Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Von í viðjum skuldanna

30. nóvember 2008

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Lúk 4.16-21

Amen. Kom þú, Drottinn Jesús! Amen. Náðin Drottins Jesú sé með öllum.

Gleðilega hátíð! Guð gefi okkur öllum gleðilegt nýtt kirkjuár.

Hér áðan var kveikt á fyrsta kertinu á aðventukransinum, eins og í kirkjum og heimilum um land allt. Spádómakertið kallast það. Síðan munu þau bætast við eitt af öðru, kennd við Betlehem, hirða og heilaga engla og hvert um sig og saman boða þau ljósið sem kemur til að rýma burt öllu myrkri úr lífi manns og heims. Aðventa er tími ljóss og vonar. Ljóss og vonar.

Þegar aðventuljósin kvikna og ilm og óm jóla ber að vitum þá er það eins og birta, ilmur og ómur að heiman, sem snertir eitthvað hlýtt og gott sem dylst djúpt í hugum og hjörtum okkar. Flest viljum við halda í góðar venjur og hefðir sem tengjast jólunum og sögurnar sem búa að baki þeim. Og aldrei var það mikilvægara en nú, á tímum vaxandi bölsýni og vonleysis.

Sögurnar og hefðirnar, já. Þær eru eins og geðræktarkassinn, sem hún Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi, sagði frá í sjónvarpi á dögunum, kistillinn sem geymir myndir og gripi sem tengja okkur uppruna og samhengi. Og aldrei var okkur mikilvægara en einmitt nú að taka slíkt fram. Hún Elín Ebba lýsti því þegar ung móðir, ekkja, neyddist til að láta börnin sín frá sér. Þetta var snemma á öldinni sem leið. Hún útbjó litla kassa með smáhlutum, mynd, klæðisbút, og sagði við börnin hvert og eitt eitthvað á þessa leið: „þegar heimþráin og sorgin sækir að þér, sestu þá með þennan kistil á afviknum stað og opnaðu hann og skoðaðu innihaldið. Berðu þennan klæðisbút upp að vitum og þá finnurðu lyktina af mér og þá sérðu mig fyrir þér. Gleymdu því aldrei að ég kem og sæki þig.“

Þetta var einstaklega áhrifarík lýsing. Maður var djúpt snortinn, hrærður, já, spyrillinn viknaði. Þetta er ein af mörgum hetjusögum í fortíðinni, sem er að finna í hverri fjölskyldu, og sem við þurfum nú að rifja upp til að efla okkur gegn vonbrigðum, sorg og ógn sem að steðjar einstaklingum og alþjóð. Þetta er jafnframt því eins og mynd af trúariðkuninni, hátíðum, helgum, sögum og atferli. Sögurnar af baráttu og sigrum hversdagsins eiga samhljóm í sögum guðspjallanna af Betlehem og Golgata, af sigrinum sem unnin var með ósigri krossins. Sögur sem gefa von, styrkja trú, næra kærleikann. Og í því öllu megum við heyra fyrirheit Guðs að hann gleymir okkur aldrei.

Við þurfum að gefa börnunum okkar slíkar hefðir og sögur, við þurfum sjálf hefðir og sögur sem gefa VON. Aðventuljósin eru vonarljós.

Þegar Jesús stóð upp í samkunduhúsinu í Nasaret og sagt er frá í guðspjalli dagsins þá lauk hann upp svona kassa fyrir áheyrendum sínum. Það voru spámannsorð frá þeim tíma er þjóðin var landflótta, fátæk og í fjötrum. Þá barst gleðifrétt: Nú rennur upp náðarár, þegar skuldir eru gefnar upp, og hin fátæku og þjökuðu og flóttamennirnir fá frelsi, lausn, líf og framtíð. Þetta eru mögnuð orð, sem Jesús rifjar upp, og einhver vonarríkusta framtíðarsýn sem Biblían geymir. En svo lítur Jesús upp frá lestrinum og segir: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar!“ Sem sagt: Í dag er lausnin fengin.
Gefum gaum að þessu orði, lausn. Það er á frummálinu sama og uppgjöf skulda og fyrirgefning. Sama orð og í Faðir vor: „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ Uppgjöf saka og niðurfelling skulda er sannarlega gleðifrétt. Ó, hvað þetta snertir okkur á Íslandi í dag, engu síður en þarna í Nasaret forðum. Lausn úr fjötrum skuldanna – er slíkt mögulegt? Margir spyrja þeirrar spurningar um þessar mundir, og er eitt allra mikilvægasta viðfangsefnið sem við blasir þjóð sem er „skuldum vafin eins og skrattinn skömmunum,“ eins og hún amma mín sagði.
Við eigum hins vegar öll með einum eða öðrum hætti skuld sem einkar ljúft er að gjalda, þakkarskuld þeim sem reynst hafa okkur vel, þakkarskuld vegna gæfu og gleði og góðrar samfylgdar sem við höfum sem betur fer flest notið í lífinu. Þakkarskuld fyrir hinn fínofna en trausta vef umhyggjunnar sem umvefur okkur. Þökk góðum Guði. Frá öndverðu hefur það verið órofa tengt jólahaldi kristinna manna að tjá þann þakkarhuga með því að auðsýna örlæti og umhyggju, góðvild og gjafmildi öðrum, og það ekki bara sínum nánustu. Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar sem hefst í dag, gefur tækifæri til þess. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem leggja fram fjármuni og aðstoð með margvíslegu móti á þessari jólaföstu eins og þeim fyrri. Ég þakka fermingarbörnunum um allt land sem gengu hús úr húsi nú fyrr í vetur og söfnuðu til Hjálparstarfsins, og ég þakka þeim sem hvarvetna tóku svo vel á móti þeim. Guð launi það og blessi. Og ég þakka sem einn þeirra fjölmörgu sem notið hafa „gjafa sem gleðja“ – gjafabréfa Hjálparstarfsins á tímamótum.

Þörf fyrir innanlandsaðstoð hefur nú þegar tvöfaldast frá því í fyrra, og mun aukast enn eftir því sem áhrif efnahagsþrenginganna koma fram. Jafnframt er Hjálparstarfinu í mun að standa við skuldbindingar gagnvart þeim þjáðu í fjarlægum álfum. Þeim sem eina von þeirra er fólgin í því sem við höfum heitið þeim og skuldbundist þeim um þróunarhjálp, vatnsöflun og td hjálp við munaðarlaus börn sem glíma við afleiðingar alnæmis. Jólasöfnunin í ár skiptist jafnt milli innanlandsaðstoðar og verkefna erlendis.

Við megum vita að þær þrengingar sem nú ganga yfir Ísland eru tímabundnar. Við erum ekki í fátæktarfjötrum og örbirgðar. Við erum auðug þjóð í auðugu landi með bjarta framtíð. Þjóðin mun rétta úr kútnum með Guðs hjálp, - og ef við hjálpumst öll að! Látum aðventuljósin verða vonar ljós um betri framtíð á Íslandi! Betra samfélag, með styrkari stoðum undir efnahag og atvinnu, betra viðskiptasiðferði, og enn traustara öryggisnet velferðarinnar. Það munum við áorka með þeim mannkostum sem íslensk þjóð hefur jafnan metið mest: heiðarleika, iðjusemi, réttsýni og umhyggju um náungann.

Móðir Teresa, sem helgaði líf sitt þeim snauðustu hinna snauðu, sagði þessi umhugsunarverðu orð: „Margir í þessum heimi myndu gefa allt fyrir brauðmola, en miklu fleiri gæfu allt fyrir örlítla umhyggju. Það er hungur í umhyggju, löngun í kærleika, og það er hungur í Guð.“ Og hún sagði líka: „Þau fátæku hungrar ekki aðeins í mat, heldur líka í að litið sé á þau sem manneskjur. Þau hungrar í virðingu og að komið sé fram við þau eins og okkur sjálf. Þau hungrar eftir kærleika okkar. … Það sem mestu varðar er ekki hversu mikið þú gerir heldur hve mikla umhyggju þú leggur í það sem þú gerir og miðlar öðrum. Leitastu við að dæma ekki aðra. Því að ef þú dæmir aðra þá auðsýnir þú ekki kærleika.“

Þetta minnir mig á sögu sem sögð var um rithöfundinn Tolstoy, að hann kom þar að sem betlari sat og bað um ölmusu. Tolstoy leit í augu hans og sagði:„Fyrirgefðu, bróðir minn, ég bara á enga peninga til að gefa þér.“ Betlarinn svaraði: „Þú hefur gefið mér það sem var miklu meira virði. Þú kallaðir mig bróður þinn.“

Þegar Jesús las textann þarna forðum þá sleppti hann niðurlagsorðunum. Það er umhugsunarvert. Textinn er svona hjá Jesaja:„Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors.“ Jesús sleppir lokasetningunni, þessum orðum um hefnd Guðs. Hvers vegna? Væntanlega vegna þess að með komu hans í þennan heim, lífi og dauða og upprisu, þá er hefnd Guðs ekki reiðivöndur, brugðið sverð, heldur nú heitir hefnd Guðs og dómur Jesús frá Nasaret. Hann axlaði reiði Guðs og dóm og bar það allt á líkama sínum á krossinum og ummyndaði það allt í upprisu sinni. Hefnd hans felst í orðum og veruleik eins og: „Komið til mín, öll þér, sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ Og: „Syndir þínar eru fyrirgefnar, far þú og syndga ekki framar!“ Og þessi orð: „Þann sem til mín kemur mun ég aldrei burt reka.“ Og þetta:„ Leyfið börnunum að koma til mín!“ Og: „Hjarta yðar skelfist ekki trúið á Guð og trúið á mig, ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Í þessu er lausn og frelsi, gleðiboð fátækum og kúguðum, og sakbitnum.

Tökum þau til okkar! Og sendum héðan úr kirkjunni hlýjar hugsanir samstöðu og kærleika þeim mörgu sem eiga nú um sárt að binda, horfa á lífsafkomu sinni ógnað, fjártjón, eignamissi, atvinnuleysi. Guð gefi þeim æðruleysi, kjark og vit. Eins þeim sem sett eru til að ráða málum okkar og leiða þjóðina og stofnanir hennar og fyrirtæki á viðsjálverðum tímum. Megi Guðs ljós og andi leiða og blessa þau og landsins börn öll. Vernd hans og blessun umvefji landið og okkur öll.
„Í dag hefur ræst þessi ritning“ – fullyrðir Jesús. Fyrirheitum hans megum við treysta. Fjármálahrunið minnir okkur óþyrmilega á hve margt það sem átti að vera traust og trúverðugt reyndist það hreint ekki, og eins erum við minnt á það hve mörg þau ljós sem skærast lýstu reyndust villuljós og hrævarlog. Nú erum við knúin til að skoða hugi okkar og meta hvað við metum mest, hvað stjórnar lífi okkar og gefur því gildi, hvað beina megi för okkar, barnanna okkar og heimsins alls til góðs. Trú er að treysta og vita að Guð muni vel fyrir sjá, hann þekkir þig og elskar þig. Guð er líka í djúpinu, í ósigrunum, Guð er líka í hruninu. Hann gefur okkur fyrirheit um að hann gleymi þér aldrei. Og eins og móðirin forðum þá fól hann þér lítinn kassa í hendur til að minna á sig. Frásagnir aðventu og jóla er þessháttar kistill og þar er margt það að finna sem lyftir huga og sál til þess sem máli skiptir. Trúariðkun, bænin, guðsþjónustan, söngurinn er að ljúka upp kistlinum sem geymir minningarnar, minningarnar sem efla trúna og glæða kærleikann og staðfesta vonina, sem les og skynjar fögur fyrirheit, sem ekki bregðast: „Ég kem og sæki þig.“

-Já, kom þú, Drottinn Jesús.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3689.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar