Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Stefán Már Gunnlaugsson

Auðlegð andans

21. september 2008

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“

Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“

Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“

Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Og enginn þorði framar að spyrja hann. Markús 12.28-34

Einu sinni var þekktur leikari sem var frægur fyrir flutning sinn á sígildum köflum úr heimsbókmenntunum. Hann lauk alltaf sýningunum með tilfinningaþrungnum upplestri á Davíðsálmi 23. Þegar hann tók til máls með orðunum „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta“ hlustuðu áhorfendurnir með athygli. Og í lokin brutust út mikil fagnaðarlæti yfir lifandi túlkun leikarans á einu þekktast ritningarversi Biblíunnar.

Eitt kvöld kom ungur maður til leikarans og spurði hvort hann mæti lesa Sálm 23 í þetta skiptið. Leikaranum var brugðið við þessa að undarlegu ósk – en hann vissi að enginn gæti varpað skugga á hans eigin flutning – hann hefði reynsluna og hæfileikana. Eigi að síður gaf hann unga manninum leyfi til að koma upp á sviðið og flytja sálminn.

Með lágri röddu flutti ungi maðurinn Davíðssálminn og þegar hann lauk lestrinum, þá klappaði enginn. Enginn stóð upp til að fagna og enginn blístraði. Það eina sem mátti heyra var snökt og grátur. Lestur unga mannsins á sálminum hafði hrært svo við áhorfendunum að augu þeirra voru tárvot.

Undrandi á viðbrögðunum sem ungi maðurinn fékk spurði leikarinn: „Ég skil þetta ekki. Ég hef flutt Sálm 23 í mörg ár. Ég hef áralanga kunnáttu og æfingu – en ég hef aldrei getað hreyft við áhorfendum með sama hætti og þú gerðir. Segðu mér hvert er leyndarmálið?“

Ungi maðurinn svaraði auðmjúklega: „Sko, þú þekkir sálminn, en ég þekki Hirðinn.“

Að kunna eða skilja

Öll þekkjum við sálminn um hirðinn sem leiðir og huggar, styður og verndar. Lifandi lýsing á traustu sambandi Guðs og manns. Eitt er að þekkja, kunna og vita – hitt er að reyna, finna og sjá. Það hafði ungi maðurinn upplifað – trausta trú á kærleiksríkan Guð sem heldur okkur í almáttugri hendi sinni og sleppir okkur aldrei.

Maðurinn sem spyr Jesú í guðspjalli dagsins er fræðimaður vegna þekkingar sinnar á boðorðunum og heilagri ritningu. En hann stendur í sömu sporum og leikarinn frægi sem hafði ekki skilning á innihaldi eða merkingu textans sem hann kunni svo vel. Þess vegna spyr fræðimaðurinn Jesú af einlægni hvert sé æðsta boðorðið. Og Jesús svarar honum að elska Guð af öllum mætti sínum, huga, sál og hjarta og náungann eins og sjálfan sig.

Gildi boðorðanna

Æðsta boðorðið og boðroðin tíu sem lesin voru áðan þekkjum við svo vel og standa okkur svo nærri. Þau eru mikilvægur hluti af vestrænu gildismati, enda byggja mörg lög og reglur á boðorðunum og þeim náungakærleika sem birtist í æsta boðorðinu. Íslenskt félags- og velferðarkerfi á rætur og grundvöll í kristnu gildismati samúðar, samhygðar og nærveru.

En fyrst og síðast er æðsta boðorðið og boðorðin tíu hyrningarsteinar kristinnar trúar og kristins siðferðis – fjalla um það sem af okkur er krafist sem fylgjendum Jesú Krists. Því skiptir svo miklu máli að ekki aðeins kunna þau heldur einnig skilja innihaldið og merkingu, en síðast en ekki síst að taka mark á þeim.

Skýringar Lúthers á boðorðunum

Siðbótamaðurinn Marteinn Lúther sem var uppi fyrir meira en 500 árum kollvarpaði viðhorfum samtíma síns til merkingar og gildis boðorðanna. Þau voru þá skilin og túlkuð sem regluverk um hvað mátti ekki gera og hvað var bannað. Uppgötvun sína gerði hann m.a. þegar hann las guðspjallið um fræðimanninn og Jesú. Fræðimaðurinn spyr spurningar um það sem öllu máli skiptir – hvað er æðst og mest – hvað er mikilvægt og dýrmætt. Og svar Jesú hlýtur að hafa áhrif á skilning okkar á innihaldi Biblíunnar og á lífi og starfi Jesú Krists – en hvernig?

Niðurstaða Lúthers var að setja kærleiksboðskap Jesú Krists í miðju fagnaðarerindisins. Allt á að lesa og meta í ljósi æðsta boðorðsins, að elska Guð og elska náungann. Í útskýringum sínum á boðorðunum setur hann ávallt fyrstu setningunni í hinu æðsta boðorði í forgang: „Við eigum elska Guð“ vegna þess að boðorðin eru útskýring á tvöfalda kærleiksboðorðinu – útlegging á því hvers okkur ber að gera í þjónustunni við náungann. Þessi skilningur opnar alveg nýja sýn – þessi einföldu og skýru boð fá nú dýpri og víðari merkingu.

Í útskýringum Lúthers við fimmta boðorðið: Þú skalt ekki mann deyða, segir hann að við eigum að óttast og elska Guð, svo að við eigi meiðum náunga okkar né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð. Og við sjöunda boðorðið: Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum segir Lúther að við eigum að óttast og elska Guð, svo að við ljúgum ekki ranglega á náunga okkar, svíkjum hann, baktölum né ófrægjum, heldur afsökum hann, tölum vel um hann og færum allt til betri vegar.

Kærleikur án takmarkana

Kristinn kærleikur er ekki falleg orð, háleit dyggðir eða fagrar vonir. Hann verður ekki takmarkaður við boð og bönn – við það sem má og má ekki – við eigum að elska Guð, náungann og okkur sjálf án allra hindrana, afsakana eða tortryggni. Þessi kærleikur er án takmarkana – ólíkur öll því sem við þekkjum. Kærleikanum hvorki ekki safnað saman í hlöður eða lokaðar hirslur né falin undir koddanum, heldur vex hann aðeins í krafti fórnfúsrar þjónustu. Það sjáum við svo vel í lífi og starfi Jesú Krists. Hann var ekki ríkur af efnislegum gæðum – var upp á vini og samferðarfólk sitt kominn með helstu lífsnauðsynjar, en hann átti fjársjóði í hjarta og lét verkin tala. Hann laut niður til þeirra sem minnst máttu sín vegna fátæktar, sjúkdóma eða útskúfunnar – huggaði og líknaði – gaf von. Starfaði í trú,von og kærleika.

Umbreytandi afl

Kærleikurinn er ekki aðeins lífgefandi heldur einnig umbreytandi kraftur, sem hefur svo mikil áhrif. Með Jesú Kristi kom eitthvað alveg nýtt fram. Með auðmjúkum og fórnfúsum störfum sínum meðal þeirra lægst settu ógnaði hann ríkjandi viðhorfum og skoðunum sem valdhafarnir höfðu svo mikið um að segja og treystu vald sitt á. Þess vegna var hann krossfestur – auðmýktur og niðurlægður frammi fyrir allra augum. En meira að segja þar rís kærleikurinn hæst – kærleikur sem sigrar dauða og hatur - þegar Guð opinberar kærleika sinn til mannanna. Því þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar (1.Jh. 4.10). Þessi kærleikur kemur svo vel fram myndinni af Guði sem hirði í Davíðssálmi 23, sem vill vera þér og mér við hlið elska, gæta, vernda og styðja. Þessum kærleika almáttugs Guðs erum við kölluð til að bera vitni í samfélagi okkar – eins og Guð elskar okkur eigum við að elska náungann.

Samfélag í kærleika

Það er svo dýrmætt að hafa kærleikann að marki og miði nú þegar haustið gengur í garð, því haustið og veturinn er tími samfélags, félagsstarf og samstarfs. Þegar við finnum við hvað traust samfélag, nándar og kærleika skiptir miklu máli. Að samskiptin einkennist af hlýhug og vinarþeli. Hér á Vopnafirði eru aðstæður í svo mörgu svo góðar og við búum að svo góðu og traustu samfélagi. Hér er góð og almenn þátttaka í samfélaginu, samhygð og jákvæðni til byggðarinnar sem er svo dýrmætt. En hér eru líka svo mörg tækifæri til að gera enn betur – til að byggja upp fyrirmyndarsamfélag – fyrirmyndarsamfélag þar sem grundvöllurinn er elskan til Guðs og þjónustan við náungann. Þar sem við leggjumst öll á eitt að skapa hvert öðru gefandi lífsgæði sem hvíla á virðingu og hjálpsemi í trú, von og kærleika. Hér skiptir kirkjan svo miklu máli að eiga samfélag kærleika og friðar – samfélag við almáttugan og algóðan Guð sem er hér nálægur.

Kirkjan í samfélagi

Með þessari guðsþjónustu í dag hefst vetrarstarfið formlega í kirkjunni. Fermingarbörnin voru sérstaklega boðin velkomin til þessarar messu því hún markar upphafið á fermingarstarfinu. Fermingin er tímamót í lífinu – það þekkjum við sem eldri erum úr fjársjóði minninganna. En fermingarfræðslan er ekki aðeins undirbúningur fyrir fermingardaginn heldur líka fyrir lífið allt. Því viðfangsefni trúarinnar er lífið – líf í fullri gnægð. Við biðjum fyrir fermingarbörnunum að Guð megi vera með okkur í för, blessa alla ástvini fermingarbarnanna, að þau megi sannarlega njóta samfylgdar með kærleiksríkum Guði.

Safnaðarstarfið í vetur verður með svipuðum hætti og síðustu ár. Sunnudagskóli er alla sunnudaga, auk þess starf fyrir 10-12 ára börn og unglingana í miðri viku. Kórastarfið verður einnig með hefðbundnum hætti og öllum opið. Ég vil einnig geta þess að ég er opinn og ávallt til viðræðna um nýungar í helgihaldi, safnaðarstarfi eða námskeiðahaldi. Það er svo mikilvægt að safnaðarstarfið svari þörfum og óskum fólksins. Jafnframt er öllum velkomið að taka þátt í starfinu – og einnig að leggja sitt að mörkum í ýmsum störfum. Megi almáttugur Guð blessa kirkjuna hér í Vopnafirði, safnaðarstarfið og alla þá sem hér leggja hönd á plóg.

Að sjá og upplifa

Leikarinn þekkti sálminn, en ungi maðurinn þekkti hirðinn. Oft er sagt um kirkjuna að margir dáist að henni að utan, en færri njóti þess sem fram fer innandyra. Gerum hvorttveggja hér á Vopnafirði. Njótum kirkjunnar að innan og utan líka. Í Jesú nafni. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3109.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar