð sem áskorun um að ástunda sannleika og hreinleika eins og Páll postuli hvetur okkur til í pistli dagsins. Upprisa Jesú Krists er hin stóra opinberun þess að lífið er annars vegar háð fyrirgefningu og hins vegar þakklæti, hvort tveggja myndar súrefni mannlegra tengsla, já þegar öllu er á botnin hvolft, burtséð frá öllum fræðilegum útreikningum hins opinbera, þá er það þetta tvennt, fyrirgefning og þakklæti sem við þörfnumst hér til að byggja upp lífvænlegt samfélag.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2462.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar