Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Ósæð Krists

10. apríl 2009

Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Mig langar að staldra við þennan hluta guðspjallsins í dag, vegna þess að ég held að þessi einföldu skilaboð Jesú feli í sér stærra samhengi en virðist í fyrstu. Hvað er Jesús að segja hér? Jú hann er að mælast til þess að við myndum alvöru tengsl við annað fólk. Þarna við krossinn stóðu þessar manneskjur sem áttu það sameiginlegt að elska hinn þjáða, þau voru mætt í sömu erindagjörðum, að kveðja og syrgja og þar sem þau standa í örvinglan sinni, setur Jesús þeim fyrir að eiga hvert annað.

Ég veit ekki hvort þú hefur upplifað að sitja við dánarbeð ástvinar ásamt fjölskyldu þinni, mörg okkar eigum þá reynslu í hjartanu. Það er svo merkilegt hvað dauðanum fylgja mikilvæg skilaboð til þeirra sem eftir standa, hvernig hann oft á tíðum nær að sameina jafnvel þá sem hafa ekki talast við lengi, þá sem líða fyrir óuppgerðar tilfinningar í garð hvers annars. Það er svo merkilegt og öfugsnúið hvað dauðinn nær oft að glæða mikið líf um leið og hann þokast nær. Þá á ég við tilfinningalíf, dauðinn vekur tilfinningar til lífsins sem hafa legið í dvala, undir frosthörku tjáningarleysis.

Þess vegna er það enginn tilviljun að dauðinn er undanfari lífs bæði í trúarlegum og tilfinningalegum skilningi.
Og hér erum við stödd í dag, á sömu forsendum, ástvinur er látinn og við erum fjölskylda hans. Samt er ekki víst að þér finnist þú endilega eiga erindi við manneskjuna sem situr á bekknum fyrir framan þig, ekki víst að þér finnist þig beint varða tilfinningar hennar eða aðstæður þó þú óskir henni auðvitað alls hins besta. Hvernig ætli þetta hafi verið með Maríu og lærisveininn elskaða? Ætli þeim hafi þótt þetta jafn sjálfsagt og Jesú að hann tæki hana með sér heim og hún liti á hann sem son sinn og hann á hana sem móður? Allavegana orðlengir Jesús ekkert fyrirmælin sem segir okkur að krafan er gerð í fullri trú á að þau muni bregðast við, þau voru náttúrulega búin að fylgja honum eftir á vegi fagnaðarerindisins, þau voru búin að sjá og heyra sannleikann í orði og verki.

En hvað með okkur? Erum við ekki líka búin að fylgja Jesú eftir á vegi fagnaðarerindisins, við erum allavegana mætt hingað í dag, mætt til að sameinast undir krossinum í iðrun og von um að dauðinn sé fyrirboði lífs, að gróðurbrumið sé rétt að fara að blómgast.

Ég er sannfærð um að tilmæli Jesú á krossinum hafi öðlast dýpri merkingu í sálarlífi íslensku þjóðarinna nú en fyrir ári, það er svo merkilegt hvernig reynslan ritskoðar sjálf ritninguna án þess að maður í raun geri sér grein fyrir því, fyrir ári hefði ég ekki staðnæmst við þennan kafla frásagnarinnar. En nú hefur sá kafli öðlast dýpri merkingu, því hjá okkur hafa einmitt orðið kaflaskil við höfum á mjög skömmum tíma breyst sem þjóð vegna þess að við höfum staðið sameiginlega frammi fyrir áfalli,

Við erum ekki sama þjóðin, sama kirkjan og sameinaðist undir krossinum fyrir ári síðan, áföll þýða breytingar og stundum leiða áföll til góðra hluta, góðra breytinga þó svo að enginn kjósi slíkar aðstæður til þess eins að lifa sem betri manneskja. En þar sem enginn maður nær að fara í gegnum lífið án þess að upplifa einhverja mynd þjáningarinnar þá er það í raun áskorun okkar allra að finna þjáningu okkar merkingu og tilgang í lífinu. Foreldri sem missir barnið sitt sér eðlilega engan tilgang með slíkum hörmungum en þegar frá líður og hrúður myndast á hjartasárið getur verið mjög mikilvægt að nýta reynslu sína til breytinga bæði fyrir sig og aðra. Um leið og við hættum að leita að tilgangi og merkingu í lífinu í gleðinni og þjáningunni glötum við voninni og við tekur örvæntingin ein, manneskjan kemst af í hörðum heimi með því að finna tilgang með lífi sínu. Trúin er afar gagnleg til að hjálpa okkur að finna tilgang með lífinu, gleðinni og þjáningunni. Einmitt þess vegna er saga Jesús Krists kölluð hjálpræðissaga, hún gefur lífi okkar merkingu og von svo við getum lifað af allar aðstæður, sama hversu skelfilegar þær eru.

Og nú erum við samferða eina ferðina enn að krossinum og í dag erum við ekki bara einstaklingar með persónulega reynslu í farteskinu, persónulegar sorgir og þjáningar, við erum samfélag sem höfum tekist á við sameiginlegt áfall og við erum breytt. Kannski má líkja aðdraganda þess sameiginlega áfalls sem ákveðnum sjúkdómsferli þar sem við sem þjóð lifðum í ákveðnum ótta og jafnvel afneitun, fólk var síður en svo alltaf samtaka eins og þekkt er í fjölskyldum þar sem ástvinur er veikur, fólk tók mismikla ábyrgð og sumir voru sannarlega raunsærri á ástandið en aðrir. En svo kom að leiðarlokum þessa undarlega ferlis, sumir voru óviðbúnir og trúðu ekki þeim staðreyndum sem fyrir lágu, aðrir urðu reiðir og enn aðrir dofnir, allt viðbrögð sem sorgin þekkir. Og nú er svo margt breytt og við sem þjóð leitumst við að finna sameiginlegu lífi okkar tilgang og merkingu. Þess vegna er það tengslasagan á Golgata þar sem Kristur felur ástvinum sínum að gæta hvers annars, sem talar sterkt til okkar í dag. Veraldleg tilvera okkar varð að hrynja svo við gætum skilið að tengsl eru það dýrmætasta sem við eigum. Mannleg tengsl er það fyrsta sem þú skynjar við fæðingu og það síðasta sem þú finnur og átt þegar dauðinn nálgast, tengsl, þessi ósæð lífsins sem knýr okkur áfram þrátt fyrir allt. Ekkert getur skorið á þá æð nema vondar hvatir, hið ófædda fóstur skynjar tengsl og hinn þjáði og deyjandi sömuleiðis en sá sem er týndur í ágirnd sinni hann skynjar ekki tengsl, nema þau séu þá viðskiptalegs eðlis. Mannleg tengsl gera líf okkar merkingarbært og þau gefa einnig þjáningunni tilgang séu þau aukin í kjölfar hennar. Sundruð fjölskylda sem sameinast við andlát ástvinar hefur gefið þjáningunni tilgang, sundruð þjóð sem hefur sameinast í brostnum væntingum hefur gefið erfiðleikunum tilgang. En höfum við brugðist þannig við, höfum við sameinast á undanförnum mánuðum? Svarið er já, það eru augljóslega fleiri virkir þátttakendur í okkar þjóðfélagi í dag, það hafa fleiri rödd og samtakamáttúrinn hefur aukist í kjölfarið. Í sjónvarpinu sér maður ný andlit og hlýðir á nýjar raddir tjá sig um þjóðfélagsmál í því eru fólgin þau skilaboð að hinn almenni borgari hafi heimikið til sins máls. Á fjölmennum borgarafundum fá allir sem vilja tækifæri til að tjá sig og spyrja spurninga, tjáningarþörfin hefur verið leyst úr prísundinni. Og bara hér í Laugarneshverfi tala forsvarsmenn í íþrótta og tómstundastarfi ungmenna um að foreldrar gefi sér meiri tíma til að fylgjast með börnum sínum í íþróttum og listsköpun. Það eitt og sér er dásamleg afleiðing þessa hruns. Mannleg tengsl rísa hér eins og eyja upp úr djúpi.

Jesús Kristur gaf þjáningunni eilífa merkingu þar sem hann hékk á krossinum hæddur og píndur og rændur og í kjölfarið urðu til einhver dýmætustu og útbreiddustu tengsl sem heimsbyggðin hefur eignast, það er hin lifandi kirkja sem byggð er úr fólki sem játar trú á hinn krossfesta og upprisna Krist.

Erindi hinnar lifandi kirkju í veröldinni er að vera ósæð tengsla sem dælir líkama og blóði Krists til þín. Tengslamyndunin sem átti sér stað við krossinn þar sem elskaða lærisveininum var falið að gæta Maríu sem væri hún móðir hans og hann sonur hennar, er birtingarmynd þess erindis sem Kristur á við heiminn, erindið er að við elskum hvert annað eins og hann hefur elskað okkur. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2543.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar