Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Lærisveinajarðfræði

14. janúar 2009

Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. Hann sér Jesú á gangi og segir: „Sjá, Guðs lamb.“ Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.

Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: „Hvers leitið þið?“

Þeir svara: „Rabbí, hvar dvelst þú?“ en Rabbí þýðir meistari.

Hann segir: „Komið og sjáið.“ Þeir komu og sáu hvar hann dvaldist og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.

Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs. Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: „Við höfum fundið Messías!“ en Messías þýðir Kristur, Hinn smurði. Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: „Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas,“ en Kefas, Pétur, þýðir klettur. Jh 1.35-42

„,Þú skalt heita Kefas,’ en Kefas, Pétur, þýðir klettur.“

Við þekkjum öll dæmisöguna af bjarg- og sandbyggingum. Sungum hana kannski í sunnudagaskólanum, höfum heyrt hana ótal sinnum í kirkjunni, lesið sjálf. Á bjargi byggði hygginn maður hús. Á sandi heimskur.

Pétur er klettur. Bjarg.

Hann er leiðtogi lærisveinanna. Það eru miklar kröfur gerðar til hans. Það hlýtur að vera mikið í hann spunnið.

Eða hvað? Hvers konar maður er kletturinn Pétur?

Út frá hverju getum við kallað hann klett trúaðra. Klett lærisveinanna? Klett meðal lærisveina? Klett kirkjunnar?

• • •

Var hann alltaf góð fyrirmynd?

Ekki alltaf. Manstu þegar hann hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað? (Jh 18.10)

Var hann staðfastur?

Ja, á ögurstundu afneitaði hann Jesú. Þrisvar. „Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?“ spurði þernan. Pétur sagði: „Ekki er ég það.“ (Jh 18.17)

Gerði hann alltaf eins og Jesús vildi?

Nei, stuttu eftir að hann bar fram játninguna sem kennd er við hann var honum hafnað sem andstæðingi: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ (Mt 16.23)

Hvað gerir hann þá að klettinum?

Orð Jesú og yfirlýsing:

„Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas,“ en Kefas, Pétur, þýðir klettur.

Hann er útvalinn. Hann er kallaður af Jesú Kristi.

• • •

Og hver er þá lærdómur okkar? Lexían?

Kannski þess: Að vera lærisveinn snýst ekki um verðleika. Við verðskuldum það ekki að vera lærisveinar Jesú.

Ekkert frekar en Pétur.

Þess vegna erum við borin til skírnar sem börn.

Við erum kölluð til að vera lærisveinar. Valin.

Eins og Pétur.

Samt eru gerðar kröfur til okkar sem lærisveina Drottins.

Eins og til Péturs.

Þú ert kölluð – kallaður – til að vera lærisveinn Jesú. Til að fylgja honum. Þú ert elskuð af Guði og átt að lifa lífi þínu þannig að þú miðlir þessum kærleika í þjónustu við aðra.

Fyrst segir Guð:

Fylgdu mér.

Svo segir þú:

Já.

Guð gefi okkur eyru til að heyra þetta kall og munn til að játast því og hug og hjarta til að lifa líf í fylgd við sig og þjónustu við náungann.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Lærisveinajarðfræði”

  1. Arna Grétarsdóttir skrifar:

    VIrkilega góð íhugunarpredikun. Að verðskulda ekki en vera samt valin til þjónustu sem lærisveinn. Þetta er akkurat málið! Og mikið var gott að HLUSTA á þig Árni Svanur!

  2. Guðbjörg Þórisdóttir skrifar:

    Ég skil samt ekki alveg hvernig þú tengir barnaskírn inn í þessar hugleiðingar ?

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4076.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar