Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Mín þjóð - þeirra Guð

17. júní 2008

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann? Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.Matteus 7.7 – 12

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilega þjóðhátíð kæri söfnuður. Megi góður Guð blessa og varðveita okkur öll og íslenska þjóð á þessum degi og um alla tíma.

Í einu ljóða sinna tekur listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, svo til orða:

Veit þá engi að eyjan hvíta
átt hefir daga, þá er fagur
frelsisröðull á fjöll og hálsa
fagurleiftrandi geislum steypti;
veit þá engi að oss fyri löngu
aldir stofnuðu bölið kalda,
frægðinni sviptu, framann heftu,
svo föðurláð vort er orðið að háði.

Með sanni má segja að þessi dagur, þjóðhátíðardeginum 17. júní, tákni öðrum fremur sögu kynslóðanna, þá sögu átaka og baráttu, erfiðleika og sigra, sem skapað hefur íslenskri þjóð þá stöðu sem hún nýtur í dag og þau gæði sem hún býr við. Það er langur vegur frá þeim kjörum og skilyrðum sem mörg okkar ganga að vísum og þeim sem fólk bjó við hér áður fyrr. Saga hins fullvalda og sjálfstæða Íslands er miklu skemmri en hin sem segir frá ófrjálsu landi undir erlendum hæl, landi sem ófært var um að skapa sér eigin tækifæri til sóknar og framfara. Dagurinn í dag ætti því ekki síst að kalla fram þakklæti til allra þeirra sem á undan okkur fóru og skópu okkur það land sem við búum í, land lýðræðis, frelsis, jafnræðis og hagsældar. Ennfremur ætti dagurinn að vera okkur áminning um að halda vöku okkar og standa styrkan vörð um fullveldi landsins og tefla því ekki í tvísýnu en sækja lengra fram til eflingar íslenskri þjóð á hennar eigin forsendum.

En fyrst og fremst fer vel á því að gleðjast yfir þessum degi í kirkju, í helgri guðsþjónustu frammi fyrir algóðum Guði og í bæn til hans, því að sá stofn, sem sjálfstæð og fullvalda íslensk þjóð er, er vaxinn upp af þeim kristnu rótum sem hafa nært hann frá upphafi.

„Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð,“ segir í pistli dagsins. „Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér.“

Allt frá upphafi hefur trúin á þríeinan Guð, föður, son og helgan anda, verið samofin sjálfsvitund íslenskrar þjóðar, og sú sannfæring að vald Drottins, miskunn hans og blessun, vaki yfir þjóðinni og öllu hennar fólki. Öll þau miklu andlegu verðmæti sem þjóðin hefur skapað sér hafa vaxið upp af kristinni trú. Kristin trú hefur fylgt þessari þjóð frá þeim degi er menn stigu hingað fyrst á land, hún hefur verið henni athvarf frá kyni til kyns. Til hennar hefur íslensk þjóð sótt sér styrk og gleði, fullvissu, huggun og von í deiglu tímanna, í lífi og dauða.

Með öðrum orðum hefur kristin trú reynst þjóðinni endingargóður áttaviti í yfir þúsund ár. Allir þurfa á áttavita að halda, á viðmiðunarpunkti, svo við vitum hvert við erum að fara og hvert við viljum fara, enda er auðvelt að villast í lífinu og margar hættur að varast og blindgötur er auðvelt að rata í. Þjóð þarf líka á áttavita að halda. Kristin trú hefur verið þjóðinni slíkt leiðarljós. Það er alveg víst og annað er hrein sögufölsun.

Um daginn beið ég á rauðu ljósi í brekku. Allt í einu sé ég að bíllinn við hliðina á mér fór af stað og ég bjó mig undir að keyra áfram líka. Hins vegar varð mér litið á umferðarskilti rétt við mig og ég sá á því að bíllinn við hliðina á mér stóð kyrr. Það er ég sem rann afturábak. Ég rétt náði að bremsa áður en ég rann á bílinn fyrir aftan mig. Umferðarskiltið var mér viðmiðunarpuntur. En hvað gerist í lífi manns og þjóðar þegar viðmiðunarpunktarnir hverfa hver af öðrum? Hvernig forðumst við hætturnar þá?

Margt hefur breyst á þúsund árum og ekki allt til góðs.

Staðreyndin er sú að jafnvel sá guðsótti sem Guð leggur í hjarta okkar má sín lítils ef við viljum ekkert með hann gera, ef við leggjum ekki rækt við hann. Staðreyndin er líka sú að alltaf hefur hljómað innra með manninum, hverjum manni, rödd sem hvíslar að honum: „Þú þarft ekki á Guði að halda! Þú getur gert það sem þú vilt og þarft ekkert nema sjálfan þig!“. Þessi rödd leitar allra leiða til að sannfæra manninn um að hann þurfi ekki á Guði að halda, að hann geti verið sjálfum sér nægur. Og með vaxandi hagsæld verður þessi rödd háværari, þessi innri rödd mannsins, sem hvetur hann til að veðja á sjálfan sig í stað þess að leggja traust sitt á Guð, vera sinn eigin herra, sjálfstæður og fullvalda, maður sem getur farið með öll sín mál sjálfur.

Það er nú svo að afskaplega margt heldur fólki frá Guði, maðurinn bindur hjarta sitt við svo margt. En fyrst og fremst bindur hann það við sjálfan sig. Maðurinn heldur sífellt framhjá Guði með sjálfum sér. Við teljum okkur ekki hafa þörf fyrir Guð því við höfum það svo gott og getum orðið allt. Við teljum okkur jafnvel geta lokið upp leyndardómum lífsins í eigin valdi. Og af þeim sökum gefum við Guði lítinn gaum. Það er sorglegt enda má sjá afleiðingar þess í hverjum einasta fréttatíma og öllum dagblöðum á hverjum degi.

Þegar Guði og áhrifum hans er úthýst, þegar nærveru hans er ekki óskað og reynt er að gera hlut hans sem minnstan í samfélaginu þá gerist það að rödd Guðs hljóðnar. Ekki vegna þess að Guð hættir að tala heldur vegna þess að fólk hættir að hlusta. Þar sem rödd Guðs heyrist ekki þar heyrist ekki heldur boðskapur hans og boðorð hans hætta að næra vitund fólks, orð þess og verk. Við getum ekki ætlast þess að blóm sem hefur verið slitið upp frá rótum sínum dafni áfram og blómstri.

Líf þjóðar er líf margra einstaklinga og þegar kemur að einstaklingum þá eru við öll í sömu sporum, leitandi að því sem ljær lífi okkar tilgangi og merkingu. Og það hefur trúin gert um aldir, hinn trúarlegi arfur, sem forferður okkar og formæður hafa skilað til okkar og lagt okkur á brjóst. Við berum líka ábyrgð gagnvart þeim arfi. En við leggjum ekki rækt við hann hefðarinnar vegna heldur okkar sjálfra. Utan Guðs er tilgang og merkingu ekki að finna, aðeins tómið eitt, kalda og nakta tilviljun, heim án uppruna og merkingar. Og illa mun fara fyrir þeirri þjóð sem vefur sjálfsvitund sína saman við þá illa ígrunduðu lífsskoðun.

Fagnaðarerindið, sem trúin lýkur upp, minnir okkur á að maðurinn er ekki einn og afskiptur. Guð hefur gert sáttmála við hann, af heilum hug og af öllum mætti. Hann hefur kallað þig með nafni og hann mun ekki snúa sér frá þér. Þú þarft aðeins að biðja, leita og knýja á, og þá mun þér verða gefið og þú munt finna: Guð mun ljúka dyrum sínum upp fyrir þér.

Gleymum ekki orðum listaskáldsins góða, sem í áðurnefndu ljóði áminnir okkur svohljóðandi.

Veit þá engi að eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólk þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða;
fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna;
skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa – en þessu trúið!

Dýrð sé Guði, föður og syni og helgum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2582.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar