Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Ólafur Jóhannsson

Að afnema eða uppfylla

19. júlí 2009

 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
 „Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla“ segir Jesús í guðspjalli dagsins (Matt. 5:17B). 
 Rétt eins og núna var þá ríkur vilji til að afnema, umbylta, varpa af sér oki fortíðar, leggja nýjan grundvöll. Jesús þótti líklegur til að hafa forgöngu um slíkt. Hann fór ótroðnar slóðir, hristi upp í staðnaðri hugsun.
 Þjóð hans vantaði leiðtoga, alveg sárlega. Vissulega skorti ekki embættismenn. Allar stöður voru mannaðar. Samt var enginn eiginlegur leiðtogi í augsýn, enginn sem tók af skarið, sameinaði þjóðina, gaf henni raunhæfa von um lausn undan erlendri íhlutun, leiddi hana inn í örugga framtíð.
 Sumum fannst Jesús vera álitlegur leiðtogi.

 Sagan endurtekur sig. Biblían geymir tímalaus sannindi, sígilda speki. Margt í sögu Guðs útvöldu þjóðar í Gamla testamentinu er mjög hliðstætt sögu okkar Íslendinga. Í báðum tilvikum er um að ræða fólk sem almennt þekkir veg og vilja Guðs frá blautu barnsbeini, nýtur náðar hans og nálægðar í ríkum mæli, fólk sem gengur gegnum ýmsa erfiðleika, snýr sér ítrekað frá Guði, þarf að gæta sín í samskiptum við önnur og voldugari ríki. Í báðum tilvikum er samt innbyrðis ósamkomulag og togstreita um aukaatriði alvarlegasta váin sem steðjar að þjóðinni.

 Í vetur og vor hljómaði hávær krafa um „nýtt Ísland“. Jesús þekkti líka mætavel óskina um nýtt fyrirkomulag, nýja skipan, nýtt þjóðfélag. Mörgum til sárra vonbrigða svarar hann á þá leið að hann sé ekki kominn til að afnema, heldur uppfylla. Hann segir við samtíð sína – og okkur: Þið hafið það besta sem völ er á og eruð síður en svo betur sett með nýtt. Leitið ekki langt yfir skammt. Ekki kasta fyrir róða því sem þið hafið. Snúið frekar við, lærið betur að meta það góða sem er innan seilingar. Látið það styðja ykkur áfram, í baráttunni, gegnum erfiðleikana.

 Það ættum við sannarlega að gera, Íslendingar árið 2009, í rústum efnahagskerfis sem reyndist byggt á sandi óskhyggju og óráðsíu, var of gott til að geta verið satt. Við þurfum engin ný gildi eða viðmið í siðferði. Við höfum allt sem skiptir máli. Það er hluti af kristna trúararfinum, hefðinni sem hefur fylgt þjóð okkar frá því landið byggðist.

 Boðskapur Biblíunnar á sannarlega erindi til okkar núna, eins og ávallt. Gamla testamentið lýsir því vel hvernig fólk fer á svig við þau gildi sem eiga að varða veginn. Lögmálið og spámennirnir leggja ríka áherslu á nauðsyn þess að snúa sér til Guðs að nýju. Í því felst vonin.

 Boðskapur lögmálsins og spámannanna snýst einkum um þrennt: Réttlæti, miskunnsemi og heiðarleika. Það eru grunngildin sem Jesús sagðist ekki ætla að afnema heldur uppfylla.
 Væntanlega viljum við líka að réttlæti, miskunnsemi og heiðarleiki einkenni samfélag okkar og samskipti.
 Þjóðfélagsumræðan undanfarna mánuði hefur mikið snúist um að ná fram réttlæti. Réttlæti án miskunnsemi getur þó orðið mjög hart og kalt, réttlæti bókstafsins án þess að tillit sé tekið til aðstæðna málsaðila eða hugað að málsbótum þeirra.

 Miskunnsemi án heiðarleika verður oftast dómgreindarlaus linkind þar sem allt fær að fljóta í útþynntu meiningarleysi og misskilinni góðmennsku.
 Heiðarleiki án réttlætis er ávísun á hvatvísa hreinskilni og tilgangslausa bersögli sem leiðir hæglega af sér tillitsleysi og fordóma, þ. e. a. s., að ályktanir eru dregnar án þess að öll kurl séu komin til grafar.
 Gott jafnvægi þarf að vera milli réttlætis, miskunnsemi og heiðarleika. Gætum þess jafnvægis í umræðunni og meðferð mála, líka þeirra mikilvægu og viðkvæmu mála sem nú eru efst á baugi.

 Bæði í uppgjöri hins liðna og álitamálum er varða framtíðina þarf niðurstaðan að vera kynslóð okkar til sóma en ekki skammar. Hún verður að vera svo vel undirbúin og undirbyggð að hún standist dóm sögunnar þegar þar að kemur.
 Krafan um flýtimeðferð stórra mála má ekki leiða af sér óvandaðri málsmeðferð. Lærum af sögunni í því efni. Kapp er best með forsjá og skammtímasjónarmið mega ekki varpa skugga á málefnalega og siðlega úrlausn. Óréttlæti verður ekki bætt með meira óréttlæti. Ekki má slá af siðferðiskröfum í uppgjöri hins liðna. Því sem var „löglegt en siðlaust“ má ekki svara í sömu mynt!

 Höfum hugfast það sem Jesús benti samtíð sinni iðulega á að góð og siðleg framkoma takmarkast ekki af ramma laga og reglna.
 Farísearnir voru hins vegar bundnir af rammanum, lögðu allt kapp á að halda lögmálið í hinu ytra, reyndu að fylgja þeim mörghundruð reglum sem lögmálið greindist í og töldu það nægja. Trú þeirra var lögfræðileg bókstafstrú.

 Slík hugmyndafræði er líka ótrúlega algeng í umræðu samtímans, óskorað traust á bókstaf laganna. Ef það stendur ekki í reglunum þurfum við ekki að hugsa meira um það. Ef það er hvorki skyldað né bannað með lögum, ertu sloppin(n). Þá er ekkert hægt að gera. Þröng túlkun laganna verður skálkaskjól.

 Þó eru lögin ekki lífið sjálft heldur í mesta lagi lífsreglurnar. Lög ná ekki yfir allt. Vissulega skiptir vönduð löggjöf miklu máli en hún leysir siðgæðisvitundina ekki af hólmi.

 Löggjöf á hverjum tíma vitnar þvert á móti um gildismat samfélagsins, hugmyndir þess um samskiptahætti og manngildi. Ef grunngildin breytast, hefur það áhrif á lögin.

 Biblíuleg trú hefur mótað gildi þjóðfélags okkar í aldanna rás. Sumum finnst óþarfi að burðast áfram með trúararf kynslóðanna. Æ oftar heyrist að það muni ekki hafa nein neikvæð áhrif á gildin þótt við leggjum kristna trú til hliðar eins og hvert annað úrelt góss frá liðnum tíma.

 En hverjum dettur í hug að húsið standi þótt grunnurinn sé sprengdur undan því? Eða að tré haldi áfram að lifa og vaxa ef klippt er á ræturnar? Eða að vatn renni eftir vatnsleiðslu þegar hún hefur verið aftengd uppsprettunni?
 Áhrif kristninnar í þjóðfélaginu eru víðtækari og meiri en svo að við sjáum í fljótu bragði hvað gæti breyst ef trúin væri sett afsíðis. Vafasamt er að við viljum komast að því.

 „Án Guðs og án framhaldslífs? Þá hlýtur allt að vera leyfilegt, þá hlýtur maður að mega gera hvað sem er“ segir ein sögupersóna rússneska rithöfundarins Dostojevskís í Karamazov-bræðrunum.

 Dostojevskí taldi það vera manninum eiginlegt að lúta einhverju sér æðra. Þar hafði hann lög að mæla. Síðar, þegar leiðtogar þjóðar hans ákváðu að ýta guðstrú til hliðar, færðist trúarlega lotningin yfir á Lenín í grafhýsinu. Í stað þess að tilbiðja Krist, Guð sem varð maður, voru menn gerðir að guðum og tilbeðnir. Í stað íkona, Kristsmynda, voru hengdar upp myndir af Lenín og látnar gegna sama hlutverki. Árið 1950 ráðlagði blaðið Pravda lesendum sínum að hugsa til Stalíns þegar erfitt væri í vinnunni, þegar þreyta sækti á og þegar taka þyrfti mikilvæga ákvörðun; það styrkti sjálfstraustið, gæfi velgengni og tryggði rétta ákvarðanatöku. Marx og Stalín var hlýtt í heilagri auðmýkt, með hörmulegum afleiðingum.

 Þótt Guði sé hafnað lifir trúarþörfin, tilbeiðsluþörfin, og finnur sér annan farveg.
 Samlandi Dostojevskís, Alexander Solzhenitsyn, var sannfærður um hver væri meginástæða þeirra hörmunga sem þjóð hans þurfti að þola: Fólk gleymdi Guði.

 Þar með er ekki sagt að allt trúað fólk sé siðað – og því síður að trúlaust fólk sé siðlaust. Öll eigum við innra með okkur vísi að siðferðisviðmiðum. Og við Vesturlandabúar erum líka öll beint og óbeint mótuð af kristnum viðmiðum, jafnvel í mun ríkari mæli en við áttum okkur á eða kærum okkur um að viðurkenna.
 Stundum er því haldið á loft að trúarbrögð séu undirrót ills og mannkynið væri betur komið án þeirra, okkur væri nær að treysta mannshuganum.

 En gleymum því ekki að sá mannshugur hefur á öllum öldum fundið upp nýjar vígvélar og pyntingatól. Mannskæðustu átök og hreinsanir 20. aldar voru ekki trúarbragðastríð heldur sprottin af guðlausu einræði. Sagan bendir ekki til þess að mannkyninu vegni betur þegar guðlegri forsjón er hafnað.

 Sá vísir að siðferðisviðmiðum, sem við eigum innra með okkur, nægir nefnilega ekki til að tryggja siðlega afstöðu og framkomu. Reyndar er skelfilegt hve auðvelt reynist að sveigja viðmiðin, aðlaga kröfurnar hentugleikum hverju sinni til að réttlæta eigin gerðir. Gildir þá einu hvort um er að ræða framhjáhald, skattsvik, heimilisofbeldi eða glannaskapinn sem leiddi til þeirrar stöðu sem þjóðarbúið er nú komið í – þau seku finna iðulega leiðir til að afsaka sig og koma sér undan ábyrgð frekar en að horfast í augu við brot sín og takast á við afleiðingar þeirra.

 Siðleg manneskja lítur fyrst í eigin barm, gerir kröfur til sjálfrar sín áður en hún leyfir sér að benda á ávirðingar annarra.
 Áhyggjufull móðir bað indverska leiðtogann Gandhi um að tala við son hennar svo hann hætti að borða sykur. Gandhi bað hana um að koma aftur með strákinn eftir viku og hún gerði það. Þá tók Gandhi utanum drenginn og sagði honum eingfaldlega að hætta sykuráti. Móðirin spurði hissa af hverju þau hefðu þurft að bíða í heila viku eftir þessu. Gat hann ekki sagt drengnum þetta þegar þau komu upphaflega til hans? Og Gandhi svaraði: „Nei, í síðustu viku borðaði ég sjálfur sykur.“
 Of oft gildir hins vegar gamla spakmælið: „Það, sem þú ert, hrópar svo hátt að það, sem þú segir, heyrist ekki.“
 Jesús kappkostaði að vera sannur og samkvæmur sjálfum sér. Hann kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Það gerði hann með lífi sínu og með dauða sínum.

 Hann var fullkomlega réttlátur, alltaf miskunnsamur og algerlega heiðarlegur. Það hélst í hendur. Þannig uppfyllti hann einn kröfu lögmálsins.

 Með dauða sínum tók hann á sig afleiðingu synda okkar allra, misbresta, eigingirni og takmarkana, en gaf okkur í staðinn hlut í því sem leiðir af fullkomleika hans sjálfs: Eilífð Guðs. 

 Kristin trú er trú vonarinnar og vonin er eilíf. Jesús segir einmitt í guðspjalli dagsins „þar til himinn og jörð líða undir lok“ (v. 18). Hann veit að þessi veröld tekur enda en býður líka samfylgd sem nær lengra, eilífa nánd. Sú trú og von hefur í aldaraðir bæði verið haldreipi kúgaðra og vonsvikinna og hvati til að koma á umbótum. Trú vonarinnar gefur nýja sýn, aðra vídd, dýpri merkingu.
 Í vor birtust áhugaverðir Bakþankar í Fréttablaðinu. Þar segir ung, trúlaus móðir frá því þegar hún fann sig knúna til að útskýra grundvallaratriði kristinnar trúar fyrir fimm ára gömlum syni sínum.

 Þá rifjaðist upp fyrir henni frásögn annarrar konu af því hvernig barnatrúin hefði linað ótta ömmu hennar sem glímdi við minnistap. Í skelfingu óvægins sjúkdóms höfðu bænaversin frá bernskuárunum huggað gömlu konuna. Jafnframt sótti sú hugsun mjög á hana að mörg nútímabörn yrðu af þessari blessun sem endist ævilangt.

 Niðurstaða trúlausu móðurinnar er sú að það sé ungum börnum ólíkt léttbærara að fólk fari til Guðs eftir dauðann. Það sé „mun þægilegri tilhugsun en kúldur ofan í jörðinni.“  Þess vegna fór hún að kenna syni sínum vers um Jesú, þrátt fyrir eigið trúleysi. Guð blessi hana fyrir það!

 Í þessum einlæga og vel skrifaða pistli kemur hún að kjarna málsins sem mörgum yfirsést: Kristin trú er ekki eingöngu fagur siðaboðskapur og rík kærleikskrafa heldur er vonin grundvöllur trúarinnar, von eilífs lífs. Sú von er drifkraftur kærleikans, aflvaki góðra verka og vegvísir í siðgæði.

 Í Karamazov-bræðrunum segir Dostojevskí að ef mannkynið missti trú á ódauðleika sinn yrði ástin strax úr sögunni. Án ástar sé enginn lífskraftur til að viðhalda lífi á jörðinni og ekkert verði þá lengur talið ósiðlegt heldur hljóti allt að vera leyfilegt.
 Ein sögupersóna Dostojevskís gengur svo langt að segja að Guðs sé þörf vegna skipulagsins, til að halda uppi lögum og reglu í heiminum. Ef Guð væri ekki til þyrftu menn að finna hann upp!

 Þess þarf auðvitað ekki því Guð er til og Jesús er sendur í heiminn til að vera Guð með okkur. Hann kom ekki til að afnema það sem áður var vitað um Guð og vilja hans, heldur uppfylla það. Hann einn uppfyllti kröfu lögmálsins í þágu okkar allra. Hann einn gefur okkur eilífa von.

 Við þurfum ekki að uppfylla kröfu lögmálsins. Jesús hefur gert það í þágu okkar. Vegna hans erum við frjáls til að þjóna Guði óttalaus og lifa honum til dýrðar.

 Kristin trú er trú vonarinnar. Hvort sem um er að ræða persónuleg áföll, sorg vegna ástvinamissis eða áhyggjur af skuldabyrði þjóðarbúsins – skulum við halda í þá von sem stenst þótt hrikti í stoðum lífs okkar.
 Jesús stendur með okkur í meðbyr og mótlæti. Ef hann fær að komast að, mun hann einnig leiða okkur gegnum þá ytri erfiðleika sem að þjóðinni steðja.

 „Nýtt Ísland“ er afturhvarf til þess gamla góða, þess sem við teljum okkur trú um að hafi verið áður en glysið og græðgin tóku völdin. Lausnin felst ekki í því að fleygja því sem við höfum heldur þvert á móti að byggja á því gamla og góða, vera Guði falin í öllum hlutum og þiggja samfylgd Jesú Krists í öllum aðstæðum. Við getum aldrei tapað á því!

 Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
 

Matt. 5:17-19

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3121.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar