Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Guð blessar Ísland

3. október 2009

Elskulegu vinkonur og systur í Kristi.

Við höfum í eina kvöldstund dregið okkur út úr skarkala borgarinnar og þiggjum langþráð frí frá fréttum og fréttaskýringum um bankahrunið á Íslandi sem er víst eins árs í dag, 6. október. Þessi leiðindakrói, Hrunið, hefur haft margvíslegar afleiðingar fyrir land og þjóð, sem ekki er enn séð fyrir endann á. Það eru því margskonar tilfinningar sem við upplifum þessa dagana, bæði sem einstaklingar og sem þjóð. Bandarískur guðfræðiprófessor sem hér var stödd í síðasta mánuði, sagði að það væri afar mikilvægt í uppbyggingarferlinu sem við viljum öll sjá eiga sér stað á Íslandi, að vinna með þær tilfinningar sem verða til við þessar aðstæður.

Ef við erum reið, að vera þá reið – ekki kyngja þeim eðlilegu tilfinningum sem kvikna við óréttláta og óforskammaða framkomu annarra. Reiðin getur verið betri og heilbrigðari viðbrögð við því sem hefur gerst heldur en doði og sinnuleysi, því að í reiðinni getur búið kraftur til breytinga. Breytinga á spilltu og sjálfshyggnu kerfi, sem iðulega sniðgengur þarfir þeirra sem minna mega sín og láta lægst. Samfélag sem verður dofið og sinnulaust um sjálft sig, veslast hins vegar upp og deyr innan frá.

Og þarna höfum við öll hlutverki að sinna. Munum eftir því að verstu hlutirnir gerast, þar sem gott fólk situr aðgerðarlaust hjá á meðan vondar manneskjur fara sínu fram.

Við þessi tímamót hefur mikið verið vísað til ummæla sem forsætisráðherrann þáverandi lét falla í lok ávarps síns til þjóðarinnar fyrir réttu ári, þegar hann bað Guð að blessa Ísland.  Það sætti greinilega þvílíkum tíðindum að forsætisráðherra skyldi taka svona til orða, og þessi eina setning greyptist inn í hug og hjörtu landsmanna með þeim hætti að hjá mörgum markaði einmitt hún þá ögurstund sem varð að veruleika með efnahagshruninu.

Aftur og aftur hefur þessi setning verið notuð í upprifjun á því sem hefur átt sér stað á Íslandi frá því 6. október í fyrra, og oftar en ekki í auglýsingaskyni. Nægir þar að nefna auglýsingu á nýrri heimildamynd um hrunið, sem heitir hvorki meira né minna en Guð blessi Ísland og er frumsýnd í kvöld, og svo auglýsing um málþing verktaka og ráðgjafa sem hlaut yfirskriftina Blessar Guð Ísland?

Þarna virðist birtast sá skilningur að þegar öll sund séu manneskjunni lokuð, þá fyrst sé blessun Guðs það sem gagnist okkur. Og eins og spurning málþings ráðgjafa og verktakanna leiðir í ljós, þá virðast menn einnig draga þá ályktun að á meðan vel gengur í þessum tiltekna bransa, þá sé blessun Guðs yfir þeim en um leið og þyngra verður undir fæti, sé það merki um að blessun Guðs hafi verið frá þeim tekin.

Þetta kallar á vangaveltur um hvað við eigum við þegar við tölum um blessun Guðs og hvernig hún tengist velgengni annars vegar og hrakförum hins vegar.  Er það þannig að sá sem á allt til alls og lífið leikur við, njóti blessunar Guðs en sá sem upplifir mótlæti og missi, lifi án slíkrar blessunar?

Dr. Einar Sigurbjörnsson, prófessor í trúfræði við guðfræðideildina, og fyrrverandi sóknarprestur hér í Kjósinni, skrifaði pistil í gær á vefnum, og kemur einmitt inn á þessar spurningar.  Hann spyr: „Blessar Guð Ísland?” Og svarar síðan: “Já, Guð blessar Ísland því að blessun Guðs er það sem við lifum, hrærumst og erum í. Án blessunar Guðs drögum við ekki andann, hugsum ekki, tölum ekki, áætlum ekki, framkvæmum ekki. Meðan við njótum lífsins og gjafa þess njótum við blessunar Guðs.”

Með öðrum orðum: Lífið og gjafir þess eru blessun Guðs. Og gjafir lífsins eru ekki mældar í gengisvísitölum, vaxtastigi, millibankagengi, tapi eða gróða. Gjafir lífsins sem við erum blessaðar með, er fólkið í kringum okkur, brosið sem mætir okkur í andliti náungans, mýktin í lófa þess sem við elskum, sólsetrið og sólarupprásin, það að fá að vakna á morgnana og sofna á kvöldin, að hafa í sig og á, að finna til gleði, að vera snortin af öðru fólki og aðstæðum þess.

Og andsvarið við blessun Guðs er ekki aðgerðarleysi og doði – heldur meðvituð og róttæk afstaða til lífsins sem Guð gefur okkur. Andsvar okkar við blessun Guðs er að vera mennsk og að deila mennskunni með öðrum í samfélagi þar sem við berum byrðar okkar sameiginlega og hjálpumst að.  Í Nýja testamentinu er þetta andsvar búið í búning miskunarverkanna, sem Jesús nefnir við lærisveina sína: Þér gáfuð mér að eta, Þér gáfuð mér að drekka, Þér hýstuð mig, Þér klædduð mig, Þér vitjuðuð mín, og: Þér komuð til mín. Þetta eru skyldur hins kristna manns og þess sem kirkja Krists er kölluð til að gera í þjónustunni við heiminn.

Á þessu árs afmæli hrunsins, getum við verið viss um það að Guð blessar Ísland og að Guð blessar okkur hverja og eina.  Mættum við allar þiggja blessun Guðs og heyra köllun hans um að njóta lífsins og gjafa þess, sýna miskunn og minnast fátækra . Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2345.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar