Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Sólstafir himins á jörðu

2. nóvember 2008

Allra heilagra messa er í dag. Guðspjall er upphaf fjallræðunnar í fimmta kafla Matteusarguðspjalls. Matt.5.1-11:

„Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:

„Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.

Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“

Allra heilagra messa hefur verið nefnd hátíð himinsins. Hún er hátíðin er minnir á þau sem á undan eru gengin inn í birtuna björtu hjá Guði. Nú erum við hér saman komin í Dómkirkjunni til prestsvígslu á þessari hátíð.

Ég veit að í hugum ykkar, kæru vígsluþegar, leita á myndir og minningar ástvina sem þið hefðuð viljað að hefðu mátt njóta þessarar hátíðar með okkur nú, en horfnir eru á braut. Þær myndir eru einkar skýrar hér og rómsterkar í kyrrlátum vitnisburði sínum. Dauðinn tók þau frá okkur. Allra heilagra messa minnir okkur á að þar með er ekki öll sagan sögð. Hún minnir á játningu trúarinnar í birtu hins krossfesta og upprisna Jesú Krists. Kirkjan beinir sálarsjónum okkar til himins, til heiðríkjunnar þar. Og mikilvægt er að muna að á máli Biblíunnar er himinninn, himnaríki, eilíft líf, einatt samheiti við Guð. Þess vegna er það engin tæpitunga þegar við svörum barninu sem spyr eftir látnum ástvini:„Hann, hún, er hjá Guði.“ Það eitt megum við vita um hina látnu, þeir eru hjá Guði. Í þeirri birtu sjáum við og játum: Þau sem við unnum og dauðinn tók, þau eru gengu inn í helgidóminn á himnum, fram fyrir auglit Drottins. Og í honum lifum við, erum og hrærumst.

Nú verðið þið tekin frá og send héðan og út með orð eilífðarinnar, hið himneska orð út í heiminn. Ykkur er ætlað að vera með fæturna á jörðinni og hjarta sem slær, huga sem vakir, skynjun sem er opin fyrir aðstæðum hér á jörð, önn og yndi jarðarbarna. En um leið heilshugar með hjarta og sál í himninum, með höfuð sem hallast að brjósti föðurins. Finnskt skáld, Eeva Kilpi, sagði: „Fegurðin er til Ástin er til Gleðina er að finna. Og þið öll sem þjáist undir eymd og ömurleika lífsins: Komið þeim til varnar!”

Fegurðin, ástin, gleðin í lífinu, - sólstafir himins á jörðu. Komum þeim til varnar!

Guðspjall allra heilagra messu er sæluboðin. „Sælir eru….“ segir Jesús enn og aftur, níu sinnum alls, eins og þrisvar sinnum þrjú klukkuslög, bænaslög sem berast gegnum dagsins ys og óró hjartans. Sæla er gjarna sett í samhengi við algleymi og þá yfirleitt annars heims. En Jesús tengir það einhverju sem er yfirmáta jarðneskt og hversdagslegt. Er það ekki makalaust? Fátækir, syrgjendur, hógværir, þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, miskunnsamir, hjartahreinir, friðflytjendur, ofsóttir, og loks þau sem þola smán og lygar vegna trúarinnar.

Sæluboðin hafa verið nefnd boð hins algjöra viðsnúnings allra gilda. Það fer lítið fyrir því sem heimurinn metur hæst og hampar mest. Svo virðist sem það hafi harla lítið vægi á mælikvarða guðsríkisins.

Jesús Kristur gerðist fátækur okkar vegna, varð hlýðinn allt til dauðans, okkar vegna, vegna miskunnseminnar, vegna hungursins og þorsta réttlætisins, vegna friðarins sem hann gaf og vildi koma á milli manna, milli Guðs og manna. Ofsóttur, rægður, svikinn, deyddur, vegna sannleikans, hann sem gerðist fátækur vor vegna að við auðguðumst af fátækt hans. Líf hans má sjá sem algjöran ósigur, algjört hrun. Krossinn var merki hinnar ítrustu útskúfunar, bölvunar. Guð sneri því í blessun, blessun fyrir alla menn, allan heim.

Fjallræðan hefur verið nefnd stefnuskrá Guðsríkisins. Stefnan er á hreinu, hugarsjónin skýr sem lyft er upp í meitluðum orðum sæluboðanna. Sú hugarsýn mótar guðsmynd og mannskilning, gildismat og lífsafstöðu kristindómsins.

„Sælir eru,“ segir Jesús, og það er blessun sem er í senn þessa heims og annars. Af orðum Jesú má ráða að þegar Guð blessar einhvern og gerir sælan, þá er það ekki endilega svo að hann geri lífið auðveldara. Það er ekki alveg víst að sá sem nýtur velgengni í hvívetna og siglir í blásandi byr sé í raun sæll og blessaður. Og eins er það nú iðulega svo, að sá eða sú sem líður og þjáist, hefur þolað missi og sorg, ber með sér mikla blessun til annarra. Því um það snýst þetta. Blessaður er umfram allt sá sem öðrum er blessun. Hamingjumaður er sá sem öðrum er hamingjuvaldur og heillagjafi.

Og svo þetta, að „gullna hliðið“ er ekki á dauðans strönd, heldur við lind skírnarinnar. Þar laukst það upp fyrir þér. Þú átt þegar eilífa lífið, endurfæddur, endurfædd fyrir vatn og heilagan anda og tekinn inn í ríki Guðs elskaða sonar þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp.

Um þessar mundir skelfast margir og kvíða komandi degi. Trúin á Krist skynjar sigur Guðs bak við hverja raun. Hann snýr illu til góðs, ósigri í sigur. Það segir okkur krossinn hans og upprisusigur. Það segir okkur líka að kærleikur Guðs er nálægur í ósigrunum, missinum og sorginni, í hruninu, í djúpinu. Líka þar er himnaríkið hans. Við erum kölluð að lifa þann kærleika og horfa í þeim kærleika í augu við hið illa og örðuga og óbærilega. Það kallast von og trú og birtist sem fátækt andans, miskunnsemi, hógværð, sem hreint hjarta og friður, hungur og þorsti eftir réttlætinu, þolgæði í ógn og andstreymi.

Hann Hjörtur Pálsson, sem er einn elstur vígsluþega um langa hríð, orti ljóð sem snart mig sem stef við óð þessa dags:

I
Gerðu mig ekki
að safngrip
gerðu mig ekki
að fiðlu undir gleri

gerðu mig að fiðlu
með þúsund strengjum
sem lofa án afláts
veröld þína.

II
Í gær
lá mér við drukknun
í kolsvörtum
hyl myrkursins.

Úr djúpunum
ákallaði ég þig.

Þú gafst mér
hlutdeild
í bláum himni þínum.

Í dag
geng ég við sólstaf.

III
Gerðu vatnið
þegar haustar
kalt
tært
djúpt.

Láttu það hemað
spegla himin þinn.

Gerðu mig
lind
sem aldrei frýs.

Þið, kæru vinir, eruð kölluð og send til að láta líf ykkar óma ótal strengjum hina tæru tóna fagnaðarerindisins. Og þið eruð kölluð og send til að spegla himinn Guðs, sem tær, djúp lind. Gangið ætíð við sólstaf vonar, trúar og kærleika til þeirra þjónustu. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Allra heilagra messa, 2. nóv. 2008. Prestsvígsla. Vígð: Árni Svanur Daníelsson, Elína Hrund Kristjánsdóttir, Hjörtur Pálsson, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3257.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar